Sannfæring og rök

« 4.6 Gálgafrestur

4.7 Fordómar og forherðing

Margvíslegir fordómar (e. prejudice) eru í raun eðlilegt upphaf rökræðu og alls ekki til marks um vitsmunalega
misbresti. Einhvers staðar verður rökræðan að byrja, og í raun er oft erfitt að benda á annan upphafsstað en
margvíslegar fyrirfram hugmyndir sem fólk hefur og sem það hefur myndað sér með margvíslegum hætti. Hér
skiptir því máli að gera greinarmun á tvennskonar fordómum, annars vegar því sem kalla má fljótadóma og hins
vegar því sem við lýsum sem forhertum dómum. Um fljótadómana segir Kristján Kristjánsson eftirfarandi:

[Fljótadómar] eru dómar sem fljótaskrift er á … Fljótadómar eru einatt vaxnir upp úr jarðvegi aldarfarsins; þeir
endurspegla ýmsar erfiskoðanir og alþýðuspeki.3

Að svo miklu leyti sem fljótadómar eru til marks um rökvillur má gera ráð fyrir að um sé að ræða fljótfærnislega
ályktun
, alhæfingu af einstökum tilvikum, eða dæmigerðar tilleiðsluvillur, t.d. of lítið eða misvísandi úrtak. Þó
þarf ekki að vera að fljótadómar vitni um rökvillur því þeir þurfa ekki að fela í sér ályktanir í venjulegum
skilningi þess orðs. Fljótadómar eru gjarnan einfaldlega skoðanir sem menn hafa án þess að vita hvernig þær eru
til komnar. Um forhertu dómana gegnir hins vegar öðru máli.
    [Forhertir dómar] eru dómar sem eru ekki einasta felldir áður en rök og réttmæti liggja fyrir heldur af aðila sem veit eða á skilyrðislaust að vita betur en þrjóskast í villu sinni.

Hér höfum við dæmi um sálfræðilega annmarka réttrar rökhugsunar sem gefur tilefni til allskyns rökvillna. Slíkir
dómar vitna oft um hjátrú og einkennast jafnvel af ósamkvæmni. Forhertu dómarnir geta einnig verið afleiðing af sjálfsblekkingu, óskhyggju, hjarðlyndi og nesjamennsku. En það sem gerir forhertu dómana svo bagalega eru ekki dómarnir sem slíkir – þótt þeir kunni að vera heimskulegir – heldur forherðingin.

Við segjum um fólk [sem hefur forherta dóma] að engu tauti verði við það komið, það sé daufheyrt fyrir fortölum
og óhult fyrir rökum …

Á meðan forhertir dómar standa í vegi fyrir hverskyns vitlegri rökræðu, þá er fljótadómunum þveröfugt farið.
Þeir eru í raun fjársjóður því í slíkum dómum býr efniviður fyrir skynsamlega rannsókn á því sem dómarnir eru
um. Á meðan forhertu dómarnir eru til þess fallnir að gera rökræðu ómögulega þá geta fljótadómarnir beinlínis
verið forsenda vitrænnar rökræðu. Rökræða verður að eiga sér einhvern upphafsreit – einhverja skoðun eða
staðhæfingu sem er tekin til rannsóknar. Bestu dæmin um fljótadóma í þessum skilningi eru einmitt samræður
Platons þar sem Sókrates tekur til rannsóknar skoðanir eða hugmyndir sem standast ekki nánari rannsókn.
    Raunveruleg rökræða gerir að auki ráð fyrir því að þeir sem taka þátt í henni láti sig efni hennar einhverju
varða. Standi manni á sama um efnið er maður ekki líklegur til að leggja metnað í rökræðuna: maður er ekki
líklegur til að vega rök og meta, og leita að rökum og gagnrökum. Raunverulegar rökræður eru ekki dæmi um
æfingar í rökfræði, heldur eru þær flóknar athafnir sem eru knúnar áfram af tilfinningum en lúta reglum skyn –
samlegrar rökræðu. Fordómarnir leggja hér til efnið og stundum tilfinninguna líka.

Kafli 5: Rökræðuvillur