Heimspeki í skólastarfi

Að kenna gagnrýna og skapandi hugsun í samræðu

Besta leiðin til að þjálfa kennara í að beita heimspekilegri samræðu til að kenna gagnrýna og skapandi hugsun er að veita þeim þjálfun í slíkri samræðu og reynslu af námsefni sem nýtist til slíkrar kennslu.

Á námskeiðinu munu kennarar vinna sig í gegnum valda kafla úr námsefni eftir Matthew Lipman sem var þýtt og gefið út af Heimspekiskólanum. Einnig verður unnið með námsefni sem Námsgagnastofnun hefur gefið út fyrir lífsleikni­kennslu. Þátttakendur taka þátt í umræðum um markmið námsefnisins og kennslu þess.

Á námskeiðinu byggja kennarar upp færni í að kenna grunnskólanemendum að vinna í heimspekilegu samræðufélagi, beina þeim inn í rannsókn á heimspeki­legum spurningum og bjóða þeim upp á markvissar æfingar í gagnrýninni og skapandi hugsun. Lögð verður áhersla á að þátttakendur í námskeiðinu tileinki sér einfalda grunnaðferð (lesa-spyrja-ræða-meta) sem hægt er að beita til að skapa heimspekilega samræðu út frá ýmiss konar námsefni.

Kennararnir fá tækifæri til að æfa sig bæði sem nemendur og kennarar með því að taka þátt í fjölmörgum samræðum og stjórna að minnsta kosti einni sam­ræðu sjálfir. Eftir hverja samræðu verður tekinn tími í að gagnrýna framkvæmd samræðunnar á uppbyggilegan hátt. Ætlast verður til að kennarar endurtaki þau verkefni sem lögð eru fyrir á umræðufundum í eigin kennslu. Þátttakendum á námskeiðinu gefst kostur á eftirfylgd og ráðgjöf kennara ef þeir óska eftir þegar þeir taka aðferðina inn í kennslu hjá sér.

Hvenær:
Námskeið: laugardaginn 22. september 2012 frá 9:00 – 17:00
Umræðufundir: á miðvikudögum kl. 16:00 – 17:30 – einu sinni í mánuði allt skólaárið.
Dagsetningar: 22. sept., 26. sept., 17. okt., 14. nóv., 16. jan., 6. feb., 6. mars, 10. apríl.

Markmið námskeiðsins:
Að þátttakendur byggi upp færni í að stjórna heimspekilegri samræðu sem þjálfar gagnrýna og skapandi hugsun nemenda og lýðræðislega færni þeirra.

Tengsl við þarfir grunnskólans og aðalnámskrá grunnskóla:
Aðalnámskrá grunnskóla 2011 kveður á um að í skólum sé börnum og unglingum kennt að taka þátt í lýðræðislegum vinnubrögðum, að þeir efli sjálfs­mynd sína og félagsþroska og að þeir beiti gagnrýninni og skapandi hugsun í námi sínu. Heimspekileg samræða er kennsluaðferð sem skapar aðstæður þar sem hægt er að þjálfa nemendur markvisst í þessum námsþáttum.

Kennarar

Brynhildur Sigurðardóttir Brynhildur Sigurðardóttir

Brynhildur Sigurðardóttir er heimspekikennari og aðstoðarskólastjóri við Garðaskóla í Garðabæ. Brynhildur lauk M.Ed. gráðu frá Montclair State University 1999 og sérhæfði sig þar í heimspeki með börnum. Hún hefur kennt heimspeki sem valgrein í Garðaskóla síðan 2002 og kennt fjölda heimspekinámskeiða fyrir börn og kennara. Brynhildur hefur haft umsjón með námskeiðinu Heimspeki með börnum sem kennt er í framhaldsdeildum á Menntavísindasviði Háskóla Íslands.

Hreinn Pálsson Hreinn Pálsson

Hreinn Pálsson er prófstjóri Háskóla Íslands, stofnandi og skólastjóri Heimspekiskólans í Reykjavík. Hreinn lauk doktorsgráðu frá Michigan State University 1987, rannsókn hans ber heitið „Educational Saga: Doing Philosophy with Children in Iceland“ og gerir grein fyrir tilraun tveggja íslenskra kennara til að innleiða heimspekilegt samræðufélag í bekknum sínum. Hreinn hefur kennt fjölda kennaranámskeiða um heimspeki fyrir börn auk ýmissa heimspekinámskeiða fyrir fólk á öllum aldri.

Sjá:
http://klifid.is/index.php?option=com_zoo&task=item&item_id=113&category_id=3&Itemid=159