Sannfæring og rök

« 3.2 Röng skipting kosta og svart-hvíta villan

3.3 Að gefa sér það sem á að sanna (e. begging the question)

Þessi rökvilla er afar einföld í sinni tærustu mynd. Hún felst í því að gefa sér niðurstöðuna sem forsendu. Formlega lítur hún því svona út:

       A      
      
       A

Svona röksemdafærsla er að vísu gild – hún getur ekki brugðist, og ef niðurstaðan er sönn, þá er hún líka rétt. En engu að síður tölum við um rökvillu. Röksemdafærsla hefur gjarnan það markmið að renna stoðum undir tiltekna niðurstöðu. Við höldum einhverju fram, við erum beðin um rökstuðning, og við setjum fram rök til stuðnings því sem við héldum fram. Ef það sem við segjum til stuðnings fyrri staðhæfingu okkar er einfaldlega endurtekning á þeirri staðhæfingu, þá höfum við augljóslega brugðist í því að renna stoðum undir staðhæfinguna.
      Þeir sem gefa sér það sem á að sanna gera það þó sjaldnast með jafn sláandi hætti og sniðið að ofan gefur til kynna. Það er frekar að forsendurnar og niðurstaðan séu ósamhljóða á yfirborðinu, en þegar betur er að gáð þá kemur í ljós að tiltekin forsenda er sömu merkingar og niðurstaðan.

3.4 Vafasöm forsenda »