Sannfæring og rök

« 5.2 Persónurök  
5.3 Nafnatog (e. appeal to authority)

Þessi villa felst gjarnan í því að vísa til sérfræðinga, annarra málsmetandi einstaklinga eða sérstakra starfstétta máli sínu til stuðnings. Vísunin kann reyndar að vera óljósari og almennari, t.d. þegar notað er orðalagið „eins og allir vita“ eða „það veit hver heilvita maður“. Tilgangurinn með slíkum óljósum vísunum kann að vera sá sami og vísun til tiltekinna einstaklinga eða stétta, nefnilega að byggja trúverðugleika eigin málflutnings á trúverðugleika annarra einstklinga frekar en efnislegum rökum.
      En er eitthvað rangt við að vísa til sérfræðinga eða tiltekinna starfstétta? Er ekki eðlilegt í flóknu samfélagi, sem krefst margvíslegrar sérhæfingar, að menn vísi til sérfræðinga? Svarið við fyrri spurningunni er: „Ekki endilega“ og við þeirri seinni „Jú“. Það er yfirleitt réttmætt að vísa til sérfræðinga. Hins vegar eru það léleg rök sem eru algerlega borin uppi af vísun í sérfræðinga og vísun í sérfræðinga styður ekki niðurstöðu nema ýmsum öðrum skilyrðum sé fullnægt.
      Í fyrsta lagi má spyrja gagnrýninna spurninga um staðhæfingar sérfræðinga, rétt eins og annarra, enda eru sérfræðingar oft ósammála sín á milli. Í öðru lagi er stundum vísað til sérfræðinga á einu sviði þegar verið er að rökstyðja staðhæfingu sem fjallar um allt annað svið. Í þriðja lagi geta sérfræðingar verið flæktir í allskyns hagsmunatogstreitu, rétt eins og annað fólk, og raunar enn frekar, þar sem sérfræðiþekking er gjarnan ávísun á völd og áhrif. Í fjórða lagi verður vísun til sérfræðinga að vera viðeigandi, við eigum við ekki að samþykkja vísun til sérfræðinga þegar slík vísun þjónar fyrst og fremst þeim tilgangi að loka fyrir umræðu.
      Eitt af því sem gerir tilvísun til sérfræðinga vandmeðfarna í almennri rökræðu er að sérfræðingar hafa ekki sömu stöðu og aðrir þátttakendur rökræðunnar. Leikmaður kynni að segja: „Hvernig á ég, sem hef enga sérstaka þekkingu á fiskveiðum, að hafa skoðun á því hvort kvótakerfið sé réttlátt?“ Svona afsökun gerir ekki einungis ráð fyrir að manns eigin rök séu léttvæg andspænis orðum sérfræðinganna, heldur einnig að án sérfræðiþekkingar sé maður ekki fullgildur þátttakandi í rökræðunni. Slík afstaða er almennt mjög bagaleg, en hún geti verið réttmæt í afmörkuðum tilvikum. Hún á kannski ekki við í tilviki fiksveiðisjórnunar, því þótt þar sé tekist á um flókin mál má jafnan gera grein fyrir helstu atriðum þannig að allt venjulegt fólk, sem er tilbúið að leggja á sig svolitla vinnu, getur myndað sér vel rökstudda skoðun. Önnur mál kun!
na að vera svo flókin að ekki sé nokkur vegur að mynda sér skynsamlega skoðun á þeim nema með því að gerast sérfræðingur á viðkomandi sviði.
      Villan sem felst í því að vísa til sérfræðinga er því ekki einfaldlega fólgin í því að maður reiði sig á aðra með því að vísa til sérfræðingar, heldur í því að eitthvað af eftirfarandi atriðum kemur til: (a) vísunin verður eins konar botnlangi í rökræðunni, þ.e. ekki er spurt frekar um sérfræðirökin, (b) vísunin er misvísandi (t.d. vísað til sérfræðinga á sviði A til að styðja staðhæfingu á sviði B), (c) sérfræðigunum, sem til er vísað er, er ekki treystandi (t.d. vegna hagsmunaárekstra) jafnvel þótt þeir séu annars sérfræðingar á viðkomandi sviði, eða (d) vísunin getur verið til að ná fram óæskilegum áhrifum (t.d. útilokun einhverra frá rökræðu).

5.4 Svo skal böl bæta að benda á annað »