Skýrsla um eflingu gagnrýninnar hugsunar og siðfræði í íslenskum skólum

Skýrsla þessi var unnin fyrir tilstilli styrkjar frá Nýsköpunarsjóði námsmanna sumar og haust 2011. Skýrslan var unnin í tengslum við verkefni sem sett var á laggirnar að frumkvæði Páls Skúlasonar prófessors um eflingu gagnrýninnar hugsunar og siðfræði í íslenskum skólum. Eins og fram kemur í formála skýrslunnar þá er hlutverk hennar að gefa yfirsýn yfir þá helstu þætti er snúa að hugtakinu gagnrýnin hugsun, gefa innsýn inn í tengsl gagnrýninnar hugsunar og siðfræði, og sömuleiðis í tengsl eflingar gagnrýninnar hugsunar og siðfræði og heimspekikennslu. Tilgangur skýrslunnar er einnig að gefa yfirsýn yfir stöðu heimspekikennslu, hér á landi á sem og annarsstaðar; gefa yfirsýn yfir hverjir það eru sem einsetja sér að efla veg heimspekikennslu í skólum víðsvegar um heiminn og yfir það hvaða fræðilega efni, hagnýta efni og kennsluefni er hægt að nálgast í tengslum við eflingu gagnrýninnar hugsunar og siðfræði í skólum.

Taka ber fram að verkefnið er enn í vinnslu og hefur skýrslan því ekki að geyma endanlegar niðurstöður eða tæmandi upplýsingar. Markmið skýrslunnar er öllu heldur að vera innblástur að frekari starfi, umfjöllun um og rannsóknum á heim­spekikennslu, gagnrýninni hugsun og siðfræði og sömuleiðis áframhaldandi samantekt á upplýsingum um hagnýtt og fræðilegt efni er stuðlað gæti að eflingu heimspekikennslu, gagnrýninnar hugsunar og siðfræði í skólum.

Allar athugasemdir og eða almennar hugleiðingar um innihald skýrslunnar eru vel þegnar.

/Elsa Haraldsdóttir
Meistaranemi í heimspeki við Háskóla Íslands
elh13@hi.is


Sækja skýrslu á PDF-sniði