Barnaheimspeki er rannsókn á möguleikum

Róbert Jack ræðir við Hrein Pálsson
og Brynhildi Sigurðardóttur

 

Að kynnast barnaheimspeki

Róbert: Hreinn, byrjum á þér sem frumkvöðli í barnaheimspeki á Íslandi og að­ dragandanum að því að þú stofnaðir Heimspekiskólann. Þú ert í BA­-námi hérna við Háskóla Íslands og eftir það ferðu til Matthews Lipman í Montclair­há­skóla.

Hreinn: Já, ég lauk BA-­prófi hér í heimspeki og sagnfræði og svo hnaut ég um námsefni Lipmans hjá Arnóri Hannibalssyni. Ég fór að leika mér með þetta; vann þá einn vetur sem gæslumaður inni á Kleppi og var að ljúka kennslurétt­indanámi. Ég þýddi efnið á næturvöktunum og prófaði að nota það í MS, þar sem ég var stundakennari í heimspeki, en ég var ekki yfir mig ánægður með ár­angurinn. Ég held ég hafi ekki skaðað nemendur, en ég var ekkert stoltur eða upp með mér af þeirri kennslu. Svo fór ég til Bandaríkjanna og fór að stúdera vísindasögu fornaldar frá Aristótelesi til Galíleó. Það var svo um jólin 1982 að ég
skrifaði Lipman bréf. Mér fannst við hæfi að segja honum frá því að ég hefði verið að glugga aðeins í þetta og var með einhverjar almennar fyrirspurnir. Þá þarna á milli jóla og nýárs hringdi hann í mig. Ég man alltaf að fyrsta spurningin hjá mér var: „Hvernig fékkstu eiginlega símanúmerið mitt?“ Því ég hafði ekkert látið þess getið í bréfinu og fattaði ekki að þú hringir bara í „operator“. En til að gera langa sögu stutta þá var ég strax kominn á námskeið hjá þeim í janúar. Ann Margaret Sharp stóð náttúrlega á bak við þetta allt saman og það var mjög sterk upplifun þetta fyrsta námskeið mitt. Við vorum saman í klaustri.

Róbert: Í klaustri?

Hreinn: Já, það er búið að rífa það, það var í Paterson í New Jersey. Þetta var breið­ur hópur og mér fannst bara eins og ég hefði fundið hinn sanna tón og komst að því að ég var engu nær í því verkefni að halda uppi heimspekilegri samræðu með nemendum þrátt fyrir að hafa lokið BA­-prófi hér og þrátt fyrir að vera búinn með kennsluréttindin. Ég var gjörsamlega engu nær. Og það var ekki fyrr en þessu námskeiði sem ég fór að átta mig. Ég var auðvitað búinn að pæla í þessu og búinn að prófa námsefnið, en á þessu námskeiði var sýnt hvernig gengið er til verks og það var mjög sterk upplifun fyrir mig. Í stað þess að koma heim eins og ég ætlaði mér vorið 1983, þá var ég um sumarið hjá Lipman. Byrjaði reyndar strax á vormisserinu í „independent studies“ og lá niðri á Library of Congress og las Dewey. Svo var ég hjá Lipman og Sharp um sumarið og um haustið var ég byrj­aður í Michigan State­háskóla og það má segja að Lipman hafi sent mig þangað vegna þess að þetta var náttúrlega út úr öllu korti varðandi umsóknar­fresti. Þau höfðu sambönd í Michigan State og á þeim tíma var hvergi til doktorslína í barnaheimspeki.

Róbert: Var hún ekki komin í Montclair-­háskóla?

Hreinn: Það var mastersprógramm.

Brynhildur: Það kom ekki doktorslína fyrr en ég var þar, árið 2000.

Hreinn: Og þá breyttist skólinn úr „college“ í „university“.

Róbert: Þú sem sagt prófaðir námsefni Lipmans, áður en þú hafðir séð það í verki…

Hreinn: …og ég var óánægður…

Róbert: …þér fannst þetta ekki takast.

Hreinn: Ég var búinn að lesa mér til, en eitt er að lesa og annað að gera. Þú getur ímyndað þér að það séu hjól þarna úti, það er hægt að lesa um hvernig maður á að haga sér á hjóli, en það er allt annað að kunna á hjól. Og ég lenti í því þarna úti hjá Lipman að ég fór í æfingakennslu og kenndi börnum heim­speki. Þau teikn­uðu svo fallegar myndir og komu með svo fallegar athuga­semdir að ég á þetta einhvers staðar í drasli hvað nemendur mínir í bandarískum barnaskóla höfðu að segja. En það er auðvitað grundvallaratriði, eins og Brynhildur þekkir, að á þessum „workshopum“ erum við í grunninn að nota sömu aðferð og við notum með börnunum.

 

Að innleiða barnaheimspeki í skólum

Róbert Svo skrifarðu doktorsritgerð og hún er að hluta til eða aðallega rannsókn á Ísland.

Hreinn: Gögnin eru héðan. Ég hafði þá samband við … hvað hét það nú, það var eitthvert flott nafn á skólanum: Tilrauna-­ og æfingaskóli Kennaraháskóla Íslands. Svo fljótlega slepptu þeir „tilrauna­-“ úr nafninu og töluðu um æfinga­skólann, en ég leit alltaf á þetta bókstaflega, ég hélt að þetta væri tilraunaskóli. Ég klúðraði framkvæmdinni á vissan hátt vegna þess að ég hélt ég hefði lagt mig fram um að undirbúa verkefnið, en svo kom á daginn að það var ekki og það bitnaði á þjálfun kennaranna sem unnu með mér.

Róbert: Kenndirðu ekki sjálfur?

Hreinn: Nei, ég kenndi þetta ekki sjálfur, heldur voru tveir kennarar þarna. Ég kallaði þær Helgu og Lindu, en málið var að ég fór inn í þetta í vaxandi mæli, vegna þess að þær réðu ekki við verkefnið og það endaði með því að ég braut eiginlega reglurnar. Ég átti að vera svona „observer“, en ég varð miklu meiri þátt­takandi bara til að koma þessu á rétta línu.

Róbert: Þetta hefur orðið meiri starfendarannsókn.

Hreinn: Já.

Brynhildur: Hvaða þjálfun fengu þær?

Hreinn: Upphaflega hugmyndin var að halda námskeið fyrir kennarana sem unnu með mér ásamt fleiri þátttakendum en það var ekki grunnur fyrir slíku námskeiði þegar á hólminn var komið. Þjálfunin var þannig að við töluðum um þetta og ég sýndi þeim einhverjar greinar og svo var ég líka með sýnikennslu og kenndi í upp­hafi. Svo var hugmyndin að ég dytti út, en í staðinn fyrir að hverfa þá kom ég inn í nokkrum mæli. Og þarna skiptust hóparnir alveg í tvö horn, fannst mér, báðir voru í rauninni á réttri leið, en annar tók meiri framförum en hinn.

Róbert: Sástu af hverju?

Hreinn: Hóparnir voru ólíkir – það verður að taka hvern hóp á hans forsendum. Og mér finnst þetta alltaf vera dæmi um að það þarf að byrja á því að byggja upp traust. Ríkjandi samskiptamynstur getur verið svo ólíkt í tveimur bekkjum. Þú þarft ekki nema einn einstakling til að gera þetta miklu erfiðara en þetta er að öllu jöfnu. Ég man til dæmis eftir því í öðrum hópnum – það var ábyggilega sá hópur sem komst skemmra – að þar var einstaklingur sem las ekki. Kennarinn sagði: „Ég þekki mína nemendur og það er bara of mikið áreiti fyrir þennan einstakling að lesa fyrir framan aðra.“ En ég hafði notað þá venjulegu aðferð í barnaheimspeki að við skiptumst á. Við byrjum einhvers staðar og förum réttsælis eða rangsælis og ég þakka ekki hverjum og einum fyrir lesturinn, næsti maður tekur bara við við næstu greinaskil. Ef nemendur eru ekki að fylgjast með þá segja þeir „pass“, ef þeir eru í fýlu þá segja þeir „pass“ og það er ekkert mál að segja „pass“. Og jafnvel þótt þessu væri stillt upp svona þá fannst kennaranum þessi uppstilling ekki ganga og valdi lesara. Ég reyndi nú að gera grein fyrir þessari þróun í ritgerðinni, ef ég man rétt, og reyndi að taka saman yfirlit yfir hvernig þetta gekk hverja viku og var með helling af beinum tilvitnunum í samræðuna til að sýna hvernig hún þroskaðist og þróaðist.

Brynhildur: Ég held að þessi ritgerð sé alveg jafnmikil rannsókn á því hvernig þessum kennurum gekk að fást við þetta verkefni og á því hvernig krakkahóp­urinn þróaðist. Ég held nefnilega að það sé hægt að læra heilmargt af þessari ritgerð um hlutverk kennarans, það sem kennari þarf að læra.

Hreinn: Það má kannski rétt vera. Ég hef ekki opnað hana í fleiri herrans ár, en minn fókus var auðvitað fyrst og fremst á samræðufélagið, hvernig það þróaðist.

Róbert: Þetta er viðvarandi umræða, er það ekki, hvernig kennaramenntunin fer fram?

Hreinn: Auðvitað eru margir veikir punktar í þessu öllu saman, en ég er enn á þeirri skoðun að veikasti punkturinn sé kennaramenntunin.

Brynhildur: En ég held að það sé praktískt vandamál. Ég held að við vitum alveg hvernig á að þjálfa kennara. Þeir þurfa reynslu og þeir þurfa að fá að tala um reynslu sína við einhverja reyndari og í kennaramenntun hefur ekki verið svigrúm fyrir það.

Róbert: Getur verið að kennaramenntunin sé ein af aðalástæðunum fyrir því að barnaheimspeki hefur ekki náð enn meiri útbreiðslu á Íslandi?

Hreinn: Jaaú. Ég held að kennaramenntunin sé hluti af því, en það er stunda­skráin líka í grunnskólunum … Sumir litu á það sem ákveðinn áfangasigur þegar lífsleiknin kom inn. Það minnir mig á það að þegar ég byrjaði með Heimspeki­skólann þá sögðu sumir nemendur: „Þurfum við að kalla þetta heimspeki, getum við ekki fundið eitthvert annað nafn á þetta, rökleikniskólann eða eitthvað?“ Þetta orð „heimspeki“ hefur þessa áru í kringum sig að vera merkilegt með sig og það var eins og nemendur fengju svolítið í hnén gagnvart þessu. Og svo þegar kemur að lífsleikninni í námskránni þá hefði ég miklu frekar viljað sjá bara heimspeki í hennar stað. Það er alveg borðleggjandi að markmiðin sem eru sett lífsleikninni eru mjög heimspekileg í eðli sínu og auðveldast að ná þeim með heimspekinni.

Brynhildur: Þeim er auðveldlega náð í samræðufélagi.

Hreinn: En í staðinn þá er þetta frjálst spil. Það er bara komið undir hverjum og einum hvaða aðferð er notuð eða hvort þú notar heimspeki yfirhöfuð til að nálgast þessi heimspekilegu markmið. Það minnir mig sumpart á þennan fókus í kenn­aramenntuninni. Það er eins og það vanti heildarsýn til lengri tíma.

Róbert: Í skólana?

Hreinn: Já. Þetta var auðvitað niðurstaða Lipmans. Hann sagði heimspekilega vídd vanta í allt heila draslið, ekki bara í framhaldsskólann, heldur frá upphafi skólagöngu og upp úr. Þó að margt ágætt megi segja um heimspekina hér í Há­skóla Íslands held ég að það megi gera miklu betur í því að þjálfa þessa samræðu­hlið á heimspekinni. En svo má á móti segja að þetta sé ekki hlutverk heim­spekideildarinnar, hún sé ekkert í því að mennta heimspekinga fyrir skólakerfið. Kennslufræðin eigi að sjá um þá hlið.

Brynhildur: En ef þú skoðar þá hvað er í gangi á Menntavísindasviði Háskóla Íslands, þá er þar alger skortur á heimspeki. Á Akureyri var þetta lengi vel skárra, held ég, en ég held að kennararnir frá Akureyri hafi lent í alveg sama vandanum þegar þeir komu út í skólana. Þar tekur við ný andstaða. Meira að segja þótt háskólinn nái að ala eitthvað upp í þér, samræðuhæfileika til dæmis eða samræðu­færni, þá hefur grunnskólinn ekkert pláss fyrir það heldur. Grunnskólinn hefur ekki haft pláss og engan áhuga.

Róbert: Í þessu samhengi dettur mér í hug hvort þessi tegund af heimspeki hafi verið of upptekin af sér sem fagi, ef svo má segja. Það birtist til dæmis viðtal við Lipman árið 1992 í Hug, þar sem Ágúst Borgþór Sverrisson talaði við hann undir yfirskriftinni „Er heimspeki framtíðarvon skólakerfisins?“. Þar kemur fram að heimspekin á að vera sú grein sem breytir öðrum greinum, þrátt fyrir að hún sé svolítið í andstöðu við ýmsa ríkjandi kennslufræði. Þá dettur mér í hug hvort ekki sé besta leiðin til að fá greinarnar upp á móti sér að segja: „Hér erum við og við ætlum að breyta ykkur hinum.“

Hreinn: Það má vel vera. Þetta er kannski í senn styrkleiki og veikleiki, en þessi draumur hefur loðað við Lipman og þá sem hafa verið hjá honum. Og ég man að ég tók alveg þátt í þessu að sjá fyrir mér einhvern lykil að breytingum með því að koma þessum vinnubrögðum og viðhorfi og þessari grein á framfæri. Eins og Brynhildur segir er andstaða í skólunum og þeir bara sjá ekki ljósið eins og við gerum [kímir].

Brynhildur: Við sögðum áðan að heimspekin hefur einhverja svona „nefið upp í loft“ áru í kringum sig og ég held að það sé ákveðinn sannleikur í því, en gildir það ekki um allar greinar?

Róbert: Jú, það gæti verið, en hinar greinarnar segja: „Við erum merkilegar og við eigum að vera þarna.“ En þær segja e.t.v. ekki: „Við erum merkilegar og eigum að vera þarna og svo eigum við líka að koma og segja hinum greinunum hvað þær eiga að vera að gera.“

Hreinn: Við erum auðvitað súpermerkileg [hlátur].

Brynhildur: Ég er ekki sammála. Íslenskan sem fag og grein í grunnskólanum gerir nákvæmlega þetta og það er algerlega meðtekið. Og það eru fleiri greinar. Umhverfismennt var skilgreind sem grein sem átti að kenna í öllum greinum, það áttu allar greinar að líta til umhverfismenntarinnar. Nú er þetta örugglega kallað menntun til sjálfbærni. Allar greinarnar áttu að líta til þess sem þessi fræðigrein hafði að segja, læra af henni og taka það inn í sig. Þetta hefur komið fram í aðal­námskrá, það eiga allir að kenna íslensku og allir að kenna umhverfismennt. Og í sumum skólum núna er það þannig að það eiga allir að kenna lífsleikni. Ég held að Lipman hafi í viðtalinu þarna árið 1992 ekki verið að segja neitt annað en að allar greinar hefðu gott af því að líta til heimspekinnar og taka hana inn til sín.

Hreinn: Mér dettur til dæmis í hug út frá reynslu af að kenna heimspeki í MR að ef maður leggur sig virkilega fram við verkið verður maður auðvitað að hluta til íslenskukennari líka. Það eru svo náin tengsl á milli máls og hugsunar. Þú ferð ofan í heimspekidagbækur nemenda eða í ritgerðir og verkefni, og auðvitað er það íslenskukennsla. Og hvað með undirbúning framhaldsskólanemenda fyrir háskólanám? Jú, það er búið að drepa þá niður með málfræðistagli, á meðan veiki punkturinn er að tjá sig, þar hefði heimspekin komið inn og hjálpað, þ.e. að setja saman rökræðu eða heila hugsun og rökstyðja skoðun sína í rituðu máli. Nem­endur hafa verið miklu meira í heimildaritgerðum, en svo er meira að segja kvart­að líka yfir heimildaritgerðum nemenda í háskóla. Ég held að það hefði mátt vera heimspekilegur vinkill eða heimspekikennari við hliðina á íslenskukennaranum.

Róbert: Ertu þá að tala um samþættingu greina eða að greinarnar vinni saman?

Brynhildur: Við erum náttúrlega að tala um að forgangsraða markmiðum á ein­hvern hátt, við erum að tala um að draga úr vægi fræðilegrar málfræði til dæmis og auka vægi tjáningarinnar, röklegrar, skýrrar tjáningar í ræðu og riti.

Róbert: Mér dettur stundum í hug að nemendur séu svona lélegir í íslensku vegna þess að þeir fái aldrei að skrifa um neitt sem þeir hafa áhuga á og því nenni þeir ekki að vanda sig.

Brynhildur: Og meira að segja að ef þeir fá að skrifa um eitthvað sem þeir hafa áhuga á þá er enginn sem hjálpar þeim að dýpka það. Þeir fá kannski að skrifa ritgerð um eitthvað, en þeir bara skrifa ritgerðina, það er sett út á málfræði og stafsetningu og búið. Þeim er ekki hjálpað að þróa hugsun sína.

Róbert: Já, einmitt.

Brynhildur: Og það er löngu búið að drepa niður tjáninguna áður en þau koma í framhaldsskóla. Þetta er mjög skýrt á unglingastigi í grunnskólanum.

Brynhildur: En Brynhildur, þú fékkst verðlaun frá forseta Íslands árið 1998 fyrir hug­mynd að kennsluefni sem byggist á samstarfi greina. Hvernig nálgastu þetta sam­starf þar?

Brynhildur: Áður en ég fór að læra heimspeki þá var ég aðallega náttúrufræði­kennari, svo brann ég út á öðru ári í kennslu [hlær] og fór aftur í háskólanám og ég held að það hafi verið alger tilviljun að ég fór í heimspekinám en ekki líf­fræðinám sem var hitt fagið sem ég var að velta fyrir mér. Svo sit ég í heimspekinni og er að lesa fornaldarheimspeki hjá Þorsteini [Gylfasyni] og þá bara uppljómast ég: já, þetta er frábært, auðvitað á maður að tala um þetta þegar maður er að tala um eðli vísindanna. Það var alger hugljómun að mér fannst alveg augljós tengsl á milli fornaldarheimspeki og líffræði áttunda bekkjar. Það einhvern veginn gerðist bara og ég var að vinna með þessa hugmynd mjög lengi. Hún blundar alltaf í mér en nú hef ég ekkert verið að vinna með hana í langan tíma. Hún dó í framkvæmd þegar ég kom út í skólann og ætlaði að fara að gera eitthvað með hana.

Róbert: Þannig að þú fékkst verðlaunin áður en þú varst búin að framkvæma þetta?

Brynhildur: Já, ég var búin að kenna náttúrufræði en ég var ekki búin að kenna mikla heimspeki þegar ég fékk þessi verðlaun – þetta var fræðileg ritgerð sem ég fékk þessi verðlaun fyrir.

Róbert: Ertu þá að segja að nálgunin í þessari hugmynd hafi ekki virkað prakt­ískt?

Brynhildur: Jújú, hún strandaði bara á nákvæmlega því sama og við vorum að tala um áðan. Af hverju strandar heimspekin í grunnskólanum? Það er af því að þar er ekki pláss og svigrúm fyrir samræðu og dýpri hugsun, að nota tímann í að dýpka hugsunina. Til þess að þetta sé hægt þá verður að fækka efnis­atriðunum sem á að fara yfir. Og ef maður les aðalnámskrá grunnskóla og framhaldsskóla – allavega þær reglugerðir sem hafa verið í gildi síðan ég fór að kenna um 1995 – þá sést strax af hverju þetta virkar ekki, af því að það þarf að tala um svo marga hluti að það er ekki tími til að rökræða og fara á dýptina.

Hreinn: Á sínum tíma hafði Jón Baldvin Hannesson, þá skólastjóri Síðuskóla, samband við mig og við settum af stað prójekt þar. Það var ákveðið að skipta bekkjum upp í tvo hópa vegna þess að kennurum leist ekkert á að hafa yfir 20 manns í samræðutíma. Það er nú kannski númer eitt að kennarar bara sjá ekki hvernig þeir eiga að lifa daginn af með opna, agaða, gagnrýna samræðu og yfir 20 þátttakendur. Það er auðvitað mjög skiljanlegt. En þarna var gripið til þessa ráðs að tvískipta bekknum og það komu margir kennarar að þessu og þeir lögðu sig virkilega fram. Ég mætti þarna reglulega og það var vel staðið að þessu og ég held að verulegur árangur hafi náðst. Ég skrifaði einhvern tímann einhvers staðar eitthvað um þetta, en auðvitað var þetta mjög erfitt. Það er svo erfitt að halda þessu gangandi og mynda nýja hefð innan skólans. Þú þarft að gera ýmsar hliðarráðstafanir.

Brynhildur: Ég byrjaði að vinna í Síðuskóla um það bil sem þetta verkefni var að deyja út, hvort það voru einn eða tveir kennarar sem voru að rembast við að halda áfram – þarna var ég að útskrifast úr kennaranáminu. Og ég ræddi aðeins við þessa kennara um ástæðu þess að þetta væri ekki lengur í gangi. Ein ástæðan var að hætt var að tvískipta bekkjum fyrir heimspekitímana. En annað var að kenn­urunum fannst þeir verða einir og ekki vita hvað ætti að gera næst. Og þetta var í skóla þar sem búið var að þjálfa upp hóp af fólki. Hópurinn var ennþá til staðar, það voru ekki mikil mannaskipti, það var ekki það að kennararnir sem var búið að þjálfa hefðu farið að vinna einhvers staðar annars staðar, þeir voru allir til staðar, en samt fannst þeim vanta stuðning.

Hreinn: Þá koma til aukavinnuálag og aðrir erfiðleikar. Meðan verið er að byggja upp hefðina þá er þetta miklu erfiðara en þegar kominn er einhver grundvöllur sem hægt er bara að ganga inn á og standa á. Grundvöllurinn er hvergi til staðar í íslensku skólakerfi.

Róbert: Getur verið að kennararnir hafi upplifað sig eina, líka út af því að kennarar virðast oft ekkert duglegir að tala saman um hvað þeir eru að gera í kennslunni? Var það þess vegna sem þeim fannst þeir vera einir?

Brynhildur: Já, ég held það sé það, þannig skildi ég þá allavega. Kennarar kvarta oft yfir þessu og þarna virtist það skipta öllu máli. Það að vera einn að reyna að búa til samræðu og halda henni lifandi í hópunum sínum, það varð bara ógern­ingur af því að fólk hafði enga handbók eða leiðsögn. Það var ekki til neitt blað sem sagði manni hvað átti að koma næst.

Róbert: Ertu að segja að það sé ríkari þörf fyrir samstarf í kennslu á barnaheim­speki en öðru?

Brynhildur: Ég held að það sé ríkari þörf fyrir samstarf í þessari grein. Kennarinn þarf líka svo nauðsynlega að lesa sjálfur og ræða um heimspekilegar spurningar. Hann verður að næra sína eigin heimspekilegu hugsun til að geta betur stjórnað heimspekilegri samræðu með börnum.

Hreinn: Þörfin fyrir samstarf er í og með út af því að það er engin hefð til að byggja á. Og talandi um hefðir þá má geta þess að heimspeki hefur verið stund­uð um árabil í leikskólanum Lundarseli á Akureyri. Meðal annars Aðalbjörg Steinarsdóttir og Helga María Þórarinsdóttir hafa gert mjög góða hluti þar og það virkar betur ef maður hefði aðstæður til að fylgja svona hópi eftir í gegnum grunnskólann, byrja í leikskólanum og byggja svo ofan á, heldur en að koma inn í einhvern dæmigerðan 12 ára bekk og segja: „Jæja, nú er kominn tími til þess að þið farið að hugsa.“ Kennarar grunnskólans sem taka við nemendum Lundarsels segja þá skera sig úr.

 

Heimspeki á Íslandi og lærdómur samræðunnar

Róbert: Mig langar að víkja að Heimspekiskólanum sjálfum. Hreinn, þú stofnar hann árið 1987 og svo stendur á heimasíðunni fyrir árið 2000: „Engin námskeið. Skólinn er í djúpum dvala.“

Hreinn: Ég gerði mér grein fyrir í upphafi að þetta væri langtímaverkefni. Ég sagði alltaf blákaldur: „Þetta er 20 ára plan. Eftir 20 ár verður eitthvað komið sem skiptir máli.“ Svo bara þraut mig örendið, ég gafst upp. Og skólinn er í djúpum dvala, en vonandi hefur hann orðið til þess að sá fræjum. Þau eru til dæmis í leikskólanum Lundarseli á Akureyri, í kennaranáminu þar, já og hjá Brynhildi og fleirum. Á góðum degi þá spyr maður sig: „Ætli þetta hefði gerst ef Heim­spekiskólinn hefði ekki verið fyrst?“

Brynhildur: Ég held bara að 20 ár hafi verið of bjartsýnt. 50 ára plan hefði verið raunhæfara. Af því að ég held að það sé að gerast eitthvað núna sem ekki hefur verið til staðar áður. Það eru tvær aðalástæður. Kreppan er mjög góð [hlær], allt í einu er gagnrýnin hugsun orðin rosa vinsæl. En fáir vita um hvað verið er að tala – ég hef ekki heyrt neinn (annan en heimspekinga) útskýra hvað gagnrýnin hugsun er og hvernig á að kenna hana. En núna eru líka til rætur. Það eru græðlingar í gangi sem voru náttúrlega ekki til þegar þú byrjaðir, Hreinn. Og það sem ég á við með því er að það eru kennarar sem eru búnir að vera að vinna í þessu inni í leik-­ og grunnskólum árum saman þannig að þeir eru búnir að festa eitthvað í sinni stofnun og farnir að hengja fólk utan á sig. Þannig að þetta er ekki jafnmikið einstæðingsverk og það finnst mér hafa breyst bara síðan ég kom heim úr námi um aldamótin. Þetta byggir ekki jafn rosalega mikið á einstaklingunum núna og áður.

Hreinn: Ég man eftir því til dæmis að ég hringdi í nokkra skólastjóra áður en ég stofnaði Heimspekiskólann og bauð þeim þessa frábæru lausn og hvort ég mætti ekki koma og kenna og svoleiðis. Ég man sérstaklega eftir einum, hann gat ekki stillt sig og bara skellti upp úr, hann hélt hann væri að tala við einhvern … ég veit ekki hvað hann hefur haldið. Svo að staða og virðing heimspekinnar, ég held að hún hafi breyst í gegnum árin. Fólk leit á þetta sem eitthvert fílabeinsturnsdæmi og áttaði sig ekki á jarðtengingunni sem heimspekin getur haft.

Róbert: Ertu að segja að virðingin hafi komið með Heimspekiskólanum?

Hreinn: Heimspekiskólinn átti þátt í því en auðvitað er fjölmargt annað sem gerðist, til dæmis heimspekikennslan hérna við Háskóla Íslands. Þorsteinn [Gylfason], Páll [Skúlason] og kennararnir hérna hafa auðvitað verið mjög öflugir talsmenn heimspekinnar og ég held að heimspekin njóti miklu meiri virðingar í samfélaginu en hún gerði og við skulum ekki gleyma því að kennsla í heimspeki sem sjálfstæðri kennslugrein til BA­-prófs hófst ekki við Háskóla Íslands fyrr en árið 1972.

Brynhildur: Ég held að það skipti miklu máli hvað heimspekin er ung grein á Íslandi. Það hefur ekki verið til mikill jarðvegur

Hreinn: Það situr samt í mér sem þú sagðir áðan, Hreinn. Þú sagðist hafa farið í gegnum nám hér en vissir samt ekkert hvað þú varst að gera almennilega þegar kom að samræðunni. Það er ekki fyrr en þú sérð þetta hjá Lipman að þú áttar þig. Þá spyr ég mig hvort við þurfum ekki að tala um tvo hluti, er ekki alger munur á þessari heimspeki sem er kennd við Háskóla Íslands sem sérstakt fag og þeirri samræðu sem þú ert að tala um og er kennd við barnaheimspeki?

Hreinn: Jú, það held ég að sé og lykilhugtakið í því dæmi er kannski einfaldlega hugtakið reynsla, því að í barnaheimspekinni gengur dæmið út á það að skapa reynslu. Þú ert með einhverja þá umgjörð og það áreiti að krakkarnir ganga inn í reynsluheim þar sem þeir upplifa að það er hlustað á þá, það er tekið mark á skoðunum þeirra, þeir hafa eitthvað fram að leggja og einhverjir aðrir skipta kannski um skoðun vegna þess sem þeir voru að segja eða halda fram. Hins vegar í akademíunni þá gengur leikurinn fyrst og fremst út á það að tileinka sér hugsun genginna kynslóða. Þú færð mjög góð ritgerðarverkefni þar sem þú þarft að gera grein fyrir lykilatriðum í einhverri kenningu, gagnrýna það eða bera saman við aðrar kenningar o.s.frv. En ég hef efasemdir um reynsluþáttinn. Þetta er öðruvísi en reynslan af þessari tjáningu, lifandi opinni rökræðu sem myndast á staðnum.

Róbert: Þú ert að segja að það sem er sameiginlegt gæti verið glíman við viðfangs­efnin og auðvitað rökræða en það er reynsla af þátttöku í samræðunni sem barnaheimspekin bætir við. Með fullri virðingu fyrir kennurum manns í BA­-námi man ég sjálfur hvað maður lærði mikið í samræðu við samstúdenta á kaffistofunni.­

Hreinn: Ég held að það hafi verið hluti af dæminu. Auðvitað voru kennararn­ir allir af vilja gerðir og ég man þetta sem nemandi að maður var feiminn og óframfærinn og óöruggur með sig og þorpslubbi og allt það. Maður hafði engan grundvöll eða hefð. Kennararnir voru jú að reyna að byggja eitthvað upp, en nem­endahópurinn stóðst ekki þeirra væntingar, held ég. Mig grunar að í þeirra námi hafi þeir ekki fengið þessa þjálfun, að þeir hafi ekki haft nógu góðan grunn til að byggja á. Það er talað um samræðusiðfræði, það vantar ekki, en ég vil sjá fólk stunda hlutina en ekki bara tala um þá.

Brynhildur: Það er ekki það sama að sitja og lesa og skrifa og að sitja og þurfa að hlusta á aðra og þurfa að orða hlutina sjálfur. Ég held að það sé bæði að orða hlut­inn sjálfur og að fá strax viðbrögð við því sem skiptir miklu. Þetta vekur tilfinn­ingaleg viðbrögð, maður verður oft svo reiður við samræðuborðið eða sorgmædd­ur eða ofsaglaður eða eitthvað. Það er eitthvað í samskiptunum sem hefur bein og tilfinningaleg áhrif sem ég hef allavega ekki upplifað með bókum.

Róbert: En er þetta ekki akkúrat eitthvað sem er mikilvægt að læra? Ég hef ein­mitt upplifað að samræða við fólk kennir manni svo mikið ef maður ákveður að fara í gegnum hana og takast á við það sem upp kemur. Hún kennir manni svo mikið á sjálfan mann og að takast á við alls konar tilfinningar sem láta á sér kræla. Er þetta það sem þú átt við?

Brynhildur: Já. Í gegnum samræðu átta ég mig einhvern veginn á því hvað það er sem hreyfir við mér og hvernig ég bregst við því. Og ég átta mig ekkert á þessu fyrr en það gerist, reynslan felst í þessu. Og ef maður er að tala um lífsleikninám, snýst það ekki um þetta?

Hreinn: Mér finnst að við eigum mikið ólært í því að læra að beita og taka gagn­rýni. Það eru svo grætileg viðbrögð þegar fólk kann ekki að meta það þegar ein­hver nennir að leggja það á sig að vera því ósammála, en það er alveg dásamlegt þegar það gerist. En það eru allt of margir sem hrökkva í vörn. Ég þykist hafa lent í því að fólk hefur ekki kunnað að meta gagnrýni sem hefur komið fram á það, það heldur að maður hafi eitthvað á móti því, en það er svo langt í frá. Það er bara eitthvað þarna sem er þess vert að gagnrýna. Upp til hópa er frábært fólk að vinna með manni á öllum vígstöðvum. Í ídeal heimi ætti það bara að vera þakklátt ef maður er ósammála því.

Brynhildur: Nemendur í grunnskólum eru frábært fólk að vinna með og ég hef oft lært af þeim. Ég man eftir samræðu þar sem 14 og 15 ára krakkar voru að skilgreina ást, þau voru alveg hugfangin af þessu hugtaki og bjuggu til tilfinn­ingaskala. Ást var á öðrum enda skalans og það var mikil umræða um hvað var algerlega á hinum endanum, hver væri andstæðan við ást. Og af algerum vana hugsa ég bara um hatur og bíð eftir að þau segi „hatur“, en það kom ekki fyrr en einhvern tímann löngu seinna. Það sem var á hinum endanum hjá þessum nem­ endahópi var afskiptaleysi.

Hreinn: Merkilegt.

Róbert: Mér finnst þetta gott svar.

Brynhildur: Já, og þetta tengist því sem Hreinn var að segja. Ef ég ber enga virð­ingu fyrir þér, þá er ég náttúrlega ekkert að tala við þig yfirhöfuð. Ég er ekki að samþykkja það sem þú segir og ég er ekki að andmæla því og ég er ekki að leið­rétta þig, mér er bara alveg sama. Og þetta er það versta sem ég get gert nokkurri manneskju, sögðu krakkarnir í þessum hópi. Mér fannst þetta mjög merkilegt og finnst enn.

Róbert: Hatur er náttúrlega merki um að það búi einhverjar tilfinningar í manni til þess sem er verið að fjalla um, maður hafi áhuga á því og það snerti mann ein­hvern veginn, þannig að það skiptir mann máli, er það ekki?

Brynhildur: Og þessir krakkar rökstuddu sem sagt að ef ég hata einhvern þá skiptir hann mig einhverju máli, en algert afskiptaleysi er andstæðan við ástina sem er þessi þörf fyrir nánd, umhyggja, hlýja og tilfinningin sem segir „ég vil vera með þér“. „Ég vil vera með þér“, það er ástin, „ég vil ekki vera með þér, mér er alveg sama“, það er andstæðan við ástina.

Hreinn: Það er kannski ekki við hæfi, en það er auðvelt að snúa þessu yfir á hrun­umræðuna og íslenska stjórnmálamenningu, því að landsfeðurnir elskuðu okkur ekki. Ef þeir hefðu elskað sína þjóð þá hefðu þeir sett sig inn í málin sem þeir báru ábyrgð á, en í staðinn þá var það bara afskiptaleysi og lömunarveiki.

 

Samfélagshlutverk barnaheimspeki

Róbert: Af því þú nefnir samfélagsmálin má spyrja um hlutverk barnaheimspek­innar á því sviði. Lipman og aðrir tala um að hún eigi að undirbúa nemendur fyrir lýðræðisþátttöku. Við sjáum hins vegar það sem stjórnmálamennirnir standa í, þeir eiga í einhvers konar umræðu, mér dettur ekki í hug að kalla þetta sam­ræðu, því það er enginn sem hlustar á neinn, það er enginn sem lærir neitt nýtt í sam­ræðunni, það bara mæta allir og vita allt og tjá sig.

Hreinn: Hér er ég og þetta hef ég að segja og ég þarf að koma nafninu mínu á mælendaskrá svo það sé fært til bókar að ég tók þátt í þessu …

Róbert: … eða bara eins og þetta birtist manni í sjónvarpinu. Hafið þið einhvern tímann heyrt stjórnmálamann læra eitthvað nýtt í samræðu við einhvern?

Hreinn: Það hefur ekki opinberast. Mér finnst það þó jákvætt, þetta sem er að gerast núna, til dæmis þetta hjá Besta flokknum og hvernig hann er að kalla ólíka aðila að borðinu og það kemur nýr tónn frá Hönnu Birnu [Kristjánsdóttur] um svipaða hluti. Og það er auðvitað fáránlegt hvernig þetta hefur endað bara hjá tveimur formönnum. Ég veit ekki hversu mikið þeir rökræða sín á milli eða hvernig það gerist, en við eigum mikið ólært.

Brynhildur: Andstæðurnar eru ekki alveg jafn skýrar núna og þær voru fyrir nokkrum árum, en fyrir nokkrum árum var beinlínis talað um samræðupólitík og framkvæmdapólitík eða athafnapólitík og þetta voru algerar andstæður. Og framk­væmdapólitíkusarnir gerðu mjög lítið úr samræðupólitík. Hvaða tilgangi þjónar það að tala og tala og tala og tala og koma aldrei neinu í verk. Og það er vissulega áhyggjuefni ef þetta er hugmyndin á bak við samræðupólitíkina. En það var enginn vilji til að sjá að það væri löng leið þarna á milli og ótal útfærslur á einhverju millibili …

Hreinn: … og sameiginlegir hagsmunir allra.

Róbert: Maður upplifir það þannig að fólk skilji ekki að það gerist eitthvað í samræðu. Það gerist eitthvað þar sem við komum að borðinu. Við erum að fara að fjalla um eitthvað málefni og við hreinlega vitum ekki alveg hvað við ætlum að gera. Svo förum við að ræða um þetta og þá koma alls konar sjónarhorn upp og við sitjum uppi með fullt af hlutum sem við getum unnið úr og það var eitthvað miklu meira en ég hefði getað hugsað einn eða nokkur annar.

Brynhildur: Nú hafa Íslendingar áhuga á því að fara að læra hvað gagnrýnin hugs­un er og eins og Lipman skilgreinir hana þá er lykilþáttur í henni að hún leiðréttir sjálfa sig. Og ég held að ef við gætum kennt sjálfum okkur og vanið okkur á að góð hugsun, gagnrýnin hugsun, leiðréttir sjálfa sig, væri það mjög stórt skref fram á við. Bara að viðurkenna þetta sem góðan hlut, að hugsun sem leiðréttir sig í ljósi raka og nýrra upplýsinga, það er góð hugsun, það er þroskamerki. Ég held að þetta sé þessi hræðsla við að hafa rangt fyrir sér, eins og fyrir pólitíkusinn sem getur ekki skipt um skoðun opinberlega, það er niðurlægjandi fyrir hann, hann setur niður ef hann þarf að gera það. Þetta er hindrun, hindrun á vegi hugsunarinnar.

Róbert: Þetta er spurning um einhvers konar uppeldi,
menntunaratriði.

Hreinn: Þetta er spurning um viðhorf líka. Mér verður oft hugsað til sögu sem ég hef margoft sagt og hef sjálfsagt sagt ykkur báðum áður, en hún dúkkar alltaf upp. Það hafði einu sinni samband við mig útvarpskona og spurði hvort hún mætti koma og taka viðtal við krakkana í Heimspekiskólanum og ég hugsa með mér: „Mér veitir ekki af auglýsingunni og best að samþykkja þetta, en fjandakornið nú er einn tími farinn í kjaftæði og rugl.“ Hún kemur þarna og ræðir við mig og ég var sjálfsagt eitthvað „grumpy“, en hvað sem því líður segi ég við hana: „Og í guðanna bænum farðu svo ekki að spyrja krakkana hvað heimspeki sé. Sú spurn­ing hefur ekkert komið upp hér og ef hún kæmi upp þá myndum við fjalla um hana en þetta gengur ekkert út á það að uppfræða börnin um hvað heimspeki er.“ Svo fer viðtalið af stað og er miklu betra en ég átti von á og hún gerði þetta bara ágætlega, en undir lok viðtalsins þá segir hún: „Jæja krakkar, getið þið svo sagt mér hvað heimspeki er?“ Og ég hugsa með mér „úff“ [hlær]. Ég get svarið það að við höfum sjálfsagt ekki verið búin að hittast nema þrisvar eða fjórum sinnum, en það var einn 10 ára gutti sem hugsaði sig um í andartak og sagði síðan: „Ja, heim­speki er eiginlega svona rannsókn á möguleikum.“ Og þetta er uppáhaldssvarið mitt síðan. Ég sakna þess úr stjórnmálaumræðunni að möguleikar séu settir upp á borðið. Vitlausir möguleikar eru heldur ekkert alvondir; þótt þú setjir vitlausan eða rangan möguleika upp, hvað er þá í hættu, þú skoðar hann og það leiðir kannski til einhvers góðs, en væntanlega ýtirðu honum út af borðinu. En þetta er svona eins og „brain­storming“, eitthvað verður þú að láta þér detta í hug. Af hverju stillirðu ekki möguleikunum upp á borðið og skoðar þá í stað þess að hanga í einhverri flokksafstöðu?

Róbert: Er þetta almenn afstaða til barnaheimspeki, að hún snúist um að byggja upp samræðufélag sem felst í sameiginlegri rannsókn á möguleikum?

Brynhildur: Flestir líta svo á, en ekki allir. Til að mynda byggir franski heim­spekingurinn Oscar Brenifier ekki upp samræðufélag. Oscar stjórnar samræðu en hann afsalar sér engum völdum og hann færir ekki ábyrgðina á því að stjórna samræðunni yfir til nemendanna, eins og samræðufélag Lipmans gerir ráð fyr­ir. Við erum búin að segja að heimspeki í skólunum elur fólk upp sem þegna í lýðræðissamfélagi. Það hamlar skólunum núna að þeir veita nemendum sínum ekki nægilegt sjálfstæði til að hugsa og framkvæma eftir eigin vilja og mér hefur sýnst að miklu leyti að heimspekin geti losað um þetta. Heimspekin getur gert nemendur sjálfstæðari og framkvæmdaglaðari og þess vegna hef ég áhyggjur af því með Oscar að hann nái ekki að gera þetta. Hann þjálfi upp gagnrýna hugsun í skoðanaskiptum á milli manna, en nemendurnir séu háðir kennar­anum um þessi skoðanaskipti og framgang samræðunnar.

 

Þroskun samræðufélagsins

Hreinn: Varðandi þróun samfélagsins teikna ég alltaf upp mynd. Lárétt erum við með tímaásinn, lóðrétt erum við með ábyrgð eða traust. Á tímaásnum eru vikurnar, 0, 5, 10 og eitthvað þessháttar. Í upphafi er Atlasarkomplexinn í gangi: kennarinn er með allt heila dæmið á herðunum, hann þarf að hlusta á alla, hann þarf að halda uppi aga, hann þarf að sjá fyrir hvert hann er að fara með samræð­una o.s.frv. Hvaða ábyrgð bera nemendur á sama tíma? Þetta er ekki þeirra mál, því það er kennarinn sem er að kenna þeim. Það sem gerist með tímanum er að línurnar nálgast þannig að nemandinn fer að axla ábyrgð á því hvað er að gerast í kennslustofunni og það gerist með því að einn fer að sussa á annan: „Hann er að tala, þegi þú“ eða „hvað varstu aftur að segja?“. Þetta eru allt saman merki um það að samræðufélagið er að þroskast og komast á koppinn og þegar það gerist þá dregur úr Atlasarkomplex kennarans. Hann ber ekki allt heila klabbið á herð­unum og þetta verður auðveldara.

Róbert: Þannig að þú vilt meina að það séu ákveðin þroskastig í samræðufélag­inu?

Hreinn: Það er það en ég tek líka fram að það verður að taka alla þessa hópa á þeirra eigin forsendum. Það er ekki til nein formúla þannig að ég geti tímasett hvað gerist í þessari viku og næstu viku, þetta er mis­munandi eftir mismunandi hópum.

Brynhildur: Ég er sammála þessu. Ég hef oft verið með tvo samhliða hópa yfir veturinn í Garðaskóla og oftar en ekki hafa þeir verið algerar andstæður. Til dæmis hefur það nokkrum sinnum gerst að annar hópurinn fer ofboðslega vel af stað. Þar eru málglaðir, hressir krakkar með skýrar skoðanir og eru alveg til í slaginn. Svo þegar fer að líða nær jólum er eins og þetta detti niður, það verður engin framvinda og þau fara að verða leið. Þannig að þau fara af stað af miklum krafti og svo kemur deyfð í áhugann þannig að þau ná ekki upp neinu spennandi. Á meðan fór hinn hópurinn hægt af stað af því þar eru feimnir krakkar eða eitthvað óöryggi í gangi. Um jólin eru þau komin af stað. Mjög oft hefur mér fundist hóparnir skiptast þannig á.

Hreinn: Mér finnst að það séu þrír hópar í öllum hópum: það eru þessir sem eru til baka, það eru þeir sem eru á miðjunni og það eru þessir framfærnu. Og það er jafnmikill lærdómur fólginn í því fyrir þessa framfærnu að aga sig og hætta að vera svona frekir til fjörsins í hópnum og það er fyrir hina, þessa sem eru til baka, að taka þátt í þessu. Stundum finnst manni eins og maður sé með pott og það sé verið að halda lokinu ofan á suðunni þegar það er verið að halda aftur af þessum framfærnu.

Brynhildur: Málglaði hópurinn finnur til sín strax þannig að þeir nemendur eru ekkert að fara út fyrir sitt öryggissvæði og það er lítið nám í gangi. Þau bara fara af stað og allt gengur vel og er skemmtilegt. Hin detta út fyrir öryggis­svæðið til að byrja með og þess vegna gengur hægar og vantar eitthvað spúnk í hópinn. En þegar maður er með lokið og segir: „Þú átt eftir að læra eitthvað, það er ekki nóg að tala bara rosalega hátt og mikið“, þá náttúrlega endar það með því að ég ýti þessum krakka út fyrir öryggissvæðið sitt. Þá kemur deyfð og óöryggi og þá er rót á hópnum, orkan fer í að reyna að búa til nýjan vana.

Róbert: Ertu að segja að það sé erfiðara að aga þá sem eru framhleypnir?

Brynhildur: Nei, nei, það er ekkert erfiðara. Ég er að segja að það þarf að gera ráð fyrir öllum þremur þáttunum og maður þarf að gera ráð fyrir að starfið í hópnum muni ganga í bylgjum. Það munu vera tímabil þar sem allt gengur vel, af því að nemendur finna styrkleika sinn og finna að þeir eru að læra eitthvað, og svo koma tímabil þar sem áskoranirnar eru meira áberandi.

Hreinn: Og svo er enn eitt í þessu sem er að upplifun kennarans og nemandans er ekki sú sama. Iðulega fannst mér ég verða var við það í Heimspekiskólanum sáluga að ég var hundfúll með eigin kennslu, en svo heyrði maður þegar krakkarnir voru á leiðinni út með foreldrum sínum að þá var þetta eitthvað sem hafði verið svakalega gott og uppbyggilegt. Einhvern veginn safnast þetta svona saman til lengri tíma litið. Ég man eftir nemanda sem kom til mín, hún var málglöð og hún hafði skoðun á öllu en fókusinn var út um allt. Og það endaði nú þannig að einhvern tímann var ég beðinn að taka barn með í sjónvarpsviðtal og þá tók ég þessa stúlku með mér og hvílík breyting sem hafði orðið á henni. Frá því að vera svona út um allt þá gat hún einbeitt sér og haft fókus. Þetta er alveg jafnmikill lærdómur og það að koma smám saman fram og taka þátt.

 

Skilyrði góðs samræðufélags

Róbert: Doktorsritgerðin þín, Hreinn, fjallaði einmitt um skilyrði samræðu­félagsins eða það sem gerir það gott. Hvað kom þar fram?

Hreinn: Þetta er nú raunar mjög einfalt og þarf ekki heila doktorsritgerð til að komast að því, en ef ég man þetta rétt þá er lykilatriðið bara virðing fyrir mönnum og málefnum. Með öðrum orðum þá kemur eitthvað upp og það þýðir ekki að ýta því út af borðinu vegna þess að Jói „bekkjarfífl“ hefur þessa skoðun. Þú hvorki virðir manneskjuna né málefnið með því að stimpla svona fyrirfram.

Róbert: Það hlýtur þó að vera eitthvað meira.

Hreinn: Svo eru til ýmis tæknileg skilyrði. Þú þarft að tryggja næði, þú þarft að tryggja rými þar sem líkamstjáning nýtur sín og þar sem fólkið sér framan í hvert annað …

Brynhildur: … varðandi kennarann þarf hann að vera þolinmóður. Og þú verður að hafa vilja til að læra af nemendum þínum. Kennarar hafa einhvern veginn það „mentalitet“ að þeim finnst þeir verða að vita allt og menntun þeirra á einhverja sök á því. Þeir eru eins og stjórnmálamennirnir [hlær].

Hreinn: En það er dásamlegur lúxus fyrir heimspekinginn að geta spurt spurningar og vita það sjálfur að hann veit ekki svarið.

Róbert: Ég upplifi það þannig að það sé nákvæmlega þetta sem kennarar eru hræddastir við.

Brynhildur: En mér finnst það vera þetta sem gerir þessa kennslu svo æðislega, það að upplifa svona vá-móment, „ég hafði aldrei hugsað út í þetta fyrr, þið eruð virkilega búin að opna dyr hérna fyrir mér“. Það finnst mér æðislegt að upplifa í kennslunni.

Hreinn: Dásamlegustu eða bestu ummælin sem mér hefur verið hugsað til um mína kennslu komu frá nemanda mínum í sjónvarpsviðtali. Hann var beðinn um að bera saman Heimspekiskólann og venjulega skólann og hann sagði: „Sko, hérna í Heimspekiskólanum þá getur maður aldrei verið viss um hvort kennarinn hefur rétt fyrir sér.“ Þetta situr í mér.

Brynhildur: Og hvað gerist þá, nemandinn verður sjálfur að fara að hugsa, hann verður sjálfur að búa til sína eigin vissu, er það ekki? Er það ekki það sem er ætlast til?

Róbert: Jú, jú. En ég spurði ykkur um skilyrði samræðufélagsins.

Brynhildur: Við neitum að svara spurningunni [hlátur].

Róbert: Ef ég myndi reyna að þvinga ykkur, snúa upp á hendina á ykkur, þurfið þið ekki að segja eitthvað um rök eða hvernig maður umgengst rök og hugsanir? Þarf maður ekki að færa einhver rök fyrir máli sínu, þarf maður ekki að hlusta á aðra og þarf ekki að orða eitthvað af þessu við nemendurna? Það er ekki nóg að bera bara virðingu fyrir fólki.

Hreinn: Ef þú berð ekki virðingu fyrir samstúdentum þínum eða bekkjarfélögum, þá verður allt annað svo miklu erfiðara. Þetta er hluti af einhverju stóru ferli og eins og ég var að teikna upp á myndinni þá eykst virðingin eftir því sem samræðufélaginu vex fiskur um hrygg og þá verður svo margt annað svo miklu auðveldara. En hvernig þú ferð nákvæmlega að þessu? Lipman er með grunn­uppskrift en hans áhangendur hafa gjarnan sagt að hún sé bara eins og stofn að morgunverði eða stofn í ísbúð, það eru til ótal bragðtegundir en hann er bara með grunnþættina og grunnþættirnir eru að lesa, leita og ræða, en þú verður auðvitað að byrja með áreiti. Allt er þetta viðleitni til að skapa reynslu, þú ert svona reynsluhönnuður. Og Lipman er auðvitað líka með langtímasýn á þetta og líka þversnið. Við erum hér og nú, það er þversnið á reynsluna, það er eitthvað sem er að gerast hér, verður til og myndast á staðnum. Og stundum freistast kennarar til að vera alfarið bara í þversniðinu og gleyma langtíma­markmiðinu sem fæst með því að spyrja: til hvers erum við að þessu, hvert stefnum við?

Róbert: Til hvers erum við að þessu?

Hreinn: Við erum að þessu til að undirbúa virka þátttöku í lýðræðissamfélagi. Það að geta tjáð skoðun sína með rökvissum hætti. Þetta er spurning um völd. Eins og við sjáum til dæmis í stjórnmálunum á Íslandi þá eru það orðhákarnir sem hafa völdin, en þeir hafa ekki völd vegna þess að þeir séu að kanna möguleika eða að skoða rök eða eitthvað þess háttar. Þeir hafa völd vegna þess að sumir eru duglegri en aðrir að tala fólk í kútinn og þeir nota öll trix sem til eru í bókinni til þess.

Brynhildur: Ég var lengi mjög upptekin af þessu að reyna að setja niður lista: hvað á ég að gera til að kenna heimspeki, til að ná upp samræðu? Og um leið og maður byrjar að gera þetta: færa rök fyrir máli sínu, ekki grípa fram í, horfa á þann sem er að tala – listinn verður óendanlegur. Þegar ég byrja með hóp á haustin þá býr hópurinn sjálfur til fjórar reglur. Og ég segi: „Við þurfum að hafa einhverjar reglur um hvernig við tölum saman til að við getum skipst á skoðunum.“ Ég legg upp eitthvað og hóparnir hafa alltaf, alltaf, alltaf búið til mjög skynsamlegar reglur, nema einn hópurinn [kímir], ég varð að taka út eina regluna. Sú regla að „hlusta á þann sem er að tala“, kemur alltaf, „segja skoðun sína“, kemur langoftast. Síðan eru tvær til þrjár í viðbót, eitthvað um virðingu og mjög oft kemur án þess að ég biðji um það eitthvað sem segir að kafa á dýptina, „ekki hjakka í sama farinu“, „ekki endurtaka sig“, eitthvað af þessu. Og ef þú ert kominn með þetta, hlusta, tala og dýpka umræðuna, ekki hjakka, þá geturðu gert mjög marga hluti. Svo skiptum við bara út reglum. Ef okkur finnst óþarfi að vera að minna okkur á að við eigum að hlusta á hina af því að það er hlustun í gangi, þá tökum við upp eitthvað sem er vandamál. Maður þarf ekkert mikið í hendi ef þessi grundvallaratriði sem Hreinn nefndi eru til staðar, við berum virðingu hvert fyrir öðru og við viljum læra saman, við berum virðingu fyrir málefnunum sem við ákveðum að taka inn. Eina reglan sem ég hef beinlínis bannað var „þetta er keppni“. Við vorum búin að prófa í þrjár vikur þegar ég bannaði hana.

Róbert: En þú hefur ekki bannað þessa reglu strax?

Brynhildur: Ég leyfði það í nokkrar vikur og það gekk ekki. Það braut niður samræðuna, af því að nokkrir nemendur hugsuðu bara: „Ég verð að hafa rétt fyrir mér, að hafa hæst og tala mest og þá verð ég sigurvegarinn þegar tíminn er búinn.“ Svo gengu þeir um: „Já, ég vann, ég vann.“ Og þetta gekk ekki.

Róbert: Þannig að þið hafið í raun gert rannsókn á því að stjórnmálaumræða virkar ekki.

Brynhildur: Já. Sem endaði með því að ég bara með algeru einræði afmáði regluna og þurfti náttúrlega að fást við fýluna sem kom upp í kjölfarið mánuðum saman [hlær]. Hópurinn beið þess líklega aldrei bætur. Ég var of óþolinmóð til að bíða eftir að þau leiðréttu sig sjálf og ég hafði áhyggjur af því að þau myndu ekki leiðrétta sig af því að það var svo mikið valdaójafnvægi í hópnum. Ég hafði áhyggjur af því að höfðingjarnir myndu aldrei sleppa hendinni af völdunum. Þannig að þess vegna tók ég af skarið.

 

Gagnrýni á aðferð Lipmans

Róbert: Brynhildur, þú nefndir áðan Oscar Brenifier, en hann hefur verið áberandi a.m.k. á síðustu misserum og hann var til að mynda á ráðstefnunni „Thinking Aloud“ hérna á Íslandi í fyrra (2009). Hann hefur gagnrýnt Lipman-samfélagið opinskár en flestir, að ég tel. Mig langar að nefna nokkra punkta úr grein eftir hann sem finna má á heimasíðu hans, www.brenifier.com, og fá viðbrögð ykkar. Hann segir m.a. að lestur sem kveikja sé leið til þess að fólk lesi illa, beri ekki virðingu fyrir textanum og höfundinum. Þannig sé textinn ekki alvörutexti, heldur leikfang. Hann sé bara notaður til að fá einhverjar umræður, en það sé enginn sérstakur áhugi á því sem höfundurinn er að segja og ekki sé tekist á við höfundinn sjálfan.

Brynhildur: Ég held að þetta gæti verið réttmæt gagnrýni á ákveðna úrvinnslu. Segjum sem svo að ég taki fyrsta kaflann úr Uppgötvun Ara eftir Lipman, nemendur lesa og það koma 25 spurningar og þetta er raunhæft dæmi, þetta gerist iðulega. Og við veljum okkur spurningar sem nemendum finnst áhuga­verðar og byrjum samræðu. Ég veit alveg að mér tekst ekki alltaf að halda tengingu við textann, samræðan fer af stað og við gleymum textanum. Og ég get ímyndað mér að það sé svona úrvinnsla sem Oscar kallar þá virðingarleysi eða kæruleysi gagnvart textanum, af því að í þessu tilfelli er ég að nota textann bara sem stökkbretti. Textinn kemur okkur af stað en ég nota hann lítið sem ekkert meira.

Róbert: Ég ímynda mér þá að hann sé að tala um þetta sem slæma menntun varðandi það hvernig maður umgengst texta. Hreinn: En það er einmitt þannig að við hvetjum nemendur til að taka eftir því ef þeir hnjóta um eitthvað sem þeir skilja ekki eða vilja taka undir. Og ég hefði haldið að heimspekin stuðli að dýpri lesskilningi nemenda enda hafa rannsóknir sem gerðar hafa verið með saman­burðarhópum sýnt að nemendum fleygir fram í lestri (sjá m.a. Philosophy in the Classroom [eftir Lipman, Sharp og Oscanyan, Temple University Press, 1980, bls. 217–224], um Newark- og Pompton Lakesrannsóknina). Hvernig skýrir maður það? Ég held að það hafi ekki verið skýrt neitt sérstaklega, en mér hefur dottið í hug að það sé í fyrsta lagi það að við veitum öllum aðgang að textanum. Við veljum ekki góðu lesarana til að lesa löngu efnisgreinarnar og slæmu lesarana til að lesa þegar þær eru stuttar, við veitum öllum jafnan aðgang að textanum og við hvetjum alla til að spyrja um það sem þeir skilja ekki.

Brynhildur: Það er til fyrirbæri sem heitir gagnvirkur lestur. Þetta er lestrar­kennsluaðferð sem er notuð til að kenna krökkum að lesa námsefnið til skilnings. Það sem Lipman segir okkur að gera, að spyrja út í textann, er lykilatriði í gagnvirkum lestri. Gagnvirkur lestur gengur út á að lesa kafla og stoppa og spyrja, spá í hvað kemur næst; lesa næsta kafla, stoppa og spyrja: „Hvað skildi ég, hvað var ég að lesa, er eitthvað sérstaklega athyglisvert?“ Og þetta er það sem Lipman kennir manni.

Róbert: Þegar við segjum að nemendur batni í lestri þá eigum við ekki bara við að þeir séu fljótari að lesa, heldur að þeir skilji betur það sem þeir eru að lesa?

Hreinn: Já, lesskilningurinn batnar.

Brynhildur: Mér finnst það augljóst. Ef þú lest lestrarfræðingana og lest Lipman eða kennsluleiðbeiningar með barnaheimspekinámsefninu þá er verið að kenna sömu aðferðina.

Róbert: Svo er annað sem Oscar gagnrýnir, það er tjáningin. Hann segist ekki hafa haft reynslu af Lipman áður en hann fór á ráðstefnu í Varna í Búlgaríu árið 2003. Hann var einnig hérna í Reykjavík í fyrra og hann var með svipaða gagn­rýni á samræðuna sem fram fór á þessum ráðstefnum, þetta hafi bara verið fólk að tjá skoðanir sínar agalítið og að mestu án rökstuðnings.

Hreinn: En samt, ef hann hefði fengið hóp af einhverjum grunnskólakrökkum sem hefðu ekki haft þessa þjálfun þá leyfi ég mér að efast um að þau hefðu getað skipst á skoðunum. Það sem þarna átti sér þó stað var að þau skiptust á skoðunum eða settu fram skoðanir með skipulögðum hætti. Eftir að þau hafa fengið grunnþjálfunina, þá geta þau gert það. En hóaðu í einhverja dæmigerða 12, 13, 14 ára krakka og segðu þeim að setjast niður og ræða eitthvað og skiptast á skoðunum.

Brynhildur: Það að gagnrýna svona ráðstefnusýnishorn finnst mér varhugavert, af því að ég hef ekki enn séð það heppnast mjög vel. Ég væri bara sammála honum í gagnrýninni á þessa tilteknu samræðuhópa eða tilfelli, og ég var við­stödd báðar ráðstefnur. Oscar er þarna að gagnrýna slæma útgáfu af samræðu og óþroskaða, þar sem kennarinn á að vera að stýra en gerir það ekki.

Róbert: Svo segir Oscar líka að kennsluleiðbeiningarnar séu óþarfar fyrir þá sem kunna að tala heimspekilega. Og þeir sem ekki kunni þetta læri það ekki af svona leiðbeiningum, þeir bara klóri sér í hausnum yfir þessu.

Hreinn: Það er mikið til í þessu. Mörgum sem sjá þessar umfangsmiklu leiðbeiningar frá Lipman og félögum blöskrar og halda að þetta sé allt saman fyrirfram skilgreint og fyrirfram ákveðið. En ég lít svo á að samningin á þessum leiðbeiningum séu viðbrögð Lipmans við því að hefðina skortir í kennaramenntun á allri heimspeki. Þetta er hans leið til að koma heimspekinni á framfæri við kennarana sem ekki hafa þennan bakgrunn í heimspeki. Tekið er fram að það eru x-margar hugmyndir leiðandi í hverjum texta, en það er ekkert víst að þær komi allar upp hjá þér þegar þú fjallar um þetta. Svo eru verkefni með spurningum, en það er ástæðulaust fyrir þig að klára verkefnið, þú notar kannski eina, tvær eða þrjár spurningar og sérð hvert samræðan leiðir þig. Þannig að þetta er miklu meira til stuðnings en til að byggja á. Mér fannst alltaf gott að byrja á því að blaða í þessu og vera með það á tæru hvað var í kaflanum eins og sett var þarna fram. Í hverjum einasta tíma nánast komu upp einhverjar pælingar sem tengdust engu af þessu sem var í leiðbeiningunum og vonandi verður það þannig áfram.

Brynhildur: Ég er ekki sammála því að leiðbeiningarnar séu algerlega tilgangs­lausar. Sjálf hef ég ekki verið dugleg að nota þessa þykku stóru leið­beiningapakka Lipmans, en maður á heldur ekkert að gera það. Maður notar brot úr þeim. Ef maður er að kenna í samræðu þarf maður að vera tilbúinn í verkefnið eins og öll önnur verkefni og það að vera tilbúinn í samræðu er að vera tilbúinn að grípa hugmyndir, hafa einhverja sýn á hvað gæti komið upp. Það er það sem þessar leiðbeiningar hjálpa manni með. Ég er ekki að segja að maður eigi að sitja með 700 blaðsíður á hnjánum og hrópa: „Bíðiði á meðan ég fletti þessu upp í efnisyfirlitinu.“ Þetta virkar ekki þannig.

Hreinn: Það myndi ganga þvert gegn kennslufræðinni á bak við þetta. Maður á ekki að nota verkefni úr þessu nema það tengist því sem nemendur vilja tala um. Brynhildur: En tökum dæmi af kennara sem vill tileinka sér aðferðina, vill komast inn í heim heimspekilegrar samræðu, en hefur ekki stundað heim­spekinám. Fyrir hann eru þessar kennsluleiðbeiningar fjársjóður, af því að þær opna spurningar. Þetta eru spurningalistar og þú notar þá sem slíka. Þar að auki eru flottar kennslufræðilegar leiðbeiningar í möppunum líka.

Róbert: Oscar segir einmitt að Lipman-hreyfingin sé of kennslufræðileg.

Brynhildur: Ég myndi nú ekki segja um Lipman sjálfan og hans kynslóð að þau væru of kennslufræðileg. Þegar ég var í námi hjá Lipman og félögum í Montclair kvartaði ég oft yfir því að kennslufræðin væri ekki nógu skýr. Aftur á móti hef ég séð skýrari og heildstæðari kennslufræðilegar leiðbeiningar í námsefni og á námskeiðum hjá breskum og áströlskum barnaheimspekingum. Þeim hefur tekist að tala um heimspekina á skólamálinu. Ég held að það hafi þann kost að það talar til þeirra kennara sem við þörfnumst til að koma heimspekinni út í skólana.

Róbert: Áttu við að það sé ekki nóg að það séu allt topp heimspekingar sem sinni þessu, það muni aldrei ganga?

Brynhildur: Ég held að það séu miklu fleiri sem geta þjálfað nemendur í samræðu heldur en bara heimspekingar.

Hreinn: En ég upplifði það tiltölulega sterkt þegar ég byrjaði á þessu eftir 1980 að það væri gagnkvæm fyrirlitning á milli kennslufræðinga og heimspekinga. Kennslufræðingarnir sögðu: „Hvað viljið þið upp á dekk hérna í kennslumálum, þið sem eruð þarna jarðsambandslausir í ykkar fílabeinsturni?“ Svo litu heim­spekingarnir niður og sögðu: „Guð minn góður, hvílík óreiða, fólk bara hugsar ekki heila hugsun og hvar er hausinn, það er enginn haus meðal þessara kennara ykkar.“ Ég fer þarna í kennaradeild við Michigan State University og skrifa ritgerðina og við töluðum um það leynt og ljóst að ég væri í brúarvinnu á milli heimspeki og kennslufræða.

Róbert: Loks talar Oscar um að það sé ákveðinn átakaótti eða átakaflótti í aðferð Lipmans sem endurspeglist svo í Lipman-hreyfingunni. Oscar telur að í aðferðinni sé of mikil áhersla á samlyndi. Hann gengur svo langt að líkja ástandinu við úthverfi bandarískra borga þar sem allir eigi eins hús og eins garð og enginn megi vera öðruvísi. Hann segir hættuna þá að þannig verði samræðufélagið: það sé engin róttækni leyfð og fólk passi sig öðru fremur á að styggja engan.

Brynhildur: Ég held að þetta sé mikilvæg gagnrýni. Ég held að þetta sé hætta, af því að þegar maður fer að tala um virðingu fyrir mönnum sérstaklega þá held ég að margir mistúlki það sem svo að ég sýni þér virðingu með því að segja aldrei styggðaryrði og passa að þú komist ekki í uppnám. En ég var að tala um það áðan að það er í samræðu sem ég kemst í uppnám, eitthvað hefur tilfinningalega áhrif á mig, jákvæð og neikvæð. Að mínu mati snýst góð samræða um að leyfa þessu að koma upp og vinna úr því, meðal annars. En ég held að margar manneskjur séu svo hræddar við uppnám, hræddar sjálfar við að komast í uppnám, hræddar við að hafa manninn við hliðina á sér í uppnámi, að þær forðist slíkar samræður. Þess vegna er höfuðáhersla lögð á að við skulum vera vinir hérna, ekki verða of æst, ekki vera reið og að við hljótum að geta gert gott úr þessu. – Ég held að það sé ákveðin hætta við samræðuna að hún sé mistúlkuð á þennan hátt.

Róbert: Heldurðu að það sé sérstök hætta á þessu í samræðufélaginu eins og Lipman setur það upp?

Brynhildur: Ég vil sjá samræðufélag inni í öllum skólastofum og þá verð ég að hugsa um hvernig allt fólkið inni í öllum stofunum bregst við aðferðinni. Og ég veit að mjög margir inni í öllum þessum stofum eru viðkvæmir og finnst óþægilegt að komast í uppnám í kennslustund og það á eftir að verða fyrirstaða.

Viðtalið birtist fyrst í  Hug – tímariti um heimspeki 
22 / 2010, og er birt með góðfúslegu leyfi ritstjóra.