Sannfæring og rök

« 3.5 Vantalin þekking

3.6 Alhæfing af einstökum atvikum (e. tokenism)

Þessi rökvilla felur í sér að draga ályktun um heild af mjög afmörkuðum tilvikum. Besta dæmið um þessa rökvillu er e.t.v. rasismi og aðrir fordómar í garð tiltekinna hópa sem byggja á steríótípum.
      Í umfjöllun um samkeynheigða er stundum talað um „lífsmáta samkyn-hneigðra“. Stundum er því jafnvel haldið fram að það sé þessi lífsmáti sem valdi mestu um t.d. hærri sjálfsmorðstíðni hjá samkynhneigðum. En nú mætti spyrja: Er til eitthvað sem heitir „lífsmáti samkynhneigðra“. Lifa samkyn-hneigðir ekki margskonar lífi, sumir fjöllyndir en aðrir ekki, sumir sækja í öryggi en aðrir í ævintýri, sumir í þægindi en aðrir ekki, o.s.frv. Við þekkjum öll það sem við köllum steríótípur, en þegar við alhæfum út frá steríótípum yfir heilan hóp er eins víst að við gerumst sek um rökvilluna að alhæfa af einstökum atvikum.
      Annarskonar dæmi um rökvilluna sem felst í því að alhæfa af einstökum atvikum er fólgin í því sem hefur verið kallað ímyndarþvætti. Stór fyrirtæki eyða gjarnan miklum fjármunum í að skapa sér góða ímynd, t.d. þá ímynd að þeim sé annt um náttúruna, en á sama tíma byggja þau afkoma sína á skeytingarleysi við náttúruna. Náttúruhamfarir eru gullnáma fyrir slíkt ímyndaþvætti. Þá hlaupa fyrirtæki, sem í daglegu amstri sínu sýna kjörum og afkomu fólks algjört skeytingarleysi, upp til handa og fóta og leggja svo og svo mikla fjármuni eða vörur til hjálparstarfs, en gæta þess jafnframt vel að auglýsa góðverkið. Þeir sem á horfa eiga að draga þá ályktun að þarna sé sannarlega siðferðilega lofsvert fyrirtæki á ferðinni.

Kafli 4: Sálfræðilegir annmarkar á skoðanamyndun »