Farðu vel með þig

Erindi á málstofu Rannsóknarstofu um Háskóla, Heimspeki­stofnunar, Siðfræðistofnunar og Félags heimspekikennara um gagnrýna hugsun og siðfræði, laugardaginn 1. október í HÍ

Samhengi landamæraleysis, sjálfsþekkingar, skapandi og gagnrýninnar hugsunar.

Þegar unnusti frönsku listakonunnar Sophie Calle sagði henni upp í email, kom uppsögnin henni mjög í opna skjöldu. Til þess að vinna sig út úr sambands­slitunum, rýna til gagns í það sem hafði gerst og staðsetja sig á nýjan leik í veröldinni, bað hún 107 konur að greina á yfirvegaðan hátt uppsagnarbréfið sem endaði á orðunum Take Care of Yourself. Verkið var svo frumsýnt á Feneyjar­tvíæringnum árið 2007. Nokkurn veginn svona lýsir Sophie verkinu:

Ég fékk email um að því væri lokið.
Ég vissi ekki hvernig ég ætti að svara.
Það var næstum því eins og bréfið væri ekki ætlað mér.
Það endaði á orðunum „farðu vel með þig.“
Og það gerði ég.
Ég bað 107 konur (þ.m.t. tvær úr við og eina úr fjöðrum), valdar
útfrá sérgrein þeirra eða getu, til þess að túlka bréfið fyrir mig.
Til þess að greina það, koma með athugasemdir um það, dansa það,
syngja það.
Kryfja það. Þurrausa það. Skilja það fyrir mig.
Svara fyrir mig.
Þetta var aðferð til að slíta sambandinu í því tímarúmi sem ég
þurfti.
Leið til þess að fara vel með mig.

Efnistökin í verkinu eru stórskemmtileg, þar greina verkið sálfræðingur, fjöl­skylduráðgjafi, textagreinir, teiknimyndahönnuður, blaðamaður, dómari, kynlífs­fræðingur, lögfræðingur, unglingur, páfagaukur, ballettdansari, leikari, alþjóð­legur sáttamiðlari, leynilögreglukona, miðill, mannfræðingur, kvenréttinda­lögfræðingur, óperusöngkona, þýðandi, móðir, hönnuður, tónskáld, rappari, töfrakona og skífuþeytari. Útkoman er bréfið greint í ýmsum formum og ritað í nýju letri, vídeóverk, viðtöl, sviðslistaverk og svo framvegis.

Fremst í bókverkinu er að finna bréfið sjálft. Hægt og rólega hverfur það hins vegar í verkinu í túlkunum og afbyggingu 107 kvennanna. Það má segja að bréfið sé túlkað til dauða. Greint í minnstu smáatriði frá 107 sjónarhornum og þannig má segja að sjónarhornin taki yfir og bréfið hverfi. Slík gæti verið niður­staðan útfrá póst-módernísku sjónarhorni eða gagnrýni á þá nálgun í verkinu.

En svo er þó ekki, því á sama tíma og inntak bréfsins leysist upp og Sophie kemst yfir missinn, þá hverfur reynslan ekki. Bréfið er ennþá til. Þetta gerðist allt saman. Staðreyndin er og verður alltaf til staðar, henni bárust þessi tíðindi og hún þurfti að gera upp við sig hvernig hún tæki þeim, ynni úr þeim og héldi áfram að vera til. Hún fór í gegnum mikilvægar umbreytingar og þroska í úr­vinnslunni og mótaði sér afstöðu til bréfsins. Umbreytingaráhrifin höfðu einhver áhrif á allar sem túlkuðu bréfið og væntanlega unnendur verksins líka. Í því er falið örlæti listarinnar og áhrifamáttur þess að vinna heildrænt með hjartað utan á sér, ef svo má að orði komast.

Ein túlkun?

Hún hefði getað hlustað á eitt sjónarhorn, eina greiningu. Til dæmis réttarsál­fræðinginn Michele Agrapart sem rýnir þannig í bréfið að hér sé um kænsku­fullan flagara að ræða sem er stjórnsamur í samskiptum sínum við aðra. Hann er yfirtaks laginn með orð, hefur einstakt lag á því að koma sér undan ábyrgð og setja sig í hlutverk fórnarlambsins. Þannig varpar hann frá sér öllum ásökunum og manneskjan sem hann er að tala við fyllist sektarkennd.

Hvaða gagn er í þessari greiningu einni og sér?

Calle hefði alveg eins getað heyrt einungis sjónarhorn textagreinandans sem sagði, þetta er magnað, í bréfinu kemur orðið „ég“ fyrir 32 sinnum en „þú“ aðeins 8 sinnum. Nú veit hún svart á hvítu að hann er mjög sjálfhverfur en hversu vel sett er hún með þær upplýsingar? Þær geta nært andúð hennar gagnvart honum, skipti út reiði fyrir ást? En þarna er enginn vöxtur, þroski, yfirveguð rýni til gagns.

Þegar ballettdansarinn túlkar bréfið hefur líkaminn tekið við og að sama skapi finnum við díalóg í eigin líkama sem miðlar til okkar upplýsingum í formi til­finninga og skynjunar en ekki orða.

Hver og ein tjáning er mjög mikilvæg, en gefur einsleita túlkun. En saman komast þær alla vega í átt að 360 gráða sjónarhorni. Raunsæismaðurinn myndi líklega segja, hvað er málið með þessar greiningar og vífillengjur? Gaurinn er bara að segja (i) ég er að hitta aðrar konur. (ii) sambandið er búið á milli okkar! En lífið er bara ekki svo einfalt, af því við erum ekki maskínur, við erum einstak­lingar, persónur, sálir, tilfinningaverur og hluti af stærra samhengi.

Sjónarhornið ljósbrot

Sophie Calle bjó sér til vettvang þar sem hún varpaði reynslunni í gegnum ljósbrot sem braut atburðinn upp í 107 sjónarhorn. 107 liti. Hvert og eitt þeirra melti hún, setti fram, lagði mat á og mátaði við sjálfa sig. Á endanum gat hún staðsett sig, sitjandi vel í sjálfri sér, í því sem gerst hafði. Hún gat unnið úr reynslunni. Vaxið í gegnum hana. Náð ákveðinni fjarlægð á upplýsingarnar til þess að forðast að flækjast í eigin hugarvíl við úrvinnsluna.

Hún forðaði sér frá því að sjá viðburðinn einungis með eigin eða einsleitum gleraugum. Prisma, þverfaglegt diplómanám Listaháskóla Íslands og Háskólans á Bifröst í samvinnu við ReykjavíkurAkademíuna, byggðist að stórum hluta á viðlíka nálgun er kemur að áherslu á gagnrýna hugsun í aðferðarfræði námsins. Þar eru viðfangsefni tekin fyrir og þeim beint í gegnum ljósbrot ólíkra sérgreina og verkfæra innan þeirra. Þannig verða til mörg ólík sjónarhorn á greiningu sama viðfangsefnis og vísbendingar fyrir næstu skref. Á sama tíma spennist út ákveðið samhengi á milli þessara ólíku sjónarhorna, sem og annarra viðfangs­efna sem spretta upp við slíka könnun. Hlutir sem við fyrstu sýn virtust ekki eiga neitt sameiginlegt.

Í Prisma áttuðu nemendur sig á því hvernig sérfræðingar úr ólíkum geirum beita ólíkum verkfærum á sama viðfangsefnið. Hvernig sérfræðingarnir eða fyrirlesarar nálgast efnistök og beita aðferðum og innsæi á sinn persónulega hátt. Þau áttuðu sig á hvernig ólíka sérgreinar eiga sér ólík sjónarhorn. Úr verða fjöl­breyttar tegundir gleraugna. Sum eru ferköntuð, önnur rauð og hringlaga og ein­staka fyrirlesari gengur með litla sem enga umgjörð.

Ef vel gengur, tekst í þessu ferli að skapa ákveðið landarmæraleysi hugans. Að brjóta niður andlega og líkamlega múra á milli sjónarhorna og afhjúpa þá stað­reynd að verkfæri sérgreina eru tæki til athafna, ekki markmið í sjálfum sér. Þau hafa það hlutverk að bera viðfangsefnið heiminum í gegnum ákveðin skapa­lón. Ekkert eitt skapalón er réttara en annað. Til þess að afhjúpa viðfangsefnið á sem hreinastan og dýnamískan hátt, á sem umburðalyndastan hátt, þarf nemandinn að gera slíkt hið sama gagnvart sjálfum sér. Í hringiðunni miðri er nemandinn því stöðugt að skerpa eigin innri áttavita með markvissri aðferðar­fræði, læra að skynja og lesa eigið innsæi og reyna á mátt þess og nákvæmni með verkfærum fræðanna, aðferðarfræði listarinnar, samræðna og eigin hug­renninga.

Að skoða fyrirbæri eins og rasisma útfrá andstæðum gleraugum þjóðhverfu annars vegar og menningarlegrar afstæðishyggju hins vegar er gagnlegt. Að bæta við greiningu Richards Kearneys á heimspeki og sálgreiningarkenningum um það hvernig við höfum í gegnum söguna haft tilhneigingu til að nálgast „hina“, eða „hina ókunnugu“ án þess að horfast í augu við okkar dekkstu hliðar og þekkja sjálf okkur „allan hringinn“. Slík vangeta og vanþekking hefur haft mjög vondar afleiðingar í sögu mannsins.

Umburðarlyndi og sjálfsþekking

Að takast á við okkar dekkstu hliðar, að kynnast sjálfum okkur betur í gegnum nám og fá svigrúm til þess að vinna úr þessari viðkynningu á sjálfum okkur í hverskyns námi, skapar ákveðinn jarðveg fyrir gagnrýna, skapandi og siðferði­lega hugsun. Námið gengst því þannig ekki aðeins markvisst við ytri þekkingar­heim, heldur líka okkar innri veröld. Þeim verðmætum sem fólgin eru í innsæi, meðvitund, reynslu og skynjun hvers og eins.

Þá er undirliggjandi markmið umburðalyndi, yfirveguð rýni sem hefur burði til þess að stuðla að mannúðlegri nálgun. Siðferðilegri nálgun. Í þeim fjöl­menningarlega og hnattræna heimi sem við búum í í dag, í ljósi örra breytinga og tækniþróunar, er lykilatriði að menntun stuðli að auknum skilningi (ástríða + þekking), samlíðan og umburðalyndi. Á þessum gildum ætti siðferðið að byggjast.

Það landamæraleysi sem felst í því að tengja saman „glóbal og lókal“ í menntun, að tengja umheiminn við eigið samfélag og við eigið innra sjálf þvert á sérgreinar hefur líka burði til þess að hrista upp í því hvernig við skilgreinum hvað er rétt og hvað er rangt.

Í stóra samhenginu má hugsa til okkar helstu hugsuða í hugmyndasögu Vesturlanda sem langflestir voru karlmenn sem margir töldu lítið til kvenna koma af slepptu fjölgun mannkyns og heimilishaldi. Sumir þessara karlmanna fjölluðu um siðferði og byggðu kenningar sínar beint eða óbeint á áhrifaríkan hátt upp á slíkri grundvallartrú að karlar væru æðri konum, sem enn hefur mikil áhrif á hugsun og hegðun í heiminum. Svo ég segi það skýrar: sem enn er algengt sjónarmið um allan heim.

Að því leytinu til er verk Sophie Calle hápólitískt. Hún fær í lið með sér breið­fylkingu kvenna til þess að afbyggja uppsagnarbréf skrifað af karlmanni sem miðlar uppsögn sinni á þann hátt að hún á að engjast um af sektarkennd, helst brotna niður vegna þeirra hafta sem hún hafði sett honum í sambandinu. Sophie Calle vex í gegnum verkið á meðan hann verður undir, gufar upp eða treðst undir 107 háum hælum. Það eru sjónarmið kvenna sem byggja upp verkið. Það er vissulega einrænt sjónarhorn og sexískt, en þannig er hugmyndararfur okkar líka.

Hugtökin rétt og rangt eru að sumu leyti afstæð og geta nært dómhörku eins hóps gagnvart öðrum, sérstaklega þegar einsleitur hópur stendur fyrir siðferðis­boðskap. Ef sjónarhornin byggjast ekki annars vegar á fjölbreytni og hins vegar á sjálfsþekkingu er hætta á að athugunin einkennist á dómhörku, þjóð- eða sjálfhverfu og liggi utan á þeim sem skoðar. Hún verður tæknileg og hefur ekki burði til þess að ná utan um breidd mannlegra viðfangsefna.

Sjálfsþekking og landamæraleysi styrkja hvort annað í viðleitni til að beita skapandi, gagnrýninni og siðferðilegri hugsun á veröldina. Hnattrænn raunveru­leiki fjallar að sumu leyti um hverfulleika þess öryggisnets sem við teljum okkur búa við. Hverfulleikinn kallar á ótta og öryggisleysi þegar miklar breytingar verða og ótti og öryggisleysi hafa burði til þess að kalla fram það versta í mann­fólkinu.

Það að rýna til gagns er uppbyggileg nálgun að veröldinni. Hún er uppbyggileg þegar hún tekur mið af mennskunni. Hún er það ekki þegar hún er einvörðungu tæknileg. Hún er uppbyggileg þegar rýnin gengst við breyskleika mannsins, daglegs lífs og óútreiknanlegum viðbrögðum fólks. Rýnin þarf ennfremur að dvelja í innri áttavita hvers og eins sem skoðar.

Óbeint hef ég allan tímann þrætt skapandi hugsun inn í það sem á undan er sagt. Ef hugsun á að vera skapandi, þ.e.a.s. dýnamísk, búa til nýjar tengingar, draga fram það sem ekki hefur verið dregið fram áður þarf að ríkja ákveðið landamæraleysi í huganum. Yfirtaks flokkun, greining, krafan um áþreifanleika kæfir listræna ástríðu. Möguleikann á því að eitthvað óvænt geti átt sér stað og lokar á grunnþátt skapandi hugsunar, sem er hið óþekkta.

Að halda út í hið óþekkta er fyrsta skrefið í átt að skapandi hugsun, uppgötvun. Þar sem skapandi hugsunin, kreatívóið, reiðir sig á það sem greinir einstakling frá öðrum, það hvernig við sjáum hlutina ekki eins, getur það farið hönd í hönd við að þekkja sjálfan sig. Skapandi einstaklingur þarf að geta staðið með sjálfum sér til þess að halda út í hið óþekkta með tilfinningar sínar fyrir óorðnum hlutum og óreyndum sannfæringum.

Andleg og líkamleg landamæri, múrar á milli sérgreina og ofuráhersla á greiningu hindrar flæði, skerðir ímyndunaraflið og möguleika til athafna. Gagn­rýnin hugsun verður líka sterkust og hefur möguleika á að fara gegn hjarð­hegðun þegar innri áttaviti er sterkur og jafnframt opinn.

Lokaorð:

Þá er mikilvægt að hver og einn þekki sjálfan sig, sé vakandi og meðvitaður um eigin fordóma, hættu á því að hann eða hún hafi sett upp varnir, múra eða fyrir­fram gefna dóma um þetta eða hitt. Í námi og lífi er mikilvægt að setja viðfangs­efni í gegnum ljósbrot ólíkra sjónarhorna. Ólíkra sérgreina svo við komumst að kjarna málsins. Litróf tilfinninga, reynslu, innsæis, dagsformsins svo við komumst að kjarna málsins. Umbúðarlausum kjarnanum eftir fremsta megni. Þetta þurfum við að efla getu okkar til að gera í námi, starfi og lífi.

Það að rýna til gagns á þennan hátt felur ekki í sér niðurrif heldur afbyggingu til þess að sjá skýrar og skilja betur. Hér erum við að skræla viðfangsefnið á sama tíma og við skoðum gagnrýnið inn á við, inn í okkur sjálf og reynum að hlusta á hvað sálin hefur að segja. Þannig blasir viðfangsefnið sem tærast við þeim sem skoðar.