Kennsla

Á undanförnum áratugum hefur mikið verið rætt um erindi heimspekinnar við nemendur á öllum skólastigum. Skoðanir hafa verið skiptar en ef eitthvað er að marka ýmsa lykiltexta eins og nýlegar námskrár og Siðareglur kennara innan Kennarasambands Íslands er ljóst að siðfræði og gagnrýninni hugsun er ætlað mikilvægt hlutverk í íslensku skólakerfi. Fátt hefur þó verið skrifað um hvernig beri að kenna gagnrýna hugsun og siðfræði á mismunandi skólastigum ef ekki á að taka heimspeki inn sem sérstakt kennslufag. Til dæmis er óljóst hvaða kennarar eigi að sjá um þessar greinar og hvað nákvæmlega eigi að kenna.

Það má fastlega gera ráð fyrir að ekki sé hægt að treysta á áhuga allra nemenda þegar kemur að því að efla kennslu í siðfræði og gagnrýninni hugsun. Og það virðist einnig ljóst að það er ekki sama hvernig staðið er að því að kynna möguleikana sem felast í skarpari hugsun og hæfni í að greina og bregðast við siðferðilegum álitamálum. Mikilvægasta spurningin sem skólayfirvöld standa frammi fyrir er hvernig best er að ná til nemenda án þess að slá af fræðilegum kröfum.

Með ákveðinni einföldun má flokka þær leiðir sem standa til boða þegar reynt er að flétta gagnrýna hugsun og siðfræði saman við kennslu í öðrum greinum, t.a.m. samfélagsgreinum, í þrennt. Auðvitað eru ekki skörp skil á milli þessara flokka en það hefur reynst erfitt að sameina þær svo bragð sé af. Sá kennari sem ætlar sér að kynna og kenna heimspekilegar greinar þarf því að ákveða sjálfur hvar áherslur hans eiga að liggja.

Í fyrsta lagi hefur verið reynt að leggja áherslu á hluti sem hægt er að læra utan að. Þjálfun í gagnrýninni hugsun byggist þá ekki síst á því að læra um margs konar rökvillur. Siðfræði er á hinn bóginn látin snúast að mestu um margs konar reglur, til dæmis siðareglur vísinda og starfstétta ef kennslan er á háskólastigi. Kostir þessarar leiðar eru fjölmargir. Nemendur átta sig strax á því hvers er að ætlast til af þeim og sjá sér hag í að læra um þessi atriði. Einnig er auðvelt að skipuleggja námsmat ef þessi leið er farin.

Ókosturinn við ofangreinda leið við að kenna siðfræði og/eða gagnrýna hugsun er að hún hvetur nemendur ekki til sjálfstæðrar hugsunar og skoðanamyndunar sem er, þegar öllu er á botninn hvolft, markmið kennslunnar. Þar að auki er ekkert í þessari kennslu sem fær nemendur til að tileinka sér gagnrýna hugsun og siðferðileg viðhorf. Því hafa margir brugðið á það ráð að kenna þessar greinar án þess að nefna beint hvað er rangt og hvað ber að forðast. Kennslan er „óbein“ ef svo má að orði komast. Slík nálgun býður til dæmis upp á að styðjast við dæmisögur, setja á svið réttarhöld, horfa á kvikmyndir og lesa vandaðar bókmenntir til að bera kennsl á réttmæta breytni og vandaða hugsun. Kosturinn við þessa nálgun er hversu vel er hægt að ná til nemenda sem eru áhugalausir um námið. Einnig auðveldar hún alla samþættingu við aðrar greinar til muna. Það hefur hins vegar reynst þrautinni þyngra að koma hæfniviðmiðum og námsmati í orð. Og oft hefur verið bent á að þessi leið sé í raun aðeins á færi hæfustu kennara ef innihaldið á að vera í samræmi við markmið.

Þriðja leiðin er að feta hina hefðbundnu braut og kenna hugtök, frumforsendur og röksemdafærslur með því að leggja áherslu á mismunandi kenningar í siðfræði og um eðli gagnrýninnar hugsunar. Dæmi eru ekki valin til að höfða til nemenda heldur einungis til að dýpka skilning á viðfangsefninu. Kosturinn við þessa leið er hvernig nemendur þurfa að tileinka sér heilmikla þekkingu sem auðvelt er að prófa úr. Ókosturinn er sá að kennslan mun virka framandi fyrir flesta nemendur, jafnvel fyrir þá sem eru komnir á lokaár í framhaldsskóla eða hafa hafið háskólanám. Sú staðreynd hefur orðið til þess að æ færri treysta sér til að fara þessa leið sem helst stenst fræðilegar kröfur.

Ef ætlunin er að ungt fólk sem hefur lokið bæði grunn- og framhaldsskólastigi og hafið háskólanám geti borið kennsl á siðferðileg álitamál, sett fram rök með eða á móti ákveðnum skoðunum og tekið þátt í upplýsandi opinberri umræðu þá þurfa kennarar að taka afstöðu hver ofangreindra leiða hugnist þeim best. Þar af leiðandi þurfa þeir einnig að hafa fengið þjálfun til að geta tekið slíka afstöðu á upplýstan hátt. Hver kennari verður að gera upp við sjálfan sig hvers konar kennsla henti bæði honum sjálfum og nemendum hans. Því er mikilvægt að námskrár og kennsluefni taki mið af þeim ólíku leiðum sem eru til staðar þegar ætlunin er að flétta siðfræði og gagnrýna hugsun við annað nám.