Hið mögulega

Gagnrýnin hugsun er tengd siðfræði órofa böndum að því leyti að markmið hennar er að kenna fólki sem skynsemisverum að breyta á réttlátan og ábyrgan hátt, til dæmis með því að forða fólki frá því að særa annað fólk í hugsunarleysi. Einn augljós eiginleiki skoðana og fullyrðinga er sá að þær hafa áhrif og eru ekki það hlutlausa verkfæri sem margir vilja vera láta. Hatur dafnar hvergi betur en í hugmyndaheimi fólks sem skeytir ekki um gagnrýna hugsun. Áhrifamiklar skoðanir í sögu mannkyns á kynþáttum og kynhneigð, svo dæmi séu tekin, hafa iðulega borið þess lítil merki að rannsakað hafi verið hvað í þeim felst, hvað þá að fullnægjandi rök hafi verið fundin fyrir þeim.

Ein mikilvæg spurning sem gagnrýnið fólk ætti að temja sér að spyrja tengist siðferðilegri hlið gagnrýninnar hugsunar. Þetta er spurningin um hvað það hefði í för með sér ef við breyttum í samræmi við skoðanir okkar. Það mætti því í raun alveg eins kalla hana „siðfræðispurningu“ gagnrýninnar hugsunar, enda snertir hún ekki bara staðreyndir heldur ekki síður hið mögulega. Henni er ætlað að fá okkur til að velta því fyrir okkur hvernig heimurinn ætti að vera. Og með því að spyrja hennar föllum við vonandi síður í þá freistni að mynda okkur einkaskoðanir, skoðanir sem við viljum síður að annað fólk api eftir okkur. Sú hugsun sem hér er reynt að draga fram er mjög í anda þýska heimspekingsins Immanuels Kant. Hann leitaðist í siðfræði sinni við að sýna fram á mikilvægi þess að við breytum ekki öðruvísi en þannig að við gætum hugsað okkur að sú breytni yrði að meginreglu í öllum mannlegum samskiptum.

Þegar rætt er um mikilvægi gagnrýninnar hugsunar er gjarnan gripið til þess að tengja hana við lýðræði. Grundvallarhugmyndin er sú að fólk sem ætlar sér að vera virkir þátttakendur í lýðræðislegu samfélagi þurfi að vera gagnrýnið í hugsun. Hugmyndin sem slík er hárrétt og mikilvægt að henni sé komið á framfæri, en hún getur þó orðið til þess að fólki yfirsést raunverulegt mikilvægi gagnrýninnar hugsunar fyrir gott samfélag. Mikilvægið er bæði einfaldara og flóknara en áherslan á lýðræðið gefur í skyn. Í vissum skilningi er mikilvægi gagnrýninnar hugsunar fyrir samfélagið svo augljóst að varla tekur að nefna það. Hegðun okkar í umferðinni getur verið dæmi um slíkt. Ökutækjum er lagt þar sem þau hindra umferð gangandi fólks og ekið inn á gatnamót þótt ljóst sé að þau komist aldrei yfir. Slíkt gagnrýnis- og hugsunarleysi, að skoða mál ekki frá öllum hliðum, hindrar bókstaflega flæði í samfélaginu og torveldar samskipti fólks. En framangreind umfjöllun um samband gagnrýninnar hugsunar og siðfræði sýnir einnig fram á hversu flókið hlutverk gagnrýnin hugsun hefur þegar kemur að því að skapa bærilegt samfélag. Án hennar leysum við hvorki siðferðileg álitamál né umgöngumst þekkinguna sem þau siðferðisgæði sem hún er. Og án gagnrýninnar hugsunar vitum við ekki hvernig á að bregðast við okkar siðferðilegu innri rödd. Gagnrýnin hugsun felur þannig bæði í sér dygðir og siðferðilega afstöðu.

Gagnrýna hugsun á ekki að þjálfa án kennslu í siðfræði. Ennþá er væntanlega margt óljóst um tengslin þarna á milli og atriði sem má árétta enn frekar. Eitt slíkt er að efling gagnrýninnar hugsunar og siðfræði bætir ekki sjálfkrafa samskipti okkar og samfélag. Hugmyndin um að þessi efling fari fram byggist ekki á svo einfeldningslegri forsendu að allir verði sjálfkrafa góðir við það eitt að beita gagnrýninni hugsun. Til að mynda er ljóst að margs konar siðferðileg álitamál munu halda áfram að koma fram hversu vel sem gengur að efla kennslu í þessari gerð hugsunar. Raunar má allt eins gera ráð fyrir að álitamálin verði fleiri við það, enda erfiðara fyrir fólk að gefa þeim engan gaum og láta sem þau séu ekki til. Hér hefur þó vonandi verið sýnt fram á hvernig greinarnar styrkja hvor aðra og eru raunar svo samtvinnaðar að þær verða ekki aðskildar. Siðfræði er ekki möguleg án gagnrýninnar hugsunar og gagnrýna hugsun verður meðal annars að þroska í átökum við hinn siðferðilega veruleika. Gagnrýninni hugsun fylgir frelsi í hugsun og þessu frelsi verður að fylgja ábyrgð, til að mynda sú ábyrgð að nota ekki leikni sína til að blekkja aðra.