Viskuleit með gagnrýnni og skapandi hugsun

Hugtök geta verið óþekk.* Það er vandasamt að fanga þau eða veiða þau í net sitt. Þau eru ekki föst í forminu heldur fljótandi og þegar einhver hefur safnað helstu þáttum þess saman rennur það í burtu, eða drýpur niður milli fingra. Oft eru tilraunir heimspekinga og annarra fræðimanna til að höndla hugtökin að­dáunarverð og þessar tilraunir kenna manni margt. En sum hugtök eru sprikl­andi kát og enginn veit hvernig best er að lýsa þeim. Þau eru sannkölluð fjör­mjólk og fjörefni hugans.

Visku má leita með ýmsum aðferðum vísinda og fræða, sagna og skáldskapar. Það getur verið tölfræði, rökfræði, athugun, könnun. Það getur falist í því að keyra saman margar breytur, það getur falist í djúpri innsýn skáldsögunnar og það getur falist í því að blanda saman aðferðum fræða og skáldskapar.

Erindið snýst um sköpunargáfuna í tengslum við gagnrýna hugsun, aðferð sem hefur það markmið að knýja höfundinn til að brjótast undan hefðbundnum að­ferðum. Markmið aðferðarinnar er að höfundur grafist fyrir um eigin skoðanir eða myndi sér eigin skoðanir. Verkefnið er ekki aðeins að leysa tæknilega vanda­mál sem aðrir hafa búið til. Að vera aðeins skilvirkur og skilyrtur höfundur heldur einnig skapandi höfundur. Ekki aðeins skilvirkir þjónn heldur einnig skapandi frumkvöðull.

I. Skapandi

Allir vita að skáldsaga getur opnað nýja sýn inn í hugarheim og persónuleika fólks og varpað ljósi á fortíð, samtíð og framtíð. Aðferðin er aftur á móti van­metin meðal fræðimanna og kennara sem þrá að skilja brot af jarðlífinu óháð allri túlkun. Skáldskapur er aftur á móti fullgild aðferð til að fjalla um veruleikann og hugtökin hans.

Fræðimenn eru oft logandi hræddir við að stíga skrefið til skáldskapar eða ímyndunaraflsins, telja jafnvel að þeir glati með því virðingu eða að hlegið verði að þeim. Aðferðirnar verði að vera lausar við allan vafa og mælanlegar þótt vafinn sjálfur sé óumflýjanlegur. Af þeim sökum er of oft numið staðar rétt áður en hugurinn fer á flug.

Til er aðferð sem nefnist skapandi fræðiskrif (creative nonfiction) og til er aðferð að sama toga, þar sem höfundur beitir aðferðum skáldskaparins til að öðlast betri innsýni í efnið og til að miðla á mannamáli eins og það er kallað. Grípa til myndrænna líkinga og leitar til nýrra orða í viðleitni sinni til að skilja hugtökin.

Nokkur hugtök fela í sér einhvern leyndardóm og þau neita að láta fanga sig í algildar skilgreiningar. Hversu oft og iðulega sem það er gert, hversu margar bækur sem skrifaðar eru, alltaf sleppa hugtökin undan endanlegum skýringum líkt og fiskar úr nýju neti. Þetta eru hugtök eins og gleði, þakklæti, gjöf, fyrir­gefning, virðing, von og jákvæðni.

Jafnvel þótt lífeðlisfræðingar geti lýst nákvæmlega hvað gerist í taugakerfinu þegar gleðin er á sveimi um mannslíkamann, gefur það ekki rétta mynd af henni heldur aðeins lýsingar á hegðun taugaboða, mælingar án túlkunar. Mælingar og lýsingar veita okkur takmarkaðar upplýsingar, það er ekki fyrr en túlkun á niðurstöðum hefst sem fjör færist í leikinn. Ekki fyrr en sköpunin sprettur upp.

II. Undrun

Heimspekin kennir að það er vel þess virði að rækta undrunina. Þrátt fyrir hin hörðu vísindi og framþróun þá hefur heimspekin aldrei verið numin úr gildi og spurningar hennar óma enn: „Hvað er … ?“ spyr hún eins og barn. Heimspekin byrjar alltaf aftur þótt annað líði undir lok.

Einnig er fullyrt að upphaf heimspekilegrar hugsunar sé sjálf undrunin. Það að undrast skyndilega yfir því eðlilega og sjálfsagða, standa agndofa gagnvart því sem daglega hefur borið fyrir augu okkur, hvort sem það er ský á himni sem hreyfist eða manns eigin fingur. Iðulega felst aðdáun í þessari undrun, aðdáun á hegðun hlutanna og hinum undraverða alheimi. En mannshugurinn vill skilja og leitast við að skilgreina hugtök eða gildi, eins og gleðina.

Gleði og jákvæð hugsun eru fjörefni mannslíkamans sem ekki verður þó lýst með tölum eða tímasetningum. Ég gerði tilraun til að lýsa gleðinni í bókinni Gæfuspor, bls. 98: Spyrjum okkur um leið: Má lýsa gleðinni svona:

„Gleðin er björtust í litrófi mannlegra tilfinninga og getur sprottið fram eins og morgunfugl af hreiðri. Allir þekkja hana en of fáir rækta hana eða leyfa henni að njóta sannmælis. Hún klingir í eyrum og lyftir fólki upp yfir áhyggjur dagsins. Hún er létt á fæti, frísk sem fiskur og kát sem kið.

Gleðin er einstök því hún gerir ekki greinarmun á mönnum eða málefnum, hún geysist fram jafnt í sólskini sem grimmri skúr. Hún er ekki lostafull gyðja eða hetjugoð heldur sem barn sem hlær án þess að nokkur viti ástæðuna. Hún spyr ekki um leyfi til að stíga á svið eða hvað klukkan sé þegar hún sprellar. Listin að gleðjast er afar einföld en þó er sennilega hægt að gleyma henni. Hún felst bæði í því að vera og að gera.“

Þessum setningum er ætlað að varpa ljósi á gleðina. Hér er þó ekki um lífefna­fræði að ræða, ekki heimspeki eða sálfræði né vísað í neinar heimilir. Skapandi fræðiskrif og kennsla felst í því að rífa sig úr spennutreyjum og sauma aðrar flíkur sem falla betur að hópnum.

III. Viðhorf

Viðhorf höfundar gagnvart hugtökum eða gildum er höfuðatriði í skapandi kennslu. Markmiðið þar ekki að gera fullgilda kenningu um hvert hugtak sem hægt er að sanna eða afsanna eins og oftast er fullyrt. Það er gert í öðrum bókum. Hvötin sem drífur höfundinn áfram er þá ekki endanlegur skilningur eða það að fanga fyrirbærin í (stað)föstum skilgreiningum, heldur löngunin að þoka umræðunni áfram og styrkja sjálfan sig gagnvart hvers konar áróðri og vafasömum fullyrðingum um heiminn.

Það er undrunin sem knýr höfundinn áfram veginn. Markmiðið er að stíga inn í hugtakið, öðlast innsýn, veita öðrum innsýn og efast auðvitað. Hugtökin eru þá leyndardómar því reynslan hefur kennt að það sem er, iðulega að breytast í eitthvað annað.

IV. Þjóðgildin

Ég skrifaði bókina Þjóðgildin (Skálholtsútgáfan 2010) um grunngildin sem Ís­lendingar völdu sér á Þjóðfundinum 2009: heiðarleiki, réttlæti, lýðræði, jöfnuður, frelsi, ábyrgð, traust, jafnrétti, sjálfbærni, fjölskyldan, kærleikur og virðing. Kjörið var að beita aðferðum skapandi fræðiskrifa til að glíma við hugtökin og miðla þeim til almennings.

Sérstök aðferð var notuð til að lokka fram þau gildi sem 1300 fundargestir völdu 14. nóvember 2009. Hún var óþvinguð og fólst í því að draga fram það sem bjó í brjósti hvers og eins. Þekktasta útgáfa slíkrar aðferðar er kennd við Sókrates og felst í því að laða fram visku annarra með því að spyrja þá réttu spurninganna. Tilgátan er sú að svarið búi innra með hverjum og einum.

Ef til vill má orða þetta á annan hátt: Spurningin stígur innfyrir manninn, hún fer um hann og umbreytist í svarið. Verkefnið í skapandi kennslu er að knýja les­andann til að takast á við spurninguna, leita ekki aðeins svara hjá öðrum heldur einnig sjálfum sér. Markmiðið er að lesandinn móti svarið í stað þess að meðtaka það hrátt. Efist og endurskapi.

Verkefnið fólst í því að finna gefandi sjónarhorn, tefla saman hugtökum, nefna hindranir og mælikvarða og einnig tengja aðra þætti en venjulega er gert við hugtökin og að fjalla til að mynda um samband frelsis og hroka og lýðræðis og tíma. Möguleikarnir eru óþrjótandi. Galdurinn felst í því að skapa setningar sem varpa óvæntu ljósi á einhverja þætti í lífinu. Ef það heppnast verður verkefnið einhvers virði.

V. Viska

Manneskjan leitar visku. Hún hefur of oft ratað í breiðgötur fáviskunnar og þarf því skarpan hug á þröngum veginum. Skynsemin er skilningsljós en hún hefur oft verið ofmetin. Svarið felst í því að meta áhrif margra mannlegra þátta á sama tíma: tilfinninga, skynsemi og viðhorfa, persónuleika og sögu í tengslum við að­stæður.

Höfundur getur notað ýmsar aðferðir til að varpa ljósi á það sem hann vill fjalla um, það getur verið undir merkjum lífeðlisfræði, það getur verið heimspeki, sál­fræði, sagnfræði, það getur verið aðferð skáldsögunnar og það getur verið undir merkjum skapandi fræðiskrifa. Allt eftir því hvað hvert viðfangsefnið og mark­miðið er.

VI. Gagnrýnin hugsun vs. skapandi hugsun

Hvað gerir gagnrýnin hugsun? Hún efast, hún greinir, hún spyr um margar hliðar. Hún trúir engu. Markmiðið er ekki að sannfæra. Hún er tæki til að leita visku. Hún spyr hvers vegna?

Hver maður þarf að æfa með sér gagnrýna hugsun: sú hugsun felst í því að mynda sér ekki skoðun nema eftir rannsókn á gögnum, efasemdir og prófanir. Sú hugsun mótar sér reglur gagnvart viðfangsefnum. Spurningin hvers vegna?
Knýr svara:

Má greina einhverja rökfærslu? Er einhver greining eða aðeins fullyrðingar? Eru helstu hugtökin skýr og skiljanleg? Er ályktun glannaleg? Er fleiri ein ein hlið málsins rakin? Má greina fordóma gagnvart hópum?

Andstæða gagnrýnnar hugsunar er þrjóska, fordómar, trúgirni, hleypidómar … Gagnrýnin hugsun hlustar, greinir, hún vegur og metur, hún efast, hún rífur niður en hún byggir upp aftur. Hún hugsar málið.

Hvað gerir skapandi hugsun? Hún leitar einnig visku. Hún undrast, hún efast um klisjur og leitar á öðrum slóðum en algengt er, hún tengir saman það sem virðist ekki eiga saman. Hún gerir tilraunir en endurtekur þær aldrei eins og fær því sjaldan sömu niðurstöðu. Hún gerir það sem ekki má.

Tökum dæmi um hugtakið heimska. Hvað er heimska. Við getum svarað þessari spurningu út frá ótal fræðigreinum og gert mælingar á greind með sér­tækum greindarprófum. En við getum einnig notað aðferð skapandi hugsunar til að svara. Hér er heimskan látin tala sjálf og flytja sína málsvörn. Hlustandi eða lesandi getur ekki skilið svarið við spurningunni Hvað er heimska nema með því að leggja á sig smá greiningu og með því að sjá í gegnum málsvörnina.

Hún segir: Ég hef farið um víðan völl og þekki marga merka menn. Ég sé, heyri og skil. Ég hef lesið margar bækur og fylgist vel með fréttum.

Í málsvörn hennar hefur hún að sumu leyti rétt fyrir sér:

Margt hef ég lært á minni löngu ævi, meðal annars að það sem oft er sagt er satt og rétt. Sumir sem kalla sig spekinga gagnrýna þetta sjónarmið, og vara fólk við að trúa því sem oftlega heyrist. En raunin er sú að það eru áhrifin sem valda straumhvörfum í mannkynssögunni. Síbyljan ræður ríkjum, reynum ekki að telja okkur trú um að hulinn sannleikur sem enginn heyrir eða skilur hafi áhrif.

Má ég benda ykkur á eina mótsögn. Oft er sagt að fyrsta hugboð sé rétt, og sýnt hefur verið fram á með góðum rökstuðningi innan sálfræðinnar að mismæli sem hrökkvi eins og óvart út úr munni fólks sé einmitt það sem fólkið vildi innst inni sagt hafa. En svo er hinsvegar sagt að sá sem kasti fyrsta steininum hafi rangt fyrir sér. Ég spyr hvers vegna trúir fólk þessum síðarnefndu orðum þegar öll mannkynssagan vitnar öfugt?

Speki heimskunnar: Það eina sem ég veit er það, að ég veit eiginlega allt.

VII. Skapandi hugsun veldur usla eða blíðu

Hún setur í nýtt samhengi, tekur úr samhengi, endurraðar. Eða hún beitir ljóðrænu til að varpa ljósi á rótgróin hugtök. Á þann hátt er markmiðið ekki að ögra heldur að nota önnur orð en oftast er gert í leitinni að visku.

Tökum dæmi um hugtakið Huggun:

Og huggunin kemur með ástinni eins og lækjarsytra í leysingum og gleðin seytlar á nýjan leik. Hjálpin barst og við náðum fótfestu.

En hvað var það, og hvernig var huggunin getin, eftir að sorgin hafði sveipað okkur svörtu myrkri og lokað inni í holi sínu? Hvað var það sem svipti hina miklu sorg völdum?

Það var vonin sem lá við akkeri í hjartanu,

trúin sem kom frá útréttum höndum

og kærleikurinn sem breiddi út vængina eins og fugl að veita ungum sínum skjól.

VIII.

Forsendan, það sem ég gef mér í þessu erindi er hið gamla kjörorð heimspekinnar: Leitin að visku, leitin að svari. Enginn býst lengur við sann­leikanum eða svari og flestir eru sammála um að verkefnið að orða spurninguna er nægilega gefandi og einnig er orðið viðtekið að tala um að leitin sjálf sé meira virði en áfangastaðurinn. Ef til vill er sú fullyrðing orðin klisja sem við þurfum að brjóta upp.

Skapandi hugsun, skapandi aðferð, skapandi kennsla nálgast hugtökin líkt og þau séu lifandi, fljótandi, breytileg. Nálgunin er frjó.

Þær haldast í hendur gagnrýnin hugsun og skapandi. Gagnrýnin hugsun efast, rífur niður, þurrkar út, greinir, mátar, telur, flokkar það sem er. Skapandi hugsun bætir við, byggir upp, endurraðar. Sá sem tileinkar sér báðar býr yfir gagnrýnni skapandi hugsun.

IX. Vísindi og listir

Einn er vísindamaður, vísindakona, annar, önnur listakona. Tilgátan er að bæði leiti visku með ólíkum aðferðum. Önnur aðferðin er viðurkennd og umhverfis hana eru fjölmargar stofnanir og vald yfir heimsmynd okkar.

Skapandi hugsun hefur einnig sínar stofnanir, háskóla og listasöfn. En hún er meira á jaðrinum, því aðferð hennar er önnur.

Gunnar Hersveinn er heimspekingur og rithöfundur.

Eftirmálsgrein

* Þessi texti er settur saman eftir að hafa fjallað um efnið á tveimur ráðstefnum, annars vegar: Gagnrýnin hugsun í skólastarfi (Ráðstefna á vegum Heimspekistofnunar, Rannsóknarstofu um háskóla, Siðfræðistofnununar Háskóla Íslands og Félags heimspekikennara, 1. október 2011) og hins vegar Hugarflug sem Listaháskóli Íslands hélt 4. maí 2012.