Innsæi, samviska og réttlætiskennd

Líklega er það tálsýn að við getum losnað fullkomlega undan löngunum, hvötum, tilfinningum, skaplyndi og geðþótta. Sem siðferðisverur stjórnumst við kannski ekki fyrst og fremst af skynseminni. Margs konar innri öfl og hvatir reka okkur áfram í siðferðisefnum. Þrjú slík öfl eru líklega þeirra kunnust en þau eru samviskan, siðferðilegt innsæi og réttlætiskenndin. Hver kannast ekki við að nagandi samviskubit fái mann til að hugsa sig tvisvar um? Eða að munurinn á réttu og röngu renni upp fyrir manni án röklegrar íhugunar? Eða þá að maður logi innra með sér vegna augljóss óréttlætis?

Öll þessi öfl hafa heimspekingar og aðrir fjallað um undanfarin árþúsund af mikilli dýpt og væri fjarstæða að láta sem mikilvægi þeirra fyrir heimsmynd okkar fari þverrandi. Vissulega má segja að samviskan eigi sér trúarlegar rætur og hafi ekki sömu þýðingu í samtímanum og áður. Stundum er meira að segja látið í veðri vaka að samviskubit sé ekkert annað en leifar frá þeim tíma er andleg yfirvöld reyndu að stjórna lífi fólks með því að halda fram dygðum sem þeim voru þóknanlegar. Vinnusemi gæti verið dæmi um slíka dygð. Einhver kynni að vilja bæta því við að innsæi og réttlætiskennd séu fyrirbæri sem við eigum vissulega hugtök yfir en að vísindin hafi komið fram með önnur heiti yfir þau ferli sem þau lýsa og eiga sér stað innra með okkur. Mikilvægið er þó engu minna þrátt fyrir örlítið breytt hlutverk. Það er eðlilegt að lýsa fyrirbærunum með þessum hugtökum vegna þess að flest höfum við svipaða reynslu af þeim. Einnig bendir fátt til þess að við viljum losna við þau úr orðaforða okkar. Mikilvægið felur þó ekki í sér loforð um óskeikulleika. Þessi siðferðilega „innri rödd“ okkar, eins og freistandi er að kalla þessar geðshræringar, getur vel leitt okkur á villigötur. Og hún gerir það oft.

Við getum, með öðrum orðum, ekki greint svo glatt á milli hvenær okkar innri rödd er að afvegaleiða okkur og hvenær hún er í raun okkar besti áttaviti. Í þessu, eins og svo mörgu öðru, er það helst gagnrýnin hugsun sem kemur til aðstoðar. Við eigum að spyrja okkur hvort við gerum okkur grein fyrir um hvað málið snýst nákvæmlega, hvort það sem innri röddin segir stangast á við aðrar skoðanir og hvaða forsendur við höfum fyrir því sem okkur finnst rétt. Lykilatriðið er að gagnrýnin kemur alltaf eftir á. Gagnrýninni hugsun er beitt á skoðanir sem eru þegar komnar fram. Hún er því hvorki andstæða þessarar innri raddar né hefur hún það hlutverk að losa okkur við sterkar tilfinningar eins og réttlætiskenndina. Beiting skynsemi er ekki valkostur í stað tilfinninga þegar kemur að því hvernig hugsun okkar tengist hinum siðferðilega veruleika. Við þurfum á þeim að halda en okkur ber einnig að gæta þess að láta þær ekki hlaupa með okkur í gönur.