Sannfæring og rök

« Efnisyfirlit

Kafli 1

Rök og rökstuðningur

Rökfræði er fræðigrein sem fjallar um rök og röksemdafærslur. Efniviður þessarar fræðigreinar er setningar; í hefðbundinni rökfræði er fjallað um vensl setninga, en ekki t.d. vensl setninga og athafna, eða hneigða og athafna. En hvað eru rök? Í sem stystu máli eru rök fullyrðingar sem settar eru fram til stuðnings öðrum fullyrðingum. Tökum dæmi. Enhver segir:

            Það verður gaman í kvöld

Nú gætum við spurt: Af hverju segir þú það? Með þessari spurningu erum við að biðja viðkomandi um að færa rök fyrir máli sínu. En ekki er allt rök sem sagt er til stuðnings fullyrðingum. Setjum sem svo að svarið sé:

            Ég bara finn það á mér.

Þá segðum við: „Þetta eru engin rök.“ En ef svarið væri:

            Í kvöld ætlar Diddú að syngja í Óperunni, og þá er alltaf gaman,

þá gætum við ekki annað en fallist á að færð hefðu verið rök fyrir því að í kvöld verði gaman. Við gætum að vísu verið ósammála þessum rökum, þ.e. við gætum haldið að það sé misskilningur að Diddú ætli að syngja í óperunni eða því að það sé ekkert sérstaklega gaman á tónleikum þar sem hún syngur. En eftir sem áður yrðum við að fallast á að staðhæfingin:

      Það verður gaman í kvöld,

hefði verið studd rökum.
      Við getum tekið upphaflegau staðhæfinguna „Það verður gaman í kvöld“ og rökin „Í kvöld ætlar Diddú að syngja í Óperunni, og þá er alltaf gaman“ og sett þau saman í röksemdafærslu (eða rökfærslu, rökleiðslu). Röksemdafærslan liti þá svona út:

       (1)    Í kvöld syngur Diddú í Óperunni.
       (2)    Alltaf þegar Diddú syngur í Óperunni er gaman.
           
       (3)    Í kvöld verður gaman.

Við köllum fyrstu tvær setningarnar forsendur og þriðju setninguna niðurstöðu. Við segjum að forsendurnar séu rök fyrir niðurstöðunni. Röksemdafærslur samanstanda jafnan af einni niðurstöðu og endanlegum fjölda forsendna. Í sumum röksemdafærslum er engin forsenda (núll er líka endanlegur fjöldi), bara niðurstaða, en slíkar röksemdafærslur eru undantekningar og koma lítið við okkar sögu.

1.1 Afleiðsla og tilleiðsla »