Heimspekiæfingar: Kennsluleiðbeiningar með Uppgötvun Ara

« 2. Aðleiðsla

3. Hleypidómar

Hleypidómar eru illa rökstuddir eða órökstuddir dómar og með þeim eru því dregnar fljótfærnislegar ályktanir, líkt og þegar Ari grunaði Tona um að hafa kastað að sér steininum eða þegar Oalla grunaði Birnu um að vera áfengissjúka. Í uppphafi kaflans ræddu krakkarnir um „aðleiðslu“ þegar sælgætið var til umfjöllunar. Hér kemur angi af því sama og spurningin er: Hversu umfangsmikið þarf úrtak sönnunargagna að vera til að hægt sé að setja fram áreiðanlega alhæfingu um þann flokk sem þau snerta? Ef sannindin eru ónóg, eða ef fram hjá þeiom er gengið, er hætt við að hleypidómar komi til sögunnar.
      María tekur eftir því að fordómar í garð kynþátta og annarra eru eitt afbrigði hleypidóma. Á grundvelli afar takmarkaðra kynna eða afspurnar eru heilir kynþættir eða þjóðir iðulega fordæmdir. Orðið „fordómur“ erlýsandi fyrir það að dæma fyrirfram án þess að grunda forsendur dómsins. Þegar hleypidómar okkar varða álit og skoðanir á athöfnum eða manngildi annarra einstaklinga geta þeir ýtt undir ranglátar athafnir (þ.á.m. orð) í þeirra garð.
      Tæpast kemst nokkurt okkar hjá því að fella hleypidóma og bera einhverja fordóma í brjósti sér en þrátt fyrir það, þarf það ekki að koma fram í athöfnum okkar. Það er vissulega mikilvægt að gera sér grein fyrir þessum möguleika: það er hægt að gæta sanngirni í framkomu þrátt fyrir hleypidóma í garð annarra. Sumu er t.d. í nöp við einhverja einstaklinga, kynþætti eða þjóðir en samt gæta þeir sanngirni ef til samskipta kemur við þessa aðila. Ósanngirni hvílir venjulega á fordómum, sem aftur hvíla á hugsunarvillum, en fordómar þurfa ekki nauðsynlega að fela í sér ósanngirni.

Samræðuáætlun 3.1. Hleypidómar

     Hleypidómar eru illa rökstuddir eða órökstuddir dómar og skoðanir. Tengjast eftirfarandi atriði hleypidómum? Vakna þeir eða eyðast? Hvers vegna? Hvers vegna ekki?
1.  Er líklegt að vinátta myndist með mönnum eftir því sem þeir kynnast betur?
2.  Velur fólk ytri manninn (útlitið) þegar það velur sér vini?
3.  Velur fólk innri manninn (innrætið) þegar það velur sér vini?
4.  SLeitar fólk félagsskapar þeirra sem hafa svipaðar skoðanir?
5.  Er hægt að mynda sér skoðanir án helypidóma?
6.  Hvenær og hvenær ekki tengist einelti hleypidómum?
7.  Fella hænur hleypidóma þegar þær leggja eina kynsystur sína í einelti?/td>
8.  Kemur einelti til sögunnar vegna dýrslegra tilfinninga?
9.  Getur skynsemin upprætt hleypidómana eða tilfinningarnar sem einelti hvílir á?

Verkefni 3.2. Aðleiðsluályktanir

     Þótt við séum hleypidómafull í garð einhverra getum við samt sýnt þeim virðingu. Gefið atriðunum hér á eftir stig eftir mikilvægi þeirra. Mikilvægasta atriðið fær 10 stig, næstmikilvægasta fær 9 stig og svo koll af kolli niður í 1 stig.
     _____ a. Að taka ekki orðið af öðrum.
     _____ b. Að hlusta vandlega á aðra.
     _____ c. Að vera ekki á kjaftatörn á meðan samræður standa yfir.
     _____ d. Að snúa ekki út úr spurningum sem beint er að manni.
     _____ e. Að draga það fram sem felst í skoðunum annarra.
     _____ f. Að vera ekki á iði meðan aðriri tala.
     _____ g. Að hugsa áður en maður talar.
     _____ h. taka ekki mikinn tíma til að koma skoðunum sínum á framfæri.
     _____ i. Að halda sig við samræðuefnið.
     _____ j. Að forðast persónulegar árásir á þá sem eru ósammála.

4. Þrjóska og sveigjanleiki í hugsun »