Sannfæring og rök

« 3.4 Vafasöm forsenda

3.5 Vantalin þekking (e. supressed evidence)

Þegar við fjölluðum um tilleiðslu í upphafi sáum við að tilleiðsluályktanir eru næmar fyrir viðbótum. Af tilteknum forsendum var eðlilegt að álykta niðurstöðu, en ef við bættum við forsendum gat vel gerst að ályktunin yrði óleyfileg. Formlega getum við lýst þessu svona:

(I)   A
      B    
      N

(II)  A
      B
      C    
      ekki-N

Í slíkum tilvikum skiptir máli að röksemdafærsla tilgreini allt sem skiptir máli fyrir niðurstöðuna, ekki bara það sem rennir stoðum undir hana heldur einnig það sem mælir gegn henni, ef slíkt er til staðar. Það er vissulega ekki hægt að gera þá kröfu að allt sem mæli gegn niðurstöðu sé talið með vegna þess að það getur verið óþekkt. Þar sem við búum einungis yfir takmarkaðri þekkingu, þá eigum við á hættu að draga ályktun sem er ósönn hvenær sem við drögum tilleiðsluályktun. Ættum við þá aldrei að draga tilleiðsluályktun? Slík krafa er óhóflega ströng. Sú krafa viðrist hins vegar réttmæt að við tilgreinum það sem við vitum að kemur málinu við. Athugið að þetta er ekki það sama og það sem við vitum og kemur málinu við því (i) við getum vitað eitthvað og (ii) það getur komið málinu við, (iii) án þess að við gerum okkur grein fyrir því að það komi málinu við. Þegar við bregðumst í því að tilgreina það sem við vitum að kemur því við sem við erum að fjalla um, er eðlilegt að segja að við höfum gerst sek um rökvillu.

3.6 Alhæfing af einstökum atvikum »