Dygðir

Gagnrýnin hugsun getur aldrei eingöngu verið verkfæri eða tækni – eða leikni – til að spyrja sjálfan sig eða aðra óþægilegra spurninga. Þeir fræðimenn sem hafa þróað gagnrýna hugsun sem leikni fyrst og fremst hafa flestir áttað sig á að nemendur sem kynnast henni eingöngu sem slíkri leikni eru síður líklegir til að beita henni. Sífellt hefur farið að bera meira á hugmyndum um að þjálfun í gagnrýninni hugsun ætti að fela í sér að nemendur tileinki sér ýmsa eftirsóknarverða eiginleika í hugsun. Meðal slíkra eiginleika er að temja sér að nálgast mál með opnum huga, leyfa sér að vera spurull, vera ekki of íhaldssamur í skoðunum og sækjast eftir réttum upplýsingum. Miklu fleiri dæmi mætti nefna. Til að mynda hefur oft verið bent á að sú iðja margra fræðimanna að sveipa hugsun sína torræðum blæ sé ekki í anda gagnrýninnar hugsunar og að sá eiginleiki að vera skýr í framsetningu eigin hugsunar sé jafnvel sá sem mikilvægastur er gagnrýninni hugsun.

Innan siðfræðinnar er til hefð eða stefna sem lýsir vel mikilvægi þess að temja sér vissa eiginleika en forðast aðra. Og það er sú stefna sem hefur verið fræðimönnum um gagnrýna hugsun bæði fyrirmynd og innblástur – og er þannig enn eitt dæmið um náin tengsl hennar við siðfræði. Þessi stefna innan siðfræðinnar er svokölluð dygðasiðfræði. Samkvæmt henni eru það ekki meginreglur um hegðun eða afleiðingar breytni einar sér sem ákvarða hvað er mikilvægast að hafa í huga við siðfræðilega útlistun, heldur vega þar þyngst eiginleikar sem fólk hefur tamið sér og hvernig þeir ákvarða hegðun þess og breytni. Þessir eiginleikar eru það sem við köllum dygðir.

Flest höfum við heyrt af ákveðnum dygðum, eins og kristilegu dygðunum trú, von og kærleik og sígildu (heiðnu) dygðunum hófsemi, hugrekki, heiðarleika og visku. Slíkir listar eru ekki tæmandi og í sjálfu sér ekkert því til fyrirstöðu að tala um hina eftirsóknarverðu eiginleika hugsunarinnar sem dygðir þótt þeir komi ekki fyrir á neinum listum. Hin aristótelíska skilgreining á dygð – sem meðalhófi tveggja lasta – á ágætlega við í þessu sambandi. Þær dygðir sem hér hafa verið nefndar sem dæmi um mikilvæga þætti í gagnrýninni hugsun speglast einmitt í löstum sem við flest berum kennsl á. Líklega eru slík lastapör best til þess fallin að draga fram dygðir hugsunarinnar. Því væri ekki úr vegi að lýsa þeim í viðvörunarskyni þegar verið er að kenna gagnrýna hugsun. Þar má til dæmis vara við því hvernig þröngsýni hindrar alla rannsókn um leið og of opinn hugur hindrar okkur í að komast að niðurstöðu. Það sama má segja um þá sem spyrja aldrei að neinu og þá sem spyrja án afláts. Þar er meðalhófið best. Þá hefur hvorki oftrú né vantrú á mátt skynseminnar reynst vel við skoðanamyndun.