Um lifandi og dauða þekkingu: Kenning um heimspekikennslu

Í vorhefti tímaritsins Uppeldi og menntun á þessu ári birtist grein eftir Kristian Guttesen undir heitinu „Um lifandi og dauða þekkingu: Kenning um heimspekikennslu“. Þetta hefti hefur nú verið gert aðgengilegt á Skemmunni og Tímarit.is, og hefur höfundur því brugðið á það ráð að gera greinina aðgengilega á vefsvæðinu Academia.edu.

Nálgast má greinina á heimasíðu Kristians.

Heimspeki í skólastarfi

Að kenna gagnrýna og skapandi hugsun í samræðu

Besta leiðin til að þjálfa kennara í að beita heimspekilegri samræðu til að kenna gagnrýna og skapandi hugsun er að veita þeim þjálfun í slíkri samræðu og reynslu af námsefni sem nýtist til slíkrar kennslu.

Á námskeiðinu munu kennarar vinna sig í gegnum valda kafla úr námsefni eftir Matthew Lipman sem var þýtt og gefið út af Heimspekiskólanum. Einnig verður unnið með námsefni sem Námsgagnastofnun hefur gefið út fyrir lífsleikni­kennslu. Þátttakendur taka þátt í umræðum um markmið námsefnisins og kennslu þess.

Á námskeiðinu byggja kennarar upp færni í að kenna grunnskólanemendum að vinna í heimspekilegu samræðufélagi, beina þeim inn í rannsókn á heimspeki­legum spurningum og bjóða þeim upp á markvissar æfingar í gagnrýninni og skapandi hugsun. Lögð verður áhersla á að þátttakendur í námskeiðinu tileinki sér einfalda grunnaðferð (lesa-spyrja-ræða-meta) sem hægt er að beita til að skapa heimspekilega samræðu út frá ýmiss konar námsefni.

Kennararnir fá tækifæri til að æfa sig bæði sem nemendur og kennarar með því að taka þátt í fjölmörgum samræðum og stjórna að minnsta kosti einni sam­ræðu sjálfir. Eftir hverja samræðu verður tekinn tími í að gagnrýna framkvæmd samræðunnar á uppbyggilegan hátt. Ætlast verður til að kennarar endurtaki þau verkefni sem lögð eru fyrir á umræðufundum í eigin kennslu. Þátttakendum á námskeiðinu gefst kostur á eftirfylgd og ráðgjöf kennara ef þeir óska eftir þegar þeir taka aðferðina inn í kennslu hjá sér.

Hvenær:
Námskeið: laugardaginn 22. september 2012 frá 9:00 – 17:00
Umræðufundir: á miðvikudögum kl. 16:00 – 17:30 – einu sinni í mánuði allt skólaárið.
Dagsetningar: 22. sept., 26. sept., 17. okt., 14. nóv., 16. jan., 6. feb., 6. mars, 10. apríl.

Markmið námskeiðsins:
Að þátttakendur byggi upp færni í að stjórna heimspekilegri samræðu sem þjálfar gagnrýna og skapandi hugsun nemenda og lýðræðislega færni þeirra.

Tengsl við þarfir grunnskólans og aðalnámskrá grunnskóla:
Aðalnámskrá grunnskóla 2011 kveður á um að í skólum sé börnum og unglingum kennt að taka þátt í lýðræðislegum vinnubrögðum, að þeir efli sjálfs­mynd sína og félagsþroska og að þeir beiti gagnrýninni og skapandi hugsun í námi sínu. Heimspekileg samræða er kennsluaðferð sem skapar aðstæður þar sem hægt er að þjálfa nemendur markvisst í þessum námsþáttum.

Kennarar

Brynhildur Sigurðardóttir Brynhildur Sigurðardóttir

Brynhildur Sigurðardóttir er heimspekikennari og aðstoðarskólastjóri við Garðaskóla í Garðabæ. Brynhildur lauk M.Ed. gráðu frá Montclair State University 1999 og sérhæfði sig þar í heimspeki með börnum. Hún hefur kennt heimspeki sem valgrein í Garðaskóla síðan 2002 og kennt fjölda heimspekinámskeiða fyrir börn og kennara. Brynhildur hefur haft umsjón með námskeiðinu Heimspeki með börnum sem kennt er í framhaldsdeildum á Menntavísindasviði Háskóla Íslands.

Hreinn Pálsson Hreinn Pálsson

Hreinn Pálsson er prófstjóri Háskóla Íslands, stofnandi og skólastjóri Heimspekiskólans í Reykjavík. Hreinn lauk doktorsgráðu frá Michigan State University 1987, rannsókn hans ber heitið „Educational Saga: Doing Philosophy with Children in Iceland“ og gerir grein fyrir tilraun tveggja íslenskra kennara til að innleiða heimspekilegt samræðufélag í bekknum sínum. Hreinn hefur kennt fjölda kennaranámskeiða um heimspeki fyrir börn auk ýmissa heimspekinámskeiða fyrir fólk á öllum aldri.

Sjá:
http://klifid.is/index.php?option=com_zoo&task=item&item_id=113&category_id=3&Itemid=159

Sókratísk samræða

Sókratísk samræða á, eins og nafnið gefur til kynna, rætur að rekja til Grikk­lands hins forna og í samræður Platons, þar sem Sókrates var jafnan í aðal­hlutverki. Í bókinni Hversdagsheimspeki segir Róbert Jack (2006) frá tilurð og aðferðum sókratísku samræðunnar (44-48).

Sókratíska samræðan byggir á því að hópur á bilinu 6-10 manns tekur ákveðið heimspekilegt hugtak til umfjöllunar undir leiðsögn heimspekings (kennara), t.d. réttlæti. Í minni nálgun velur hópurinn hugtakið í samstarfi við kennarann. Valið á hugtakinu getur farið fram með margvíslegum hætti og getur orðið mikils­verður þáttur í ferlinu. Hver þátttakandi kemur með sögu úr eigin lífi sem hún telur lýsa hugtakinu. Þegar allir hafa sagt sínar sögur eru þær ræddar og sú saga sem best þykir lýsa hugtakinu valin af hópnum. Út frá þeirri sögu er síðan búin til skilgreining. Að því loknu er skilgreiningin notuð til að greina hinar sögurnar og hún löguð að þeim. Ef við skoðum sókratísku samræðuna í ljósi fjölgreindakenningar Gardners (Armstrong, 2001) sjáum við að hún þjálfar í fyrsta lagi sjálfsgreind (val á sögu og tenging hugtaks við eigið líf); málgreind (tjáning á sögu, munnlega og skriflega); félagsgreind, (þátttaka í hópnum, hvetja aðra þátttakendur, spyrja vel o.s.frv.) og svo rökgreind (þegar kemur að því að orða skilgreininguna nákvæmlega). Dygðir sem eru þjálfaðar hér eru þolinmæði, umburðarlyndi og víðsýni.

Það hafa þróast tvö meginafbrigði af sókratísku samræðunni, þýskt og hol­lenskt (Róbert Jack, 2006, 44). Hollenska módelið hefur verið það sem hefur skotið rótum í Skandínavíu og afbrigðið mitt er í þeim anda. Hollensku heim­spekingarnir Kessels, Boers, og Mostert fjalla um sókratíska samræðu í bók sinni Free Space (2004). Sókratísk samræða er hér hluti af beitingu heimspeki­legra aðferða í fyrirtækjaráðgjöf og þróun. Helsta áhersluatriði þessara höfunda er að heimspekin veiti okkur ‚frjálst rými‘ til að huga að grundvallaratriðum í gildismati okkar; í heimspekinni stöðvum við klukkuna og skoðum líf okkar utanfrá (17). Vinna þeirra með fyrirtækjum beinist að því að beita aðferðum á borð við sókratíska samræðu í tengslum við brýn úrlausnarefni. Þá er glímt við vandann þannig að hægt sé að komast handan við þröng hagsmunasjónarmið og reynt að komast að þeim grundvallarspurningum sem að baki liggja. Kjarna heimspeki sinnar sækja þeir til fornaldarinnar, og þeir ljúka bók sinni á um­fjöllun um Samdrykkju Platons (157-164).

Þrep sókratísku samræðunnar eru þá: afmörkun vandamáls (val á hugtaki); skýring á reynslu tengda vandamálinu (saga); val á afgerandi augnabliki (saga); að setja sig í annars spor (ræða söguna); komast að kjarna málsins (skil­greining hugtaks). (40). Danski heimspekingurinn Finn Thorbjørn Hansen hefur með svipuðum hætti unnið með sókratíska samræðu til að greina grundvallar­atriði í siðferðilegum viðhorfum innan fyrirtækja (Hansen 2000, 2002), Í því sam­bandi notar hann þessa aðferð sem staðgengil þess sem nefnt hefur verið sið­ferðilegt bókhald; sem felur í sér að fá starfsmenn fyrirtækja og stofnana til að greina siðferðileg grundvallaratriði í starfi þeirra. Hollensku og dönsku heim­spekingarnir beita hér aðferðinni til að fást við raunveruleg aðsteðjandi vanda­mál, en í minni útfærslu er verið að fást við almennari heimspekilega rannsókn. Vel væri hægt að beita þessari umræðuaðferð í tengslum við aðsteðjandi vandamál í samskiptum nemenda og kennara, í anda verkefnisins ‚Ræðum í stað þess að rífast‘ sem Sigrún Aðalbjarndóttir hefur fjallað um (143-173). Raunar var reynsla mín í Menntaskólanum Hraðbraut til að ýta undir að hér gæti verið góður grundvöllur fyrir slíkt. Þetta er hins vegar mjög viðkvæmt og vand meðfarið viðfangsefni. Í Noregi hefur verið þróað form sem heitir ‚Short Socratic Dialogue‘ sem er nálægt minni útgáfu. Þar er lögð áhersla á að greina jákvæð hugtök og að niðurstöður slíkra hópa beri ekki að túlka sem endanlegan dóm um hvað hugtökin sem greind eru merkja í raun og veru. Þátttakendur þurfa ekki að verða sammála um allt (Herrestad, bls. 91-102).

Markmið mitt með að beita sókratísku samræðunni er að þjálfa á áhrifaríkan hátt margháttaða færniþætti þátttakenda og að rannsaka raunverulegan lifaðan veruleika þeirra – þetta er alvöru, lífræn, heimspeki. Sókratísk samræða hefur ekki verið mikið notuð í skólum í þessu formi. Í Bandaríkjunum hefur Matt Copeland enskukennari þróað aðferð sem hann kallar ‚Socratic Circles‘ (2005). Þessi aðferð líkist að nokkru aðferðinni sem ég fjalla um hér, en líkist þó etv. frekar aðferðum barnaheimspeki (Róbert Jack, 2006, Hreinn Pálsson, 1992). Hún byggir á hráefni í formi texta eða einhvers viðfangsefnis af því tagi. Jafn­framt er aðferðin flóknari þar sem hún gerir ráð fyrir einum umræðuhóp og öðrum hóp sem metur umræðu hins hópsins (Copeland, 2005, 57-93). Þessi hugmynd um ytri hring er áhugaverð, en, reynsla mín af því að nota hana í sókratískri samræðu er afleit. Ég prófaði hana með heimspekihóp í Versló vorið 2009, með þeim afleiðingum að ytri hópurinn blandaði sér stöðugt í umræður og allur fókus hvarf úr umræðunum. Slík skipting virkar vel í snarpar umræður um afmörkuð efni, ég hef prófað það með góðum árangri í enskukennslu. Þetta virðist góð lausn til að halda sókratíska samræðu með stórum hóp, en sú leið sem ég hef valið er að fela helmingi hópsins önnur sjálfstæð verkefni meðan sá hópur sem er í samræðunni sinnir henni er að mínu mati mun betri.

Segja má að sókratíska samræðan tengi saman tvær mikilvægar aðferðir heim­spekinnar, frásögnina og skilgreininguna. Páll Skúlason hefur bent á að ‚raun­verulegar aðstæður manna í heiminum eru eingöngu skiljanlegar í frásögnum‘ ekki má þó gleyma að ‚frásagnir geta ekki komið í stað heimspekikenninga‘ (Páll Skúlason, 46-47). Bandaríski menntunar- og sálfræðingurinn Jerome Bruner hefur á svipaðan hátt bent á mikilvægi frásagnarhugsunar og fjallað um hvernig hún hefur átt í vök að verjast gagnvart útskýringarhugsun vísindanna. Frásagnirnar og heimspekikenningarnar hjálpa okkur að takast á við mannlegan veruleika á hátt sem aðferðir raunvísinda geta ekki. Við erum stödd í mann­félaginu og við erum dæmd til að segja frá og túlka; og bókmenntir, saga og heimspeki eru þau tæki sem við höfum til þess. Markmið okkar í slíkum pælingum er ekki að komast að endanlegri sannanlegri niðurstöðu, heldur ‚aukin meðvitund, og aukin meðvitund þýðir aukin fjölbreytni‘ (Bruner 1996 , 97).

Heimildir

Armstrong, Thomas. (2001). Fjölgreindir í skólastofunni. Reykjavík: JPV útgáfa

Bruner, Jerome. (1996). The Culture of Education. Cambridge Mass. og London, England: Harvard University Press.

Copeland, Matt. (2005). Socratic Circles. Portland Maine: Stenhouse Publishers.

Hafþór Guðjónsson. (2008). Starfendarannsóknir í Menntaskólanum við sund. Netla. Sótt 5. júní 2008 af http://netla.khi.is/greinar/2008/002/index.htm

Hansen, Finn Thorbjørn. (2000). Den sokratiske dialoggruppe, et verktøj til værdiafklaring. København: Gyldendal Uddannelse.

Hansen, Finn Thorbjørn. (2002). Det filosofiske liv. København: Gyldendal Uddannelse.

Herrestad, Henning. (2002). „Short Socratic Dialogue“. Philosophy in Society, Oslo: Unipub, bls. 91-102.

Hreinn Pálsson. (1992). „Heimspeki með börnum og unglingum“, Hugur, tímarit um heimspeki 5. ár, bls. 44-56.

http://www.hetnieuwetrivium.nl/page/english

Kessels, Jos; Boers, Erik; Mostert, Pieter ( 2004). Free Space, Amsterdam: Boom

Páll Skúlason. (1987). Pælingar, Reykjavík: Ergo.

Platon. (1999). Samdrykkjan (þýð. Eyjólfur Kjalar Emilsson). Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag.

Róbert Jack. (2006). Hversdagsheimspeki. Reykjavík: Háskólaútgáfan.

Sigrún Aðalbjarnardóttir. (2007). Virðing og umhyggja. Reykjavík: Heimskringla.