Siðferðileg afstaða

Flest fólk er sammála um að sú iðja að ljúga upp á fólk sé siðferðilega ámælisverð. Afsakanir um að tilgangurinn hafi helgað meðalið eru ekki teknar gildar, hversu sannfærandi sem þær kunna að vera í fyrstu. Annaðhvort hefur fólk gert eða sagt eitthvað eða ekki. Lauslegur grunur um að viss skoðun sé uppi dugir ekki til þess að við getum fullyrt að einhver hafi hana. Sú rökvilla sem kennd er við fuglahræðu, það er að segja að gera einhverjum upp skoðanir eða rangtúlka orð hans viljandi, er því talin hafa siðferðilega vídd. Það sama má raunar segja um fleiri rökvillur. Persónurök, eða persónuníð, kemur þar strax upp í hugann. Fáar rökvillur koma eins oft fram í opinberri umræðu. Sú villa er vissulega ekki þess eðlis að verið sé að ljúga einhverju upp á fólk, en það ber ekki merki um heilindi að draga inn í umræðu atriði sem eingöngu tengjast persónu einhvers en koma málefninu annars ekki við. Sérstaklega er það ámælisvert ef ætlunin er bókstaflega að draga athyglina frá umræðuefninu sjálfu. Aðrar rökvillur byggjast á kæruleysi í hugsun fremur en vilja til að valda einhverjum skaða. Sem slíkar tengjast þær engu síður hinum siðferðilegu atriðum. Sá skaði sem þær valda er jafnraunverulegur.

Gagnrýnin hugsun er í senn ákveðin afstaða og færni sem maður temur sér – hún er hæfni. Í henni felst ákveðin skuldbinding um að maður ætli sér að vera í samfélagi við sannleikann, svo gripið sé til hátíðlegs orðalags. Því er siðferðileg afstaða fólgin í þeirri skilgreiningu að gagnrýnin hugsun sé tegund hugsunar sem fellst ekki á neina skoðun, eða fullyrðingu, nema hafa rannsakað fyrst hvað í henni felst og fundið fullnægjandi rök fyrir henni. Sjálfsagt er auðveldara að taka ekki svo einarða afstöðu. Enda er það sú leið sem margir velja. Siðferðileg afstaða birtist hins vegar ekki síst í því að við veljum ekki að feta þá slóð sem liggur beinast við. Það er rangt að siðfræði snúist aðeins um illvirki og spillingu. Eins og þegar hefur verið drepið á getur kæruleysi og hugsanaleti leitt til þess að stríkki á böndum samfélagsins. Siðferðileg afstaða felst því í að efla persónulega hæfni sína, en það gerum við meðal annars með því að axla ábyrgð á eigin skoðanamyndun, yfirvega eigið gildismat og annarra og gera okkur grein fyrir þeim þáttum sem móta hugsun manns og dóma.