Heimspeki í skólastarfi

Að kenna gagnrýna og skapandi hugsun í samræðu

Besta leiðin til að þjálfa kennara í að beita heimspekilegri samræðu til að kenna gagnrýna og skapandi hugsun er að veita þeim þjálfun í slíkri samræðu og reynslu af námsefni sem nýtist til slíkrar kennslu.

Á námskeiðinu munu kennarar vinna sig í gegnum valda kafla úr námsefni eftir Matthew Lipman sem var þýtt og gefið út af Heimspekiskólanum. Einnig verður unnið með námsefni sem Námsgagnastofnun hefur gefið út fyrir lífsleikni­kennslu. Þátttakendur taka þátt í umræðum um markmið námsefnisins og kennslu þess.

Á námskeiðinu byggja kennarar upp færni í að kenna grunnskólanemendum að vinna í heimspekilegu samræðufélagi, beina þeim inn í rannsókn á heimspeki­legum spurningum og bjóða þeim upp á markvissar æfingar í gagnrýninni og skapandi hugsun. Lögð verður áhersla á að þátttakendur í námskeiðinu tileinki sér einfalda grunnaðferð (lesa-spyrja-ræða-meta) sem hægt er að beita til að skapa heimspekilega samræðu út frá ýmiss konar námsefni.

Kennararnir fá tækifæri til að æfa sig bæði sem nemendur og kennarar með því að taka þátt í fjölmörgum samræðum og stjórna að minnsta kosti einni sam­ræðu sjálfir. Eftir hverja samræðu verður tekinn tími í að gagnrýna framkvæmd samræðunnar á uppbyggilegan hátt. Ætlast verður til að kennarar endurtaki þau verkefni sem lögð eru fyrir á umræðufundum í eigin kennslu. Þátttakendum á námskeiðinu gefst kostur á eftirfylgd og ráðgjöf kennara ef þeir óska eftir þegar þeir taka aðferðina inn í kennslu hjá sér.

Hvenær:
Námskeið: laugardaginn 22. september 2012 frá 9:00 – 17:00
Umræðufundir: á miðvikudögum kl. 16:00 – 17:30 – einu sinni í mánuði allt skólaárið.
Dagsetningar: 22. sept., 26. sept., 17. okt., 14. nóv., 16. jan., 6. feb., 6. mars, 10. apríl.

Markmið námskeiðsins:
Að þátttakendur byggi upp færni í að stjórna heimspekilegri samræðu sem þjálfar gagnrýna og skapandi hugsun nemenda og lýðræðislega færni þeirra.

Tengsl við þarfir grunnskólans og aðalnámskrá grunnskóla:
Aðalnámskrá grunnskóla 2011 kveður á um að í skólum sé börnum og unglingum kennt að taka þátt í lýðræðislegum vinnubrögðum, að þeir efli sjálfs­mynd sína og félagsþroska og að þeir beiti gagnrýninni og skapandi hugsun í námi sínu. Heimspekileg samræða er kennsluaðferð sem skapar aðstæður þar sem hægt er að þjálfa nemendur markvisst í þessum námsþáttum.

Kennarar

Brynhildur Sigurðardóttir Brynhildur Sigurðardóttir

Brynhildur Sigurðardóttir er heimspekikennari og aðstoðarskólastjóri við Garðaskóla í Garðabæ. Brynhildur lauk M.Ed. gráðu frá Montclair State University 1999 og sérhæfði sig þar í heimspeki með börnum. Hún hefur kennt heimspeki sem valgrein í Garðaskóla síðan 2002 og kennt fjölda heimspekinámskeiða fyrir börn og kennara. Brynhildur hefur haft umsjón með námskeiðinu Heimspeki með börnum sem kennt er í framhaldsdeildum á Menntavísindasviði Háskóla Íslands.

Hreinn Pálsson Hreinn Pálsson

Hreinn Pálsson er prófstjóri Háskóla Íslands, stofnandi og skólastjóri Heimspekiskólans í Reykjavík. Hreinn lauk doktorsgráðu frá Michigan State University 1987, rannsókn hans ber heitið „Educational Saga: Doing Philosophy with Children in Iceland“ og gerir grein fyrir tilraun tveggja íslenskra kennara til að innleiða heimspekilegt samræðufélag í bekknum sínum. Hreinn hefur kennt fjölda kennaranámskeiða um heimspeki fyrir börn auk ýmissa heimspekinámskeiða fyrir fólk á öllum aldri.

Sjá:
http://klifid.is/index.php?option=com_zoo&task=item&item_id=113&category_id=3&Itemid=159

Framtíð lýðræðisins og lýðræði framtíðarinnar: Gagnrýnin hugsun í skólastofunni og víðar

Ráðstefnan „Kennsla gagnrýninnar hugsunar og siðfræði“ í Háskóla Íslands, 1. okt. 2011

I

Ég ætla hér að velta vöngum, í örfáum orðum, yfir nokkrum stórum hugtökum, einkanlega hinu gamalkunna hugtaki „gagnrýnin hugsun“ sem leikið hefur býsna stórt hlutverk í íslenskri heimspekisögu síðustu áratuga, og svo hug­takinu um lýðræði. Ætlunin er nánar tiltekið að spyrja spurninga um hlutverk gagnrýninnar hugsunar í þjóðfélagi sem vill kenna sig við lýðræði, en í því mun einnig felast að beita gagnrýninni hugsun á það lýðræði sem við búum við á Íslandi um þessar mundir. Þetta mun ég síðan reyna að tengja við það sem fram fer í skólastofum þessa lands, kannski þó fyrst og fremst með framhalds­skólana í huga, og þar kemur einmitt framtíðin inn í myndina, því það er eitt það merkilega við framhaldsskólana að þar fer menntun lýðræðislegra þegna fram­tíðarinnar fram.

II

Í aðalnámskrá framhaldsskóla frá 2004, sem ég geri ráð fyrir að þið þekkið mörg hver (og þá betur en ég), er talað um að hlutverk framhaldsskóla eigi meðal annars að vera að „þjálfa nemendur í öguðum og sjálfstæðum vinnu­brögðum og gagnrýninni hugsun“ (8). Einnig er þar talað um að við námslokin eigi framhaldsskólaneminn að hafa „ræktað með sér gagnrýna hugsun, dóm­greind og umburðarlyndi“ (9). Í umræðu um félagsleg vandamál á borð við einelti og ofbeldi er svo talað um að lögð skuli „áhersla á að nemendur temji sér já­kvætt viðhorf, ábyrgð, umhyggju, heilbrigt líferni, gagnrýna hugsun, sjálfs­virðingu og virðingu gagnvart öðrum“ (10). Því er svo bætt við að „[m]kilvægt [sé] að nemendur geti sett sig í spor annarra og hafi öðlast kjark til að velja og hafna.“ (10)
      Að þessu sögðu er eðlilegt að spurt sé: Hvað er þá gagnrýnin hugsun? Ég ætla mér ekki að svara þeirri spurningu hér, en bendi á skrif hinna ýmsu ís­lensku heimspekinga um efnið sem nú má finna samankomið á hinni nýju og glæsilegu vefsíðu sem tileinkuð er gagnrýninni hugsun. Látum eftirfarandi stikk­orð nægja: að hugsa gagnrýnið er að taka ekkert trúanlegt fyrr en maður hefur sjálfur lagt á það skynsamlegt mat.

III

Í aðalnámsskrá framhaldsskóla er ekki bara talað um gagnrýna hugsun, heldur líka hitt lykilhugtakið sem ég nefndi í upphafi máls: lýðræði. Í kaflanum um hlut­verk framhaldsskólans stendur að skólunum beri að „stuðla að alhliða þroska nemenda svo að þeir verði sem best búnir undir að taka virkan þátt í lýðræðis­þjóðfélagi“ (8). Og þegar vikið er að því sem nemandinn á að hafa tileinkað sér við námslokin er talað um að hann eigi að „kunn[a] skil á réttindum og skyldum einstaklings í lýðræðisþjóðfélagi“ (9). Framhaldsskólanám snýst sem sagt (meðal annars) um að rækta með sér gagnrýna hugsun og búa sig undir þátt­töku í lýðræðisþjóðfélagi. Hugum nú að því hvernig þetta tvennt gæti hangið saman.

IV

Hvað er lýðræði? Franski heimspekingurinn Claude Lefort setti einhverju sinni fram býsna kjarnyrta skilgreiningu á þessu stjórnarformi sem allir virðast vita hvað felst í en enginn virðist þó búa við í raun. „Lýðræði er stjórnarform þar sem sæti valdhafans er autt“, sagði Lefort.1 Þessu fylgir að um valdasessinn, hásætið þar sem valdhafinn trónir, stendur stöðugur styr. Lýðræði er stjórnar­form þar sem enginn veit hver hinn lögmæti valdhafi er, eða, réttara sagt – af því að valdhafinn er auðvitað þjóðin, valdið á að vera hjá fólkinu – enginn veit hver, af þeim fjölmörgu einstaklingum, flokkum og stofnunum sem keppa um valdið, endurspeglar hinn sanna vilja þjóðarinnar. Þannig hafði Ingibjörg Sólrún auðvitað að einhverju leyti rétt fyrir sér þegar hún mælti hin fleygu orð fyrir tæpum þremur árum: „Þið eruð ekki þjóðin!“ Þó að sá hópur fólks sem andspænis henni sat (eða stóð) í troðfullu Háskólabíói, eða fylgdist með herlegheitunum á sjónvarpsskjám í anddyrinu, teldi sig vera þess umkominn að krefjast tiltekinna aðgerða af henni (og væntanlega afsagnar, ég man þetta ekki svo glöggt), þá áttaði hún sig á því að þessi hópur var samt ekki nema lítill minnihluti þjóðar­innar, að vísu nokkuð hávær minnihluti, en við þessar aðstæður, eða í þessari klemmu, fann hún sem sagt til þeirrar kenndar sem eðlilegt er að stjórnmála­menn finni stundum til – að viðmælendurnir endurspegli ekki vilja meirihlutans, að þeir séu með öðrum orðum ekki þjóðin, hinir endanlegu valdhafar sem þeir sem sitja á valdastóli eiga að beygja sig undir.

V

Hvernig er því þjóðfélagi háttað þar sem sæti valdhafans er autt? Einhver þarf auðvitað að setjast í sætið, einhver þarf að stjórna – en hver? Sá frekasti, sá sterkasti, sá máttugasti, sá ríkasti? Jean-Jacques Rousseau taldi það hreina fásinnu að máttur gæti verið uppspretta réttmætra yfirráða. Í þeirri skoðun hans felst að ríki þar sem sá sterkasti fer með völdin, í krafti styrks síns, getur ekki kallast réttnefnt lýðræðisríki (eða lýðveldi, sem er hugtakið sem Rousseau hefði eflaust notað í þessu samhengi). Slíkt ríki lýtur einfaldlega harðstjórn. Hvers vegna? Vegna þess að vald sem ekki er sprottið frá þjóðinni er ekkert annað en ofbeldi sem beint er gegn þjóðinni, samanber orðið vald-beiting. Vilji valdhafinn kallast réttmætur, og ríkið réttarríki, verður sá sem fer með valdið hverju sinni að gera það í sátt við þjóðina og lúta vilja hennar í einu og öllu.

VI

En hver er þá vilji þjóðarinnar? Hvernig verður komist að því? Látum Rousseau svara fyrir það. Og þá vandast málið kannski örlítið. Stutta svarið við spurning­unni um vilja þjóðarinnar er einfaldlega svona: vilji þjóðarinnar er það sem Rousseau kallar almannaviljann. Hann er vilji samfélagsheildarinnar, sá vilji sem fer saman við almannahagsmuni (svo gripið sé til hugtaks sem til dæmis er fyrirferðarmikið í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis). Mikilvægt er að skilja að almannaviljinn er ekki það sama og það sem Rousseau nefnir „vilja allra“ – sá síðarnefndi er ekkert annað en „samanlagður vilji allra einstaklinganna“ hvers fyrir sig (II.3). Með öðrum orðum: til að fá almannaviljann fram í tilteknu máli er ekki nóg að kalla þjóðina til atkvæðagreiðslu þar sem hver greiðir síðan atkvæði með sínu nefi, svo að segja, út frá sínum eigin vilja, þröngt skilgreindum. Nei – almannaviljinn kemur því aðeins fram í atkvæðagreiðslu að hver og einn greiði atkvæði út frá almannahagsmunum, eða, eins og Rousseau orðar það, því að­eins að „enginn hugsi um sjálfan sig þegar hann kýs fyrir alla“ (95). Engu að síður er það svo, og á þessu hamrar Rousseau hvað eftir annað, að borgurunum ber að taka þessa ákvörðun einir og óstuddir, og láta engan annan segja sér fyrir verkum; borgurunum ber að „hlýða […] ekki nokkrum manni, heldur aðeins eigin vilja“ (98), eins og hann orðar það.
      Í þessu felst þá að hver og einn verður að gera það upp við sig hverjir almannahagsmunir eru í hverju tilviki. Samráð getur (að mati Rousseaus) ekki orðið til annars en skekkja þessa mynd – skipi menn sér í fylkingar öðlast hver fylking fyrir sig sérstakan vilja sem er eðli málsins samkvæmt ekki sá sami og almannaviljinn.

VII

Immanuel Kant, sem varð eins og við vitum fyrir ákaflega miklum áhrifum af hugsun Rousseaus, sagði okkur sællar minningar að „[u]pplýsing [sé] lausn mannsins úr viðjum þess ósjálfræðis sem hann á sjálfur sök á“, og að umrætt ósjálfræði sé „vanhæfni mannsins til að nota eigið rökvit án handleiðslu annarra“ (379). Ósjálfræðið er að lúta utanaðkomandi (kenni)valdi, valdi sem maður ber ekki kennsl á sem lögmætt vald, valdi sem tekur á sig mynd valdbeitingar. Og eins og Kant lætur ekki hjá líða að benda okkur á, þá er það skelfing þægilegt að vera ósjálfráða. Látum það eftir okkur að lesa nokkrar línur í viðbót úr þessum sígilda texta:

Þeir forráðamenn sem allranáðarsamlegast hafa tekið að sér yfirumsjón með stórum hluta mannkyns (þ.á m. allrar kven­þjóðarinnar) sjá til þess að skrefið til sjálfræðis er ekki eingöngu álitið erfitt, heldur líka stórhættulegt. Þeir byrja á að forheimska húsdýr sín og vaka síðan staðfastlega yfir því að þessi rólyndis­grey vogi sér ekki að stíga eitt einasta skref án göngugrindar­innar sem þau hafa verið spennt í. (379)

Eins og þessar línur bera með sér, þá er þessi kynngimagnaði texti Kants fyrst og fremst áskorun. Kant skorar lesanda sinn á hólm og manar hann til að standa á eigin fótum, henda göngugrindinni, þora að beita eigin hyggjuviti – þora að beita gagnrýninni hugsun2og gerast þannig sjálfráða. Í þessu sjálf­ræði felst augljóslega annað og meira en að „hugsa um sjálfan sig“, hverfast um eigið sjálf eins og smástirni um sólu – í því felst einnig að hugsa um aðra, og þá ekki síst að sjá til þess að valdhafarnir, „forráðamennirnir“ sem Kant hefur svo háðsleg orð um í tilvitnuninni, verði upplýstir. Í texta Kants býr lævíslegur hótunartónn í garð valdhafanna: ef valdhafinn lætur ekki upplýsast, þá sér al­menningur til þess að honum verði rutt úr vegi, upplýstur almenningur lætur ekki bjóða sér annað en upplýstan valdhafa.

VIII

En hvernig verður almenningur upplýstur? Hvernig má sjá til þess að hann verði sjálfráða og fær um að velja sér fulltrúa sem fara með valdið á réttmætan hátt? Svarið er tvíþætt: í fyrsta lagi gagnrýnin hugsun, í öðru lagi lýðræði.
      Í fyrsta lagi: það þarf að kenna fólki að vera sjálfráða, og hugsa gagnrýnið, þ.e. standa á eigin fótum sem vitsmunaverur sem er ætlað að fara, og ætla sér að fara, með hið endanlega vald í þjóðfélaginu. Og í því að standa á eigin fótum felst ekki að hugsa eingöngu um eigin hag í þröngum skilningi, heldur ávallt líka, og raunar fyrst og fremst, um almannahag. Vegna þess að farsæld ein­staklingsins stendur í órofa tengslum við farsæld heildarinnar. (Þetta hlýtur eiginlega að vera runnið upp fyrir okkur.) Þessi kennsla þarf auðvitað að fara fram vítt og breitt um samfélagið, en sér í lagi þarf að huga að henni í fram­haldsskólunum, vegna þess að í þeim býr framtíð lýðræðisins, í bókstaflegum skilningi liggur mér við að segja.
      Í öðru lagi: það þarf að sjá til þess að sjálf grunngerð samfélagsins sé sannarlega í anda lýðræðis, þannig að sjálfræðið verði annað og meira en orðin tóm. Með öðrum orðum þarf að sjá til þess að hið endanlega vald sé í reynd, og í verki, hjá þjóðinni, einstaklingunum sem eru ríkið, í öllum málum og á öllum sviðum. Við þurfum meira lýðræði, skilvirkara og fjölbreyttara lýðræði, lýðræði sem stendur undir nafni, lýðræði sem virkar, virkt lýðræði. Beint lýðræði, íbúa­lýðræði, fyrirtækjalýðræði, alþjóðalýðræði. Lýðræði á öllum sviðum: í stjórn­málum, í efnahagslífinu, á meðal fólksins. Það er lýðræði framtíðarinnar.
      Nú heyri ég efasemdamann kveða sér hljóðs og segja: þetta eru draumórar, þetta gengur aldrei, fólkið getur aldrei farið með valdið, fólki er ekki treystandi, fólk er breyskt, fólk er heimskt. Við þennan mann segi ég: þú hefur rangt fyrir þér, fólki er treystandi, fólk er fullfært um að fara með valdið ef það verður þess áskynja að því er treyst og að úrræðin sem það býr yfir eru annað og meira en orðin tóm. Fólk sem býr í samfélagi þar sem stofnanirnar og fyrirtækin lúta sannarlega lýðræðislegri stjórn gengst upp í, og gengst við, hlutverki sínu sem hinir eiginlegu valdhafar – það axlar þá ábyrgð sem það finnur að því er ætluð. Og ég segi líka: við verðum einfaldlega að trúa því að fólk geti bjargað sér sjálft – eða ætlum við kannski að ganga í lið með forráðamönnunum sem líta á fólk eins og húsdýr, og gera síðan allt til að forheimska þau, þ.e. sjá til þess að þau séu í raun eins og húsdýr? Þá kýs ég heldur að halda því fram að bjargræðis mannkyns sé hvergi annars staðar að leita en hjá fjöldanum.

Neðanmálsgreinar

1. http://www.philomag.com/article,entretien,claude-lefort-la-democratie-est-le-seul-regime-qui-assume-la-division,916.php

2. Hér má skjóta því að að hinn sígildi texti Páls Skúlasonar um gagnrýna hugsun, greinin „Er hægt að kenna gagnrýna hugsun?“, felur einmitt í sér svipaða áskorun og ritgerð Kants. Ekki verða þó færð rök fyrir því hér.

Í átt til nýrra tíma

Elsa Haraldsdóttir og Kristian Guttesen birtu í dag grein í Fréttablaðinu um nýja aðalnámskrá fyrir grunnskóla og þær breytingar sem hún mun hafa í för með sér. Í greininni fjalla Elsa og Kristian um væntingar til hlutverks siðfræðinnar innan nýrrar aðalnámskrár grunnskóla og sem hluta af almennri menntun ein­staklingsins.

Greinina má lesa á vef Vísis.is:

http://www.visir.is/i-att-til-nyrra-tima/article/2012708149965

Heimspekikennsla á Íslandi: Væntingar, vonir og veruleiki

Henry Alexander Henrysson og Elsa Haraldsdóttir birtu nýverið ritrýnda grein á Netlu – veftímariti um uppeldi og menntun. Í greininni er, eins og segir í kynningu, „leitast við að skýra stöðu heimspekikennslu og gagnrýnnar hugsun­ar í íslenska skólakerfinu. Hugmyndir Íslendinga um stöðu heimspekinnar eru ræddar með hliðsjón af könnun sem gerð var á vegum Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNESCO. Spurt er hverjar séu raunhæfar vonir og væntingar um eflingu gagnrýnnar hugsunar og heimspeki í íslenskum skólum.“

Slóðina að greininni má finna hér.

Hvenær tökum við siðfræði alvarlega?

Umræða um siðfræði hefur ekki verið greininni of hagstæð undanfarin misseri. Annars vegar hefur fréttaflutningur af sérkennilegum bréfaskiptum milli forsætis­ráðherra og forsetaembættisins um hvort embættinu beri að setja sér siðareglur fremur ruglað landsmenn í ríminu en upplýst þá um gildi og möguleika slíkra reglna. Hins vegar hefur erfið og upphrópanakennd umræða um störf siða­nefndar Háskóla Íslands í tilteknu máli gert það að verkum að traust til slíkra nefnda hefur sjaldan verið minna.
   Ég minnist þess ekki að í fyrra málinu hafi verið dregið fram hvað gæti falist í siðareglum fyrir forsetaembættið; í hugum fólks gætu þær falist hvort sem er í reglum um borðhald á Bessastöðum eða nákvæmum lista yfir leyfilega gesti á forsetaskrifstofuna. Og í seinna málinu gleymdist alveg að ræða hvernig siða­nefndir ættu að bera sig að. Í ályktun fjölda háskólakennara mátti til dæmis helst skilja að í nafni frelsis ættu siðanefndir ekkert erindi innan háskóla. Það var óvænt siðferðileg krafa.
   Þetta er einkennilegt þegar höfð er í huga umræðan um aukna áherslu á siðfræði fyrir meginstoðir íslensks samfélags sem hefur verið flaggað á undan­förnum árum. Líklega hefðu slík fréttamál átt að vera kærkomið tækifæri til þess að koma málefnalegri umræðu um siðfræði og kynningu á hlutverki hennar að í fjölmiðlum. Til dæmis hefði mátt greina frá því hvers vegna reglur og almennt siðferði ná ekki alltaf yfir sama svið og siðareglur.
   Heimspekingar hefðu getað svarað því hvers vegna siðfræði er sjálfstæð fræðigrein sem getur komist að gildum niðurstöðum sem þó þurfa ekki alltaf að falla að viðurkenndum trúarsetningum, kunnum hagfræðikenningum eða ný­legum lögfræðiálitum. Helst hefði þó mátt nota tækifærið til þess að kveða niður þá goðsögn að siðfræðilegir dómar séu hreinir smekksdómar sem byggist á einhverju sem kallað er „hreint huglægt mat“.
   Nú er kominn tími til að háskólasamfélagið taki nauðsynlega forystu þegar kemur að því að efla bæði vitund þjóðarinnar og hæfni hennar til að rökræða um þau siðferðismál sem virðast vera brýnni en oft áður. Siðferðileg álitamál eru staðreynd í öllum samfélögum. Þau koma upp á vinnustöðum, í skólum og á öllum sviðum opinbers lífs. Þau vakna einnig innan veggja heimila og þegar við erum ein með sjálfum okkur.
   Siðfræði býður ekki upp á lista af lausnum slíkra álitamála. Siðanefndir færa okkur ekki óvefengjanlegar niðurstöður. Enn síður kenna siðareglur okkur í eitt skipti fyrir öll hvað ber að varast. Hins vegar gerir þekking á frumforsendum og útlistunum siðfræðinnar, sem og leikni í beitingu þeirra, okkur kleift að standa ekki máttvana andspænis siðferðilegum spurningum.
   Það hafa reyndar ekki allir tekið undir kröfuna um að gagnrýninni hugsun og siðfræði verði gert hærra undir höfði í íslensku samfélagi á næstunni. Enn heyrast raddir sem láta eins og aukinn siðferðilegur skilningur sé einhvers konar munaður sem hægt er að snúa sér að þegar leyst hefur verið úr brýnum efnahagsmálum. En þar er hlutum snúið á haus. Vandamálin geta átt sér aðrar orsakir en efnahagslegar þótt tímabundin lausn sé þess eðlis. Enn mikilvægara er þó einmitt að hafa í huga að siðferðilegur veruleiki er jafn mikill veruleiki og hver annar. Hann hverfur ekki þegar við snúum okkur að öðrum málum. Röng og illa ígrunduð breytni skánar ekkert við að aðeins fáir gefi því gaum hvers vegna hún er óásættanleg. Réttindi svífa ekki um í lausu lofti þangað til huglægt mat einhvers dregur þau til jarðar. Og eftirsóknarverðir eiginleikar einstaklinga krefjast ekki smekks annarra til þess að færa þeim farsæld.
   Siðfræði er heillandi fag sem tengist lífi okkar og væntingum engu síður en aðrar greinar sem við teljum þó oft hafa forgang þegar við leitum svara við því hvað fór úrskeiðis og hvert skuli stefna. Líkt og hagfræðin getur útskýrt hvers vegna vasar okkar eru tómir á ákveðnum tímapunkti getur siðfræðin útskýrt eymd tilveru sem einkennist af ósamkvæmni og óheilindum.
   Á vef mennta- og menningarmálaráðuneytisins má lesa í almennum hluta aðalnámskrár grunnskóla að „siðfræði ásamt heimspeki“ verði brátt hluti af skólagöngu íslenskra barna. Það er mikið fagnaðarefni. En maður getur ekki annað en velt því fyrir sér hvort virkilega þurfi að bíða eftir þeim kynslóðum sem nú eru að vaxa úr grasi til þess að vitund um hvers siðfræði er megnug verði almenn og byggist fremur á rökum en útúrsnúningum.

Greinin birtist í Fréttablaðinu, 31. mars 2012.

Gagnrýni

      Eitt af því, sem einna tilfinnanlegastur skortur er á á Íslandi, er það sem á útlendu máli kallast »krítík«. Það kveður jafnvel svo rammt að, að við eigum einu sinni ekki neitt orð yfir hugmyndina í málinu. Að »krítísera« er eiginlega það, að láta sjer ekki nægja að skoða hlutina eins og þeir líta út á yfirborðinu, heldur leitast við að rýna í gegnum þá og gagnskoða, til þess að sjá hina innri eigin­leika þeirra, bæði kosti og lesti. Það er með öðrum orðum að kafa í djúpið og sækja bæði gullið og sorann, greina það hvort frá öðru og breiða hvorttveggja út í dagsbirtunni, svo að allir, sem hafa ekki sjálfir tíma eða tækifæri til að vera að kafa, geti sjeð, hvað er gull og hvað er sori. Þetta virðist oss að mætti kalla á íslenzku gagnrýni og gagnrýninn þann mann, sem sýnt er um að gagnrýna hlutina.
      Gagnrýnin er nauðsynleg fyrir þjóðlífið eins og saltið fyrir matinn. Vanti gagnrýnina, er hætt við, að sumt kunni að taka að rotna eða að minnsta kosti að þeim, sem eiga að súpa seyðið af gjörðum forgöngumanna þjóðfjelagsins, finnist það nokkuð dauft á bragðið, og að svo geti farið með tímanum, að þeir, sem hafa óbilaðar bragðtaugar, fái velgju, en hinir, sem líklega verða miklu fleiri, missi algerlega smekkinn, og er það ekki síður hættulegt.
      Í engum efnum finnst oss jafnmikil þörf á gagnrýninni nú sem stendur á Íslandi eins og í öllu, er lýtur að þjóðmálum og stjórnarfari. Það vantar að vísu eigi, að blöðin finni að ýmsu og lofi annað, en gagnrýni þeirra er þó vanalega ekki á marga fiska. Hún er að jafnaði nokkuð handa­hófsleg og hættir við að bera keim af annaðhvort eintómum gullhamraslætti eða illvígu hnútu­kasti, fremur en af verulegri gagnrýni. Til þessa liggja auðvitað sjerstakar ástæður. Er þar fyrst að telja þá, að þar sem blaðamennskan er mestmegnis höfð í hjáverkum, þá er ekki von að blaða­mennirnir geti lagzt mjög djúpt. Í annan stað er sjóndeildarhringur þeirra sumra hverra svo tak­markaður, að varla verður ætlazt til, að þeir geti dæmt um það, sem mikið víðsýni þarf til að gagn­rýna, enda hættir þeim opt við að einblína fremur á ávextina, en að skoða orsaka­sambandið og grafa fyrir ræturnar.
      Þá er og nærsýni sú, sem stafar af dvergvexti þjóðfjelagsins; því þar sem þjóðfjelagið er svo smávaxið, að hver þekkir annan, þar er jafnan hætt við, að það ráði miklu í dómum um einstaka menn og framkomu þeirra, hvort menn bera til þeirra hlýjan hug eða hafa ýmugust á þeim. Að lokum má telja ein­strengingslega og misskilda þjóðernistilfinningu, sem hjá sumum mönnum er farin að fá á sig hinn megnasta kínverskublæ, er í ýmsum málum dregur glýju eða jafnvel ský á augu manna, svo þeir verða stundum hálfblindir, og eru svo að streitast við að hlaða gorgeirsmúr kringum landið, til þess að varna öllum út­lendum áhrifum, en »bara ef lúsin íslenzk er, er þeim bitið sómi«. Þetta öfugstreymi í þjóðernistilfinningunni er hinn mesti þröskuldur í vegi fyrir sannri gagnrýni, því ekkert er eins hættulegt fyrir hana og það, ef tilfinningin ber skyn­semina ofurliði.
      En blaðamennirnir íslenzku eiga líka við ramman reip að draga, þegar þeir eru að gagnrýna gjörðir embættismannanna eða annara forkólfa þjóðfjelagsins. Þó maður skyldi halda, að einmitt þeir menn, er hafa það hlutverk með hönd­um, að beitast fyrir í alþjóðarmálum, hefðu töluvert rýmri sjóndeildarhring en flestir aðrir, sýnir þó reynslan, að flestir þeirra eru svo herfilega nærsýnir, að þeir stökkva upp á nef sjer og skoða það sem persónulega móðgun við sig, ef eitthvað er fundið að gjörðum þeirra í opinberum málum. Það er sama hvort það er amtmaður, sýslumaður, bæjar­fógeti eða alþingisforseti, allir rjúka þeir undir eins í málaferli, ef eitthvað er fundið að framkomu þeirra í opinberum málum, og reyna þannig að bæla niður alla verulega gagnrýni. Þeim virðist ekki vera það ljóst, að þeir menn, sem hafa opinber störf á hendi, eru skyldir að þola gagn­rýni. Þeir munu nú segja sem svo, að þá verði líka gagnrýnin að vera sanngjörn og benda jafnt á gott sem illt. Það er nú að vísu rjett; en þó ber þess að geta, að það er ofboð eðlilegt, að blöðin einkum bendi á það, sem þeim þykir ábóta­vant, en láti hitt fremur liggja í þagnargildi. Það er miklu minni þörf á, að geta um það, sem er eins og allir vildu helzt kjósa, heldur en hitt, sem aflaga fer, nema hið góða sje svo framúrskarandi, að það geti orðið öðrum til eptirdæmis, og þá mun það sjaldan látið liggja í láginni. Það fer líkt með þetta eins og veðrið í kunningjabrjefunum. Sje alls ekkert minnzt á það í brjefunum, þá er óhætt að treysta því, að það hafi verið allgott, því það er æfinlega tekið fram, ef það hefur verið illt, og eins ef það hefur verið framúrskarandi gott.
      Það er nú að vísu víðar pottur brotinn í þessum efnum. Það ber víðar við en á íslandi, að forkólfar þjóðfjelagsins leitist við að þagga niður gagnrýnisraddir blaðanna með málaferlum, þó meira kveði að því þar en annars staðar. En sá er munurinn, að blöð annara landa hafa vanalega svo mikið bolmagn, að það gerir þeim ekkert til, þó þau sjeu dæmd í töluverðar sektir, og láta því hvorki þær nje fangelsisvist aptra sjer frá, að beita gagnrýni sinni, þegar þeim fmnst þörf á henni fyrir þjóðfjelagið. Því auðvitað getur gagnrýnin verið rjett og nauðsynleg, þó einhver lagagrein, sem teygja má sem hrátt skinn, heimili hana ekki að öllu leyti.
      Á Íslandi er aptur efnahagur blaðanna — af þvi þau eru svo mörg og svo smá — svo bág­borinn, að þau þola ekki nein áföll, og því síður mega þau við því, að ritstjórarnir hætti sjer svo langt fyrir sannfæring sína, að þeir verði dæmdir í fangelsisvist. Þá væri blaðið líklega úr sögunni í sama vetfangi. Af­leiðingin af þessu verður hugleysi og ósjálfstæði, því »fátæklingurinn, sem jafnan er upp á aðra kominn, getur aldrei orðið fullkomlega sjálfstæður nje frjáls« (Eimr. I, n). Og svo kemur vaninn í tilbót, svo að menn jafnvel leiða hjá sjer, að finna að því, sem þó ekki gæti bakað þeim neina lagalega ábyrgð, og öll veruleg gagnrýni fer út um þúfur.
Og hver er svo afleiðingin af þessari vöntun á fullkominni gagnrýni? Hún er sú, að siðferðislegt þrek, sjálfstæði, drengskapur, orðheldni, óhlutdrægni og aðrir andlegir mannkostir fara óðum þverrandi hjá þjóðinni. Þetta er harður dómur, en því miður er hann sannur, þótt grátlegt sje til þess að vita. Það kveður jafnvel svo rammt að þessu, að þetta er farið að koma ótvíræðlega í ljós á sjálfu alþingi Íslendinga, hjá hinum útvöldu fulltrúum þjóðarinnar. Allir vita, hversu nauð­synlegt það er álitið fyrir þá, sem um eitthvað hafa sótt til þingsins, að vera sjálfir viðstaddir á áheyrandapöllunum, til þess að »horfa atkvæði út úr þing­mönnum«.
      Þó að nokkuð mikið kunni nú að vera gert úr því, þá er þó hitt eigi að síður víst, að þetta álit hefur við töluverð rök að styðjast. Það er sannreynt, að marga þingmenn brestur kjark til að greiða atkvæði á móti þeim mönnum, sem sjálfir eru við staddir, þótt þeir annars mundu hafa gert það. Þetta hefur meðal annars leitt til þess, að sumir menn, sem eitthvað þykjast eiga undir sjer, eru farnir að leggja í vana sinn að sitja í Rvík allan þingtímann, þó þeir hafi þar ekkert annað að gera en að reyna að hafa áhrif á þingmenn og embættismenn. Og áhrifin af veru þeirra hafa stundum komið svo berlega í ljós, að það er til stórkostlegrar minnkunar fyrir þingið og þjóðhöfðingja vora. Þá eru atkvæðasvikin ekki góður vottur. Eins og menn vita, verða menn á öllum þingum, til þess að þingstörfin geti farið í nokkru lagi, opt að vera búnir að koma sjer saman um það, áður en á þingfund er gengið, hvernig menn ætli sjer að snúast við því og því máli.
      Þetta gera menn líka á alþingi, en þar hefur það á seinni árum sýnt sig, að menn fyrirverða sig ekki fyrir að svíkjast um að greiða atkvæði eins og þeir hafa lofað fyrirfram, — ekki einungis frá einum degi til annars, heldur jafnvel frá einni klukkustund til annarar. Mest kveður að þessu við allar kosningar, einkum í hinar þýðingarmestu nefndir þingsins t. d. í fjárlaganefnd. Þessi alda er jafnvel farin að rísa svo hátt, að sumir þeirra, er skipa hin efstu virðingarsæti þingsins, hafa ekki gætt betur sóma síns en svo, að gera sig seka í þessari óhæfu. Og í einu máli kom það fyrir á síðasta þingi, að rúmur þriðjungur deildarmanna í neðri deild (7 þingmenn) svikust um að greiða atkvæði, eins og þeir höfðu lofað fyrirfram. En þá átti líka einstakur maður í hlut, sem í það sinn sat á áheyrandapalli, þótt hann aldrei hefði sjezt þar allan þingtímann áður, nema þegar merafrumvarpið var á ferðinni, enda gekk og meðferð þess honum að óskum. Sá skortur á siðferðislegu þreki, sú ósjálfstæði og sá ódrengskapur, sem lýsir sjer í slíkri meðferð á löggjafarmálum þjóðarinnar, er harla athuga­verður, enda hefur merkur maður sagt oss, að einmitt fyrir þær sakir hafi einn hinn mesti hæfileikamaður landsins hrökklazt út úr þinginu (ɔ: neitað að taka endurkosning), af því hann gat ekki átt í því, að eiga að búa við sífeld svik.
      »Samvizkulaus þingmaður er óttalegt orð«, sagði síra Einar Jónsson í þingsetningarræðu sinni 1895, og þá setningu munu allir þingmenn fúsir til að undirskrifa. En þær systurnar Theóría og Praxis eiga nú ekki ætíð samleið í heiminum. Þær fara stundum sín í hvora áttina. Að lofa að greiða atkvæði sitt svo og svo í jafnþýðingarmiklum málum og þeim, sem eru til meðferðar á alþingi, og svíkjast svo um það rjett á eptir verðum vjer einmitt að kalla samvizkuleysi, og þyki mönnum slíkt fjarri sönnu, þá bendir það óneitanlega á, að tilfinningin fyrir því, sem almennt er kallað samvizkusemi, sje sannarlega farin að verða eitthvað geggjuð hjá þjóðinni. Og merkilegt er það, að ekkert af blöðunum minnist á slíkt sem þetta, og vitum vjer þó fyrir víst, að þeim er það fullkunnugt, að minnsta kosti sumum hverjum.
      Viðlíka skortur á sjálfstæði, einurð og drengskap kemur og eigi allsjaldan fram við umræðurnar á alþingi. Það vantar ekki að menn sjeu nógu frakkir í því, að dangla á stjórninni, og ausi á hana hrakyrðum, bæði fyrir það, sem henni er að kenna og ekki að kenna — af því stjórnin er nógu langt í burtu og aldrei heyrir, hvað menn segja. En eigi landshöfðingi eða aðrir nærstaddir embættis­menn í hlut, þá vill nú stundum koma annað hljóð í strokkinn. Þá leggja menn optast niður rófuna og verða annaðhvort klumsa eða gera sjer tæpitungu og fara í kringum efnið eins og köttur í kringum heitt soð. Maður getur nú skilið í þessu um embættismennina, en erfiðara er að skilja, hvað bændum gengur til. Og þó er það sannast að segja, að einmitt hjá sumum þeirra kveður hvað mest að þessum heigulskap og einurðarleysi.
      Þó oss væri skapi næst, að minnast á margt fleira athugavert í fari bæði þingmanna og embættismanna — og nóg sje til —, þá ætlum vjer þó að láta hjer staðar numið að sinni, enda stendur það ekki oss næst að gagnrýna al­þingi opinberlega. Vjer höfum aðeins viljað benda á, að þörf væri á að gera það, því ef hættuleg átumein fá að grafa um sig óátalin hjá beztu mönnum þjóðarinnar — og menn verða að ætla, að ekki sje valið af verri endanum, þegar verið er að kjósa sjer löggjafa —, þá er öllu þjóðfjelaginu stofnað í voða. Ef svo fer um hið græna trjeð, hvernig mun þá fara um hinn feyskna stofn.

V.G.            

Greinin birtist upprunalega í Eimreiðinni 2. árg. 3. tbl. (01.09.1896)      

Siðfræði og gagnrýnin hugsun

Laugardagur 10. mars kl. 13-16.30
Stofa 220 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands

Rannsóknastofa um háskóla, Heimspekistofnun og Siðfræðistofnun hafa í tæpt ár staðið saman að rannsókna- og námsþróunarverkefni um að efla kennslu í gagnrýninni hugsun og siðfræði í skólum. Verkefnið hefur meðal annars haldið málþing, komið á fót vefsíðu og veitt ráðgjöf og forystu við ritun kafla um sam­félagsgreinar í nýrri Aðalnámskrá fyrir grunnskóla. Í þessari málstofu sem skipulögð er í anda verkefnisins ræða sex heimspekingar tengsl siðfræði og gagnrýninnar hugsunar frá margvíslegum sjónarhornum til þess að skýra og greina hvort markmið gagnrýninnar hugsunar sé í senn menntunarlegt, þekkingarfræðilegt og siðfræðilegt markmið. Einnig verður leitast við draga fram mismunandi sjónarhorn á gagnrýna hugsun með það fyrir augum að draga fram raunverulegt hlutverk stofnana, fjölmiðla og menntakerfis þegar kemur að þeim gildum sem mestu skipta fyrir einstaklinga, samfélag og umhverfi.

Fyrirlesarar:

  • Henry Alexander Henrysson, verkefnisstjóri hjá Heimspekistofnun: Hvað felst í því að vera maður? Tilraun um húmanísk fög
  • Páll Skúlason, prófessor í heimspeki: Hverjar eru siðferðilegar forsendur háskóla?
  • Björn Þorsteinsson, nýdoktor við Heimspekistofnun: Andi neikvæðn­innar. Gagnrýnin hugsun í ljósi heimspeki Hegels
  • Eyja Margrét Brynjarsdóttir, nýdoktor við Heimspekistofnun
    Að gagnrýna gagnrýna hugsun
  • Róbert H. Haraldsson, prófessor í heimspeki: Gagnrýnin hugsun og fjöl­miðlar
  • Salvör Nordal, forstöðumaður Siðfræðistofnunar: Sérfræðingar og gagn­rýnin umræða

Málstofustjóri: Jón Ásgeir Kalmansson, doktorsnemi í heimspeki

Útdrættir:

Henry Alexander Henrysson, verkefnisstjóri hjá Heimspekistofnun HÍ
Hvað felst í því að vera maður? Tilraun um húmanísk fög

Fyrir nokkrum misserum síðan rataði umræða inn á síður dagblaða um stöðu hugvísinda og hlutverk gagnrýninnar hugsunar í mismunandi fræðigreinum há­skóla. Menntamálaráðherra hafði tengt þessa gerð hugsunar við heimspeki, listir og „húmanísk“ fög og hópur fræðimanna í raungreinum svarað og minnt á mikilvægi „rökhugsunar raunvísinda“ þegar kemur að því að mynda sér sjálf­stæða og gagnrýna afstöðu. Í erindinu verður gerð tilraun til þess að skýra stöðu gagnrýninnar hugsunar innan hugvísinda. Einnig verður leitast við að draga fram nokkur atriði varðandi tengsl gagnrýninnar hugsunar og siðfræði með það fyrir augum að varpa ljósi á eðli þessara greina. Markmiðið er að svara því hvers konar skilningur sé nauðsynlegur til þess að svara spurningum um hvað felst í því að vera maður.

Páll Skúlason, prófessor í heimspeki
Hverjar eru siðferðilegar forsendur háskóla?

Í erindinu verða skýrð samfélagsleg hlutverk háskóla og fjallað um frumreglur þeirra frá miðöldum til nútíma í ljósi Magna Charta yfirlýsingu evrópskra háskóla árið 1988 í Bologna.

Björn Þorsteinsson, nýdoktor við Heimspekistofnun
Andi neikvæðninnar. Gagnrýnin hugsun í ljósi heimspeki Hegels

Ótvírætt má skilja heimspeki Hegels sem tilraun til að kerfisbinda bókstaflega allt í veruleikanum. Einn þátturinn í kerfinu er engu að síður þess eðlis að hann sættir sig aldrei við það sem við blasir eða hið viðtekna. Þannig er kerfið í senn komið til sögunnar og enn í vændum. Í erindinu verður tekist á við þá þversögn sem í þessu býr og dregnar hliðstæður við þá þrotlausu leit að haldbetri skoðunum og sannindum sem íslenskir heimspekingar hafa kennt við gagnrýna hugsun.

Eyja Margrét Brynjarsdóttir, nýdoktor við Heimspekistofnun
Að gagnrýna gagnrýna hugsun

Á undanförnum árum hefur gjarnan verið talað um mikilvægi þess að sem flestir leggi stund á gagnrýna hugsun og ekki síður að gagnrýnin hugsun sé kennd á hinum ýmsu stigum skólakerfisins. En liggur þá fyrir hvað það er sem er átt við með gagnrýnni hugsun? Snýst færni í gagnrýninni hugsun bara um að kunna grundvallaratriði í rökfræði og þekkja helstu rökvillurnar? Er hægt að nota eitthvað sem kallað er gagnrýnin hugsun til að þagga niður sjónarmið sem fela í sér mikilvæga gagnrýni, og ef svo er, getur það réttilega kallast gagnrýnin hugsun? Eru einhverjir þjóðfélagshópar sem upplifa útilokun frá gagnrýnni hugsun? Leitað verður svara við þessum spurningum og öðrum svipuðum í þessu erindi.

Róbert H. Haraldsson, prófessor í heimspeki
Gagnrýnin hugsun og fjölmiðlar

Í fyrirlestrinum verður sett fram tilgáta um hvers konar fréttamennska sé varasömust í ljósi viðmiða um gagnrýna hugsun. Tilgátan verður síðan prófuð með greiningu á fjölda nýlegra dæma úr íslenskum fjölmiðlum. Þessi dæmi, sem flest eru frá árunum 2012 og 2011, vekja óþægilegan grun um að gagn­rýnin á íslenska fjölmiðla í Rannsóknarskýrslu Alþingis (8. bindi) eigi enn við rök að styðjast.

Salvör Nordal, forstöðumaður Siðfræðistofnunar
Sérfræðingar og gagnrýnin umræða

lestrinum mun ég velta fyrir mér hlutverki sérfræðinga og fagþekkingar fyrir gagnrýna þjóðfélagsumræðu. Dæmi verða einkum tekin úr skýrslu rannsóknar­nefndar Alþingis.

Sjá nánar:
http://www.hugvis.hi.is/si%C3%B0fr%C3%A6%C3%B0i_og_gagnr%C3%BDnin_hugsun

Heimspekileg samræða í leik- og grunnskólum Garðabæjar

Heimspeki í leik- og grunnskólum: Fyrstu skrefin

Námskeið á vegum þróunarverkefnis um heimspekikennslu í
Garðabæ

Þróunarhópur um heimspekilega samræðu í Garðabæ og heldur námskeið í Garðaskóla 9.-10. mars. Þar mun sænski heimspekikennarinn Liza Haglund fjalla um hlutverk heimspeki í leik- og grunnskólum og unnin verða verkefni sem henta í kennslu barna og unglinga.

Liza Haglund kennir við Södertörns Högskola í Stokkhólmi og hefur víðtæka reynslu í heimspekikennslu með börnum, unglingum og kennurum. Hún undir­býr nú stofnun skóla í Stokkhólmi þar sem heimspekileg samræða verður í lykilhlutverki í öllu starfi, sjá nánar á www.filosofiska.nu.

Námskeiðið í Garðaskóla hefst á fyrirlestri um heimspeki í skólastarfi og er hann öllum opinn. Á dagskránni er síðan verkefnavinna og samræður þátttak­enda og verður sérstök áhersla lögð á vinnubrögð sem henta vel í kennslu yngri barna.

Tveir leikskólakennarar, Guðbjörg Guðjónsdóttir og Helga María Þórarinsdóttir munu segja frá reynslu sinni af heimspekikennslu í leikskólum. Einnig munu grunnskólakennarar í Garðabæ segja frá reynslu sinni af því að innleiða heim­spekilega samræðu í kennsluna hjá sér.

Tími: Föstudagur 9. mars kl. 1 3-17 og laugardagur 1 0. mars kl. 9-16

Staður: Garðaskóli, Garðabæ

Þátttakendur: Allir sem eru áhugasamir um heimspekikennslu í leik- og grunnskólum eru velkomnir

Skráning: Tekið er á móti skráningum á netfangið: brynhildur@gardaskoli.is.
Skráningargjald er 2000 krónur. Sjá einnig á http://www.klifid.is/index.php?
option=com_zoo&task=item&item_id=98&Itemid=89
.
Leik- og grunnskólakennarar í Garðabæ og félagar í félagi heimspekikennara greiða ekki námskeiðsgjald.

Samstarfsaðilar: Félag heimspekikennara, Sprotasjóður Mennta- og menningar­málaráðuneytis

Tími: föstudagur 9. mars kl. 13-17, laugardagur 10. mars kl. 9-16

Undirbúningsnefnd: Brynhildur Sigurðardóttir, Ingimar Waage, Jóhanna Guðrún Ólafsdóttir og Jóhanna Kristín Guðmundsdóttir

Gestakennari: Liza Haglund, Södertörn Högskola, Stokkhólmi

Dagskrá

Föstudagur 9. mars:

13.00 Gestir á fyrirlestri og námskeiði boðnir velkomnir

13.15 Liza Haglund – opnunarfyrirlestur: Children’s rights to think together – philosophy for children in multiple dimension of education

14.00 Umræður um fyrirlestur Lizu Haglund

14.30 Kaffihlé

15.00 Námskeið Lizu Haglund hefst í stofu 301: The very start- An inquiry that anyone can do

17.00 Samantekt í lok dagsins

Laugardagur 10. mars:

9.00 Námskeið Lizu Haglund heldur áfram: Beyond anecdotes -What to do in order to deepen the discussions

10.30 Kaffihlé

11.00 Málstofa um heimspeki í leik- og grunnskólum (öllum opin):
Liza Haglund
Helga María Þórarinsdóttir (leikskólakennari á Akureyri)
Guðbjörg Guðjónsdóttir (leikskólakennari í Garðabæ og fyrrum leikskólastjóri í Foldaborg)
Kristjana Fjóla Sigursteinsdóttir grunnskólakennari í Garðabæ

12.00 Matarhlé

12.30 Samræða um kynningar Lizu, Helgu Maríu, Guðbjargar og Kristjönu Fjólu

13.30 Námskeið Lizu Haglund heldur áfram: The meaning of meaning- practical work on ambiguous and vague concepts

14.30 Kaffihlé

14.45 Námskeið Lizu Haglund heldur áfram: Inquiry into practicalities – what are our hinders?

16.00 Námskeiðslok

Heimspekileg samræða á öllum skólastigum

Opinn fyrirlestur

Liza Haglund kennari við Södertörns Högskola í Stokkhólmi heldur fyrirlesturinn „Réttur barna og unglinga til að hugsa saman – heimspekileg samræða á öllum sviðum menntunar“ föstudaginn 9. mars kl.13.00. Það er þróunarhópur um heimspekilega samræðu í leik- og grunnskólum Garðabæjar sem stendur fyrir fyrirlestrinum. Hópurinn er styrktur af Sprotasjóði Mennta- og menningarmála­ráðuneytisins og Félagi heimspekikennara.

Liza Haglund hefur víðtæka reynslu í heimspekikennslu með börnum, ungling­um og kennurum. Hún undirbýr nú stofnun skóla í Stokkhólmi þar sem heim­spekileg samræða verður í lykilhlutverki í öllu starfi, sjá nánar á www.filosof­iska.nu. Í kjölfar opna fyrirlestursins mun Liza kenna námskeið sem 30 kennarar í leik-, grunn- og framhaldsskólum taka þátt í helgina 9.-10. mars. Á námskeiðinu fá kennarar þjálfun í heimspekilegri samræðu sem er kennslu­aðferð sem svarar kalli nýrrar menntastefnu í lýðræðislegum vinnubrögðum, læsi í víðum skilningi, sjálfbærni, jafnrétti og sköpun. Heimspekilega samræðu má flétta inn í kennslu allra námsgreina til að dýpka og aga umræðu og hugsun nemenda um þau viðfangsefni sem þeir fást við í skólanum.

Fyrirlesturinn er öllum opinn og fer fram á ensku. Fyrirlestur og umræður í kjölfar hans fara fram í stofu 301 í Garðaskóla Garðabæ kl. 13.00-14.30.

Útdráttur úr fyrirlestri Lizu Haglund:

Eitt af markmiðum heimspekikennslu fyrir börn og unglinga er að efla gagnrýna og skapandi hugsun. Markmiðið byggir á þeirri forsendu að iðkun heim­spekinnar þjálfi hugsunina og læsi í víðum skilningi. Að mati Matthew Lipman frumkvöðuls í heimspeki með börnum er það markmið heimspekinnar að gera reynsluna af skólastarfinu öllu merkingarbærara en ella. Skólinn á að vera merkingarbær en honum hefur ekki tekist það.

Nemendur geta íhugað heimspekilega fjölmarga þætti innan þeirra námsgreina sem þeir stunda í skólum. Í sögukennslu geta nemendur t.d. rökrætt að hvaða marki söguleg greining geti verið hlutlæg. Svipaðra spurninga má spyrja í félags- og náttúruvísindum, t.d. spurninga um að hvaða marki vísindin séu góð fyrir okkur. Heimspeki með börnum og unglingum er þar að auki nýtt sem tæki til að byggja upp skilning og merkingarbæra reynslu nemenda. Ástundun heim­spekilegrar samræðu skapar reynslu þar sem nemandinn skilur sjálfan sig betur og stöðu sína í samfélaginu og þar með hefur heimspekikennsla siðferði­legt hlutverk.

Í fyrirlestrinum verður vísað í dæmi úr rannsóknum á hugtakaþróun og úr nýlegu þróunarverkefni í siðferðismenntun (values education) til að leggja upp umræðu um hvernig ástundun heimspekinnar getur átt sér stað á öllum sviðum menntunar.