Rökvillur

Rökfræði er fræðigrein sem rannsakar og greinir röksemdafærslur. Hún er líklega sú grein heimspekinnar sem hefur haft hvað víðtækust áhrif á þróun vísinda og fræða. Flestir sjá fyrir sér það sem kallað er „formleg“ rökfræði þegar nafn hennar ber á góma. Slík rökfræði gengur oftar en ekki út á að skilgreina ákveðnar merkingarreglur sem gilda um notkun algengra orða í tungumálinu. Dæmi um þessi orð eru „og“, „ekki“, „sumir“, „allir“ og „enginn“.

Heimspekingar hafa lengi gert sér grein fyrir að við myndum okkur ekki skoðanir eða tökum ákvarðanir eftir þeim leiðum sem rökfræðireglur segja fyrir um. Þótt vissulega megi segja sem svo að flest fólk hafi gott af því að gera sér grein fyrir að röksemdafærslan „allir Grikkir eru menn og allir menn eru dauðlegir þess vegna eru allir dauðlegir menn Grikkir“ sé ekki gild þá er það annars konar rökfræði sem hjálpar okkur að draga réttar ályktanir og mynda okkur skoðanir í daglegu lífi. Heimspekinga hefur greint á um hvort sú rökfræði eigi að koma í stað þeirrar formlegu eða hvort hún sé eðlileg viðbót en fáir hafa hafnað mikilvægi hennar. Þessi óformlega rökfræði hefur á síðari tímum helst byggst á því að greina og útskýra margvíslegar rökvillur sem fólk gerir sig sekt um.

Margar rangar ályktanir eru strangt til tekið ekki afleiðingar rökvillna. Sumar eiga sér rætur í mannlegum hvötum eins og óskhyggju eða eigingirni og hafa þær því ekki síður orðið viðfangsefni sálfræðinga. Ótta við að mynda sér sjálfstæða skoðun er til að mynda ekki best að skýra með því að spyrja hvað fór úrskeiðis í hugsun viðkomandi; fremur ætti að horfa til félagslegra þátta. Rökvillur geta einnig auðveldlega breyst í mælskubrögð hjá þeim sem kunna með þær að fara og treysta á þekkingarleysi viðmælenda sinna. Að lokum má nefna að ályktanir geta einnig verið óréttmætar þrátt fyrir að vera gildar og þannig orðið viðfangsefni siðfræði.

Rökvillur eru geysilega fjölbreyttar og enginn tæmandi listi til yfir fjölda þeirra eða hverjar þeirra eru mikilvægastar. Eins og flest það sem fræðimenn hafa rannsakað hefur verið reynt að flokka þær og gefa nöfn, en með misjöfnum árangri. Vandséð er þó hvernig hægt er að kenna fólki að bæta hugsun sína án þess að kunna skil á þessum villum. Þeir vankantar sem kunna að leynast í sumum lýsingum á rökvillum ættu því ekki að leiða til þess að fólk kynni sér þær ekki heldur miklum fremur til meðvitundar um að þær geti aldrei orðið viðfang einhvers konar páfagaukalærdóms. Hvert einstakt tilfelli þarf að skoða frá ýmsum hliðum og af varfærni. Rökvillur eru ekki límmiðar sem við getum skellt á ummæli fólks vegna þess eins að við berum kennsl á ákveðin einkenni í hugsuninni sem liggja þeim til grundvallar.

Hér verður ekki settur fram langur listi um þekktar rökvillur og einungis nokkrar nefndar. Í grófum dráttum má flokka þær í tvennt: þær sem tengjast þeim forsendum sem maður gefur sér og þær sem ályktanir byggja á. Í fyrri flokkinn má til dæmis setja hina kunnu „fuglahræðuvillu“ en hún byggist á því að maður geri fólki upp skoðun eða velji aðeins veikasta punktinn í rökfærslum þeirra. Afbrigði af þessari villu væri að endurskilgreina mikilvæg hugtök í umræðu þannig að þau henti þínum málstað. Í seinni flokknum má til dæmis finna persónurök en þau eru líklega sú rökvilla sem flest fólk kannast við. „Hann fór í manninn en ekki málefnið“ er setning sem heyrist oft í opinberri umræðu. Oftast á sú ásökun rétt á sér, en þó verður fólk að gæta að sér. Upplýsingar um persónulega hagi geta átt erindi í umræðu og ásakanir um persónurök því mögulega verið settar fram til að draga athyglina frá þeirra staðreynd. Það sama má segja um flestar rökvillur. Ásökun um rökvillu má ekki vera einfalt mælskubragð. Í hvert sinn sem slík ásökun er sett fram þarf að útskýra hvers vegna viðkomandi staðhæfing eða röksemdafærsla er óviðeigandi.

Í einni og sömu umræðunni má oft finna dæmi um fjölmargar rökvillur. Fólk horfir framhjá þekkingu sem er til staðar en vísar þess í stað í blindni í handvalda sérfræðinga. Forsendur geta einnig verið innbyrðis mótsagnakenndar. Það sem sanna á dúkkar einnig stundum upp sem eigin forsenda. Ágallar á því sem haldið er fram eru fegraðir með því að benda á aðrar, en óskyldar hörmungar, eða með því að vísa til venju og hefðar. Skírskotanir í aukaatriði sem koma málinu lítið sem ekkert við eru reyndar með algengustu rökvillum. Aðeins vafasamar myndlíkingar og órökstuddar spár um hræðilegar afleiðingar eru algengari. Og svona mætti lengi telja. Sumar rökvillur má einfaldlega rekja til fljótfærni en aðrar til hreinnar vanþekkingar, s.s. á mögulegu orsakasamhengi, tölfræði og vísindalegri aðferðafræði.