Siðferði og siðaboðskapur

Gagnrýnin hugsun og siðfræði: hugtök sem oft eru spyrt saman í umræðum um mikilvægi kennslu í hvoru tveggja. Sumir efast um þessa samþættingu og vilja gera skýran greinarmun þarna á milli. Þeir sem líta svo á að gagnrýnin hugsun sé í raun og veru það sama og vísindaleg hugsun eru þeirrar skoðunar að gildin sem siðfræðin er órofa tengd eyðileggi hlutleysi slíkrar hugsunar. Og þeir sem sjá gagnrýna hugsun fyrir sér sem nokkurs konar svar við vísindalegri og tæknilegri heimsmynd telja að siðfræðin sé full máttvana félagi í þeirri baráttu. Siðfræðin sé í raun of boðandi grein sem standi í vegi fyrir gagnrýnum hugsunarhætti. Gildi hennar byggist á hugmyndafræði sem einnig þurfi að gagnrýna og að lokum breyta. Bæði þessi viðhorf styðjast við of takmarkað sjónarhorn á gagnrýna hugsun og siðfræði og samband þessara greina. Þegar betur er að gáð kemur í ljós að hvorug greinin getur án hinnar verið – né má það.

Sem siðferðisverur lifum við og hrærumst í siðferðilegum veruleika sem felur í sér margvísleg gildi og viðmið sem geta verið ólík á milli samfélaga. Þessi veruleiki kemur skýrt fram í tengslum við ákveðnar athafnir sem tengjast tímamótum í lífi einstaklinga. Má þar nefna athafnir í kringum nafngjöf, þegar barnæskan er kvödd, við hjónavígslu og andlát. Lengi var það viðtekin skoðun að athafnirnar sýndu fram á hversu afstætt siðferðið væri og að það byggðist aðeins á hefðum og venjum. Við nánari skoðun hafa þó æ fleiri sammælst um að ákveðinn sameiginlegur grundvöllur endurspeglist í hinum mismunandi birtingarmyndum siðferðisins sem slíkar athafnir eru. Virðing fyrir hinum látnu geti til að mynda bæði birst í því að koma viðkomandi úr augsýn sem fyrst, eins og við þekkjum hérna á Vesturlöndum, og því að hafa líkið lengi til sýnis eins og þekkist í ákveðnum samfélögum.

Gagnrýnin hugsun virðist því í fyrstu vanmáttug þegar kemur að siðaboðskapnum sem óhjákvæmilega fylgir þeim siðum, venjum og hefðum sem myndast í samfélögum í kringum athafnir sem hér hafa verið nefndar. Þegar betur er að gáð kemur mikilvægi hennar hins vegar berlega í ljós. Ef fylgst er með slíkum athöfnum með ógagnrýnum huga er óhjákvæmilega margt sem stingur í augun. Okkar eigin menning og lífsskoðanir byrgja okkur sýn svo við einblínum á það sem er augljósast en horfum framhjá þeim djúpstæðu viðhorfum sem athafnir byggjast á. Vitanlega kann að vera að á bak við athafnir búi einkennileg viðhorf. Umskurður á stúlkubörnum víða um heim er dæmi um „athöfn“ sem með réttu sætir harðri gagnrýni. En slík gagnrýni er einmitt yfirleitt sett fram að vel athuguðu máli og er ekki aðeins sprottin af vanþóknun á ferlinu sem slíku. Það er með beitingu gagnrýninnar hugsunar sem ljósi hefur verið varpað á hversu fátækleg rök eru fyrir umskurðinum og hversu takmörkuð sú lífsskoðun er sem liggur þar að baki. En jafnframt hefur með beitingu gagnrýninnar hugsunar verið sýnt fram á að falleg hugsun, um það hversu dýrmætt hvert líf er, býr að baki mörgu því sem virðist ógeðfellt í fyrstu.