Siðfræði

Siðfræðin fjallar um siðferði; um rétt og rangt, gott og illt, réttmæti athafna og ákvarðana. Siðfræði er þó ekki eingöngu lýsandi, það er að segja hún lýsir ekki bara siðferðilegri hegðun manna. Hún getur þó gert það og stundum tekst henni hvað best upp þegar dæmi hennar eru í skýrum tengslum við þann veruleika sem henni er ætlað að tala til, ef svo má að orði komast. Siðfræði er þverfagleg grein í þeim skilningi að hún þarf alltaf að taka tillit til þess veruleika sem henni er beitt á og þekkingar okkar á honum. Mikilvægi hennar hefur til dæmis komið berlega í ljós í heilbrigðisvísindum og umönnunargreinum. Á síðari árum hefur svo hlutverk hennar og möguleikar komið betur í ljós í öðrum greinum, eins og til dæmis viðskiptafræði. Má segja að hún hafi blómstrað á þeim sviðum þar sem nálægð fólks með mismunandi hagsmuni og bakgrunn er mikil og þar sem skaði og vanlíðan getur hlotist af óvarkárri breytni. Að því leyti er siðfræði ekki einkamál sérstakra siðfræðinga því siðferðileg álitamál geta krafist mikillar fagþekkingar í ólíkum greinum. Slík fagþekking getur jafnvel verið mikilvægari en þekking á siðfræði þegar leysa þarf ágreining sem kemur upp á yfirborðið – þó svo að hann sé augljóslega af siðferðilegum toga.

Að einu leyti er þó siðfræði ávallt laus við að vera háð fagþekkingu mismunandi greina. Siðfræði er rökræða um það siðferði sem hefur fengið að þróast og tekið sér bólfestu, hvort heldur er á vinnustöðum, innan fagstéttar eða í samfélaginu í heild. Fagþekking er ávallt byggð á því verklagi sem er viðurkennt á hverjum tíma. Það er hin siðferðilega hlið fagmennskunnar sem kallar á að þetta verklag sé í stöðugri endurskoðun, enda hefur slík krafa oft fastan í sess í siðareglum starfsstétta. Á hverjum tíma þarf að fara fram öflug og lífleg umræða um þau gildi sem starfið skal hafa í heiðri og þær væntingar sem skjólstæðingar eða viðskiptavinir geta haft til fagfólksins. Siðfræðin gerir slíka umræðu mögulega þar sem hún verður fremur bitlaus ef ekki hefur farið fram rökræða milli fulltrúa mismunandi sjónarmiða um hvert skuli stefna. Hlutverk siðfræðinnar er því ávallt býsna snúið. Annars vegar er henni ætlað byggja á því siðferði sem þegar hefur fest sig í sessi og hins vegar að vinna gegn óæskilegu siðferði. Það er ekki síst í þessari togstreitu sem mikilvægi gagnrýninnar hugsunar fyrir siðfræðina verður hvað augljósast.

Þá vaknar raunar sú spurning hvað rökræða sé, ef siðfræði er rökræða um siðferði. Er hún til dæmis í eðli sínu frábrugðin kappræðu? Formlega séð er greinarmunur rökræðu og kappræðu skýr: Í rökræðu leitast menn við að skilja málefnið og komast að því sem er satt og rétt – í kappræðu leitast menn við að sannfæra aðra um að sín rök og málstaður sé í alla staði betri. Staðreyndin er hins vegar sú að það getur reynst harla erfitt að skera efnislega úr um það í einstökum tilfellum hvort menn eru að rökræða eða kappræða. Einn helsti vandinn er sá að saga vestrænnar hugsunar, ekki síst þróun siðfræðinnar, færir okkur margs konar dæmi um mikilvæga hugsun sem getur strangt tekið ekki flokkast sem rökræða eða hluti rökræðu. Jafnvel Sókrates, sem við horfum gjarnan til sem föður vestrænnar heimspeki, átti það til að styðjast við skapandi líkingamál fremur en rökfærslur til að sannfæra viðmælendur sína. Mælskulist var því eitthvað sem hann brá fyrir ekki síður en rökræðu. Margir fleiri höfundar koma upp í hugann þegar leitað er að dæmum þar sem grundvallaratriði í heimspeki eru sett fram án stuðnings nokkurs sem getur kallast heimspekileg röksemdafærsla.

Í þessu sambandi er gott að hafa tvennt í huga. Annars vegar hefur heimspekinni ávallt fylgt margs konar skapandi tungutak og ýmsar leiðir til að koma hugmyndum í orð. Þau tengsl sem margir sjá milli heimspekilegrar hugsunar og rökfræði eru stundum orðum aukin. Allar heimspekilegar hugmyndir verða hins vegar að standast þau próf sem rökleg og gagnrýnin hugsun setur þeim því að endingu verða þær brotnar til mergjar. Þótt rökræður séu ekki uppspretta allra hugmynda eiga hugmyndirnar vonandi eftir að koma fyrir í slíkum samskiptum. Heimspekilegar hugmyndir hafa tilhneigingu til að stangast á við aðrar hugmyndir sem áður hafa komið fram. Seinna atriðið sem við ættum að hafa í huga er að það er ekki rökræðan – siðfræðin – sem slík sem ræður því hvort eitthvað er rétt eða rangt, gott eða illt, eða hvort athafnir og ákvarðanir eru réttmætar. Hinn siðferðilegi veruleiki ræðst ekki af hugsunum okkar eða orðræðu. Líkt og hagfræði stjórnar ekki grundvallarlögmálum efnahagslífsins og málfræði sem slík ákvarðar ekki hvaða tungutak sé skiljanlegt, þá er það ekki hlutverk siðfræðinnar að stjórna hinum siðferðilega veruleika. Óheilindi eru röng; ekki vegna þess að rökræða hafi leitt í ljós þá staðreynd heldur vegna þess að veruleikinn sem rökin vísa í er þess eðlis.