Heilsuvitund og gagnrýnin hugsun

Þrátt fyrir að okkur Íslendingum sé hampað fyrir að vera ein af feitustu þjóðum í hinum vestræna heimi hefur heilsuvitund okkar þó að margra mati sjaldan verið meiri. Mataræði, holdafar og heilbrigður lífsstíll eru í það minnsta regluleg umfjöllunarefni í fjölmiðlum landsins auk þess sem það er síalgengara að sjá fólk á öllum aldri úti að ganga, hjóla eða hlaupa meðfram götum Reykjavíkur­borgar. Sú sýn er einmitt undirritaðri og eflaust mun fleirum til mikillar ánægju enda er regluleg hreyfing einn af þeim þáttum sem vegur hvað þyngst þegar lífsgæði okkar eru annars vegar. Það þarf oftast ekki annað en að skoða sitt nánasta umhverfi til að finna skýrar sannanir þess efnis en hafsjór rannsókna og vísindagreina eru svo sannarlega til staðar sem styðja við þá staðhæfingu ef einhver er efins.

Eitt er þó víst í þessum efnum og það er að framboðið á heilsutengdum vörum er mikið hér á landi og heldur áfram að aukast. Hefðbundin lyf, náttúrulyf, vítamín og ýmis fæðubótarefni eru allt vörur sem eru framleiddar undir þeim formerkjum að þau eigi að bæta heilsu okkar á einhvern hátt. Þar að auki eru ótal aðilar tilbúnir til að segja mér og þér hvernig ákveðin fæðutegund, fæðu­bótarefni eða tegund hreyfingar sé ofar öllum öðrum og að engum raunveru­legum árangri í heilsurækt sé náð án þeirra í ákveðnu magni. Eða öfugt, að ákveðin fæðutegund t.d. hamli heilbrigði okkar.

Þar fara hlutirnir einmitt að flækjast. Um leið og upplýsingarnar verða okkur að­gengilegri verður áreitið að sama skapi meira og þversagnir í þeim upplýsingum sem eru í boði algengari. Það er því ekki skrítið þó að maður verði vægast sagt ringlaður í allri þessari biðu ráðlegginga. Óneitanlega vakna upp þær spurningar hvaða ráðleggingum eigi að fara eftir og hver sé hinn heilagi sannleikur í öllu þessu upplýsingaflóði.

Í því samhengi verður mér oft minnisstæð eftirfarandi tilvitnun: ,,Það er góður siður að trúa aldrei nema helmingnum af því sem manni er sagt og skifta sér ekki af afgangnum. En fara aldrei eftir öðru en því sem maður segir sér sjálfur.” Halldór Laxness. Sjálfstætt fólk.

Þegar uppi er staðið mun bara ein manneskja vera endanlega ábyrg fyrir heilsu okkar og það erum við sjálf. Við getum að sjálfsögðu reynt að koma ábyrgðinni yfir á aðra með því að fylgja ráðleggingum þeirra í blindni og kenna svo sömu aðilum um ef illa fer en á endanum komum við aftur að þessari einföldu stað­reynd. Það erum við sjálf sem ákveðum hvaða upplýsingum við kjósum að treysta og frá hverjum, hvað við bjóðum líkama okkar upp á og hverju við erum tilbúin til að fórna til að ná ákveðnu markmiði.

Í upplýsingasamfélagi nútímans er nær ómögulegt að rækta heilsuna ef við ræktum ekki okkar eigin skynsemi í leiðinni. Gagnrýnin hugsun er því nauðsyn­legt verkfæri til að nýta sér þegar tekist er á við hversdagsleikann með öllu því áreiti sem honum fylgir í dag. Beitum saman gagnrýnni hugsun, gætum hófs og munum að í heilsu felst allt í senn líkamleg, andleg og félagsleg vellíðan.

Fyrir hönd Lýðheilsufélags Læknanema,
Fjóla Dögg Sigurðardóttir