Sannfæring og rök

« 1.2 Tilleiðsla og vísindaleg aðferð

1.3 Popper og tilleiðsla sem hluti af vísindalegri aðferð

Það voru m.a. atriði eins og hrafnaþverstæðan sem sannfærðu heimspekinginn Karl Popper um að tilleiðsla hefði lítið með vísindalega aðferð að gera. Popper sagði að vísindaleg kenning væri tilraun til að leysa tiltekið vandamál – hún væri sett fram sem svar við ákveðinni spurningu – og að tilraunir og gagnasöfnun tilheyrðu hinni gagnrýnu umræðu um vísindakenningar en væru ekki undanfari þeirra. Popper gekk reyndar svo langt að segja að eiginlegt hlutverk tilrauna í vísindum væri að hrekja kenningar en ekki að safna gögnum sem til að draga tilleiðsluályktanir af.
      Samkvæmt einföldu tilleiðsluhugmyndinni þá tilheyra tilraunir og gagnasöfnun fyrsta stigi vísindalegrar rannsóknar. Við byrjum á að safna gögnum áður en við setjum fram kenningar. Samkvæmt Popper heyra tilraunir og gagnasöfnun til viðbragða við vísindalegri kenningu en ekki til þess sem gerist áður en að kenning er sett fram og sem leiða til kenningar. Popper gengur jafnvel svo langt að segja að það sé ekkert kerfisbundið hægt að segja um það sem leiði til kenningar því það geti verið hvað sem er; tilviljunarkennd hugdetta, möguleiki sem stendur eftir þegar aðrir hafa verið útilokaðir, skapandi innsæi o.s.frv. Spurningin um rökfræði vísindanna – eða spurningin um vísindalega aðferð – hefur einfaldlega lítið að segja um þetta stig vísindanna. Kjarni vísindanna – og það sem greinir þau frá gervivísindum – tekur við þegar kenning hefur verið sett fram og hægt er !
að hefjast handa við að reyna að afsanna hana.

Hvernig tilgáta verður til er sálfræðileg spurning – og til þess að svara henni þarf að gera ákveðnar rannsóknir. Spurningin um það hvernig tilgáta er réttlætt er rökfræðilegs eða aðferða­fræðilegs eðlis og henni verður ekki svarað með skírskotun til reynslu. Slíkt væri óhugsandi enda hvíla öll reynsluvísindi á þeirri forsendu að aðferð þeirra sé gild. Á þennan hátt verður að gera greinarmun á spurningum um staðreyndir, sem eru sviði raunvísinda, og spurningum um áreiðanleika vísindalegrar að­ferðar, sem eru viðfangsefni vísindaheimspekinnar.1

En eftir sem áður er tilleiðsla sem byggir á jákvæðum tilvikum algeng, bæði í hversdagslegu lífi og meðal vísindamanna. Hvernig eigum við að skýra þetta? Ef við föllumst á hugmyndir Poppers getum við raunr svarað þessari spurningu næsta auðveldlega. Beiting vísindamanna á tilleiðslu sem byggir á jákvæðum tilvikum tilheyrir einfaldlega því stigi vísinda þar sem verið er að reyna að setja fram kenningar og um það hefur aðferðafræði vísindanna ósköp lítið að segja (raunar ekkert samkvæmt Popper). Menn geta því beitt gölluðum ályktunaraðferðum ef mönnum sýnists svo. Spurningin um vísindalega aðferð, og þar með um fagmennsku vísindamannsins, vaknar fyrst og fremst þegar kemur að því að reyna að hrekja kenningar.

 

Verkefni 2
         
2.1.      Í eftirfarandi köflum koma fyrir rökfærslur.
    (i)   Gerið grein fyrir því hverjar forsendurnar eru og hver niðurstaðan er í hverri rökfærslu.
    (ii)   Segið til um hvort rökfærslan er gild.
    (iii)  Ef rökfærslan er ekki gild, gerið hana þá gilda, eftir því sem kostur er, með því að bæta við forsendum án þess þó að gera þær forsendur sem fyrir eru óþarfar.
         
    (a)   Mannslíkaminn er í rúmi og er háður þeim vélrænu lögmálum sem!
valda öllum öðrum hlutum í rúminu. Hægt er að fylgjast með starfsemi líkamans og ástandi hans utan frá. Líf mannslíkamans er því fyrir jafnopnum tjöldum og líf skepnu eða skriðdýrs, eða jafnvel æviferill trés, kristals eða plánetu. (Gilbert Ryle, „Goðsögn Descartes“, Heimspeki á tuttugustu öld, bls. 61)
         
    (b)   Kenningar eru verk okkar, hugmyndir okkar. Þeim er ekki þröngvað upp á okkur. Þær eru heimatilbúin tæki til að hugsa með. Þetta hefur hughyggjan kennt okkur. En sumar kenningar rekast á veruleikann og þá vitum við að til er veruleiki, eitthvað sem segir okkur að stundum séu hugmyndir okkar rangar. Þess vegna hefur hluthyggjumaðurinn á réttu að standa. (Karl Popper, „Þrjú viðhorf til þekkingar“, Heimspeki á tuttugustu öld, bls. 134).
    (c)   Í skynseminni er ekkert annað en máttur, hneigð og athöfn. En lögin eru ekki sjálfur máttur skynseminnar. Á svipaðan hátt eru þau ekki heldur hneigð hennar; vegna þess að hneigðir skynseminnar eru vitrænar dyggðir sem ræddar voru hér að framan. Né heldur eru þau athöfn hennar, því þá væru lögin ekki til þegar skynsemin er aðgerðalaus, t.d. í svefni. Þess vegna heyra lögin skynseminni ekki til á neinn hátt. (Tómas af Aquino, Um lög, spurning 90, fyrsta grein, bls. 64.)
         
2.2.      Hver er í hnotskurn munurinn á afleiðlsu og tilleiðslu? Gefið dæmi um gilda afleiðsluályktun og gilda tilleiðsluályktun.
         
2.3.     ! Hvað er átt við með því að safn, sem tilleiðsla byggir á, gefi góða mynd af heildinni sem ályktað er um (e. is representative)? Gefið dæmi um tilleiðsluályktun sem kann að virðast trúverðug en byggir ekki á safni sem gefur góða mynd af heildinni.
         
2.4.      Hvað er átt við með því að tilgáta sé staðfest af jákvæðum tilvikum (e. confirming instances)? Gefið dæmi. Hvers vegna eru slíkar ályktanir varasamar?

Neðanmálsgrein

1. Gunnar Skirbekk og Nils Gilje, Heimspekisaga, Stefán Hjörleifsson þýddi, Háskólaútgáfan, Reykjavík 1999, bls. 673.

Kafli 2: Gildar röksemdafærslur og góður rökstuðningur »