Uppgötvun Ara

FIMMTI KAFLI

      „Fullorðnir!“ hraut út úr Kalla Magg þegar húsvörðurinn rak hann og Maríu tvíburasystur hans burt úr brunaslöngunni.
      María tók þessu með jafnaðargeði eins og hennar var von og vísa. „Þetta er nú vinnan hans,“ sagði hún. „Í vinnunni verður að gera og segja hluti sem menn meina ekki, alveig eins og í leiksýningum þar sem leikarar verða að segja margt sem þeir ekki meina.“
      Kalli steinþagði. Systir hans var alltaf að útskýra eitt og annað fyrir honum. Venjulega var hann henni ósammála en sjaldnast vissi hann hvers vegna.
      Nú slóst Ari í hópinn. Hann var með bland í poka. Hann bauð Kalla og eftir svolitla umhugsun bauð hann Maríu líka. Þau þögðu á meðan þau borðuðu.
      Kalli tók aftur til máls: „Þessir sögutímar eru bara fyrir algjöra páfagauka! Ég drepst úr leiðindum í þeim!“
      Ari var ekki í skapi til að rífast. „Sumir tímarnir eru skemmtilegir en aðrir eru það ekki,“ svaraði hann.
      Allt í einu sá hann Geira fyrir sér skrifa á töfluna:

  Sumar kennslustundir eru skemmtilegar.
  Sumar kennslustundir eru ekki skemmtilegar.

      En hann leyfði Kalla að tala út. „Það er ekki einn einasti tími sem er almennilegur,“ sagði hann. „Þeir eru allir hrútleiðinlegir.“
      „Kalli,“ sagði María með umvöndunartón, „þótt þér finnist sumir tímarnir leiðinlegir merkir það ekki að þeir séu allir leiðinlegir.“
      „Það merkir það ekki,“ svaraði Kalli. „Þeir bara eru það.“
      En María hélt áfram eins og hún hefði ekki heyrt í honum. „Nú,“ sagði hún, „ef sumir tímar eru óskemmtilegir, þá hljóta einhverjir aðrir tíma að vera skemmtilegir.“
      Ari horfði vantrúaður á hana. Á endanum sagði hann: „Ha?“
      „Ég sagði,“ byrjaði María og endurtók síðan allt saman. „Og þetta er ekki bull,“ bætti hún við. „Þið getið fundið þetta út sjálfir!“
      Kalli lagði bók á jörðina og æfði sig í að standa á haus ofan á henni.
      „Nei, María, þetta gengur ekki upp,“ mótmælti Ari. „Sjáðu,“ sagði hann og tók fram pokann sem enn var næstum fullur. „Segjum að þú vissir ekki hvers lags sælgæti væri í pokanum. Svo sérðu mig ná í þrjú stykki og þau eru öll brún. Gætirðu þá sagt að það væru önnur stykki í pokanum sem væru örugglega ekki brún?“
      „Áttu við hvort ég geti vitað hvernig hin eru á litinn án þess að sjá þau? Nei, það get ég víst ekki.“
      „Einmitt!“ samþykkti Ari. „Ef þú veist bara að sum stykkin í pokanum eru brún, þá geturðu ekki vitað fyrir víst hvernig öll þeirra eru á litinn. Og það er alveg pottþétt, að þú getur ekki fullyrt að vegna þess að sum þeirra eru brún, þá hljóti önnur að vera öðruvísi á litinn. Það væri fljótfærnisleg ályktun ef þú gerðir það.“
      María sagðist ekki botna neitt í hvað Ari væri að tala um. Í því bili var Kalli kominn aftur á fæturna.
      „Ef nokkrir Marsbúar lentu á skólalóðinni og við myndum sjá að þeir væru allir mjög hávaxnir, hvað myndi það segja okkur um aðra Marsbúa?“ spurði Kalli.
      „Ekki að þeir væru hávaxnir,“ sagði Ari, „eða að þeir væru það ekki. Það væri ekki hægt að fullyrða neitt um það.“
      María sýndist hugsi. „Fólk er of fljótt að fella dóma. Ef það kynnist einum Grænlendingi, einum Asíubúa, einum negra eða einum Grímseyingi þá gerir það ráð fyrir að hann sé dæmigerður fyrir allan hópinn. Hvílíkir fordómar!“
      „Einmitt!“ samþykkti Ari. „Sumir stunda ekki aðrar íþróttir en að fella sleggjudóma.“
      Kalli var enn með hugann við upphaf samræðnanna: „Mér finnst enn að sögutímarnir séu ömurlegir. Reyndar eru allir tímarnir í þessum skóla ferlegir. Þetta er ferlegur skóli.“
      „Veistu um betri?“ spurði Ari.
      „Nei,“ svaraði Kalli. „Líklega eru þeir ekki til. Ég þekki krakka í mörgum skólum, líka í einkaskólum og eftir því sem þau segja þá eru skólarnir alls staðar ferlegir.“
      „Hvað gerir þá svo slæma?“ vildi Ari fá að vita.
      „Fullorðna fólkið,“ var snaggaralegt svar Kalla. „Það stjórnar skólanum eftir eigin geðþótta. Svo lengi sem þú gerir það sem þér er sagt, þá er allt í lagi. En ef þú gerir það ekki, þá ertu búinn að vera.“
      María og Ari voru ekki alveg sátt við það sem Kalli sagði. María sat kyrr en Ari gekk fram og aftur. Loks tók hann upp stein og kastaði honum í áttina að ljósastaur en hitti ekki.
      „Kalli,“ sagði María í hálfum hljóðum, „þeir reyna aðeins að gera það sem okkur er fyrir bestu.“
      „Jahá,“ sagði Kalli, „og þú mátt vera viss um að það er sama hvað þeir gera, þeir segja að það sé okkur fyrir bestu.“
      „En einhverjir verða að stjórna skólanum og þeir verða að vera fullorðnir vegna þess að þeir vita meira en við. Það er sama sagan með aðra hluti. Þú myndir ekki vilja fljúga með flugvél ef flugmaðurinn væri smákrakki, er það? Og þú myndir ekki vilja fara á sjúkrahús og láta smákrakka skera úr þér botn­langann og hjúkra þér, er það? Hvað annað er hægt en láta fullorðna stjórna skólunum. Þeir einir geta farið rétt að því.“ María greip andann á lofti. Fyrir hana var þetta heljarinnar ræða.
      Það var eins og Kalli færi í fýlu. „Það var ekki mín hugmynd að krakkar ættu að stjórna skólaum – þú áttir hana. Auðvitað – ég veit það ekki – ef þau gerðu það, þá yrði ástandið ekkert verra en það er núna.“
      Ari hristi höfuðið. „Þetta er ekki spurning um hvort fullorðnir eða krakkar eigi að stjórna skólum. Það er sko alls ekki spurningin. Aðalspurningin er hvort skólum skuli stjórnað af fólki sem veit hvað það er að gera, eða af fólki sem veit ekki hvað það er að gera.“
      „Hvað meinarðu með ‘veit hvað það er að gera’?“ spurði María.
      Ari yppti öxlum. „Að skilja, býst ég við. Hverjir svo sem stjórna skólum ættu til dæmis að skilja krakka. Ég held að Kalli hafi á réttu að standa. Oft gera þeir það ekki. En það mikilvægasta sem þeir þurfa að skilja er hvers vegna við erum yfirleitt í skóla.“
      „Við erum í skóla til að læra,“ svaraði María.
      „Er það?“ spurði Ari. „Hvað er okkur ætlað að læra?“
      „Svör, geri ég ráð fyrir.“ María velti fyrir sér hvað Ari væri að fara. Síðan hélt hún sig hafa skilið það. „Nei, nei, ég tek þetta aftur. Okkur er ætlað að leysa vandamál.“
      Kalli leit á Maríu, síðan á Ara og svo aftur á Maríu. Loks sagði hann íhugandi: „Ættum við að læra að leysa vandamál eða ættum við að læra að spyrja spurninga?“
      Ari þóttist vita svarið. „Við ættum að læra að hugsa,“ sagði hann.
      „Við lærum að hugsa,“ svaraði Kalli, „en við lærum aldrei að hugsa sjálfstætt. Þessir kennarar vilja ekki viðurkenna það en ég á sjálfur minn eigin hug. Þeir eru alltaf að reyna að troða einhverju skrani í hausinn á mér en hann er enginn sorphaugur. Þetta gerir mig vitlausan.“
      „Jæja, en í hvers konar skóla langar þig að ganga?“ spurði Ari.
      Kalli horfði lengi á nokkrar dúfur á vellinum áður en hann svaraði: „Hvers konar skóla vil ég ganga í? Það skal ég segja þér. Maður þyrfti ekki að fara í tíma nema mann langaði til. Þeir þyrftu því að vera reglulega skemmtilegir til að mann langaði að mæta. Þeir ættu að vera eins og á sumum söfnum, í hvert sinn sem maður vildi vita meira um eitthvað þá ýtti maður bara á takka og þá færi kvikmynd eða kennsluvél í gang. Og náttúrufræðin yrði kennd eins og í vísindaskáldsögum…“
      „Gallinn við það sem þú ert að segja,“ greip Ari fram í, „er að margt af því sem okkur er kennt í skólum er ekki hægt að gera skemmtilegt.“
      „Víst er það hægt,“ svaraði Kalli. „Taktu bara eftir hvað er gert skemmtilegt með auglýsingum í sjónvarpinu. Auglýsingarnar eru stórkostlegar þótt bara sé verið að auglýsa ómerkilega sápuhlunk!“
      Ari glotti. „En það er nú allt saman tómt fals, Kalli, og þú veist það.“
      „Auðvitað, það er rétt,“ viðurkenndi Kalli. „En auglýsendur taka eitthvað fyrir sem er einskis virði og magna það upp í skrautsýningu en hér í skólanum taka þeir fyrir námsgreinar eins og sögu, sem eru raunar mjög skemmtilegar og kenna okkur þannig að þær virðast hundleiðinlegar og heimskulegar.“
      Ari hristi höfuðið. Allt og sumt sem hann gat sagt var: „Ég veit ekki, Kalli. Ég bara veit ekki hvað segja skal.“
      „Ekki ég heldur,“ tók María undir, „en ég verð að fara heim. Það er að verða kalt hérna úti.“

*            *            *

      Á hinum enda leikvallarins var fótboltaleikur í gangi. Strákarnir fóru hvor í sitt liðið. Brátt var leikurinn búinn og tími kominn til að fara heim. En Ari og Kalli slóruðu lengur, lágu í grasinu, átu hundasúrur, og störðu til himins. Himinninn var heiður og blár fyrir utan stórt ský sem þokaðist áfram fyrir ofan þá.
      „Ari, þarna er Ísland!“ sagði Kalli skyndilega.
      Og það bar ekki á öðru. Þarna mátti sjá Faxaflóa, Breiðafjörð, Húnaflóa, Eyjafjörð, Skjálfanda, Þistilfjörð og Austfirði, aðeins Suðausturland og Suðurland voru svolítið óskýr og erfið að greina. Strákarnir hförðu heillaðir á hvernig hvít eyjan sveif tignarlega yfir blátt Atlantshafið.
      „Þetta var frábært!“ sagði Ari um leið og skýjamyndin leystist upp í fjarska.
      „Já, alveg meiri háttar,“ samþykkti Kalli. Síðan bætti hann við: „En þetta var okkar hugmynd, þú veist.“
      „Hvað meinarðu, okkar hugmynd?“ vildi Ari vita.
      „Ég meina,“ sagði Kalli, „þetta var magnað ský. En, þegar maður pælir í því, þá var það líka magnað að við skyldum liggja hérna og sjá Ísland út úr því, siglandi þvert yfir Atlantshafið. Þú verður líka að viðurkenna þá hlið málsins.“
      Setningin sem Halldóra hafði skrifað kom upp í huga Ara eins og þegar texti kemur neðst á kvikmyndir: „Það skiptir engu hversu stórkostlegt eitthvað er, að skilja hvernig það starfar er alveg jafn stórkostlegt.“ Þetta var ekki nákvæmlega orðrétt eftir henni en hugmyndin var sú sama.
      „Hugmyndir mínar gera mig stundum alveg óðan,“ sagði Kalli. „Þá geng ég um gólf í herberginu mínu, kýli koddann, eða geri eitthvað klikkað þangað til ég róast.“
      Þeir sátu þöglir stutta stund. Allt í einu sagði Ari: „Heyrðu Kalli, hver heldurðu að hafi reynt að kasta í mig grjóti um daginn?“ og hann sagði Kalla kæruleysislega hvað hafði gerst.
      „Var það á þriðjudaginn eftir skóla?“ spurði Kalli.
      „Einmitt,“ svaraði Ari, „eftir skóla á þriðjudaginn.“
      „Ég er ekki viss,“ sagði Kalli, „en ég var á undan þér út og ég man að ég sá nýja strákinn, hann Binna, standa við hornið nálægt hliðardyrunum.“
      „Binni! Hví skyldi hann vilja kasta í mig?“ hugsaði Ari. „En ef út í það er farið, því skyldi Toni vilja það?“
      Á leiðinni heim var Ari viðbúinn óvæntum sendingum frá einhverjum bak við tré eða handan við horn. Sá sem hafði kastað steininum á þriðjudaginn gæti hitt næst.