Að beita þekkingu

Til þess að líf sé þess virði að lifa því þurfa margs konar gæði að koma til. Heilsa, efnahagur og viðurkenning eru dæmi um gæði sem fólk bendir á sem grundvallarforsendur þess að geta átt gott líf. Sum gæði eru þess eðlis að þau leggja grunn að þeim leiðbeiningum sem við kennum við siðferði enda tengjast þau samskiptum fólks. Réttlæti og virðing fyrir lifandi og látnum einstaklingum eru grundvallaratriði í öllum samskiptum. Vináttan einkennir hins vegar náin persónuleg samskipti og svona mætti lengi telja. Við þurfum svo hvert og eitt okkar að vega og meta þessi gæði og þá stöðu sem þau hafa í tilveru okkar. Einnig þurfum við að greina þau frá öðrum gæðum sem þrátt fyrir að vera mikilvæg fyrir farsæld okkar þjóna engu lykilhlutverki í samskiptum fólks. Gæði menningar og lista eru til að mynda mikilvæg fyrir lifandi og áhugavert samfélag, og efnahagsleg gæði gera okkur kleift að veita sjálfum okkur og þeim sem næst okkur standa lífsviðurværi.

Þekking á heima með siðferðisgæðum enda er hún forsenda þess að hver einstaklingur geti í raun og veru notið þess sjálfræðis sem áður hefur verið rætt um og staðið á eigin fótum. Hún er því ekki dæmi um efnahagsleg gæði, eins og gjarnan er reynt að halda fram í samtímanum. Þekking er til að mynda ekki takmörkuð í tíma og rúmi, enda á hún sér strangt tekið ekki efnislegar forsendur. Sumt fólk býr vissulega yfir meiri þekkingu en annað fólk og getur notað slíka þekkingu sér til efnahagslegs framdráttar. Ekkert er athugavert við slíka hagnýtingu svo fremi að hún valdi ekki öðrum skaða. En þessi staðreynd varpar hvorki ljósi á eðli þekkingar né hlutverk. Öll gæði (jafnvel ást) má setja í efnahagslegt samhengi, en ekki er þar með sagt að kjarni þeirra fylgi með í umbreytingunni. Nær er að tala um að upplýsingar gangi kaupum og sölum. Þekkingar er þörf í öllum mannlegum samskiptum. Hún er flókið fyrirbæri og aðstæðubundið, og okkur kann að greina á um ýmislegt í sambandi við hana, en án hennar væru mannleg samskipti harla fábrotin.

Það þarf að gera skýran greinarmun á öflun þekkingar og beitingu hennar. Hlutverk gagnrýninnar hugsunar er sérstakt að því leyti að hún leikur lykilhlutverk báðum megin, ef svo má að orði komast. Við öflum þekkingar með rannsóknum, athugunum og tilgátum. Við öflum þekkingar með því að vera forvitin og full undrunar yfir þeim veruleika sem við stöndum andspænis og erum um leið sjálf hluti af. Þekkingin verður til er við yfirvegum niðurstöður okkar, hvort sem þær eru afrakstur eigin athugana eða rannsókna annars fólks, og spyrjum okkur hvort fullnægjandi forsendur séu fyrir þeim. Margs konar hugsanavillur, rökvillur og dæmi um mannlegan breyskleika geta gert það að verkum að við sættum okkur við niðurstöður sem eru ekki grundvallaðar á fullnægjandi máta. Einungis með beitingu gagnrýninnar hugsunar getum við stigið þetta viðbótarskref sem er nauðsynlegt til þess að um raunverulega þekkingu sé að ræða. En þar með lýkur ekki hlutverki gagnrýninnar hugsunar. Það er ekki síður hluti hennar að fólk spyrji sig um afleiðingar þess ef það breytir í samræmi við nýfengna þekkingu sína. Ótal dæmi í mannkynssögunni sýna okkur hvað gerist þegar ekki er gætt að því hvernig þekkingu er beitt. Þekking sem er rifin úr samhengi við stöðu sína sem mikilvæg siðferðisgæði er, þegar öllu er á botninn hvolft, varla réttnefnd þekking. Hún er ekki dæmi um að hugað hafi verið að öllum hliðum tiltekins máls.

Umfjöllunina um tengsl þekkingar og breytni má raunar taka saman á einfaldan hátt. Þjálfun í gagnrýninni hugsun gerir hvert og eitt okkar fært um að sjá í gegnum moðreykinn. Markmiðið er að láta ekki blekkjast, hvort sem það er af eigin skoðunum eða fullyrðingum annars fólks. Til þess að öðlast þessa færni þarf að læra að spyrja réttra spurninga, hafa innsýn í og geta nýtt sér fjölmarga þætti hagnýtrar rökfræði. Í vissum skilningi er verið að fá fólk til að æfa sig í að taka þátt í ákveðinni gerð rökræðu þar sem markmiðið er að sannfæra annan aðilann um að skoðun hins sé betri. Þjálfun í gagnrýninni hugsun, að láta ekki blekkjast, fylgir því óhjákvæmilega sú freisting að beita leikni sinni til að blekkja aðra. Djúpur skilningur á helstu rökvillum gerir til að mynda fólki kleift að nýta sér þær sem mælskubrögð. Og dæmin um slíkt koma reglulega upp í opinberri umræðu í vestrænum samfélögum. Gagnrýna hugsun verður því ávallt að þjálfa í nánum tengslum við ígrundun um samfélagið og réttlát samskipti við annað fólk. Helstu rökin fyrir því að samþætta kennslu í gagnrýninni hugsun og siðfræði eru þau að fólk verði að temja sér að íhuga hvernig það beitir þekkingu sinni á réttlátan máta og með virðingu fyrir viðmælendum.