Framtíð lýðræðisins og lýðræði framtíðarinnar: Gagnrýnin hugsun í skólastofunni og víðar

Ráðstefnan „Kennsla gagnrýninnar hugsunar og siðfræði“ í Háskóla Íslands, 1. okt. 2011

I

Ég ætla hér að velta vöngum, í örfáum orðum, yfir nokkrum stórum hugtökum, einkanlega hinu gamalkunna hugtaki „gagnrýnin hugsun“ sem leikið hefur býsna stórt hlutverk í íslenskri heimspekisögu síðustu áratuga, og svo hug­takinu um lýðræði. Ætlunin er nánar tiltekið að spyrja spurninga um hlutverk gagnrýninnar hugsunar í þjóðfélagi sem vill kenna sig við lýðræði, en í því mun einnig felast að beita gagnrýninni hugsun á það lýðræði sem við búum við á Íslandi um þessar mundir. Þetta mun ég síðan reyna að tengja við það sem fram fer í skólastofum þessa lands, kannski þó fyrst og fremst með framhalds­skólana í huga, og þar kemur einmitt framtíðin inn í myndina, því það er eitt það merkilega við framhaldsskólana að þar fer menntun lýðræðislegra þegna fram­tíðarinnar fram.

II

Í aðalnámskrá framhaldsskóla frá 2004, sem ég geri ráð fyrir að þið þekkið mörg hver (og þá betur en ég), er talað um að hlutverk framhaldsskóla eigi meðal annars að vera að „þjálfa nemendur í öguðum og sjálfstæðum vinnu­brögðum og gagnrýninni hugsun“ (8). Einnig er þar talað um að við námslokin eigi framhaldsskólaneminn að hafa „ræktað með sér gagnrýna hugsun, dóm­greind og umburðarlyndi“ (9). Í umræðu um félagsleg vandamál á borð við einelti og ofbeldi er svo talað um að lögð skuli „áhersla á að nemendur temji sér já­kvætt viðhorf, ábyrgð, umhyggju, heilbrigt líferni, gagnrýna hugsun, sjálfs­virðingu og virðingu gagnvart öðrum“ (10). Því er svo bætt við að „[m]kilvægt [sé] að nemendur geti sett sig í spor annarra og hafi öðlast kjark til að velja og hafna.“ (10)
      Að þessu sögðu er eðlilegt að spurt sé: Hvað er þá gagnrýnin hugsun? Ég ætla mér ekki að svara þeirri spurningu hér, en bendi á skrif hinna ýmsu ís­lensku heimspekinga um efnið sem nú má finna samankomið á hinni nýju og glæsilegu vefsíðu sem tileinkuð er gagnrýninni hugsun. Látum eftirfarandi stikk­orð nægja: að hugsa gagnrýnið er að taka ekkert trúanlegt fyrr en maður hefur sjálfur lagt á það skynsamlegt mat.

III

Í aðalnámsskrá framhaldsskóla er ekki bara talað um gagnrýna hugsun, heldur líka hitt lykilhugtakið sem ég nefndi í upphafi máls: lýðræði. Í kaflanum um hlut­verk framhaldsskólans stendur að skólunum beri að „stuðla að alhliða þroska nemenda svo að þeir verði sem best búnir undir að taka virkan þátt í lýðræðis­þjóðfélagi“ (8). Og þegar vikið er að því sem nemandinn á að hafa tileinkað sér við námslokin er talað um að hann eigi að „kunn[a] skil á réttindum og skyldum einstaklings í lýðræðisþjóðfélagi“ (9). Framhaldsskólanám snýst sem sagt (meðal annars) um að rækta með sér gagnrýna hugsun og búa sig undir þátt­töku í lýðræðisþjóðfélagi. Hugum nú að því hvernig þetta tvennt gæti hangið saman.

IV

Hvað er lýðræði? Franski heimspekingurinn Claude Lefort setti einhverju sinni fram býsna kjarnyrta skilgreiningu á þessu stjórnarformi sem allir virðast vita hvað felst í en enginn virðist þó búa við í raun. „Lýðræði er stjórnarform þar sem sæti valdhafans er autt“, sagði Lefort.1 Þessu fylgir að um valdasessinn, hásætið þar sem valdhafinn trónir, stendur stöðugur styr. Lýðræði er stjórnar­form þar sem enginn veit hver hinn lögmæti valdhafi er, eða, réttara sagt – af því að valdhafinn er auðvitað þjóðin, valdið á að vera hjá fólkinu – enginn veit hver, af þeim fjölmörgu einstaklingum, flokkum og stofnunum sem keppa um valdið, endurspeglar hinn sanna vilja þjóðarinnar. Þannig hafði Ingibjörg Sólrún auðvitað að einhverju leyti rétt fyrir sér þegar hún mælti hin fleygu orð fyrir tæpum þremur árum: „Þið eruð ekki þjóðin!“ Þó að sá hópur fólks sem andspænis henni sat (eða stóð) í troðfullu Háskólabíói, eða fylgdist með herlegheitunum á sjónvarpsskjám í anddyrinu, teldi sig vera þess umkominn að krefjast tiltekinna aðgerða af henni (og væntanlega afsagnar, ég man þetta ekki svo glöggt), þá áttaði hún sig á því að þessi hópur var samt ekki nema lítill minnihluti þjóðar­innar, að vísu nokkuð hávær minnihluti, en við þessar aðstæður, eða í þessari klemmu, fann hún sem sagt til þeirrar kenndar sem eðlilegt er að stjórnmála­menn finni stundum til – að viðmælendurnir endurspegli ekki vilja meirihlutans, að þeir séu með öðrum orðum ekki þjóðin, hinir endanlegu valdhafar sem þeir sem sitja á valdastóli eiga að beygja sig undir.

V

Hvernig er því þjóðfélagi háttað þar sem sæti valdhafans er autt? Einhver þarf auðvitað að setjast í sætið, einhver þarf að stjórna – en hver? Sá frekasti, sá sterkasti, sá máttugasti, sá ríkasti? Jean-Jacques Rousseau taldi það hreina fásinnu að máttur gæti verið uppspretta réttmætra yfirráða. Í þeirri skoðun hans felst að ríki þar sem sá sterkasti fer með völdin, í krafti styrks síns, getur ekki kallast réttnefnt lýðræðisríki (eða lýðveldi, sem er hugtakið sem Rousseau hefði eflaust notað í þessu samhengi). Slíkt ríki lýtur einfaldlega harðstjórn. Hvers vegna? Vegna þess að vald sem ekki er sprottið frá þjóðinni er ekkert annað en ofbeldi sem beint er gegn þjóðinni, samanber orðið vald-beiting. Vilji valdhafinn kallast réttmætur, og ríkið réttarríki, verður sá sem fer með valdið hverju sinni að gera það í sátt við þjóðina og lúta vilja hennar í einu og öllu.

VI

En hver er þá vilji þjóðarinnar? Hvernig verður komist að því? Látum Rousseau svara fyrir það. Og þá vandast málið kannski örlítið. Stutta svarið við spurning­unni um vilja þjóðarinnar er einfaldlega svona: vilji þjóðarinnar er það sem Rousseau kallar almannaviljann. Hann er vilji samfélagsheildarinnar, sá vilji sem fer saman við almannahagsmuni (svo gripið sé til hugtaks sem til dæmis er fyrirferðarmikið í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis). Mikilvægt er að skilja að almannaviljinn er ekki það sama og það sem Rousseau nefnir „vilja allra“ – sá síðarnefndi er ekkert annað en „samanlagður vilji allra einstaklinganna“ hvers fyrir sig (II.3). Með öðrum orðum: til að fá almannaviljann fram í tilteknu máli er ekki nóg að kalla þjóðina til atkvæðagreiðslu þar sem hver greiðir síðan atkvæði með sínu nefi, svo að segja, út frá sínum eigin vilja, þröngt skilgreindum. Nei – almannaviljinn kemur því aðeins fram í atkvæðagreiðslu að hver og einn greiði atkvæði út frá almannahagsmunum, eða, eins og Rousseau orðar það, því að­eins að „enginn hugsi um sjálfan sig þegar hann kýs fyrir alla“ (95). Engu að síður er það svo, og á þessu hamrar Rousseau hvað eftir annað, að borgurunum ber að taka þessa ákvörðun einir og óstuddir, og láta engan annan segja sér fyrir verkum; borgurunum ber að „hlýða […] ekki nokkrum manni, heldur aðeins eigin vilja“ (98), eins og hann orðar það.
      Í þessu felst þá að hver og einn verður að gera það upp við sig hverjir almannahagsmunir eru í hverju tilviki. Samráð getur (að mati Rousseaus) ekki orðið til annars en skekkja þessa mynd – skipi menn sér í fylkingar öðlast hver fylking fyrir sig sérstakan vilja sem er eðli málsins samkvæmt ekki sá sami og almannaviljinn.

VII

Immanuel Kant, sem varð eins og við vitum fyrir ákaflega miklum áhrifum af hugsun Rousseaus, sagði okkur sællar minningar að „[u]pplýsing [sé] lausn mannsins úr viðjum þess ósjálfræðis sem hann á sjálfur sök á“, og að umrætt ósjálfræði sé „vanhæfni mannsins til að nota eigið rökvit án handleiðslu annarra“ (379). Ósjálfræðið er að lúta utanaðkomandi (kenni)valdi, valdi sem maður ber ekki kennsl á sem lögmætt vald, valdi sem tekur á sig mynd valdbeitingar. Og eins og Kant lætur ekki hjá líða að benda okkur á, þá er það skelfing þægilegt að vera ósjálfráða. Látum það eftir okkur að lesa nokkrar línur í viðbót úr þessum sígilda texta:

Þeir forráðamenn sem allranáðarsamlegast hafa tekið að sér yfirumsjón með stórum hluta mannkyns (þ.á m. allrar kven­þjóðarinnar) sjá til þess að skrefið til sjálfræðis er ekki eingöngu álitið erfitt, heldur líka stórhættulegt. Þeir byrja á að forheimska húsdýr sín og vaka síðan staðfastlega yfir því að þessi rólyndis­grey vogi sér ekki að stíga eitt einasta skref án göngugrindar­innar sem þau hafa verið spennt í. (379)

Eins og þessar línur bera með sér, þá er þessi kynngimagnaði texti Kants fyrst og fremst áskorun. Kant skorar lesanda sinn á hólm og manar hann til að standa á eigin fótum, henda göngugrindinni, þora að beita eigin hyggjuviti – þora að beita gagnrýninni hugsun2og gerast þannig sjálfráða. Í þessu sjálf­ræði felst augljóslega annað og meira en að „hugsa um sjálfan sig“, hverfast um eigið sjálf eins og smástirni um sólu – í því felst einnig að hugsa um aðra, og þá ekki síst að sjá til þess að valdhafarnir, „forráðamennirnir“ sem Kant hefur svo háðsleg orð um í tilvitnuninni, verði upplýstir. Í texta Kants býr lævíslegur hótunartónn í garð valdhafanna: ef valdhafinn lætur ekki upplýsast, þá sér al­menningur til þess að honum verði rutt úr vegi, upplýstur almenningur lætur ekki bjóða sér annað en upplýstan valdhafa.

VIII

En hvernig verður almenningur upplýstur? Hvernig má sjá til þess að hann verði sjálfráða og fær um að velja sér fulltrúa sem fara með valdið á réttmætan hátt? Svarið er tvíþætt: í fyrsta lagi gagnrýnin hugsun, í öðru lagi lýðræði.
      Í fyrsta lagi: það þarf að kenna fólki að vera sjálfráða, og hugsa gagnrýnið, þ.e. standa á eigin fótum sem vitsmunaverur sem er ætlað að fara, og ætla sér að fara, með hið endanlega vald í þjóðfélaginu. Og í því að standa á eigin fótum felst ekki að hugsa eingöngu um eigin hag í þröngum skilningi, heldur ávallt líka, og raunar fyrst og fremst, um almannahag. Vegna þess að farsæld ein­staklingsins stendur í órofa tengslum við farsæld heildarinnar. (Þetta hlýtur eiginlega að vera runnið upp fyrir okkur.) Þessi kennsla þarf auðvitað að fara fram vítt og breitt um samfélagið, en sér í lagi þarf að huga að henni í fram­haldsskólunum, vegna þess að í þeim býr framtíð lýðræðisins, í bókstaflegum skilningi liggur mér við að segja.
      Í öðru lagi: það þarf að sjá til þess að sjálf grunngerð samfélagsins sé sannarlega í anda lýðræðis, þannig að sjálfræðið verði annað og meira en orðin tóm. Með öðrum orðum þarf að sjá til þess að hið endanlega vald sé í reynd, og í verki, hjá þjóðinni, einstaklingunum sem eru ríkið, í öllum málum og á öllum sviðum. Við þurfum meira lýðræði, skilvirkara og fjölbreyttara lýðræði, lýðræði sem stendur undir nafni, lýðræði sem virkar, virkt lýðræði. Beint lýðræði, íbúa­lýðræði, fyrirtækjalýðræði, alþjóðalýðræði. Lýðræði á öllum sviðum: í stjórn­málum, í efnahagslífinu, á meðal fólksins. Það er lýðræði framtíðarinnar.
      Nú heyri ég efasemdamann kveða sér hljóðs og segja: þetta eru draumórar, þetta gengur aldrei, fólkið getur aldrei farið með valdið, fólki er ekki treystandi, fólk er breyskt, fólk er heimskt. Við þennan mann segi ég: þú hefur rangt fyrir þér, fólki er treystandi, fólk er fullfært um að fara með valdið ef það verður þess áskynja að því er treyst og að úrræðin sem það býr yfir eru annað og meira en orðin tóm. Fólk sem býr í samfélagi þar sem stofnanirnar og fyrirtækin lúta sannarlega lýðræðislegri stjórn gengst upp í, og gengst við, hlutverki sínu sem hinir eiginlegu valdhafar – það axlar þá ábyrgð sem það finnur að því er ætluð. Og ég segi líka: við verðum einfaldlega að trúa því að fólk geti bjargað sér sjálft – eða ætlum við kannski að ganga í lið með forráðamönnunum sem líta á fólk eins og húsdýr, og gera síðan allt til að forheimska þau, þ.e. sjá til þess að þau séu í raun eins og húsdýr? Þá kýs ég heldur að halda því fram að bjargræðis mannkyns sé hvergi annars staðar að leita en hjá fjöldanum.

Neðanmálsgreinar

1. http://www.philomag.com/article,entretien,claude-lefort-la-democratie-est-le-seul-regime-qui-assume-la-division,916.php

2. Hér má skjóta því að að hinn sígildi texti Páls Skúlasonar um gagnrýna hugsun, greinin „Er hægt að kenna gagnrýna hugsun?“, felur einmitt í sér svipaða áskorun og ritgerð Kants. Ekki verða þó færð rök fyrir því hér.