Kennarar gagnrýna og heimspekingar kenna – eða var það öfugt?

eftir Brynhildi Sigurðardóttur

fyrirlestur á málþinginu

Gagnrýnin hugsun í skólakerfinu:
Gamall arfur, nýjar áherslur, brýnt viðfangsefni

föstudaginn 6. maí í Skriðu, húsnæði Menntavísindasviðs Háskóla Íslands

Ég ætla að fjalla um hugmyndir heimspekinga um gagnrýna hugsun og þá skoðun mína að þessar hugmyndir hafi ekki náð að tala til kennara á Íslandi sem þó eiga að kenna þessa sömu gagnrýnu hugsun á öllum skólastigum. Gagnrýnin hugsun verður ekki kennd án kennara. Hún verður heldur ekki kennd nema kennarar líti til þess hvaða vinnubrögðum heimspekingar beita í þessum efnum. Ég mun velta upp hugmyndum mínum um hvernig hægt er að skapa brú milli þessara fagstétta í þeim tilgangi að auka hlut gagnrýninnar hugsunar í skólakerfinu.

Glæra 2.

Í greininni sem varð kveikja að þessari ráðstefnu útskýrir Guðmundur Heiðar Frímannsson (2010) mikilvægi gagnrýninnar hugsunar sem leggur grundvöllinn að öllu námi og fræðaiðkun. Hún nýtist einnig borgurum í verkferlum lýðræðis­ins og ýmiss konar persónulegri ákvarðanatöku. Íslenskt samfélag virðist sam­þykkja þessa fullyrðingu og ætlast til að öllum börnum og unglingum sé kennd gagnrýnin hugsun á markvissan hátt á öllum skólastigum.

Glæra 3.

Gagnrýnin hugsun er mikilvæg vegna þess að hún er öguð, fylgir ákveðnum reglum í ályktunum sínum og nær þar með árangri sem hægt er að leggja skýrt mat á. Meginreglan er sú að hugsunin stýrist af rökum. Guðmundur Heiðar kallar slíkar reglur innviði gagnrýninnar hugsunar. Síðan bendir hann á að til að manneskja geti tileinkað sér gagnrýna hugsun þá er ekki nóg að hún hafi hæfileikann til að beita þessum innviðum rétt, hún verður að hafa það hugarfar að vilja beita þeim og gera það á raunverulegum vettvangi.

Hugarfarið greinir Guðmundur Heiðar í fimm þætti sem einkenna manneskjur sem kalla má gagnrýnar. Þær eru spyrjandi og leita sannleikans. Þær treysta skynsamlegum rannsóknum og beita þeim þegar tækifæri gefast til. Þær eru víðsýnar sem hjálpar þeim að heyra og skilja ólík rök og sjónarmið. Að lokum eru gagnrýnar manneskjur reiðubúnar að breyta skoðunum þegar rökin krefjast þess.

Guðmundur Heiðar gerir okkur mikinn greiða með því að útskýra hvað felst í hugarfari gagnrýninnar hugsunar. Umfjöllun heimspekinga um gagnrýna hugsun hefur snúist að mestu leyti um rökfræðilegan hluta hennar, innviðina sem reynast öðrum en heimspekingum (og jafnvel þeim sjálfum) óbærilega leiðinlegir og fráhrindandi. Síðan er minnast þeir ef til vill örstutt á það að auðvitað megi ekki gleyma því að hugsandi manneskjur hafi líka tilfinningar og þær hafi líka vægi sem rök. En það er næstum því aldarfjórðungur síðan Páll Skúlason benti á að það „nægir engan veginn að þjálfa menn eingöngu í rökfærslum til að kenna þeim gagnrýna hugsun. Það sem mestu skiptir er að mönnum sé kennt að leggja slíka rækt við tilfinningar sínar og vilja að þeim gleymist aldrei að hlýða kalli hinnar gagnrýnu hugsunar.“ (1987:92) Greining á hugarfari gagn­rýninnar hugsunar er því forsenda þess að h!
ægt sé að kenna hana.

Námskrár íslenskra grunnskóla hafa um áratuga skeið lagt áherslu á mikilvægi þess að kenna nemendum gagnrýna hugsun. Þegar ég las greiningu Guðmund­ar Heiðars og rifjaði upp aðrar skilgreiningar sem ég hef lesið og unnið með þá fór ég að velta því fyrir mér hvort grunnskólakennarar þekki þessar skil­greiningar. Nýta kennarar þá þekkingu og reynslu sem heimspekingar hafa af gagnrýninni hugsun? Hafa þeir kannski sínar eigin skilgreiningar á fyrirbærinu og vinna út frá þeim í staðinn?

Glæra 4.

Í nýjustu drögum að Aðalnámskrá grunnskóla (2011) eru gefin viðmið um mat á þeim lykilþáttum sem eiga að vera gegnumgangandi í öllu grunnskólastarfi og þar segir meðal annars að þegar hæfni nemenda er metin eigi að líta til:

  1. „hæfni nemenda til að tjá hugsanir sínar, tilfinningar og skoðanir munnlega, skriflega og á annan hátt… taka þátt í samræðum og rökræðum.“ (bls. 24)
  2. „Hæfni nemenda til að nota þekkingu og leikni, draga ályktanir og beita gagnrýninni hugsun og röksemdafærslu.“ (bls. 24)
  3. „Hæfni nemenda til að nýta margvíslega tækni í þekkingarleit og miðlun þekkingar og nýta upplýsingar á ábyrgan, skapandi og gagnrýninn hátt.“ (bls. 25)

Eru þessi tilmæli skýr? Beina þau kennurum inn á þá braut að leggja fyrir verkefni sem krefjast gagnrýninnar hugsunar nemenda og þróa matstæki til að greina hvort nemendur hafi í raun lært eitthvað? Veit kennari hvernig á að kenna röksemdafærslur og meta árangur nemenda í þeim efnum? Veit hann hver er munurinn á röksemdafærslu og gagnrýninni hugsun? Veit hann hver er munur­inn á samræðum og rökræðum og hvað þær hafa með gagnrýna hugsun að gera? Veit hann að spurningar, það að hvetja nemendur til að vera spyrjandi gagnvart viðfangsefninu, er nauðsynlegur þáttur í hugarfari gagnrýninnar hugs­unar?

Þessar spurningar mínar geta virst smásmugulegar – er ég ekki bara að leita uppi vandamál? Er ég ekki bara heimspekingurinn sem reynir að búa til þrætu og flækja málin frekar en að samþykkja bara að það sé augljóst að námskráin staðfesti að það eigi að kenna gagnrýna hugsun? Getur verið að ég sé óþarflega spyrjandi?

Ég man ekki eftir að hafa heyrt neinn andmæla opinskátt þeirri skoðun að það eigi að kenna börnum og unglingum gagnrýna hugsun. En í störfum mínu sem grunnskólakennari og háskólakennari hef ég svo oft séð þessi tilmæli hunsuð og sniðgengin að ég verð að taka gagnrýna afstöðu til málsins og spyrja smá­smugulegra spurninga.

Glæra 5.

Nýlega lagði ég verkefni um fjölmiðlalæsi fyrir lífsleikninemendur í 8. og 9. bekk. Verkefnið fólst í að lesa litla frétt og greina hana með hjálp 6 lykilspurninga. Þetta er verkefni sem á að þjálfa lestur og gagnrýna hugsun. Verkefnið gerir það með því að biðja nemendur að útskýra hvernig þeir skilja texta og spyrja textann spurninga. Þetta er verkefni sem ætti í raun að vinna undir hatti íslenskukennslu eða lestrarkennslu – en af viðbrögðum nemenda sýndist mér þeir ekki hafa fengist við verkefni af þessu tagi áður. Þeir gátu svarað tveimur fyrstu spurningunum með minniháttar útskýringum kennara en þegar kom að því að rýna undir yfirborð textans, hafa skoðun á honum og ímynda sér hvað búi að baki honum þá voru nemendur ráðalausir.

Síðan ég byrjaði að kenna fyrir tæplega 20 árum þá hefur Aðalnámskrá alltaf sagt að skólarnir ættu að kenna gagnrýna hugsun en skólarnir hafa ekki sinnt verkefninu. Eftir að ég fór að kenna heimspeki á unglingastigi þá heyri ég á hverju ári frá foreldrum eða nemendum fullyrðingar eins og „mikið er gott að fá loksins að hugsa sjálfstætt í skólanum!“ Ég heyri líka hjá samstarfsfólki mínu í skólunum að þeim finnst það sem ég kenni í heimspekinni „öðruvísi“ – ég fylgi ekki skýrum markmiðum, nemendurnir fái að segja fáranlega hluti í tímum og við eyðum alltof miklum tíma í alltof litlar niðurstöður. Þetta eru merki um að það heyri til undantekninga að markvisst sé unnið að því að nemendur tileinki sér og beiti gagnrýninni hugsun í skólanum.

Íslenskir grunnskólar hafa undanfarin ár starfað undir hatti aðalnámskrár sem er svo efnismikil að í raun er útilokað að kenna öllum nemendum allt sem nám­skráin kveður á um. Kennarar verða að velja og hafna þegar þeir setja saman markmið í skólanámskrá og atriðin sem eru valin eru oftar en ekki þau sem eru nógu skýrt skilgreind til að hægt sé að meta þau með þeim matstækjum sem kennarar þekkja og nota. Það er grundvallaratriði í fagmennsku kennara að hann hafi skýra mynd af tilgangi kennslunnar hverju sinni, hafi vald á fjöl­breyttum kennsluaðferðum og sjái samhengið milli námsmarkmiða og hvernig mat er lagt á hvort nemendur hafi náð þessum markmiðum (Ingvar Sigur­geirsson, 1999). Kennari sem vill vinna vel leggur því eðlilega áherslu á að kenna nemendum þá þætti sem eru vel skilgreindir og hægt er að meta á skýran og skynsamlegan hátt. Markmið sem eru almenn, erfitt að meta eða nást!
kannski aldrei til fulls eru líklegri til að detta út úr vel skipulagðri dagskrá hefðbundins grunnskóla. Ég hef grun um að gagnrýna hugsunin lendi í þessum pytti.

Þegar við skoðum hvernig tilmælum um gagnrýna hugsun eru útfærð nánar í Aðalnámskrá, námsefni og kennslufræði þá finnst mér ljóst að það er vandamál til staðar. Tungumál námskrárinnar er ekki skýrt, eins og ég vildi benda á með spurningum mínum hér að framan. Lokamarkmið og áfangamarkmið eru ekki komin inn í nýjustu námskrárdrögin en ef maður skoðar þau í eldri námskrám sést að það er ekki skýrt hvað átt er við með gagnrýninni hugsun, sérstaklega ekki hvaða hugarfar þarf að þjálfa upp.

Glæra 6.

Skoðum dæmi úr kafla sem fjallar um „talað mál og hlustun“ sem heyrir undir námskrá í íslensku. Um þennan þátt segir meðal annars í námskrá frá árinu 2007:

Veigamikill þáttur í almennri menntun er að kunna að hlusta og horfa með athygli og á gagnrýninn hátt. (Bls. 10)

Áfangamarkmið 4. bekkjar:
○ hafa hlustað á upplestur, sögur, leikrit og ljóð (Bls. 15)

Áfangamarkmið 7. bekkjar:
○ kunna að hlusta og taka eftir og geta nýtt sér upplýsingar í töluðu máli (Bls. 17)

Áfangamarkmið 10. bekkjar (lokamarkmið):
○ kunna að hlusta á aðra og bregðast við á viðeigandi hátt (Bls. 19)

 

gagnrýnin hugsun?

hvergi útskýrt nánar í hver­ju það felst að „hlusta og horfa á gagnrýninn hátt“

hvergi talað um spurning­ar nemenda!

Almenni kaflinn sem útskýrir hvað felst í námsþættinum „talað mál og hugsun“ tilgreinir að nemendur eiga að verða færir um að hlusta og horfa á gagnrýninn hátt. Nemendur eiga líka að geta beitt gagnrýni þegar þeir túlka og meta ýmiss konar upplýsingar og tjáningu. Í áfangamarkmiðunum er hins vegar ekki útskýrt í hverju þessi gagnrýni felst eða hvernig nemandinn sýnir færni sína að þessu leyti. Sundurliðuðu markmiðin útskýra í smáatriðum hvers konar birtingarform hugsana nemendur eiga að geta hlustað á og metið (sögur, ljóð, fréttir o.s.frv.), en þessi markmið útskýra ekki vel hvernig nemendur fara að því að beita gagnrýninni hugsun við hlustun og mat á þessu margvíslega efni.

Mér sýnist að skólafólk hafi ekki nýtt sér þær skilgreiningar og umræðu sem hefur átt sér stað meðal heimspekinga á Íslandi síðustu áratugina. Á sama tíma hafa heimspekingar ekki staðið sig sem skyldi í að miðla sérfræði sinni til skólafólksins þannig að hún nýtist til að bæta skólastarf. Heimspekingar hafa tilhneigingu til að álíta það fyrir neðan virðingu sína að vinna með börnum og unglingum og hafa viljað einbeita sér að vinnu á háskólastigi og ef til vill framhaldsskólastiginu. Með þessu viðhorfi hafa þeir hunsað mikilvægi þess að ala fólk upp í góðum siðum frá unga aldri og hafa þurft að kenna fullorðnu fólki grundvallaratriði gagnrýninnar hugsunar af því að það hefur ekki fengið þjálfun fyrr.

Nú erum við saman komin, kennarar og heimspekingar, til að leiðrétta þetta og brúa bilið. Þá kviknar spurningin um hvernig við förum að því. Hvað eigum við að gera til að laða kennara og heimspekinga að gagnkvæmu samstarfi sem miðar að því að kenna gagnrýna hugsun á öllum skólastigum? Þegar við höfum hist, lært einhver nöfn, hlerað verkefni hjá hvert öðru og erum komin saman á vinnufund – hvað gerum við þá?

Glæra 7.

Ég legg til að við beitum gagnrýninni hugsun, saman. Spyrjum hvert annað í þeirri trú að skynsamleg rannsókn okkar leiði okkur nær sannleikanum. Verum víðsýn og tilbúin að leiðrétta skoðanir okkar og aðferðafræði í ljósi sterkra raka.

Ég hef reyndar ákveðnar hugmyndir um hvert þessi rannsókn gæti leitt okkur. Ég veit að heimspekingarnir koma með rökfestuna að borðinu, kröfuna um að það sem er sagt sé skýrt og að rök séu færð fyrir skoðunum. Þeir koma líka með spyrjandi anda að borðinu, kröfuna um að halda rannsókninni stöðugt áfram og kafa dýpra. Heimspekingarnir eiga lýsingar á þeim verkefnum sem kenna okkur að beita innviðum gagnrýninnar hugsunar og vonandi smitast kennararnir af vilja þeirra til að setja eilíft fram nýjar spurningar. Síðan veit ég líka að kennararnir koma með víðsýnina að borðinu, vilja til að læra eitthvað nýtt og læra af samstarfsfólki og nemendum. Kennararnir vita hvernig við virkjum nemendur, kveikjum áhuga og drögum þá með í rannsóknir sem heimspekingunum finnst kannski augljóslega áhugaverðar en fermingarbarnið flissar að eða drepur með háði – rannsóknir eins og „hvað er tíminn?“

Ég held að kennarinn og heimspekingurinn muni síðan finna snertiflötinn í samræðunni – samræða nemenda er svarið við því hvernig á að kenna gagnrýna hugsun. Gagnrýnin hugsun snýst um að manneskjan sé í lifandi rannsókn á viðfangsefni sínu – og slíka hugsun verður að læra í lifandi rannsókn á viðfangsefninu. Öguð, rökföst samræða er slík rannsókn. Samræða sem er drifin áfram af áhuga þátttakenda og vilja þeirra til að skilja meira og komast nær sannleikanum – slík samræða er sá vettvangur sem þjálfar upp bæði innviði og hugarfar gagnrýninnar hugsunar.

Nú hugsa heimspekingarnir allir til Sókratesar sem er átrúnaðargoð og fyrirmynd heimspekinga og varði lífi sínu í samræðu við fólk á götum úti. Heimspekingarnir hafa greint og lýst þessu samræðuformi í smáatriðum og það er til aðferð sem kallast sókratísk samræða, eða voru það tvær ólíkar aðferðir sem báru þetta nafn…? Hvað um það, þrátt fyrir allar skýrar og rökfastar lýsingar á þessari aðferð þá hefur hún ekki átt greiða leið inn í grunnskólana, lýsingarnar eru settar fram á máli heimspekinga og eru óskiljanlegar í veröld skólanna. Meira að segja aðferðir heimspekinga sem hafa farið inn í grunnskólanna til að kenna hafa átt erfitt uppdráttar. Ég vísa til dæmis í barnaheimspeki sem Matthew Lipman byrjaði að þróa fyrir 40 árum og hefur vissulega haft áhrif á fjölmarga kennara um víða veröld. En aðferðin hefur átt erfitt með að skjóta rótum, meðal annars af því að kenn!
urum finnst aðferðin ólík öllu öðru sem gert er í skólunum og alltof tímafrek.

Glæra 8.

En skólarnir eiga líka þetta hugtak, samræða. Og í skólunum er samræða notuð til að viðra hugmyndir, skiptast á sögum, leysa vandamál og dýpka nám nemenda. Mig langar til að benda á samræðuform sem þjónar þeim tilgangi að bæta lesskilning nemenda – gagnvirkur lestur er aðferð sem á að „auka skilning og gefa lesara tækifæri til að fylgjast með skilningi sínum sem er hluti af góðri námsvitund“ (Anna Guðmundsdóttir, 2007, bls. 7). Aðferðinni er oftast beitt í litlum samræðuhópum nemenda og þar er þeim kennt:

  • að taka saman meginatriði efnisins
  • að spyrja spurninga um hugmyndir og efni textans
  • leita skýringa þegar skilning brestur eða eitthvað er óljóst
  • að spá fyrir um framhald texta

Þegar nemendur beita þessari aðferð eru þeir í raun að búa til á skipulegan hátt gagnrýnið samtal um texta. Þeir setja fram tilgátur, spurningar og skýringar til að ná betra sambandi við textann. Með þessari aðferð er verið að kenna nemendum ákveðið hugarfar við lesturinn, hugarfar sem krefst skýrleika og rétts skilnings. Nemendur læra að beita spurningum til að ná hámarksskilningi og ég get ekki betur séð en að þetta sé náskylt þeim þáttum sem einkenna hugarfar gagnrýninnar hugsunar.

Glæra 9.

Kennarar og heimspekingar vilja auka og bæta kennslu í gagnrýninni hugsun. Hvorugur aðilinn hefur náð nægilegum árangri hingað til en hagsmunirnir eru óumdeilanlega sameiginlegir. Það er klisja að halda því fram að ólíkar fagstéttir tali ólík tungumál og geti því ekki átt samstarf. En klisjan er staðreynd og ég fagna því þessi ráðstefna býður heimspekingum og kennurum upp á að brjóta niður múra og byggja upp gagnkvæm samskipti. Þeir heimspekingar og kennarar sem er annt um framgang gagnrýninnar hugsunar í skólunum eiga að gera átak í því að hlusta, reyna að skilja og finna sameiginlegar lausnir.

Heimildaskrá

Aðalnámskrá grunnskóla – drög 2011. (2011) http://www.menntamalaradu­neyti.is/utgefid-efni/namskrar/drog-ad-nyjum-namskram/grunnskolar–namskrardrog/, sótt á vefinn 18. apríl 2011.

Aðalnámskrá grunnskóla, íslenska. (2007). http://brunnur.stjr.is/mrn/utgafu­skra/utgafa.nsf/SearchResult.xsp?documentId=B53E86F8E8B16322002576F00058DC5C&action=openDocument, sótt á vefinn 3. maí 2011.

Anna Guðmundsdóttir. (2007). Lesið til skilnings. Kennarahandbók í gagn­virkum lestri. Reykjavík: Námsgagnastofnun. (sótt á vefinn 6. maí 2011, http://vefir.nams.is/lesid_til_skilnings/lesidtilskilnings_klb.pdf)

Guðmundur Heiðar Frímannsson. (2010). „Hugarfar gagnrýninnar hugsunar“. Hugur, tímarit um heimspeki, 22: 119-134.

Ingvar Sigurgeirsson. (1999). Að mörgu er að hyggja. Handbók um undirbúning kennslu. Reykjavík: Æskan, kennslu- og fræðirit.

Páll Skúlason. (1987). „Er hægt að kenna gagnrýna hugsun?“ Í Pælingar, bls. 67-92. Reykjavík: Ergo.