Sannfæring og rök

« 5.1 Fuglahræðurök  
5.2 Persónurök (l. ad hominem)

Persónurök byggjast á því að beina máli sínu, hvortheldur gagnrýni eða vörn, gegn þeim sem heldur fram tilteknum hugmyndum fremur en hugmyndunum sjálfum. Þessi villa hefur um langan tíma verið landlæg plága á Íslandi, ekki síst í allri stjórnmálaumræðu. Afleiðingin er sú að ekki fæst málefnaleg umræða um mál vegna þess að umræðan snýst fljótlega upp í karp um kosti og galla tiltekinna einstaklinga, persónur þeirra, stöðu og ætt.
      Þótt persónurök séu oft einhver augljósustu dæmi um rökræðuvillur, þá bera þau stundum keim af þeirri eðlilegu kröfu að ýmis hagsmunatengsl, sem varða það efni sem til umræðu er, liggi ljós fyrir (t.d. vegna mögulegs vanhæfis í opinberum málum). Persónurök eru jafnvel dulbúin sem slíkar ábendingar. Það sem greinir þó réttmætar ábendingar um möguleg eða raunveruleg hagsmuna­tengsl frá einberum persónurökum er að í fyrra tilvikinu er kappkostað að setja stöðu manna í samhengi við það sem til umræðu er þegar persónurökin miða að því að draga athyglina frá kjarna málsins og að tilteknum persónum sem í hlut eiga.

5.3 Nafnatog »