Heimspekiæfingar: Kennsluleiðbeiningar með Uppgötvun Ara

« Efnisyfirlit

1. Verður stundum að tala þvert um hug sér?

Húsvörðurinn rekur Kalla og Maríu frá brunaslöngunni. Kalli tengir þetta strax við það að húsvörðurinn sé fullorðinn. María er skilningsríkari og segir að húsvörðurinn láti svona vegna þess að hann hafi ákveðnu starfi (eða hlutverki) að gegna innan skólans. Hún virðist gera sér grein fyrir að starfsmenn stofnana kunna að lenda í þeirri aðstöðu að þurfa að segja eða framkvæma eitthvað sem þeir myndu annars ekki gera.
      Nemandi getur lent í svipaðri aðstöðu, t.d. sem umsjónarmaður skólastofunnar. Þá skiptir máli að koma jafnt fram við alla, bæði vini sína og andstæðinga. Umsjónarmaður gæti þurft að upplýsa að vinur hans hefði falið allar krítarnar, þó honum hefði aldrei dottið í hug að gera vini sínum slíkt við aðrar aðstæður. Sennilega könnumst við öll við eitthva sambærilegt. Sem kennarar þurfum við t.d. að fara að ákveðnum lögum og reglum og starfið hefur áreiðanlega neytt eitthvert okkar til að framkvæma hluti sem viðkomandi hefði kosið að gera ekki.
      Í þessu sambandi má bera eftirfarandi heimspekispurningu upp við nemendur: Segjum að við séum starfsmenn einhverrar stofnunar og höfum ákveðnum skylduverkum að gegna og berum jafnhliða ákveðna ábyrgð. Er okkur samt stundum frjálst að fara bara eftir því sem okkur finnst rétt án tillits til eðlis starfsins?

Verkefni 1.1. Verðum við stundum að gera og segja eitthvað sem við meinum ekki?

      Hvað finnst ykkur um eftirfarandi aðstæður:

1.  Beta:              Valgeir, Rósa frænka lagði mikið á sig til að geta gefið okkur þessar gjafir. Það minnsta sem þú getur gert er að þakka henni fyrir með kossi til að sýna henni að þér þyki vænt um hana.
  Valgeir:     Er ekki nóg að segja „takk“?
2.  Friðrik:              Heyrðu Krúsi, það er naumast að Dóra er skotin í þér!
  Krúsi:     Já, hún hangir alltaf utan í mér. Ætli ég losni ekki við hana ef ég segi henni að hún sé sveitó?
  Valgeir:     En hún er alls ekki ólagleg!
  Krúsi:     Hvað með það? Ég verð að losna við hana! Finnst þér það ekki?
3.  Lér konungur:     Kordelía, þykir þér vænt um mig?
  Kordelía:     Ég get ekki sagt um það, pabbi.
4.  Lára:              Magga, mér sýnist að kærastinn þinn sé ekkert of skýr.
  Magga:     Ég veit. Það er þess vegna sem ég verð að þykjast vera á sama plani.
5.  Beta:                Friggi, er eitthvað til sem þú mundir ekki gera fyrir mig?
  Friggi:     Nehei!
6.  Lára:              Af hverju slúðrar þú um mig ef þú ert sönn vinkona mín?
  Magga:     Það eru bara orð, ég meina ekkert með þeim!
7.  Friggi:                Ég frétti að Beta og Lára hefðu rifist heiftarlega í gær.
  Krúsi:     Já, en þær ætluðu sér það ekki.

2. Aðleiðsla »