Sannfæring og rök

« Kafli 5: Rökræðuvillur  
5.1 Fuglahræðurök (e. straw man)

Rökræða er ekki síst fólgin í því að færa rök gegn andstæðum skoðunum. Þegar Gottlob Frege færir rök fyrir því, í Undirstöðum reikningslistarinnar, að tölur í stærðfræði séu hlutir, þá byrjar hann á því að salla niður andstæðar skoðanir. Fyrst þegar það hefur verið gert færir hann rök fyrir því að hans eigin hugmyndir fullnægi þeim kröfum sem rétt sé að gera á þessu sviði. Svipuð efnistök eru mjög algeng í heimspeki, en ekki síður í stjórnmálum. Kannski stjórnmálamenn geri meira af því að færa rök gegn skoðunum andstæðinga sinna en fyrir eigin hugmyndum. En sá sem færir rök gegn andstæðum skoðunum verður að fara rétt með, hann verður að vera viss um að þær skoðanir sem hann færir rök gegn séu virkilega skoðanir sem einhverjir raunverulegir einstaklingar hafa. Annars missa gagnrökin algerlega marks (hversu sniðug sem þau annars kunna að vera).
      Þegar slíkt hendir segjum við að um fuglahræðurök sé að ræða. Skoðanirnar sem ráðist er gegn eru ekki skoðanir raunverulegra einstaklinga heldur hefur verið búin til fuglahræða sem síðan er ráðist á.
      Í vandaðri rökræðu ganga menn þó raunar enn lengra en að forðast það eitt að takast á við fuglahræður frekar en raunverulega einstaklinga. Þegar menn gagnrýna hugmyndir annarra ráðast menn gjarnann á garðinn þar sem hann er lægstur – þar sem hugmyndirnar eru veikastar fyrir. En þegar slíkt ber við, þá er við búið að tvennt gerist. Annars vegar missa menn oft sjónar á því viti sem er í þeim hugmyndum sem gagnrýndar eru, því þótt hugmyndir fólks fái ekki staðist sem heild þá er oft mikið vit í þeim. Aristóteles orðar það svo á einum stað að auðvelt sé að hitta á hurðina en erfiðara að finna skráargatið. Hins vegar bjóða menn heim þeim möguleika að þeim verði svarað með einföldum hætti – lítilsháttar lagfæring eða endurmat þeirra hugmynda sem ráðist er gegn kann að duga til að svara gagnrýninni. Þess vegna er það einkenni á góðum rökræðum að menn reyna jafnan að gera sem mest og best úr þeim hugmyndum sem þeir ráðast gegn, áður en þær eru gagnrýndar.

5.2 Persónurök »