Eigum við alltaf að efast ef við getum?

eftir Eyju Margréti Brynjarsdóttur

Þegar talað er um efahyggju í daglegu tali er yfirleitt átt við ákveðna afstöðu til þeirra upplýsinga sem verða á vegi viðkomandi. Fólk sem kallar sig efa­hyggjufólk á gjarnan við að það geri sér far um að trúa ekki hverju sem er, eða að trúa ekki því sem ekki fást fullnægjandi sannanir fyrir. Oft er efahyggjan sér­tæk og beinist að einhverju tilteknu sviði upplýsinga. Þannig hefur það stundum verið kennt við efahyggju að trúa ekki á dulræn eða yfirnáttúrleg fyrirbæri, kraftaverkalækningar og annað slíkt. Í þeim skilningi felur efahyggjan í sér van­traust á því sem haldið er fram um tiltekið svið, jafnvel trú á að þær upplýsingar sem settar eru þar fram séu rangar. Þessi skilningur kemst kannski næst einni algengustu notkun orðsins að efast í daglegu tali. Þegar ég segi t.d. „Ég efast um að Lísa komi í afmælið“ þá á ég líklega við að ég geri frekar ráð fyrir að Lísa komi ekki í afmælið en að hún komi, ég tel mig vita eitthvað sem bendir til þess að Lísa komi ekki. Þegar um heimspekilega efahyggju er að ræða er lagður svolítið annar skilningur í orðin. Sú sem aðhyllist heimspekilega efahyggju lýsir því yfir að hún viti ekki, jafnvel að hún geti ekki vitað eða að enginn geti mögulega vitað. Heim­spekileg efahyggja getur líka beinst að tilteknu sviði og felur þá í sér að þekking á viðkomandi sviði sé ómöguleg. Dæmi um slíka efahyggju er trúarleg efa­hyggja, eða agnostík, sem er sú kenning að ómögulegt sé að vita hvort Guð (eða einhver æðri yfirnáttúrleg máttarvöld, hvað svo sem fólk kýs að nefna þau) sé til. Efi agnostíkersins gengur ekki út á að telja sig vita eitthvað sem bendir til þess að Guð sé ekki til heldur að telja sig ekki geta vitað af eða á um tilvist Guðs. Í svipuðum dúr hefur ýmiss konar önnur efahyggja verið sett fram, eins og efahyggja um tilvist efnisheimsins eða efahyggja um tilvist annarra huga en okkar eigin. Ef við teljum til dæmis að við getum ekki vitað hvort heimurinn sem við teljum okkur skynja umhverfis okkur er eins og við upplifum hann eða hvort við erum kannski bara föst inni í risastóru tölvuforriti eins og í Matrix-kvikmynd­unum þá aðhyllumst við efahyggju í heimspekilegum skilningi.
Það er í þessum anda sem heimspekingurinn René Descartes fjallar um efa í Hugleiðingum um frumspeki. Hann hefur fyrstu hugleiðingu á eftirfarandi orðum:

Fyrir allmörgum árum varð mér ljóst að ég hafði frá ungum aldri talið margar rangar skoðanir réttar, og að hvaðeina, sem ég hafði síðan byggt á þeim, hlaut að vera mjög vafasamt. Því hlyti ég einu sinni á ævinni að kollvarpa öllu, og byrja að nýju frá grunni, ef ég vildi einhvern tíma reisa eitthvað traust og varanlegt í vísindum. En þar sem mér þótti mikið í fang færzt, afréð ég að bíða þar til ég hefði náð svo háum aldri að ég hefði litla von um frekari skilningsþroska.ii

Hann hefst svo handa við þetta verkefni sem snýst um að útiloka allt sem hann hefur ekki fullkomnar sannanir fyrir, og getur þannig efast um, og byggja á því sem eftir stendur.
Sú afstaða sem Descartes tekur þarna er efahyggja um allt sem mögulegt er að aðhyllast efahyggju um. Hann gengur út frá því að hann viti ekki neitt sem hann hefur ekki getað sannað með óyggjandi hætti. Efahyggjukenningar snúast einmitt gjarnan um skort á sönnunum. Þær eru þá rökstuddar á þá leið að ekki sé hægt að sanna það sem viðkomandi svið snýr að, þar með getum við ekki haft á því þekkingu og eftir standi efinn, það að við getum ekki vitað. Agnóstík er þá til dæmis rökstudd með útskýringum á því hvers vegna við getum hvorki sannað né afsannað tilvist Guðs.
Við sem höfum lesið áfram í bókinni og vitum hvernig hún endar vitum að Descartes velktist ekki lengi um í efanum og að hann verður seint talinn til efahyggjumanna, að minnsta kosti ekki í heimspekilegum skilningi og varla í öðrum skilningi heldur. En leið hans út úr efanum er samt sem áður sönnunin. Descartes sannar—eða telur sig sanna—tilvist eigin hugar, í framhaldi af þessu tilvist algóðs Guðs og í framhaldi af því áreiðanleika skynreynslunnar. Des­cartes telur sig þannig hafa afsannað efahyggjuna. Margar aðrar tilraunir hafa verið gerðar til að afsanna ýmiss konar efahyggju. Þar hafa mismunandi leiðir verið farnar en segja má að þær séu í grundvallaratriðum tvenns konar og vík ég betur að þeim síðar.
Sennilega hefur heimspekileg efahyggja reynst mun frjórri sem uppspretta andmæla heldur en sem vinsæl kenning. Af ástæðum sem hafa sennilega eitt­hvað með mannlegt sálarlíf og lifnaðarhætti að gera hefur víðtæk efahyggja ekki átt sér marga fylgismenn. Flestum finnst okkur eitthvað óþægilegt við þá til­hugsun að vita ekki hvort gólfið sem við stígum á þegar við skreiðumst fram úr á morgnana er þar sem við teljum það vera. Í það minnsta hafa þeir sem hafa aðhyllst einhvers konar víðtæka efahyggju gert það með ýmsum fyrirvörum og ekki tekið hana mjög alvarlega í hversdagslegum athöfnum sínum. Það er að segja, að þótt þau hafi kannski litið svo á að strangt til tekið gætum við ekki vitað að grauturinn sem við teljum okkur vera að borða sé þarna í skálinni í raun og veru, þá hefur afstaðan óhjákvæmilega orðið sú að við séum tilneydd að hegða okkur eins og grauturinn sé þar sem okkur sýnist hann vera. Efahyggja á afmörkuðum sviðum sem lúta kannski ekki að hversdagslegum þörfum okkar og athöfnum hefur þó náð einhverri útbreiðslu og er agnostíkin ágætt dæmi.
Það sem einkennir efahyggju er hin stranga krafa til þekkingar. Efahyggjan kveður á um að þekking, eða að minnsta kosti þekking á því sviði sem við­komandi útgáfa af efahyggju lýtur að, þurfi að byggja á mjög traustum grunni, jafnvel beinhörðum sönnunum. Og þar sem grunnurinn sé ekki fyrir hendi standi efinn einn eftir. Andmæli við efahyggju geta því verið tvenns konar. Annars vegar geta þau falist í að sýna fram á að kröfunni um traustan grunn sé fullnægt, að við getum víst sannað með óyggjandi hætti að skynjanir okkar séu áreiðan­legar, að aðrar mannlegar verur en við sjálf séu til og hugsi eins og við, eða að Guð sé til (eða að Guð sé ekki til). Hin leiðin til að andmæla efahyggju gengur út á að þessi stranga krafa til þekkingarinnar sé óraunhæf, að við getum vel vitað ýmislegt þótt við getum ekki fært fyrir því endanlega sönnun eða sýnt fram á fullkomlega traustan grundvöll fyrir því.
Rök Descartes gegn efahyggju eru af fyrri gerðinni. Hann samþykkir að traustan grunn eða sannanir þurfi fyrir þekkingunni og telur sig geta sett fram slíkar sannanir. Sönnun Descartes á áreiðanleika skynjunarinnar byggir á sönnun hans á tilvist Guðs. Áreiðanleiki skynjunar og efahyggja um hann hefur einmitt orðið mörgum hugleikinn en flestir sem hafa spreytt sig á sönnunum á honum hafa farið aðrar leiðir en Descartes. Ein aðferð sem notið hefur nokkurs fylgis eru svokölluð yfirskilvitleg (e. transcendental) rök. Rétt er að taka það fram að slík rök fela ekkert í sér um eitthvað yfirnáttúrlegt heldur eru þau yfir­skilvitleg í þeim skilningi að þau vísa út fyrir það sem við skynjum með skilningarvitunum. Ef sanna á áreiðanleika skilningarvitanna er væntanlega við því að búast að vísa þurfi til einhvers annars en skilningarvitanna sjálfra. Í stuttu máli ganga yfirskilvitleg rök út á að sýna fram á að það sem er efast um sé nauðsynleg forsenda einhvers sem ekki er hægt að efast um. Dæmi um slíka röksemdafærslu eru rök sett fram af Immanuel Kant sem hann kallaði afsönnun hughyggjunnar. Samkvæmt Kant hlýtur jafnvel argasti efahyggjusinni að verða að samþykkja að við höfum vitund um eigin tilvist í tímaröð, eða að við upplifum eigin tilvist í tímaröð. Hann færir svo rök fyrir því að til þess að hafa slíka vitund sé nauðsynlegt að gera ráð fyrir tilvist efnislegra hluta utan okkar.
Yfirskilvitlegum rökum hefur verið andmælt á þá leið að þau sýni ekki fram á tilvist forsendunnar sem þau færa rök að heldur aðeins að við verðum að láta eins og hún sé til. Þannig sýni afsönnun hughyggjunnar hjá Kant til dæmis aðeins fram á að við verðum að gera ráð fyrir eða láta eins og efnislegir hlutir séu til. Það sé hins vegar ekki fullgild sönnun á tilvist þeirra í raun og veru.
Hin leiðin til að andmæla efahyggju felur í sér að efahyggjan geri óraunhæfar kröfur til þekkingar. Það sé vonlaust verk að reyna að finna full­komnar sannanir eða hinn fullkomna grunn fyrir því sem við viljum kalla þekkingu. Ef við ætlum að halda okkur við það að við getum ekki sagst vita það sem ekki hefur verið sannað með óyggjandi hætti þá sitjum við uppi með það að við vitum ekkert nema hluti eins og að kvaðratrótin af tveimur sé óræð tala og að leiða megi mótsagnarlögmálið af lögmálinu um annað tveggja. Við vitum þá ekki lengur hvað við heitum, hvað þá hvar við eigum heima. Þessi niðurstaða er á skjön við það sem við eigum við með hugtökunum vita og þekking í daglegu tali, það má segja að hún sé svo ólík hversdagslegri notkun hug­takanna að ekki sé lengur verið að tala um sama hlutinn.
Það má svo nefna þriðju leiðina sem farin hefur verið gegn efahyggjunni. Hún snýst ekki um að ráðast á rök efahyggjumanna heldur snýst hún um það hvað geti haft merkingu. Samkvæmt þessum andmælum er ekkert vit í því að gera ráð fyrir möguleika sem hvorki er hægt að staðfesta né afsanna þar sem einungis það sem við getum staðfest eða afsannað getur haft merkingu. Okkur er lífsins ómögulegt að fara út fyrir reynsluheim okkar til að kanna hvað býr honum að baki, hvort það sem við teljum okkur upplifa er eins og við höldum eða hvort við erum kannski grandalausar strengjabrúður furðuvera. Þess vegna eru allar staðhæfingar um slíkt merkingarlausar, merkingin er bundin við það sem er innan mögulegs reynsluheims okkar.
Sem sagt hafa ýmiss konar mótbárur komið fram við heimspekilegri efa­hyggju. Við getum svo velt því fyrir okkur hvort okkur þykir einhver þeirra sann­færandi. Eitt er þó ljóst og það er að efahyggjan er ekki vænleg til þekkingar­öflunar. Hún gengur jú út á að þekking á viðkomandi sviði sé ómöguleg. Vandinn sem skapast þá er að allt sem staðhæft er verður jafngilt, allt sem ekki hefur verið sannað með óyggjandi hætti er ekki gilt og þá er alveg sama hvernig eða hvað það er. Efahyggjusinninn á í vandræðum með að gera upp á milli vel og illa rökstuddra staðhæfinga, afstaða hans verður alltaf sú að hann viti ekki hvort staðhæfingin er sönn eða ósönn. Það sem ég á við er að ef markið fyrir það sem er viðurkennt er sett svona hátt, þá skortir leiðir til að leggja mat á allt það sem ekki nær viðurkenningunni, jafnvel þótt okkur þyki það ljóst að mikill og mikilvægur munur hljóti að vera á þeim ólíku hlutum sem þar er að finna.
Þannig hlýtur markmiðið alltaf að vera að finna leiðir út úr efahyggjunni þegar um er að ræða víðtæka efahyggju eða efahyggju um eitthvert það svið sem varðar daglegar athafnir okkar. Það er hreinlega óviðunandi ástand að vita ekki hvort okkar nánustu hugsa og finna til eða hvort þeir eru bara okkar eigin hugarfóstur. Eins getum við ekki sætt okkur við til lengdar að vita ekki hvort eplið sem við sökkvum tönnunum í er til í raun og veru, eða jafnvel hvort tenn­urnar sem við teljum okkur finna að við notum til að bíta í eplið eru til staðar. Efahyggju af þessu tagi hljótum við alltaf að hafna, hvernig svo sem við förum að því. Takist okkur ekki að færa gegn henni rök sem við teljum fullnægjandi verður niðurstaðan sú að við látum sem hún sé ekki til staðar. Við getum haldið efahyggjunni til haga og aðhyllst hana á meðan við sitjum í heimspekilegum vangaveltum en hún verður ekki lifandi kenning sem hefur einhver áhrif á það hvernig við hegðum okkur þess á milli. Manneskja sem léti hegðun sína mótast af því að hún vissi ekki nema fólkið í kringum hana væri ímyndað yrði fljótlega álitin biluð, hún gæti ekki átt það sem við köllum eðlileg samskipti við aðra.
Þetta á ekki við þegar efahyggjan takmarkast við svið sem ekki liggur til grundvallar hversdaglegri mannlegri hegðun. Til dæmis virðist vel mögulegt að aðhyllast efahyggju um hið yfirnáttúrlega án þess að lenda í vandræðum. Þótt einhver hafi þá skoðun að þekking sé þess eðlis að hún geti ekki haft hið yfirnáttúrlega að viðfangi sínu, þ.e.a.s. að það sé ómögulegt að vita hvort yfir­náttúrleg fyrirbæri eru til eða ekki, þá er ekki að sjá að það sé viðkomandi til trafala. Hið sama má segja um aðra náskylda útgáfu, trúarlega efahyggju eða agnóstík sem ég nefndi áðan. Sjálfsagt eru þeir til sem myndu neita þessu, sem telja trú á Guð svo mikilvægan þátt í öllum sínum athöfnum að það hljóti að vera óviðunandi að búa við óvissu um tilvist hans. En í það minnsta tel ég mig geta fullyrt að við getum ekki ráðið það af hegðun fólks á förnum vegi hvort það býr við efa eða fullvissu af eða á um tilvist Guðs eða annarra yfirnáttúrlegra hluta. Og fjöldi fólks aðhyllist efahyggju af þessu tagi og er fullkomlega sátt við sitt.
Við getum því dregið þá ályktun að þótt ásættanlegt sé að búa við efa á afmörkuðum sviðum, eða við afmörkuð tækifæri, þá getum við ekki lifað við stór­felldan efa um allt sem mögulega er hægt að efast um. Víðtæk heimspekileg efahyggja er ekki lífsskoðun sem hægt er að láta gegnsýra tilveru sína. En hvað hefur þetta með hversdagslega efahyggju að gera, þá skoðun sem kölluð er efahyggja í daglegu tali?
Eitt af því sem heimspekilega og hversdagslega efahyggjan eiga sam­eiginlegt er hin stranga krafa til þekkingar. Hversdagslegi efahyggjusinninn lítur svo á að efast skuli um hvaðeina sem uppfyllir ekki tiltölulega ströng þekkingar­fræðileg skilyrði, það sem ekki hafa verið færð sterk rök fyrir eða sem ekki liggja fyrir sannfærandi vísbendingar um. Í sumum tilfellum telur hversdagslegi efahyggjusinninn að á tilteknu sviði, til dæmis sviði yfirnáttúrlegra fyrirbæra, sé ómögulegt að uppfylla þessi skilyrði.
En hvað er ólíkt með heimspekilegri og hversdagslegri efahyggju? Eins og fram hefur komið snýst heimspekileg efahyggja um að efast alltaf þegar við getum. Hversdagslega efahyggjan setur þekkingunni ekki jafn þröngar skorður. Flest bendir til þess að við getum efast um hvaðeina sem ekki hefur verið færð endanleg sönnun fyrir. Ef ég fer í gegnum sönnunina á því að kvaðratrótin af tveimur sé óræð tala og fer svo að efast um að kvaðratrótin af tveimur sé óræð tala þá er ég í mótsögn við sjálfa mig. Obbinn af því sem við teljum okkur vita er hins vegar annars eðlis. Ég hef t.d. svo lengi sem ég man talið mig vita að ég hafi fæðst í Reykjavík. Það hef ég byggt á vitnisburði foreldra minna og annarra vandamanna sem muna fæðingu mína sem og þeim upplýsingum sem íslensk yfirvöld hafa um mig og byggja væntanlega á fæðingarvottorði mínu. Ég hef aldrei orðið fyrir neinni reynslu sem hefur verið mér hvati til að draga þetta í efa. Efi er í þessu tilfelli mögulegur, þau sönnunargögn sem ég hef varðandi fæðingarstað minn eru ekki endanleg sönnun. Það er vel mögulegt að foreldrar mínir og íslensk yfirvöld hafi tekið sig saman um að falsa allar upplýsingar um fæðingarstað minn. Það er líka mögulegt að foreldrar mínir hafi blásaklausir verið heilaþvegnir til að halda að ég hafi fæðst í Reykjavík. Hins vegar má segja að það væri ekki skynsamlegt af mér að efast um að ég hafi fæðst í Reykjavík, að gefnum þeim gögnum sem liggja fyrir. Til að efast þyrfti ég að taka tillit til samsæriskenningar af einhverju tagi, kenningar sem ég hef enga góða ástæðu til að trúa.
Það sem ég er að ýja að hér er að efi er ekki alltaf skynsamlegur þótt hann sé mögulegur. Ef ég ætti að fara að efast um réttmæti fyrirliggjandi upplýsinga um fæðingarstað minn, um minningar mínar um gærdaginn, um að fólk sem ég hef aðeins góða reynslu af komi hreint fram við mig, jafnvel um að hlutirnir sem ég skynja í kringum mig séu til þá yrði líf mitt og þeirra sem umgangast mig talsvert flóknara og erfiðara en það er. Þegar öllu er á botninn hvolft er ekkert mikið skynsamlegra að vantreysta öllu en það er að gleypa við öllu. Eins geta mörkin milli vantrausts og trúgirni orðið óljós, t.d. þegar vantraustið byggir á að gleypa við langsóttri samsæriskenningu.
Þetta er nokkuð sem hversdagsleg efahyggja þarf að taka mið af. Sá efi sem hún heldur fram þarf að vera skynsamlegur. Kannski getum við þá sagt að hversdagslegi efahyggjusinninn sé sá sem efast um allt það sem skynsamlegt er að efast um. En væntanlega myndu flestir taka undir það að efast skuli um allt það sem er skynsamlegt að efast um. Ekki þýðir það að allir telji sig að­hyllast hversdagslega efahyggju? Efahyggjan hlýtur þá að þurfa að snúast um að setja einhver viðmið fyrir skynsamlegan efa sem sumir myndu hafna.
Það sem einkennir hversdagslega efahyggju er kannski ekki endilega að þeir sem aðhyllist hana séu haldnir miklu meiri efa en annað fólk. Tökum sem dæmi efahyggju um yfirnáttúrleg fyrirbæri. Þeir sem aðhyllast hana draga tilvist slíkra fyrirbæra í efa á þeim forsendum að ekki liggi fyrir fullnægjandi sannanir um þau. Því til stuðnings er gjarnan nefnt að slík fyrirbæri brjóti í bága við heimsmynd vísindanna og að vísindalegar skýringar á því sem þessum yfir­náttúrlegu fyrirbærum sé ætlað að skýra séu af ýmsum ástæðum betri. Undir þessu býr því líka ákveðið traust á aðferðir vísindanna. Áhangandi hins yfir­náttúrlega og dulræna gæti svo verið fullur vantrausts og efa í garð vísindanna. Sá væri þó ekki kenndur við efahyggju, a.m.k. ekki í þeim skilningi sem við eigum að venjast.
Jafnvel örgustu efahyggjusinnar hljóta að telja sig vita ótal hluti sem þeir telja sig ekki þurfa að efast um. Hversdagsleg efahyggja felur fyrst og fremst í sér hugmyndir um það hvaða kröfur skuli gera til þess að eitthvað geti talist til þekkingar. Einkenni efahyggjunnar er ekki aðeins það að efinn sé til staðar heldur ekki síður viðfangsefni hans og af hverju hann stafar.

 

Neðanmálsgreinar

i. Erindi flutt 10. mars 2007 á málþinginu Trúirðu öllu sem þér er sagt? Gagnrýnin hugsun og gagnrýnisleysi sem haldið var af Res Extensa.

ii. Descartes, René (2001), Hugleiðingar um frumspeki, þýð. Þorsteinn Gylfason, Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag (Upphafleg útg. 1641 sem Meditationes de prima philosophia in quibus dei existentia & animæ a corpore distinctio demonstrantur), bls. 133.