Sannfæring og rök

« 5.6 Óskylt efni

Kafli 6

Samræður og sæmdarþorsti

6.1 Ábyrgð og fagmennska

Samræða sem miðar að því að taka ákvörðun sem varðar hagsmuni þeirra sem taka þátt í samræðunni litast óumflýjanlega af þeim hagsmunum sem eru í húfi. Þótt fræðilega greining, t.d. greining Johns Rawls á hugtakinu réttlæti gerir ráð fyrir íhugun eða rökræðu sem sé aftengd öllum einstaklingsbundnum hagsmunum og kringumstæðum, þá getur slík greining aldrei verið annað en fræðileg hugtakagreining; hún segir okkur afskaplega lítið um raunverulega íhugun eða samræður. Slík fræðileg greining er e.t.v. líkari greiningu á hugtaki eins og rökfræðileg afleiðing, sem verður fyrir okkur í hefðbundinni rökfræði, frekar en greiningu á því hvernig við, veraldlegar manneskjur, drögum ályktanir, myndum okkur skoðanir eða eigum í samræðum um hagsmuni okkar og óskir.
      Spurningin „Hvað er gagnrýnin hugsun?“ kallar á tvennskonar svör. Annars vegar á svör sem lúta beinlínis að rökfræðilegum atriðum, t.d. því hvenær maður gerist sekur um rökvillur af ýmsu tagi. Hér getum við talað almennt um rökfræðilega þætti gagnrýninnar hugsunar. Hins vegar kallar spurningin á svör sem lúta að þeim kringumstæðum sem einstaklingar eru í þegar þeir mynda sér skoðanir eða eiga í rökræðu – eða samræðum almennt. Og hér koma upp margvísleg álitamál sem ekki varða rökfræðina beinlínis heldur einnig margvísleg félagsleg, sálfræðileg og siðferðileg atriði.
      Eitt af því sem skiptir höfuðmáli fyrir félagslega þætti gagnrýninnar hugsunar er sjálfræði þeirra sem í hlut eiga. Sjálfræði skiptir bæði máli fyrir gagnrýna íhugun – þ.e. samræðu manns við sjálfan sig – vegna þess að íhugun krefst jafnan nokkurs sjálfstrausts og áræðni. Sá sem skortir þessa þætti er vís með að sitja fastur í gömlum klisjum og aðfengnum skoðunum, og þá margvíslegum fordómum ef svo ber undir, án þess að voga sér að skoða þær hugmyndir af gagnrýnum huga. Þegar við förum úr íhugun einstaklings yfir í samræðu eða rökræðu, þá verður sjálfræðið sínu mikilvægara. Og ef sjálfræði miklvægt í gangrýninni samræðu eða rökræðu, þá blasir við að viðmið fyrir gagnrýnina rökræðu eru að hluta til siðfræðileg. Við getum sagt að gagnrýnin rökræða verði ekki slitin úr samhengi við siðfræði almennt.

6.2 Síðasta orðið »