Siðfræði

Sem siðferðisverur lifum við og hrærumst í siðferðilegum veruleika sem byggir á margvíslegum gildum og viðmiðum sem geta verið ólík á milli samfélaga. Þótt siðferði sé sammannlegt fyrirbæri er ekki þar með sagt að allt siðferði sé eins. Heimspekingar og aðrir hafa því lengi velt fyrir sér orsökum siðferðishvata okkar. Sumir halda því til dæmis fram að við breytum af skyldu og hagkvæmni en aðrir telja breytni okkar aðeins útskýrða í ljósi innri hvata, ástríðna og tilfinninga.

Þar sem siðferði er sammannlegt fyrirbæri þá treystum við því að fólk hegði sér almennt í samræmi við þau siðferðilegu gildi og viðmið sem samfélagið setur. Við treystum því að meginþorri manna búi yfir heilbrigðri skynsemi og hafi hlotið siðferðilegt uppeldi við hæfi. En dæmi um hið gagnstæða koma iðulega upp og með mis alvarlegum hætti. Þannig getur orðið brestur í siðferðilegri hegðun einstaklinga eða hópa innan samfélagsins. Sú staðreynd gerir það að verkum að í vissum tilfellum virðumst við ekki treysta hvort öðru eða okkur sjálfum til að hegða okkur rétt. Stundum grípum við jafnvel til þess að skrá sérstakar siðareglur fyrir tilteknar starfstéttir eða stofnanir. Vandamálið við slíkar skráðar siðareglur er að þær mega hvorki ganga gegn ríkjandi siðferði né festa það gagnrýnislaust í sessi.

Siðaboðskap er ætlað að höfða til siðferðis okkar. Siðaboðskap er að finna í trúarbrögðum sem og í uppeldi almennt. Trúarbrögðin boða til dæmis tiltekna siði sem fylgismönnum þeirra ber að iðka og foreldrar boða börnum sína tiltekna siði sem þeir vilja að þau tileinki sér. Það virðist liggja í mannlegu eðli að við tileinkum okkur siðaboðskap oftar en ekki gagnrýnislaust. Siðaboðskapur höfðar til einhverra tilfinninga okkar, kannski samviskusemi eða væntumþykju eða jafnvel ótta. Þannig tileinkum við okkur til dæmis siðaboðskap af samviskusemi eða væntumþykju í garð foreldra okkar eða Guðs eða af ótta við reiði þeirra. Siðaboðskapur er þó ekki eingöngu bundin við trúarbrögð og uppeldi heldur er hann einnig að finna hvarvetna í samfélaginu.

Siðaboðskapurinn mótar siðferði okkar. En siðferði er ekki það sama og siðfræði. Við lifum og hrærumst í veruleika sem er fullur af skyldum, réttindum og gildum og lifum eftir ákveðnu siðferði. Engu að síður veltum við sjaldnast fyrir okkur hvernig þessi siðferðilegi veruleiki birtist okkur í daglegu lífi. Það er ekki nóg að svara þeim siðferðilegu álitamálum sem vakna heldur þurfum við einnig að vera meðvituð um þau svið þar sem þessi álitamál er helst að finna. Siðfræðin aðstoðar okkur við að fást við slíkar vangaveltur á gagnrýninn hátt.

Siðfræði fjallar um siðferði; um rétt og rangt, um gott og illt, um réttmæti athafna og ákvarðanna. Siðfræði er þó ekki eingöngu lýsandi, þ.e.a.s. hún lýsir ekki bara siðferðilegri hegðun manna. Markmið siðfræðinga er að greina á röklegan hátt kjarna eða meginreglur siðferðis til að gera grein fyrir eðli og undirstöðum þess. Siðfræðikenningar varpa til dæmis ljósi á siðferðilegar skyldur okkar, réttindi og hlutverk en í daglegu lífi geta slíkar skyldur, réttindi og hlutverk stangast á. Þá verða til siðferðileg álitamál sem snúa að mismunandi hagsmunum og gildismati þeirra sem eiga í hlut.

Siðfræði hjálpar okkur einnig við að takast á við siðferðileg álitamál í samræðu. Þess háttar samræða krefst þess að þátttakendur beiti gagnrýninni hugsun, færi rök fyrir máli sínu, tjái sig af einlægni og hlusti á aðra af virðingu. Siðfræðin veitir ekki endanleg svör, enda um flókin viðfangsefni að ræða, en sá sem hefur tök á siðfræði er líklegri til að geta fjallað málefnalega um margs konar siðferðileg álitamál og fært rök fyrir skoðun sinni. Siðferðisþroski einstaklingins birtist fyrst og fremst í því hversu reiðubúin hann er til að taka þátt í samræðum um siðferðileg viðfangsefni með málefnalegum hætti.