Sannfæring og rök

« Kafli 3: Rökvillur  
3.1 Ósamkvæmni (e. inconsistency)

Sá sem gerir sig sekan um að halda fram tiltekinni staðhæfingu og neitun hennar gerist sekur um ósamkvæmni. En ósamkvæmni getur birst án þess að um nokkra röksemdafærslu sé að ræða, þ.e. manneskja getur gerst sek um ósamkvæmni einfaldlega vegna þess að hún heldur fram skoðunum sem stangast á, þ.e. hún heldur fram skoðunum sem má setja fram á eftirfarandi hátt:

       A og ekki-A

Hér er ekki um að ræða að villan sem manneskjan gerist sek um sé fólgin í óréttmætri ályktun og því er naumast rétt að tala um rökvillu. Ef til vill mætti kalla villuna, sem svona afstaða felur í sér, skynsemisbrest frekar en rökvillu.
      En þegar ósamkvæmni birtist sem eiginleg rökvilla getur hún verið afar skæð. Við sjáum þetta vel ef við hugum að þeim rökfræðilega eiginleika mótsagna að af þeim má leiða hvað sem er, þ.e. ályktunin:

       A og ekki-A
      
       B

er gild sama hvaða staðhæfingar stafirnir ‘A’ og ‘B’ standa fyrir.
      Rökvillan ósamkæmni birtist þó sjaldan með svona sláandi hætti, enda væri þá jafnan einfalt mál að koma auga á hana. Hún birtist frekar í því að röksemdafærsla er byggð á forsendum sem eru ekki berlega ósamkvæmar, heldur kemur ósamkvæmnin í ljós þegar viðbótarforsendum, sem kannski eru óhjákvæmilegar, er bætt við. Einfalt dæmi gæti verið á þessa leið:

       Ég mun lækka skatta ef ég næ kjöri.
       Ég mun efla velferðarkerfið ef ég næ kjöri.
       Ef þið viljið lægri skatta og betra velferðarkerfi þá ættuð þið að kjósa mig.
       [Þið viljið lægri skatta og betra velferðarkerfi]
      
       Þið ættuð að kjósa mig.

Hér eru forsendurnar ekki augljóslega ósamkvæmar, en það er hæpið að þær gangi upp, ef svo má segja. Er það ekki staðreynd að það verður ómögulegt að efla velferðarkerfið og lækka skatta um leið? Eftirfarandi staðhæfingar eru að minnsta kosti mjög sennilegar:

       Ef skattarnir lækka verður að veikja velferðarkerfið,
       Ef það á að efla velferðarkerfið er ekki hægt að lækka skatta,

3.2 Röng skipting kosta og svart-hvíta villan »