Sannfæring og rök

« 3.3 Að gefa sér það sem á að sanna

3.4 Vafasöm forsenda (e. questionable premisis)

Yfirskriftin „vafasöm forsenda“ vísar frekar til flokks rökvillna heldur en til afmarkaðrar tegundar af rökvillu. Almennt á þessi umsögn við þegar dregin er ályktun af forsendu sem er vafasöm af einhverjum ástæðum. Stundum getur verið að við vitum að tiltekin forsenda sé ósönn. Þegar ályktun er dregin af slíkri forsendu er jafnan lítil ástæða til að líta á röksemdafærsluna sem góð rök fyrir niðurstöðunni. En forsenda getur verið vafasöm án þess að við vitum að hún sé ósönn – hún getur verið vafasöm jafnvel þótt hún sé í raun sönn. Forsenda er vafasöm ef við höfum góða ástæðu til að vantreysta henni – eða ef við höfum enga góða ástæðu til að treysta henni. Í sumum málum gerum við miklar kröfur til forsendna, t.d. í sakamálum, í öðrum málum getum við verið afslappaðri. Ef forsenda uppfyllir ekki þau þekkingarfræðilegu skilyrði sem eru við hæfi í hverju tilviki, þá getum við réttilega kallað hana vafasama, og ályktun sem byggir á slíkri forsendu er þá dæmi um rökvilluna vafasöm forsenda.

3.5 Vantalin þekking »