Álitamál

Við eigum sjaldnast í erfiðleikum með að greina ámælisverða breytni. Flest viljum við að fólk komi fram við aðra af virðingu og tillitssemi. Ill meðferð á börnum er dæmi um breytni sem fólk sameinast um að fordæma. Raunar má segja að flestir fréttatímar fjalli um eitthvert efni sem við sameinumst um að fordæma á einn eða annan hátt. Ofbeldisverk og ójöfnuður vekja með okkur sterka andúð sem brýst út í fordæmingu. Þar sem svo oft er um að ræða alvarlega atburði veltum við sjaldan fyrir okkur mismunandi hliðum á hverju máli en leyfum geðshræringunni að ráða við skoðanamyndun.

Fordæmingar eru hins vegar fjarri því að vera hluti siðfræðinnar. Ef þær tengjast henni yfirleitt þá er sú tenging mjög lausleg. Verkefni siðfræðinnar er að bera kennsl á margs konar álitamál sem koma fram í samfélagi fólks, hvort sem það er í einkalífinu, á vinnustað eða opinberum vettvangi. Gagnrýnin hugsun leikur lykilhlutverk í því að greina þessi álitamál. Þau spretta sjaldnast fullsköpuð fram í orðræðunni. Öðru nær; stundum þarf að hafa mikið fyrir því að afhjúpa siðferðileg álitamál þó að þau séu ekki ný af nálinni. Gagnrýnin hugsun leikur svo einnig lykilhlutverk í því hvernig við leysum slík ágreiningsmál. Í flestum slíkum málum þar sem fólk er á öndverðum meiði telur það sig vera að breyta rétt, eða að minnsta kosti án nokkurs ills ásetnings.

Vandamálið er að í hvert sinn sem við gerum skyldu okkar eða fylgjum fram réttindum okkar er eins víst að hvort tveggja rekist á aðrar skyldur og réttindi. Það sama á við um þau gildi sem við setjum í öndvegi í lífi okkar. Þau geta stangast á og orðið til þess að erfið álitamál koma upp. Innviðir siðferðisins, ef svo má að orði komast, eru ákaflega aðstæðubundnir og oft er ekki möguleiki á að taka tillit til þeirra allra í einu. Bókmenntir varpa stundum betra ljósi á þessa togstreitu en siðfræðin gerir ein og sér. Fjölskylduharmleikir þar sem skyldur við foreldra og börn togast á eða samfélagsórói þar sem réttur til einkalífs togast á við kröfur um öryggi og eftirlit – allt er þetta efniviður í merkustu bókmenntaverk sögunnar. En frásagnirnar einar og sér missa að lokum marks ef skilning á siðferðilegum lykilhugtökum skortir og engar gagnrýnar spurningar eru settar fram.

Hér er þó ekki verið að gefa í skyn að siðferðileg álitamál þurfi öll að vera sérstaklega dramatísk. Mörg þau lágstemmdari eru einmitt áhugaverðust og kalla ekki síður á gagnrýna hugsun, enda tengjast þau einnig siðferðilegum gæðum. Þar má til dæmis nefna vináttuna. Þessi gæði þarf að rækta en stundum vill brenna við að margs konar áhrif komi í veg fyrir að við sinnum vináttunni sem skyldi. Við slíkar aðstæður, þar sem til dæmis koma við sögu tveir möguleikar sem velja þarf á milli, skiptir máli að geta greint þessi áhrif og forðast að taka afstöðu án tillits til þeirra verðmæta sem mikilvægust eru, eins og vináttan hlýtur að vera dæmi um. Gagnrýnin hugsun getur nýst til að forgangsraða í lífinu og velja þá hagsmuni sem skipta í raun mestu máli. Það er því algengur misskilningur að fólk beri aðeins skaða af samskiptum sínum við annað fólk vegna illvilja, ofbeldis eða spillingar. Hirðuleysi og kæruleysi í mannlegum samskiptum, þar sem fordómar og hjarðlyndi fá að leika lausum hala, er ekki síður mikill orsakavaldur.