Hlutverk heimspekinnar


Skýrsla þessi var unnin fyrir tilstilli styrkjar frá Vinnumálastofnun sumarið 2012. Skýrslan var unnin í tengslum við átaksverkefni Vinnumálastofnunar og við verkefni sem sett var á laggirnar að frumkvæði Páls Skúlasonar prófessors um eflingu gagnrýninnar hugsunar og siðfræði í íslenskum skólum. Eins og segir í inngangi skýrslunnar er henni ætlað að veita þeim sem fást við kennslu heimspeki eða annarra greina innsýn í viðfangsefni heimspekilegrar hugsunar og möguleika heimspekilegra aðferða í allri kennslu. Hún er með öðrum orðum ekki leiðavísir í því hvernig beita eigi heimspeki sem kennsluaðferð heldur áttaviti fyrir þá sem hafa áhuga á að tileinka sér verkfæri hennar í eigin kennslu. Þakkir fá Henry Alexander Henrysson og Páll Skúlason fyrir veitta aðstoð og tilsögn.

Veturinn 2012-2013 var skýrslan kynnt nemendum í framhaldsnámi í heimspekikennslu við Sagnfræði- og heimspekideild HÍ. Þessir nemendur nýttu sér hana til stuðnings áður en þeir fóru í heimsókn í Foldaskóla í Grafarvogi þar sem þeir hittu nemendur á unglingastigi og kynntu heimspeki sem námsgrein.

Taka ber fram að verkefnið er enn í vinnslu og hefur skýrslan því ekki að geyma endanlega samantekt eða tæmandi upplýsingar. Markmið skýrslunnar er öllu heldur að vera innblástur að frekari starfi, umfjöllun um og rannsóknum á heim­spekikennslu, gagnrýninni hugsun og siðfræði og sömuleiðis innlegg í umræðu er stuðlað gæti að eflingu heimspekikennslu, gagnrýninnar hugsunar og siðfræði í skólum.

Allar athugasemdir og/eða almennar hugleiðingar um innihald skýrslunnar eru vel þegnar.

/Kristian Guttesen
Meistaranemi í heimspeki við Háskóla Íslands
krg12@hi.is


Sækja skýrslu á PDF-sniði