Sannfæring og rök

« 4.1 Trygglyndi og hjarðlyndi

4.2 Nesjamennska

Nesjamennska er af nokkuð öðrum toga en trygglyndið og hjarðlyndið þótt skyld sé. Nesjamennskan varðar ekki beinlínis útilokun tiltekinna eiginleika, t.d. galla sem „okkar fólk“ kann að hafa. Nesjamennskan varðar fremur skeytingar¬leysi um annarra hagi og ofuráherslu á sérkenni og hagsmuni eigin hóps. Nesjamennskan birtist því gjarnan í því sem við köllum eiginhagsmunasemi, þröngsýni, sérgæsku eða einfaldlega það að vera upptekinn af sjálfum sér. Í Hávamálum segir á einum stað:

               Lítilla sanda, lítilla sæva,
               lítil eru geð guma.

Hér er hugsunin sú að sá sem aldrei fer neitt, hann mun verða þröngsýnn. Í Hávamálum er svo nánari skýring á þessum línum:

               Því allir menn urðu-t jafnspakir
               hálf er öld hvar.

Ef fyrstu tvær línurnar lýsa áhrifum nesjamennskunnar og hugarheim þess sem henni er haldinn, mætti segja að seinni línurnar útleggi nesjamennskuna sem hreina og klára heimsku. Og ég held að það sé ekki fráleit útlegging. Er það nokkuð annað en heimska að halda að manns eigin túnfótur sé merkilegri og mikilvægari en aðrir túnfætur veraldarinnar?

4.3 Hjátrúarfullar skoðanir »