Sannfæring og rök

« 4.7 Fordómar og forherðing

Kafli 5

Rökræðuvillur

Skipta má rökvillum í tvö flokka, annars vegar rangar eða vafasamar ályktanir og hins vegar villur sem fólk gerir í rökræðum við aðra. Villur í fyrri flokknum mætti kalla ályktunarvillur. Þegar okkur er bent á ályktunarvillur sem við gerum erum við gjarnan þakklát og leiðréttum mistökin, þ.e. við tökum til baka þær ályktanir sem við höfum þegar dregið af því að við sjáum að við hefðum ekki átt að draga þær.
      Í hinn flokk rökvillna falla villur sem varða rökræður fremur en einstaklingsbundnar hugleiðingar. Við getum kallað slíkar villur rökræðuvillur. Rökræðuvillur geta verið saklausar villur sem gerðar eru í fljótfærni, en þær eru hins vegar oft einstrengingslegar, nánast forhertar. Og þegar fólki er bent á að það hafi gerst sekt um rökræðuvillu, er eins víst að það forherðist í vitleysunni frekar en að það leiðrétti hana. Ástæðan fyrir því að rökræðuvillur taka á sig þessa mynd er sú að þeim er oft beinlínis ætlað að loka á frekari rökræðu, eða þeim er ætlað að drepa mál á dreif, t.d. með því að beina athygli að aukaatriði.
      Það er ekki alltaf ljóst í hvorn flokkinn tiltekin rökvilla fellur. Ástæðan er sú að sama rökvillan, t.d. tvímæli, getur ýmist verið saklaus ályktunarvilla eða forhert rökræðuvilla. Í fyrra tilvikinu leiðir villan til óréttmætrar ályktunar, en ályktunar sem viðkomandi er tilbúinn að leiðrétta þegar bent hefur verið á villuna. Í seinna tilvikinu birtist villan gjarnan sem vísvitandi leið til að komast hjá því að taka afstöðu í tilteknu máli eða aðferð til að gera öðrum upp skoðanir sem þeir hafa ekki.

5.1 Fuglahræðurök »