„Við þurfum að læra að axla ábyrgð“

Páll Skúlason heimspekingur ræðir um eðli stjórnmála, stöðuna á Íslandi fimm árum eftir hrun og hvað sé til ráða.

Páll Skúlason

Páll skúlason - Rétt fyrir síðustu jól gaf Páll út sína tólftu heimspekibók, Ríkið og rökvísi stjórnmálanna. Bókin er safn níu ritgerða sem eru skrifaðar á tímabilinu 1993 til 2013, en allar eiga þær það sameiginlegt að fjalla um eðli stjórnmála.

Mynd: Kristinn Ingvarsson

Ef einhver íslensk rödd á tilkall til þess að kallast rödd skynseminnar gæti það verið sú sem tilheyrir Páli Skúlasyni, prófessor í heimspeki og fyrrverandi rektor Háskóla Íslands. Raddblærinn sem hefur í rúm 40 ár leikið um ganga Háskólans og á stundum hljómað úr útvarpstækjum landsmanna kveikir hugrenningatengsl við visku forfeðranna, í henni er endurómur aldanna, sambland íslenskrar menningar og vesturevrópskrar heimspekihefðar.

Páll Skúlason fæddist árið 1945 á Akureyri og ólst þar upp fram til tvítugs. Snemma kynntist hann heimspeki og eftir stúdentspróf við Menntaskólann á Akureyri hélt Páll til náms við Kaþólska háskólann í Louvain (Leuven) í Belgíu. Frá árinu 1971 hefur Páll starfað innan veggja Háskóla Íslands, þar sem hann var rektor á árunum 1997 til 2005. Fyrir utan að leiðbeina heimspekinemum, flytja fyrirlestra í útvarpi og sitja í siðanefndum, stjórnum stofnana og ráða, hefur hann kennt ótal nemendum úr öllum deildum háskólans heimspekileg forspjallsvísindi.

Rétt fyrir síðustu jól gaf Páll út sína tólftu heimspekibók, Ríkið og rökvísi stjórnmálanna. Bókin er safn níu ritgerða sem eru skrifaðar á tímabilinu 1993 til 2013, en allar eiga þær það sameiginlegt að fjalla um eðli stjórnmála. Ég mælti mér mót við Pál til að ræða um efni bókarinnar, stöðu samfélagsins fimm árum eftir hrun og hvað sé til ráða.

Uppeldisfræði og frönsk heimspeki

Áhugi Páls á heimspeki kviknaði í æsku. „Það fyrsta sem ég man eftir að hafa verið að pæla tengdist uppeldi og kennslu. Þegar ég var lítill þá rakst ég á Uppeldið eftir Bertrand Russell og var að reyna að skilja þetta,“ segir hann og hlær. „Á menntaskólaárunum kynnist ég frönskum höfundum – ég sökkti mér ofan í verk Alberts Camus og einnig Jean-Pauls Sartre – og svo verkum Sigurðar Nordals sem höfðu mikil áhrif á mig. Hann opnaði augu mín fyrir því að okkur skortir raunverulega heimspeki hér á Íslandi. Ef við ætluðum að móta nútímasamfélag þá yrðum við að tileinka okkur heimspekilega hugsun.“

Páll telur þörfina á því hugsa heimspekilega ekki síst mikilvæga í stjórnmálum. „Menn þurfa heimspeki til að móta góða stjórnmálastefnu. Einn helsti vandinn við íslensk stjórnmál er að þau hvíla ekki á nægilega almennum og skýrum skilningi á samfélaginu og þeim samfélagsvanda sem við stöndum frammi fyrir.“ Hann viðurkennir að heimspekingar hafi sjaldan verið áberandi í íslenskri umræðu; „það tengist því að heimspekingar eru taldir eiga að fjalla um grundvallaratriði og í hinu daglega lífi eru menn ekkert að hugsa um þau. Menn eru bara á bólakafi í tilteknum málum sem eru efst á baugi á hverjum tíma. Það er þá helst þegar mikil áföll dynja yfir sem fólk fer að spyrja slíkra grundvallarspurninga eins og var áberandi í kjölfar bankahrunsins.“

Einstaklingar hugsa um hag samfélagsins

Heimspekileg hugsun Páls hefur snúist mikið um siðfræði og stjórnmál og hann hefur með ýmsum hætti lagt sig fram við að efla heimspekilegar samræður meðal Íslendinga. Hann hefur fengist við að greina eðli ríkis og stjórnmála svo við getum áttað okkur betur á þessum viðfangsefnum. Ein þeirra hugmynda sem hefur verið leiðarstef í skrifum Páls í gegnum tíðina er að mikilvægt sé að líta á ríkið sem skynsamlega leið samfélagsins til að taka ákvarðanir um sameiginleg málefni – þetta kallar hann skynsemisviðhorf til ríkisins – en ekki einungis sem tæki sem valdamiklir einstaklingar eða stéttir berjast um til að beita í þágu ýmissa sérhagsmuna – það sem hann kallar tæknilegt viðhorf til ríkisins.

„Ríkið sem stofnun hefur tvær hliðar, það er ákveðið form eða skipulag sem heldur utan um samskipti okkar, og það er einnig vald eða afl til að koma hlutum í framkvæmd. Formið felst í lögum og reglum sem eiga að halda utan um samfélagið og gera okkur kleift að taka ákvarðanir í okkar sameiginlegu málum. Aflið er fyrst og fremst fólgið í opinberum stofnunum sem hafa burði til að framfylgja ákvörðununum. Svona kerfi hefur þróast í öllum samfélögum í einni eða annarri mynd. Þetta sýnir okkur náttúrlega eitt um manneskjuna, eða okkur sjálf, en það er að við hugsum ekki bara fyrir sjálf okkur sem einstaklinga heldur sem eina heild.“ segir Páll. „Síðan þróast allt samfélag í átökum – það er barátta milli hópa og stétta um margvísleg gæði og við sem borgarar í tilteknu ríki þurfum að sjá til þess að þessi barátta fari ekki úr böndunum. Þannig er hlutverk ríkisins og þar með okkar sjálfra sem ríkisborgara að vinna markvisst að því að réttlæti ríki í samfélaginu.“

Rökvísi markaðarins

Í nýju bókinni sinni setur Páll fram þekkta greiningu sína á mannlífinu í þrjú mismunandi svið: hið andlega, hið stjórnmálalega og hið efnahagslega. Hvert þessara sviða hefur sín eigin lögmál og innri rökvísi en kenning Páls er að ójafnvægi eigi til að myndast milli þessara sviða, en þá er rökvísi eins sviðs þröngvað yfir á hin sviðin. Í slíkum tilvikum verður samfélagið óskynsamlegt. Þetta hefur oft átt sér stað í gegnum söguna, til dæmis breiddu trúarlegar hugmyndir kirkjunnar úr sér á miðöldum, stjórnmálaleg hugmynd um þjóðina varð allsráðandi á fyrri hluta 20. aldarinnar, en í dag er það efnahagsleg rökvísi markaðarins og hagfræðinnar sem er talin geta útskýrt virkni hluta á öllum sviðum mannlífsins. Þetta telur Páll vera varhugaverða þróun. „Í efnahagslífinu erum við sífellt að reyna að efla ákveðnar leiðir í framleiðslu og sölu, og svo keppa auðvitað sumir að því að verða ríkari og ríkari. Við hrærumst að sjálfsögðu öll á einn eða annan hátt í efnahagslífinu. En ef við hugsum bara eftir brautum þeirrar rökvísi sem þar er um að ræða þá skiljum við ekki samfélagið, hvorki stjórnmálin né hið andlega líf sem að endingu skiptir okkur mestu sem hugsandi verur. Það er því mjög hættulegt ef sá hugsunarháttur verður ríkjandi að efnahagsleg gæði séu það eina sem máli skipti, eins og þegar fólk hugsar „Ég læri bara til þess að fá gráðu sem að gefur mér góða vinnu og há laun.“ Líka sú vafasama hugsun að öll menntun eigi að vera í þágu efnahagslífsins eða atvinnulífsins. Þetta er afskaplega þröngur hugsunarháttur og veldur því að menn misskilja, mér liggur við að segja, bæði sjálfa sig og samfélagið.“

Verkefni stjórnmálanna

„Verkefni stjórnmálanna er að setja lög og reglur til að halda utan um samfélagið og sjá til þess að það fari ekki úr böndunum. Oft myndast spenna milli viðskiptalífsins og stjórnmálanna, löggjafans. Í viðskiptalífinu vilja menn hafa sem minnst af reglum og höftum, en löggjafinn vill tryggja með viðeigandi lögum og reglum að ekki sé haft rangt við. Í efnahagslífinu verða oft til ákveðin öfl sem reyna að hafa áhrif á stjórnmálin og stjórnmál hafa að miklu leyti verið sérhagsmunabarátta. Flestir stjórnmálaflokkar voru upphaflega stofnaðir til að verja hagsmuni ákveðinna stétta, eins og bændastéttar, verkafólks eða verslunarmanna. Við vissar aðstæður getur sérhagsmunabarátta haft verulega spillandi áhrif á stjórnmálin, vegna þess að þá er ekki verið að hugsa um heildarhag. Stjórnmálin eiga að snúast um ákvarðanir sem varða hagsmuni allra – þau eiga að vera skynsamleg umræða um hvað samfélaginu sem heild er fyrir bestu. En um leið þarf að sjálfsögðu að taka tillit til sérhagsmuna af ýmsu tagi, en gæta þess þó umfram allt að sérhagsmunir skaði ekki almannaheill,“ segir Páll.

„Sem dæmi um sameiginleg grunngæði, þá eru stofnanir samfélagsins eitthvað sem við eigum öll aðild að, það eru dómstólarnir, lögregla, heilbrigðiskerfið, skólarnir og svo framvegis. Góðar grunnstofnanir, sem vel er hugsað um, eru forsenda fyrir góðu samfélagi. Sú hætta er sífellt fyrir hendi, eins og við höfum fengið að reyna, að tiltekin sérhagsmunaöfl komi máli sínu þannig fyrir borð að stjórnvöld skeyti ekki sem skyldi um opinberar stofnanir og almannaheill.“

Nýja-Ísland

Páll hefur talað um að í kjölfar áfalls gerist það oft að heimspekin blómstri, en hefur sú orðið raunin á Íslandi í kjölfar umróts síðustu fimm ára? „Já og nei. Mér fannst eins og mörgum strax eftir hrun að þjóðin hefði orðið fyrir andlegu áfalli, reynslu sem myndi taka mörg mörg ár að vinna úr. Nánast allir þjóðfélagsþegnar urðu fyrir umtalsverðu efnahagslegu tjóni og gerðu sér jafnframt grein fyrir því að þjóðarbúið hafði orðið fyrir skaða sem tæki langan tíma að bæta. Um leið blasti við þjóðinni að stjórnvöld höfðu ekki hugsað sem skyldi um þjóðarhag og í raun brugðist grundvallarhlutverki sínu – að gæta almannaheillar. En við vorum engan veginn í stakk búin til að horfast í augu við þennan pólitíska vanda. Stærsta verkefni okkar í dag er að endurnýja svið stjórnmálanna og í þeim efnum eigum við langt í land. Hér þurfum við nýja hugsun um samfélagið og nýjar leiðir til að virkja okkur sjálf sem borgara til að taka þátt í stjórnmálunum. Það var alls ekki við því að búast að okkur tækist að gera þetta strax eftir hrunið. Þá voru alls konar hlutir sem varð að bregðast við samstundis til þess að þjóðfélagsvélin næði að virka, fólk fengi launin sín, fyrirtækin héldu rekstrinum áfram, opinberar stofnanir sinntu þjónustu sinni o.s.frv. Viðleitni stjórnvalda strax eftir hrun og fyrstu árin beindist nánast öll að því að halda efnahagsmaskínunni gangandi. Við þessar aðstæður er mjög erfitt að hugsa til langs tíma. Stjórnvöld og einstaklingar eru uppteknir af tilteknum áhyggjuefnum sem kalla á úrlausn hér og nú. Okkur dreymir oft um skyndilausnir á lífsvandamálum okkar, en í þessu tilviki þá er engri slíkri lausn til að dreifa. Við eigum engan kost annan en mennta sjálf okkur, horfast í augu við blekkingar fortíðar og leita skilnings og þekkingar á raunverulegum aðstæðum okkar og möguleikum,“ segir Páll.

Aðspurður út í hinar ýmsu tilraunir sem hafa verið gerðar á sviði stjórnmálanna á undanförnum árum, segir Páll: „Skemmtilegasta tilraunin var vafalaust Besti flokkurinn. Hann kom með jákvæða hugsun sem lýsir sér kannski best í orðum Jóns Gnarr, þegar hann sagði „við tölum ekki illa um annað fólk.“ En margar þessara tilrauna hafa einkennst af óþolinmæði og óraunsæi.“ Páll hefur lengi talað fyrir því að stjórnarskráin yrði endurskoðuð, en hann telur að það hefði þurft að undirbúa það miklu betur en gert var. „Þetta var gert í fljótheitum og menn ætluðu sér um of. Hins vegar hefur heilmikil vinna verið unnin sem vafalaust mun koma sér vel þegar málið kemst aftur á dagskrá.“

Raunveruleg reiði

Ég spyr hvernig hann upplifir þjóðarsálina nú í dag, sjálfur segist ég greina þar aukna reiði og hörku í hugmyndafræðilegum deilum manna. „Ég held að þetta sé rétt hjá þér, að fjöldi fólks sé undir niðri mjög reiður og ósáttur við hlutskipti sitt: „Af hverju þurfa mín laun að vera skorin niður á sama tíma og lánin mín hækka?“ Svo sjáum við aðra sem eru farnir að maka krókinn með óeðlilega háum launum miðað við aðra launþega,“ segir Páll. Við erum sammála um að þjóðfélagsumræðan eigi oft meira skylt við skotgrafahernað en skynsamlega rökræðu. „Það eru tvenns konar forsendur fyrir skynsamlegri umræðu,“ segir Páll: „Í fyrra lagi þarf fólk að hafa skilning á almennum hugmyndum og hugtökum um úrlausnarefnin og geta gert þau öðrum skiljanleg. Í öðru lagi þurfa að vera til fjölmiðlar sem halda uppi vönduðum umræðuþáttum og vönduðum skrifum um þjóðfélagsmál. Því miður skortir mikið á skilning okkar á ýmsum lykilhugtökum sem eru forsenda skynsamlegra umræðna. Menn tala til dæmis stundum um réttlæti eins og það sé bara það að fá vilja sínum framgengt. Slíkt gengur ekki.“

Jöfnuður, jafnrétti og jafnræði

Í nýjustu ritgerð bókarinnar Réttlæti og samfélagsmyndun setur Páll fram kenningu um þrjár mismunandi gerðir réttlætis á hinum þremur ólíku sviðum mannlífsins: jöfnuður er efnahagslegt réttlæti, jafnræði er stjórnmálalegt hugtak um jafna möguleika ólíkra hópa til að hafa áhrif á landsmálin, og jafnrétti varðar hið andlega svið, það er jöfn tækifæri fólks til að uppgötva og tjá hvað þau telja rétt og satt og færa rök fyrir máli sínu. Allt er þetta nauðsynlegt ef við ætlum að mynda réttlátt samfélag. „Nú á dögum beinist athyglin langmest að jöfnuðinum, sem er að mörgu leyti mjög skiljanlegt, en þar með er ekki tekið nægilegt tillit til jafnréttisins og jafnræðisins. Það er ekki mikið jafnræði í stjórnmálum á Íslandi. Það er rétt eins og stjórnmálunum hafi verið stolið frá almenningi og gerð að leikvelli örfárra einstaklinga. Almenningi er haldið frá stjórnmálum með kerfi sem býður upp á það að örfáir aðilar fara með öll völd í landinu. Svo dæmi sé tekið þá er sjálfstætt ákvörðunarvald ráðherra hér alltof mikið og miklu meira en í nágrannalöndum okkar. Það er mjög erfitt í þessu stjórnkerfi sem við búum við að koma á nokkurri vitiborinni umræðu um sameiginlega hagsmuni. Kerfið eins og það er kallar á fólk sem hefur unun af valdi og þráir að beita völdum, en hefur ekki að sama skapi áhuga á skynsamlegri umræðu.“

Borgaranefndir og lýðræði

Í bókinni setur Páll ekki fram fastmótaðar hugmyndir um hvernig samfélaginu sé best stjórnað, en hann telur mikilvægt að þorri almennings taki beinan eða óbeinan þátt í umræðum um sameiginleg hagsmunamál. „Til þess að vera virkur þátttakandi í stjórnmálum þarf almenningur að hafa aðgang að réttum upplýsingum um það sem hefur gerst og er að gerast í þjóðfélaginu. Hann þarf að geta treyst því að forystumenn þjóðarinnar fari með satt og rétt mál og þeir sæti vandaðri gagnrýni fjölmiðla ef og þegar þeir hugsa fyrst og fremst um að fegra eigin ímynd og afstöðu. Og hann þarf að hafa leiðir til að mótmæla þegar hann er ósáttur við ákvarðanir stjórnvalda og telur þær ekki samræmast almannahag.“ Ég spyr Pál um skoðun hans á beinu lýðræði sem fælist í því að almenningur geti kosið um margvísleg hagsmunamál sín. Páll hefur vissar efasemdir um slíkt fyrirkomulag. „Lýðræði er fyrst og fremst fólgið í því að lýðurinn, almenningur, ræði sín mál og leiði til lykta með aðferðum sem þorri fólks er sáttur við. Kosningar eru ein af slíkum leiðum sem geta hentað við vissar aðstæður. En kosningar einar og sér tryggja ekkert lýðræði, heldur geta þvert á móti gefið lýðskrumurum, sem kæfa alla skynsamlega umræðu, gullið tækifæri til að blekkja almenning. Við slíkar aðstæður er tómt mál að tala um lýðræði.“

Páll telur að borgaranefndir sem fólk veljist í með hlutkesti sé líklega hentugasta leiðin til að framkvæma raunverulegt lýðræði. „Ég sé fyrir mér að við setjum á laggirnar kerfi borgaranefnda þar sem hver nefnd hefði tiltekinn mikilvægan málaflokk til umfjöllunar, svo sem skattamál, heilbrigðismál eða skólamál. Valið yrði í nefndirnar úr þjóðskrá samkvæmt ákveðnum reglum sem myndu tryggja sem mest jafnræði meðal ólíkra þjóðfélagshópa. Nefndirnar hefðu raunveruleg völd til að fjalla um mál og móta stefnu sem Alþingi og sveitarstjórnir yrðu að taka mið af. Þær hefðu trygga stöðu í stjórnkerfinu og yrðu endurnýjaðar reglubundið. Með hverri nefnd störfuðu embættismenn og fólk gæti fylgst með störfum nefndanna. Fámenn þjóð eins og við Íslendingar er í einstaklega góðri aðstöðu til að virkja borgarar landsins með þessum hætti til þátttöku í stjórnmálum. Það yrði mikið verkefni að skipuleggja kerfi slíkra borgaranefnda, ákveða viðfangsefni þeirra, vinnulag og valdsvið. En ég tel að með þessum hætti myndum við smám saman læra að axla pólitíska ábyrgð okkar sem borgarar í hinu íslenska ríki.“

Viðtalið birtist fyrst í DV 7. febrúar 2014 og birtist nú á vefnum Gagnrýnin hugsun og siðfræði með góðfúslegu leyfi DV.

Kynningarefni um heimspeki

Sumarið 2012 vann Kristian Guttesen átaksverkefni fyrir Vinnumálastofnun sem starfsmaður Heimspekistofnunar Háskóla Íslands. Verkefni fól í sér gerð kennslu- og kynningarefnis um heimspeki fyrir elstu bekki grunnskóla. Efnið byggði meðal annars á verkefnum sem hann vann ásamt Ylfu Jóhannesdóttur í Háskóla unga fólksins þá um sumarið. Markmið verkefnisins var að setja saman sjálfstæða kynningarpakka um þætti úr fræðum heimspekinnar. Þannig ætti hver sem er (með lágmarksgrunn í heimspeki) að geta tekið pakkana, farið með þá í skólaheimsókn og nýtt sér til að kynna heimspeki út frá því sjónarhorni (fræðasviði, undirgrein heimspekinnar) sem efni kynningarpakkans tekur til. Meðan á verkefninu stóð hélt Kristian úti Facebook síðu til að fá viðbrögð á hugmyndir, vinnuferlið og kennsluefni jafnóðum og það varð til. Heimspekikennarar voru hvattir til að skoða efnið og senda Kristian ábendingar, sem þeir margir og gerðu.

Skýrslan birtist nú í heild sinni hér á vefnum Gagnrýnin hugsun og siðfræði.


Kristian Guttesen, „Hlutverk heimspekinnar“, átaksverkefni fyrir Vinnumálastofnun 2012.


Siðadómur um nemendur?


Í lögum um grunnskóla segir að námið eigi að efla borgaravitund, sjálfsvitund og siðgæðisvitund nemenda. Ég hef ekki rekist á neina umræðu um að þessi lagabókstafur sé óraunhæfur. Á tyllidögum halda skólastjórar og skólameistarar ræður þar sem þeir minna á kjarna menntunar sem felst í þroska nemenda og þátttöku þeirra í samfélaginu. Áheyrendur kinka iðulega kolli.

Undanfarið hef ég í fyrirlestrum spurt kennara hvort við eigum ekki að stefna á að útskrifa nemendur í 10. bekk sem þekkja kosti samvinnu, bera traust til eigin skynsemi, eru víðsýnir, skýrir í hugsun og reiðubúnir að breyta eigin skoðunum? „Jú, svo sannarlega!“ er svarið. En nú ber svo við að eftir nokkurra ára starf þar sem reynt hefur verið að skrifa aðalnámskrá grunnskóla sem er ætlað að framfylgja lagabókstafnum og vera svar við menntahugsjónum sem njóta almennrar viðurkenningar þá spretta fram úrtöluraddir.

Ný aðalnámskrá felur hvorki í sér að felldur verði dómur um það hvort nemandi sé hæfur til að vera borgari í lýðræðissamfélagi eða að felldir séu siðadómar um mannkosti viðkomandi. Slík gagnrýni bendir til að skilningur á lykilhugtökum sé takmarkaður. Það hefur engum dottið í hug að draga línu í sandinn um hvaða nemendur teljast óhæfir til að vera þátttakendur í samfélaginu. Og siðadómar eru ekki það sama og mat á því hvort ungt fólk hafi sýnt fram á með úrlausn margvíslegra verkefna að það geri sér grein fyrir afleiðingum gerða sinna.

Þekkingaratriði og leikni

Markmiðið með því að setja inn hæfniviðmið í námskrá, sem svo matsviðmið byggja á, er að reyna að svara spurningunni hvers vegna viðkomandi greinar eru kenndar. Á bak við hvert hæfniviðmið felast þekkingaratriði og leikni sem nemendur verða að tileinka sér. Það er mikill misskilningur að hæfni feli hvorki í sér ákveðið námsefni né tiltekið námsmat. Mat á hæfni einstaklings er ekki bara „huglægt mat“ sem á sér engan grundvöll.

Hugsum okkur til dæmis nemanda sem flytur erindi um virkjanamál í 10. bekk. Í erindinu kemur fram skýr skilningur á því hvernig mismunandi hagsmunir og gildi takast á í málflutningi virkjanasinna og náttúruverndarfólks. Sami nemandi skilar svo ritgerð um málefni Reykjavíkurflugvallar sem fjallar um réttindi og skyldur höfuðborgarbúa. Hann tekur að lokum próf sem sýnir fram á ágætan skilning á hlutverkum helstu stofnana samfélagsins. Hvers vegna er það svo erfitt að gefa honum þá umsögn að hann hafi sýnt fram á hæfni sem nýtist honum sem þátttakanda í lýðræðislegu samfélagi? Liggur það ekki fyrir miðað við framlag hans?

Umræðan undanfarna daga sýnir kannski betur en nokkuð annað þörfina á að við ráðumst í þessar breytingar. Þær gagnrýnisraddir sem hafa verið háværastar undanfarið sýna svo ekki verður um villst hvert vandamálið er. Markmiðið hlýtur að vera að ungt fólk sem lýkur skólagöngu hafi hæfni til að kynna sér mál til hlítar og myndi sér skoðun á réttum forsendum. Engin gögn benda til þess að þær leiðir sem hingað til hefur verið farið eftir skili miklum árangri til að þetta markmið náist.

Greining birtist í Fréttablaðinu og á Vísi.is 31. janúar 2014

Hvað er siðferðilega rétt ákvörðun? – Myndband

Þessi spurning hefur vafist fyrir mannkyninu um aldir. Þótt margir helstu hugsuðir sögunnar hafi glímt við þessa spurningu er erfitt að setja fram skýrt svar við henni. Líklega er hún oftast borin upp þegar fólk vill gagnrýna ákvarðanir annars fólks. En spurningin er engu síður mikilvæg við mat á eigin ákvörðunum. Vandamálið er að við eigum oft erfitt með að horfast í augu við að ábyrgð ákvarðana okkar liggur fyrst og fremst hjá okkur sjálfum.

[jwplayer mediaid=“2216″]

Hægt er að lesa meira um siðferði og siðfræði í svari Henrys Alexanders Henryssonar á Vísindavefnum við spurningunni „Hvað er siðferðilega rétt ákvörðun?

Myndband

Fyrirlestur Mikaels Karlssonar 1. mars: Siðasúpan

Siðasúpan: skilaboð til þeirra sem sitja í súpunni

Fyrirlestur Mikaels M. Karlssonar, prófessors, á vegum Siðfræði­stofnunar og Heimspekistofnunar föstudaginn 1. mars 2013 kl. 15 í Lögbergi 103

Mikael KarlssonSiðfræði er greinandi heimspekileg umfjöllun um siðferði. En hvað er siðferði? Um það er engin ein við­tekin skoðun heldur ýmsar ólíkar skoðanir, margar þeirra vanhugsaðar eða byggðar á misskilningi að því er virðist. Einnig eru nokkrar ólíkar siðfræðikenningar eða tegundir kenninga sem greina og lýsa siðferði—rótum og kröfum þess—með ólíkum hætti. Hér eru oft nefndar til sögunnar kenningar um dygðir í anda Aristótelesar, leikslokakenningar í anda Epikúrosar, Johns Stuarts Mill og fleiri, skyldukenningar í anda Kants, tilvistar­kenningar í anda Kierkegaards, Sartres og annarra, og samræðukenningar í anda Habermas og fleiri. Hvernig passa allar þessar kenningar saman? Eru sumar þeirra vitlausar og aðrar réttar? Eru einhverjar þeirra smættanlegar í aðra? Fjalla þær allar um sama efnið? Eða er „siðferði“ margrætt hugtak þannig að hver kenning um sig fjallar um siðferði í einum skilningi en ekki um siðferði í öðrum skilningi? Hvaða tök hafa kröfur siðferðisins á okkur og hvers vegna eru þær svona mikilvægar? Eða eru þær í raun mikilvægar? Er siðferðileg rök­hugsun samleiðandi (e. convergent) eða margleiðandi (e. non-convergent)? Er yfirleitt hægt að fjalla almennt um siðferði? Eða er siðferði einhverskonar súpa sem siðfræðikokkurinn reiðir fram hverju sinni í ljósi þess sem er til í búrinu? Lesturinn er hugvekja um mikilvægi þess að hugsa um eðli—eða eðlisleysi—siðferðisins og um leið um tilgang siðfræðinnar.

Í átt til nýrra tíma

Elsa Haraldsdóttir og Kristian Guttesen birtu í dag grein í Fréttablaðinu um nýja aðalnámskrá fyrir grunnskóla og þær breytingar sem hún mun hafa í för með sér. Í greininni fjalla Elsa og Kristian um væntingar til hlutverks siðfræðinnar innan nýrrar aðalnámskrár grunnskóla og sem hluta af almennri menntun ein­staklingsins.

Greinina má lesa á vef Vísis.is:

http://www.visir.is/i-att-til-nyrra-tima/article/2012708149965

Hvenær tökum við siðfræði alvarlega?

Umræða um siðfræði hefur ekki verið greininni of hagstæð undanfarin misseri. Annars vegar hefur fréttaflutningur af sérkennilegum bréfaskiptum milli forsætis­ráðherra og forsetaembættisins um hvort embættinu beri að setja sér siðareglur fremur ruglað landsmenn í ríminu en upplýst þá um gildi og möguleika slíkra reglna. Hins vegar hefur erfið og upphrópanakennd umræða um störf siða­nefndar Háskóla Íslands í tilteknu máli gert það að verkum að traust til slíkra nefnda hefur sjaldan verið minna.
   Ég minnist þess ekki að í fyrra málinu hafi verið dregið fram hvað gæti falist í siðareglum fyrir forsetaembættið; í hugum fólks gætu þær falist hvort sem er í reglum um borðhald á Bessastöðum eða nákvæmum lista yfir leyfilega gesti á forsetaskrifstofuna. Og í seinna málinu gleymdist alveg að ræða hvernig siða­nefndir ættu að bera sig að. Í ályktun fjölda háskólakennara mátti til dæmis helst skilja að í nafni frelsis ættu siðanefndir ekkert erindi innan háskóla. Það var óvænt siðferðileg krafa.
   Þetta er einkennilegt þegar höfð er í huga umræðan um aukna áherslu á siðfræði fyrir meginstoðir íslensks samfélags sem hefur verið flaggað á undan­förnum árum. Líklega hefðu slík fréttamál átt að vera kærkomið tækifæri til þess að koma málefnalegri umræðu um siðfræði og kynningu á hlutverki hennar að í fjölmiðlum. Til dæmis hefði mátt greina frá því hvers vegna reglur og almennt siðferði ná ekki alltaf yfir sama svið og siðareglur.
   Heimspekingar hefðu getað svarað því hvers vegna siðfræði er sjálfstæð fræðigrein sem getur komist að gildum niðurstöðum sem þó þurfa ekki alltaf að falla að viðurkenndum trúarsetningum, kunnum hagfræðikenningum eða ný­legum lögfræðiálitum. Helst hefði þó mátt nota tækifærið til þess að kveða niður þá goðsögn að siðfræðilegir dómar séu hreinir smekksdómar sem byggist á einhverju sem kallað er „hreint huglægt mat“.
   Nú er kominn tími til að háskólasamfélagið taki nauðsynlega forystu þegar kemur að því að efla bæði vitund þjóðarinnar og hæfni hennar til að rökræða um þau siðferðismál sem virðast vera brýnni en oft áður. Siðferðileg álitamál eru staðreynd í öllum samfélögum. Þau koma upp á vinnustöðum, í skólum og á öllum sviðum opinbers lífs. Þau vakna einnig innan veggja heimila og þegar við erum ein með sjálfum okkur.
   Siðfræði býður ekki upp á lista af lausnum slíkra álitamála. Siðanefndir færa okkur ekki óvefengjanlegar niðurstöður. Enn síður kenna siðareglur okkur í eitt skipti fyrir öll hvað ber að varast. Hins vegar gerir þekking á frumforsendum og útlistunum siðfræðinnar, sem og leikni í beitingu þeirra, okkur kleift að standa ekki máttvana andspænis siðferðilegum spurningum.
   Það hafa reyndar ekki allir tekið undir kröfuna um að gagnrýninni hugsun og siðfræði verði gert hærra undir höfði í íslensku samfélagi á næstunni. Enn heyrast raddir sem láta eins og aukinn siðferðilegur skilningur sé einhvers konar munaður sem hægt er að snúa sér að þegar leyst hefur verið úr brýnum efnahagsmálum. En þar er hlutum snúið á haus. Vandamálin geta átt sér aðrar orsakir en efnahagslegar þótt tímabundin lausn sé þess eðlis. Enn mikilvægara er þó einmitt að hafa í huga að siðferðilegur veruleiki er jafn mikill veruleiki og hver annar. Hann hverfur ekki þegar við snúum okkur að öðrum málum. Röng og illa ígrunduð breytni skánar ekkert við að aðeins fáir gefi því gaum hvers vegna hún er óásættanleg. Réttindi svífa ekki um í lausu lofti þangað til huglægt mat einhvers dregur þau til jarðar. Og eftirsóknarverðir eiginleikar einstaklinga krefjast ekki smekks annarra til þess að færa þeim farsæld.
   Siðfræði er heillandi fag sem tengist lífi okkar og væntingum engu síður en aðrar greinar sem við teljum þó oft hafa forgang þegar við leitum svara við því hvað fór úrskeiðis og hvert skuli stefna. Líkt og hagfræðin getur útskýrt hvers vegna vasar okkar eru tómir á ákveðnum tímapunkti getur siðfræðin útskýrt eymd tilveru sem einkennist af ósamkvæmni og óheilindum.
   Á vef mennta- og menningarmálaráðuneytisins má lesa í almennum hluta aðalnámskrár grunnskóla að „siðfræði ásamt heimspeki“ verði brátt hluti af skólagöngu íslenskra barna. Það er mikið fagnaðarefni. En maður getur ekki annað en velt því fyrir sér hvort virkilega þurfi að bíða eftir þeim kynslóðum sem nú eru að vaxa úr grasi til þess að vitund um hvers siðfræði er megnug verði almenn og byggist fremur á rökum en útúrsnúningum.

Greinin birtist í Fréttablaðinu, 31. mars 2012.

Að vera athugull á allar hliðar máls: Gagnrýnin hugsun og siðfræði

Verðmæti hugsana líður örlítið fyrir það að framboðið virðist fullnægja eftirspurn­inni. Það eina sem er ódýrara er tal sem bendir einmitt til þess að framboðið á því fari fram úr þeirri hugsun sem á sér stað í heiminum. Raunar eigum við örlítið bágt með að tala um hugsun. Sem er undarlegt þar sem hún kemur fyrir flest okkar. Stundum oft á dag. Fólk grípur gjarnan til þess ráðs að leika Hugsuð Rodins til þess að útskýra hugsun, eins og það að styðja hönd undir kinn sé nauðsynlegur hluti hugarstarfs. Ein ástæða þess að fáir vilja ræða um hugsun sem slíka er að okkur grunar að hún sé flókið fyrirbæri. Skýringarinnar er líklega að leita í því að hugsunin er stigskipt. Öll þekkjum við dæmi um einhvers konar lágmarkshugsun. Það er óþarfi að móðga einhvern með því að nefna þessi dæmi hér. En svo virðist einnig vera til hugarstarf sem er næstum því annars eðlis. Vönduð hugsun getur gerbreytt sýn okkar á heiminn. Stundum rekst maður á fólk sem telur sig hafa allt sitt á hreinu þar sem það fylgist svo vel með. Það hlustar eftir öllum þeim tilboðum sem lífið hefur uppá að bjóða. Og er fyrst af stað. Þetta fólk telur að þær leiðbeiningar sem það hefur heyrt út undan sér dugi til að mynda sér farsæla afstöðu; vangaveltur leiði til glataðra tækifæra. En veruleikinn hefur því miður tilhneigingu til þess að hlífa okkur ekki við því að hugsa mál til enda. Um það vitna fjölmörg myndbönd á YouTube.

Það kallast gagnrýnin hugsun að fallast ekki á neina skoðun, hvaðan sem hún kemur, nema maður rannsaki hvað í henni fellst og geti fundið fullnægjandi rök fyrir henni. Gagnrýnin hugsun er að beita skilningsgáfunni á sjálfa sig. Hún hjálpar okkur að setja kerfisbundið fram vandamál sem við gerum okkur einungis lauslega grein fyrir. Með því að beita gagnrýninni hugsun áttum við okkur á hvaða upplýsingar skipta máli fyrir lausn vandamálsins. Hugsun okkar verður virk þegar við túlkum upplýsingarnar með opnum huga og metum afleiðingar mismunandi túlkunarleiða. Gagnrýnin hugsun er bæði athöfn og leiðarvísir fyrir skoðanir okkar og gerðir.

Gagnrýnin hugsun er þannig takmark allrar menntunar. Aðgangur að upplýsing­um er fyrir löngu orðinn ótakmarkaður í öllu skólastarfi. Nú er mikilvægara en nokkru sinni að kenna hvernig á að fara með upplýsingarnar. Hver sá sem leggur stund á fræði- eða iðngrein hlýtur að hafa það takmark að ná því valdi á greininni og beitingu hennar að hann geti sjálfur lagt eigið mat á fullyrðingar og skoðanir sem henni tengjast. Ennfremur hlýtur markmiðið að vera að temja sér gagnrýna hugsun sem lífsviðhorf og stefna að þátttöku í samfélagsumræðunni. Réttnefnd gagnrýnin hugsun er ekki einungis getan til að taka við upplýsingum og greina þær. Hún er vani sem maður þarf að temja sér.

Enn eru þó margar spurningar opnar um gildi og gerð gagnrýninnar hugsunar. Orðabókaskilgreiningar á sögninni að gagnrýna draga aðeins fram neikvæða athöfn, þ.e. að finna að eða að setja út á. Sem betur fer er lýsingarorðið „gagnrýninn“ jákvæðara að mati orðabókarhöfunda og er talið lýsa einhverjum sem er athugull á allar hliðar máls. Hvað nákvæmlega felst í því að „skoða allar hliðar máls“ er engu að síður nokkuð á reiki. Tengsl skapandi hugsunar við gagnrýna hugsun eru til dæmis eilíft rannsóknarefni. Margir fræðimenn vilja ekki gefa eftir það eðli gagnrýni að brjóta niður hið viðtekna. Þeir kalla eftir róttækum viðhorfsbreytingum þegar gagnrýnin hugsun er annars vegar. Og enn aðrir eru þeirrar skoðunar að það að skoða allar hliðar máls beri að taka bókstaflega; hugsun sé ekki gagnrýnin fyrr en öll starfsemi vitundarinnar sé lögð undir. Innsæi og ímyndunarafl skipti því jafn miklu máli og beiting rökhugsunar.

Ákallið um að vegur gagnrýninnar hugsunar verði að aukast í skólakerfinu varð nokkuð hávært eftir þær hremmingar sem áttu sér stað í íslensku samfélagi árið 2008. Skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis varpaði skýru ljósi á hvernig veruleikinn á það til að koma í bakið á þeim sem ekki hafa tamið sér að hugsa um mál á gagnrýninn hátt. Það er þó erfitt að koma auga á hvernig eigi að svara kröfu um að Íslendingar verði gagnrýnni í hugsun þegar menntakerfið byggist ekki, og hefur aldrei gert, á því að efla hæfni nemenda í að hugsa um veruleika sinn. Gagnrýnin hugsun á sér rætur í heimspeki. Þó að gagnrýnin hugsun sé í raun sú hugsun sem allar fræðigreinar og menntir vinna eftir er það heimspekin sem best getur svarað því kalli að leiða starf til þess að efla kennslu gagnrýninnar hugsunar.

Krafan um að staðhæfa ekkert nema hafa einhvers konar haldbær rök fyrir því er ekki einungis vísindaleg krafa. Krafan er einnig siðferðileg. Ákveðnar hugsanareglur og æfingar geta auðvitað hjálpað okkur við að láta ekki blekkjast. Þjálfun í gagnrýninni hugsun gerir okkur hæfari í að takast á við verkefni sem reyna á rökhugsun og beitingu tungumáls. En mikilli hæfni fylgja einnig freist­ingar. Það er stutt skrefið frá rökræðu yfir í kappræðu; frá því að láta ekki blekkjast og til að freistast til þess að leika sér með trúgirni annarra. Siðfræðin hjálpar okkur til að þjálfa dómgreind okkar og hún hvetur okkur til þess að axla ábyrgð. Þekkingu og rökhæfni á ekki að beita af skeytingarleysi – það skiptir máli í hvað hugsun okkar er notuð.

Verkefni næstu missera er nákvæmari greining á tengslum gagnrýninnar hugsunar og siðfræði. Vissulega er, eins og áður sagði, siðferðileg afstaða að staðhæfa ekkert um menn eða málefni nema hafa fyrir því einhver rök. Og gagnrýnin hugsun liggur að baki raunverulegri hæfni okkar til að beita þekkingu á meðan siðfræðin hjálpar okkur að svara því hvar hæfnin á við. Og enn frekar blasir við að svör fást ekki við siðferðilegum álitamálum nema með yfirvegaðri rökræðu. Ekki er þó ljóst að þetta séu endanleg svör. Hver veit nema tengsl gagnrýninnar hugsunar og siðfræði byggist síður á mati á réttmæti skoðana og skýrleika hugsunar og því meira á því hvort við temjum okkur að hugsa á þolinmóðan hátt, þar sem nákvæmni í meðferð hugtaka, heiðarleiki og sam­kvæmni eru höfð í hávegum. Raunveruleg gagnrýnin hugsun gæti því mögulega byggt á því að við viðurkennum hvar sönnunarbyrði liggur, gerum ekki öðrum upp skoðanir, spilum ekki með tilfinningar viðmælenda og sýnum hugrekki þegar við myndum okkur skoðun fremur en að hugsunin nái stöðlum hagnýtrar rökfræði.

Rannsóknarstofa um háskóla, Heimspekistofnun og Siðfræðistofnun, ásamt Félagi heimspekikennara, héldu málþing í Háskóla Íslands þann 1. október síðastliðinn þar sem reynt var að svara því hvernig beri að kenna gagnrýna hugsun og siðfræði á öllum skólastigum. Um leið var opnaður vefur helgaður gagnrýninni hugsun ætlaður öllu áhugafólki um menntun. Heimspekivefurinn birti einnig sígilda grein Páls Skúlasonar „Er hægt að kenna gagnrýna hugsun?“ Á næstu misserum er svo fyrirhugað að bjóða upp á fyrirlestra um gagnrýna hugsun og tengsl hennar við fjölmörg svið mennta og menningar. Einnig er ætlunin að gefa út fjölda aðgengilegra rita um gagnrýna hugsun og siðfræði. Í hugsun okkar er þegar öllu er á botninn hvolft líklega falin þau mestu verðmæti sem við eigum í okkar fórum. Kröfunni um að auka veg gagnrýninnar hugsunar í íslensku þjóðlífi verður vart svarað öðruvísi en með því að sem flestir þeirra sem að menntamálum þjóðarinnar koma taki höndum saman og gefi sér tíma til þess að svara því hvort ungt fólk sem gengur út í lífið eigi að geta hugsað á yfirvegaðan hátt um veruleika sinn og samfélag.

Styttri útgáfa þessarar greinar birtist í Fréttablaðinu, 8. október 2011.

Hugrekki og gagnrýnin hugsun. Er hægt að kenna siðferðilega hugprýði?

i

Þann 1. október síðastliðinn var haldin vegleg ráðstefna í húsakynnum Háskóla Íslands undir yfirskriftinni Kennsla gagnrýninnar hugsunar og siðfræði, þar sem þessum vef var formlega hleypt af stokkunum. Ráðstefnan þótti bæði vel heppnuð og var vel sótt. Fyrir mitt leyti þá vöktu þau erindi sem ég hafði tækifæri til að hlýða á í málstofunni „Hvar á gagnrýnin hugsun heima?“ bæði athygli mína og áhuga á álitaefnum sem ég hef hingað til ekki leitt hugann að. Það voru þrjú atriði sem fönguðu mig sérstaklega sem ég vil beina sjónum mínu nánar að hér. Fyrst þeirra atriða er samband gagnrýninnar hugsunar og skapandi hugsunar. Ólíkar hugmyndir um samband, mörk, tengsl og eðli þessara ólíku sviða mannlegrar hugsunar komu fram aftur og aftur bæði í erindunum sjálfum og í umræðunum í lok málstofunnar. Þó svo að nokkur sam­hljómur hafi verið meðal fundargesta um efnið fannst mér sem ekki hafði tekist að benda á samband þeirrar umræðu við tvö önnur hugtök sem einnig skutu upp kollinum með reglulegu millibili án þess þó að þeim væri veitt sérstök eftirtekt. En það voru „rannsókn“ annars vegar og „hugrekki“ hins vegar. Það var ekki fyrr en allt var um garð gengið sem ég sjálfur byrjaði að gera mér óljósa grein fyrir samhengi þessara ólíku þátta.

ii

Í erindi sínu benti Sigríður Þorgeirsdóttir m.a. á að það er sterk hefð í íslenskri umræðu að nálgast „gagnrýna hugsun“ sem persónubundna dygð. Það má til sanns vegar færa og ætti lesandanum að nægja að líta á þær greinar sem þegar má finna á vefnum Gagnrýnin hugsun og siðfræði því til staðfestingar, þó svo að þar sé líka að finna dæmi um aðrar nálganir. Samhliða þessari hefð má greina ákveðna tilhneigingu til að smætta gagnrýna hugsun í þekkingar­fræðilegar reglur eða lögmál. Í greininni „Er hægt að kenna gagnrýna hugsun?“ (sem er grundvallarrit á þessu sviði í íslensku samhengi) leggur Páll Skúlason fram það sem hann kallar boðorð gagnrýninnar hugsunar sem er: „Það er rangt að trúa einhverju á ófullnægjandi forsendum“ og m.a. af því leiðir hann skil­greiningu sína á gagnrýninni hugsun sem þeirri „hugsun sem fellst ekki á neina skoðun eða fullyrðingu nema hún hafi fyrst rannsakað hvað í henni felst og fundið fullnægjandi rök fyrir henni.“ Hér mætti benda á augljósan skyldleika við þá aðferð sem Descartes lýsir í Orðræðu um aðferð og hugmyndum hans um þekkingu í Hugleiðingum um frumspeki.1 En það er mikilvægur munur á milli skilgreiningar Páls á gagnrýninni hugsun og „boðorðs“ gagnrýninnar hugsunar. Boðorðið felur í sér skýran gildisdóm: það er siðferðilega rangt að trúa einhverju á ófullnægjandi forsendum. En skilgreiningin sjálf virðist „einungis“ vera þekk­ingarfræðilegt lögmál. Í greininni vísar Páll til þeirrar skoðunar William Clifford að það væri „ætíð rangt, alls staðar og fyrir hvern mann að trúa einhverju á ófullnægjandi forsendum.“ Lesandinn verður að gæta sín á því að það er ekki hægt að herma þessa fullyrðingu upp á Pál sem tekur henni með varúð. Sam­kvæmt þessum skilningi byggir gagnrýnin hugsun fyrst og fremst á þekkingar­fræðilegum viðmiðum og einstaklingsbundnum hæfileikum til rökhugsunar. Þessi túlkun setur sterkan svip á íslenska umræðu um efnið, hugsanlega of sterkan. Samt sem áður hefur hinn siðferðilegi þáttur sem Páll benti á í „boð­orði“ sínu ávallt marað undir niðri og hefur, sérstaklega á síðustu árum, tekið að rísa úr kafi. Og þegar það verður ljóst að „gagnrýnin hugsun“ hefur siðferðilega vídd þá er ljóst að viðfang hennar og vettvangur eru ekki lengur bundin við ein­staklinginn eða safn einstaklinga heldur samfélög.

Að mínum dómi er ekki ráðlegt að láta spurningar um hvað sé gagnrýnin hugs­un snúast einvörðungu um þekkingarfræðileg viðmið og einstaklingsbundna hæfileika. Það verður ekki síður að líta á gagnrýna hugsun sem aðferða­fræðilega hugmynd og einkenni félagsheilda. Að því leyti er ég sammála því sem Ólafur Páll Jónsson heldur fram í grein sinni „Gagnrýnar manneskjur.“ Á fyrrnefndu málþingi benti Sigríður Þorgeirsdóttir áheyrendum og viðmælendum sínum réttilega á að „gagnrýni“ eða „kritík“ í þýskumælandi heimspekihefðinni snúist fyrst og fremst um að greina veruleikann, taka afstöðu til hans, túlka hann og ef vel tekst til að „rústa“ fyrirfram gefnum og yfirborðskenndum hug­myndum okkar um hann. Gagnrýnin hugsun eða „kritík“ byggir í þeim skilningi á hugmyndafræðilegri afstöðu gagnvart veruleikanum. Gagnrýnin hugsun felst ekki í því að hafna öllum þeim túlkunarleiðum sem okkur stendur til boða til að greina veruleikann og reiða okkur einvörðungu á skilningar- og hyggjuvit okkar sjálfs. Gagnrýnin hugsun getur m.a. falist í því að rannsaka veruleikann með þeim hugtökum og aðferðum sem okkur stendur til boða úr fræðaheiminum, en gera það ekki umhugsunarlaust. Þessa þætti má heldur ekki vanrækja. Til að umræðan um „gagnrýna hugsun“ geti borið ávöxt er nauðsynlegt að skilningur okkar á hvað „gagnrýnin hugsun er“ verði fjölþættari. Taka verður tillit til þeirra ytri þátta (menningarlegra, sögulegra o.s.frv.) sem skilyrða hugsun okkar og tilvist í samhengi við gagnrýna hugsun og kröfuna um gagnrýna hugsun. Án viðeigandi mannskilnings snýst umræðan um gagnrýna hugsun fljótlega upp í fræðilegt vandamál án sambands við þann veruleika sem við lifum og hrærumst í. Gagnrýninni hugsun verður ekki réttilega lýst sem gildissnauðu verkfæri sem er hægt að grípa til við og við til að leysa ákveðna tegund vandamála. Gagnrýnin hugsun tekst á við veruleikann, eða réttara sagt þá gerir gagnrýnin hugsun þá kröfu til okkar að við tökumst á við veruleikann og þekkingu okkar á honum. Sú krafa er ekki bara þekkingarfræðileg, hún er ekki síður siðferðileg. Krafan um gagnrýna hugsun felur í sér kröfu um siðferðilega breytni. Þegar við höfðum til gagnrýninnar hugsunar þá erum við ekki bara að biðja um að rök tiltekins máls séu skoðuð heldur einnig það gildismat sem er í húfi og er of oft óyrtur hluti umræðunnar. En hvernig tengist þessi umræða við samband gagn­rýninnar og skapandi hugsunar sem ég lofaði að fjalla um?

iii

Að mörgu leyti er freistandi að vísa lesandanum einfaldlega á grein Guðmundar H. Frímannssonar „Hugarfar gagnrýninnar hugsunar“ þar sem hann bendir rétti­lega á að gagnrýnin hugsun og skapandi hugsun séu alls ekki andstæður. Það er ekki hægt að halda því fram að gagnrýnin hugsun byggi á rökhugsun en skapandi hugsun byggi á ímyndunaraflinu einu saman og feli í sér afneitun allra raka og útilokun dómgreindarinnar. Þvert á móti bendir Guðmundur á að bæði gagnrýnin og skapandi hugsun feli í sér „beitingu ímyndunaraflsins, dómgreind­arinnar og rökhugsunar,“ séu sömuleiðis háðar „þekkingu og dómgreind“ og geri báðar m.a. kröfu um „rannsókn“ á viðfangsefni sínu.

Ég hef alltaf haft undarlega gaman af orðsifjafræði, orðskýringum og sögulegri þróun orða og hugtaka, þó svo að slíkar rannsóknir geti ekki leitt í ljós nein rökleg sannindi þá geta þær oft vakið mann til umhugsunar. Orðið „gagnrýni“ er dæmi um það. Gagnrýni (sem gagnrýnin hugsun dregur nafn sitt af) er nýyrði frá seinni hluta nítjándu aldar og var kynnt til sögunnar sem þýðing á franska orðinu „critique“ eða þýska orðinu „Kritik“ og þá í samhengi við umfjöllun um listaverk og þá sérstaklega bókmenntaverk. Þannig varð almenn merking ís­lenska orðsins „gagnrýni“ strax frá upphafi mun takmarkaðri en merking hug­takana „critique“ eða „Kritik.“ Það nægir að slá upp í Íslenskri orðabók til að sjá að „gagnrýni“ getur merkt annars vegar „aðfinnsla“ eða vísað til „mats eða dóms á verki einhvers.“ Ef skoðaðar eru franskar, enskar eða þýskar orða­bækur verður ljóst að „critique“ eða „Kritik“ getur auk þess að vísa til „dóms, mats eða aðfinnslu“ merkt „skipuleg greining“ eða „rannsókn.“ Í íslensku máli er því gerður skýr greinarmunur á „rannsókn“ og „gagnrýni“ (orðin teljast í það minnsta ekki vera samheiti) en vísa má til hvors tveggja með „critique“ eða „Kritik.“ Þetta gleymist stundum. Þannig þykir mér t.a.m. miður að sú þýðingar­venja að tala um Gagnrýni hreinnar skynsemi, Gagnrýni verklegrar skynsemi og Gagnrýni dómgreindarinnar eftir Kant er orðin nær algerlega ráðandi í stað þess að tala um Rannsóknir sömu viðfanga.2 Kjarni málsins í þessu samhengi er hins vegar sá að „gagnrýnin hugsun“ verður að fela í sér rannsókn eða skipu­lega greiningu á viðfangsefni sínu til að standa undir nafni og það er m.a. rann­sóknarferlið sjálft sem getur tengt skapandi og gagnrýna hugsun. Það er löng hefð fyrir því að líta á listaverk sem nokkurs konar rannsóknir á tilteknu við­fangsefni. Þannig hefur t.d. lengið verið talað um að málarar geti rannsakað samspil lita og forma og að rithöfundar geti rannsakað sálarlíf mannsins í skáld­verkum sínum.

Í fyrrnefndri málstofu „Hvar á gagnrýnin hugsun heima?“ benti Hrund Gunn­steinsdóttir einmitt á tengsl skapandi hugsunar og gagnrýninnar hugsunar og tók dæmi af listaverki Sophie Calle Take Care of Yourself sem dæmi um hvernig skapandi hugsun tekst á við tiltekið fyrirbæri, rannsakar það og túlkar á gagnrýninn hátt, í þeirri von að dýpka skilning okkar á því og jafnvel að afhjúpa eitthvað nýtt um fyrirbærið og okkur sjálf. Rannsóknin sem fólst í listsköpun Calle, var í senn skapandi og gagnrýnin. Ef við lítum aftur til greinar Guðmund­ar, er ljóst að skapandi hugsun og gagnrýnin hugsun eiga margt sameiginlegt. Þó treysti ég mér ekki til þess að svara því hvort að skapandi hugsun feli nauð­synlega í sér gagnrýna hugsun. Ég held samt ekki. Skapandi hugsun þarf ekki nauðsynlega að vera siðferðilega góð. Listsköpun sem tekur á sig form „skap­andi rannsókna“ á tilteknu fyrirbæri (eins og í tilfelli Take Care of Yourself) þarf ekki nauðsynlega að gera siðferðislega kröfu til túlkandans eða höfundarins. Skapandi hugsun þarf ekki nauðsynlega að hafa siðferðilega jákvætt gildi, til að sannfærast um það er nóg að líta til sögunnar og þeirra skapandi aðferða sem menn hafa fundið upp til að níðast hverjir á öðrum. En gagnrýnin hugsun þarf alltaf að vera skapandi ef hún á að standa undir nafni og hún felur nauðsynlega í sér opna og heiðarlega rannsókn. Gagnrýnin hugsun gerir kröfu um að það sé tekið stöðugt tilliti til þeirra siðferðilegu gilda sem eru í húfi, og hún verður að leiða til, eða „úthverfast“ svo maður noti orðalag Ólafs Páls Jónssonar, í sið­ferðilega góðri breytni. En það sem getur sameinað skapandi og gagnrýna hugsun er opin rannsókn á tilteknu viðfangsefni eða fyrirbæri. Gagnrýnin og skapandi hugsun ögrar fyrirfram gefnum hugmyndum okkar og getur verið broddflugan sem vekur okkur til vitundar um tiltekin vandamál, afhjúpar hlutdeild okkar í þeim og getur stuðlað að mögulegri lausn þeirra.

v

Rannsókn, sama á hvaða sviðið mannlegrar hugsunar hún fer fram á, byrjar á spurningu eða efa og felur í sér túlkun á viðfangsefninu. Aftur langar mig að vísa lesandanum til greinar Guðmundar H. Frímannssonar þar sem hann telur upp fimm þætti sem eru fólgnir í „hugarfari gagnrýninnar hugsunar.“ Þeir eru í stuttu máli að vera reiðubúinn að efast, að vilja leita sannleikans og að vera reiðubúinn „að beita gagnrýninni hugsun og treysta skynsamlegri rannsókn á hverju máli og hafa trú á eigin hæfileikum til að taka þátt í slíkri rannsókn.“ Tveir síðustu þættirnir eru fólgnir í „víðsýni“ og því að „vera reiðubúinn að breyta eigin skoð­unum“ ef tilefni er til. Ég tel fullt tilefni til að taka undir þá áherslu sem Guð­mundur leggur á mikilvægi „efans“ og þess „að spyrja“ sem upphafið að sann­leiksleitinni sjálfri. Það er einnig eftirtektarvert hversu ríka áherslu Guðmundur leggur á að vera „reiðubúinn“ til að breyta á tiltekinn hátt og „að treysta“ og hafa „trú á“ einhverju, og þá fyrst og fremst sjálfum sér og hæfileikum sínum. Þetta orðalag er fullkomlega skiljanlegt, því það að efast og spyrja spurninga með opnum hug eða víðsýni (sem er forsenda allra rannsókna hvort heldur sem þær byggja á skapandi eða gagnrýninni hugsun) krefst umtalsverðs hugrekkis. Þannig má túlka grein Guðmundar sem tilraun til að „tala kjark“ í lesendur sína. Að beita gagnrýninni hugsun og að breyta samkvæmt henni í samfélagi við annað fólk krefst hugrekkis. Það getur sem sagt vel verið að samband gagn­rýninnar hugsunar (og skapandi hugsunar) annars vegar og siðfræði hins vegar hins vegar sé m.a. fólgið í því „hugrekki.“ Þó svo að umræðan um gagnrýna hugsun ætti alls ekki einvörðungu að fara fram á forsendum dygða tel ég engu síður að slík nálgun geti skipt máli. En þá verður líka að gæta þess að tak­marka umræðuna ekki við „þekkingu“ eða „siðvit“ heldur líta til fleiri þátta sem má kenna við dygðir. Þannig má líta nánar á dygðina „hugrekki“ og samband hennar við gagnrýna hugsun.

Til einföldunar leyfi ég mér að halda fram þeirri tilgátu hvort það sé ekki jafn­mikilvægt að kenna „hugrekki“ og það er að kenna gagnrýna hugsun, eða hvort hugrekki sé ekki nauðsynlegur hluti gagnrýninnar hugsunar. Af grein Kristjáns Kristjánssonar, „Að kenna dygð,“ að dæma er ekkert því til fyrirstöðu að það sé hægt að kenna dygð.3 En þá verður að huga að því að Kristján gengur út frá hinni aristótelísku þrískiptingu í bókvit, verkvit og siðvit og telur að efling eða þroski siðvitsins sé m.a. fólgið í því að „kenna dygð.“ Kristján ræðir því ekki hvernig eigi að kenna tilteknar dygðir, en færir sannfærandi rök fyrir því að það sé bæði mikilvægt og mögulegt að þroska siðvit einstaklinga á formlegan og formbundinn hátt innan skólakerfisins. En það er fleira matur en feitt ket og aðrir íslenskir heimspekingar hafa fjallað um menntamál og uppeldi í ljósi dygða. Þeirra á meðal er Ágúst H. Bjarnason.

Í hátíðarræðu Háskólans, fyrsta vetrardag árið 1939, benti Ágúst á mögulegar leiðir til þess að breyta og bæta „siðferðilegt uppeldi barna vorra og unglinga.“ Því miður er ekki rúm til að gera heildstæða grein fyrir tengslum siðfræði og uppeldisfræði í heimspeki Ágústs hér en þær sjö leiðir sem hann bendir á í þessari grein gefa nokkuð góða mynd af hugmyndum hans og ég leyfi mér því að telja hvað Ágúst vill leggja áherslu á í uppeldi þeirra sem erfa skulu landið:

  1. Holla líkamsþjálfun, til þess að vinna að líkamlegri og siðferðilegri heil­brigði æskulýðsins.
  2. Sjálfsögun, sem er í því fólgin að kenna æskulýðnum að stilla öllum til­hneigingum og fýsnum í hóf svo að þeir á fullorðinsárum verðið herrar, en ekki þrælar fýsna sinna.
  3. Að fá æskulýðinn til þess að temja sér hugprýði og drengskap, svo hann hræðist ekki að gera það, sem hann telur rétt og gott, og sýni þor og hugprýði í því að framfylgja því.
  4. Að glæða svo siðavit unglinganna, að þeir viti nokkurn veginn með vissu, hvað þeim ber að gera og hvað ekki.
  5. Að fá þá til að temja sér vandvirkni og ráðvendni í lífi og starfi og örva þá til að sýna öðrum mönnum réttlæti, sanngirni og velvild, en brýna þó fyrir þeim bæði fyrst og síðast, að allt félagslíf, bæði á heimilum, í skólum og þjóðfélaginu hvíli á gagnkvæmu trausti, sem þeir megi ekki bregðast, hvaða stöðu, starf eða atvinnu sem þeir kunni að takast á hendur.
  6. Að glæða ást þeirra til lands og þjóðar, svo að þeir sýni sig að full­komnum þegnskap og vilji styðja að vaxandi velgengni þjóðfélagsins.
  7. Að sýna því lotningu, sem heilagt er og dýrðlegt og traðka ekki á til­finningum annarra í þeim efnum.4

Sannast sagna þá tel ég að samtíminn hljóti að nálgast þessar hugmyndir af nokkurri varúð, sérstaklega í ljósi sögulegs samhengis þeirra, en á sama tíma má það vera öllum ljóst að sum þessara atriða tjá hreinlega ráðandi viðhorf samtímans. Þannig geta sum þessara atriða afhjúpað tvískinnung samtímans í einhverjum skilningi. Það er ekki laust við að hið nána samband líkamlegs og siðferðilegs heilbrigðis veki með manni ákveðinn hrylling í ljósi þess sem vitað er um áhuga Ágústs á mannkynbótum.5 En á sama tíma verður ekki hjá því litið að eitt af einkennum samtíma okkar er gríðarlega mikil áhersla á að heilbrigðir og hollir lífshættir hvað varðar hreyfingu, mataræði og annað þvíumlíkt séu for­senda eða í það minnsta mikilvægur hluti „farsældar“ eða góðs lífs í víðum skilningi. Líferni, líkamleg heilsa og hið líkamlega eru nátengd siðferði í menn­ingu samtímans. Sömuleiðis kann mörgum að þykja full sterkt þjóðernishyggju­bragð af því kennslufræðilega markmiði að „glæða ást“ ungmenna til „lands og þjóðar“ og jafnframt væri hægt að túlka ákall Ágústs um „fullkominn þegnskap“ sem hvatningu til þýlyndis og undirgefni gagnvart valdhöfum. Slíkar túlkanir eiga þó líklega erfitt með að standast nána skoðun. En því miður getum við ekki leyft okkur að kryfja hvert einasta atriði af þeim sjö sem Ágúst telur upp, sem myndi jafnframt krefjast nákvæms lesturs á heimspeki hans í heild. En í ljósi þess sem hefur verið fjallað um hér að ofan vildi ég gjarnan staldra við það sem Ágúst segir um „hugprýði.“

v

Þó svo að Ágúst líti á einstaklinginn sem virkan þátttakanda í samfélagi við aðra menn og hluta af sögulegum og náttúrulegum ferlum þá má einnig nálgast heimspeki hans sem hluta af þeirri hefð sem setur hið „einstaklingsbundna sjálf“ í öndvegi í þekkingarfræðilegu og siðfræðilegu tilliti. Þannig er mjög auð­velt að lesa heimspeki Ágústs sem hluta af þeirri íslensku hefð sem lítur til gagnrýninnar hugsunar sem persónubundinnar dygðar. En í ljósi þess hversu sérstakar hugmyndir Ágústs um dygðir eru, sérstaklega í íslensku samhengi, bætir hann mikilvægri vídd við þá hefð. Eins og áður sagði fjallaði Ágúst töluvert um uppeldismál og leit þá jafnt til náttúrulegs þroska einstaklingsins frá barn­dómi til fullorðinsára sem og félagslegra og sálfræðilegra áhrifa foreldra og kennara. Sjálfur kenndi hann börnum á öllum aldri sem og ungmennum og full­orðnum á háskólastigi. Hann taldi að skylda „fræðara“ væri engu síðri en foreldra og að það væri á þeirra herðum að kenna ungmennum allt það „sem lífsstarf þeirra sjálfra og lífið í þjóðfélaginu útheimtir, og þá helzt þannig, að það verði ekki dauður utanbókarlærdómur, heldur eitthvað, sem börnin skilja og vilja og hafa sjálf gaman af.“6 Ágúst var þeirrar skoðunar að hefja ætti kennslu í „veraldlegri siðfræði“ í framhaldsskólum sem væri í því fólgin að nemendum yrði kennt að þau ættu að „aga og siða sig sjálf og temja sér sem bezt bæði á heimilum, í skóla og út í frá allar einka- og félagsdyggðir.“7

Það er mikilvægt að hafa í huga að dygðir í skilningi Ágústs eru siðfræðilegir og sálfræðilegir eiginleikar sem eru afrakstur meðvitaðrar breytni eða ástundunnar en ekki nauðsynlegar forsendur góðrar eða réttrar breytni. Því miður er ekki tækifæri til að ræða hlutverk og eðli dygða í siðfræði Ágústs hér, en „hugprýði“ er óumdeilanlega ein þeirra. Í opinberu erindi sem Ágúst kallaði „Um verðmæti mannlegs lífs“ og flutti haustið 1940 lýsti hann dygð sem „siðferðilegum eigin­leika“ sem einnig mætti nefna mannkost. Mannkosturinn hugprýði væri í því fólgin að hafa „hug og dug til þess að lifa lífinu og hamla upp á móti erfiðleikum þess.“8 Þessa skilgreiningu á „hugprýði“ verður að skoða í ljósi þess sem Ágúst taldi að væri „markmið allrar siðferðilegrar viðleitni“ sem var að „að lyfta lífinu sem mest má verða, tryggja það, fegra það og göfga.“9

Samkvæmt því sem segir í Siðfræði II telur Ágúst hugprýði vera eina af þrem einkadygðum mannsins og skilgreinir hana sem þann siðferðilega og sálfræðilega eiginleika að geta haft stjórn á hræðslugirni sinni.10 Eina leiðin til að tileinka sér „hugprýði“ er með síendurtekinni þjálfun á því sviði. Almenna reglan í siðfræði Ágústs er sú að það er hægt að hvetja og styrkja náttúrulegar tilhneigingar þar til þær verða að meðvitaðri dygð. Eða eins og Ágúst orðar það: „Það er því hið upprunalega eðli manns og innræti (eðlisfarið, eðlisgerðin), sem vér með aðfinnslum vorum, ögun og uppeldi viljum reyna að breyta og bæta og gera að vísvitandi siðferðilegri skapgerð.“11 Menntun, uppeldi og þroski eru ferli sem móta siðferðilega skapgerð einstaklingsins, en ekki bara með það að markmiði að gera hann sjálfan „góðan“ eða að tryggja „farsælt líf“ ein­staklingsins. Vissulega miðar hin „siðferðilega þjálfun“ að því að gera einstak­linginn sem „innviðatraustastan“ en þar að auki er markmiðið hennar það að einstaklingurinn geti „orðið samtíð sinni og framtíð að sem mestu liði.“12 „Hug­prýði“ felur ekki bara í sér að temja hræðslugirni sína. Hugprýði felur í sér að „temja sér þor og áræði til þess að fylgja því fram, er maður teldi gott og rétt.“13

Hugprýði í þessum skilningi er „siðferðileg hugprýði“ og Ágúst varar sérstaklega við þeirri tilhneigingu að blanda saman „líkamlegri hreysti“ eða„hugrekki“ við „siðferðilega hugprýði.“ Bæði getur „líkamlega hraustur maður stundum verið hin mesta hugbleyða“ og „líkamlega veikburða maður verið siðferðilega hugprúður.“ Einnig verður að varast að „siðferðilegri hugprýði“ sé ruglað saman við „andlega hugprýði.“ Með því er átt við að það er hægt að hafa „djarfhuga og frjálslyndar skoðanir“ og gera sér grein fyrir því hvað sé rétt eða réttlátt en breyta ekki í samræmi við þær. Siðferðileg hugprýði er einmitt fólgin í því „að halda því fram, sem maður telur rétt og gott, og fylgja því fram til hins ýtrasta.“14 Ágúst reynir því að mikilvægu leyti að fjarlægast þá hefð sem setur hugprýði í samband við líkamlega hreysti og „karlmannlega“ framgöngu í sókn að skilgreindum hlut­lægum markmiðum. Siðferðileg hugprýði er háð því að markmiðið sem stefnt er að sé siðferðilega gott og réttlát. Við getum dáðst að hetjudáð, en hetjudáðin er aldrei siðferðilega lofsverð nema hún sé unnin í þágu siðferðilega góðs mark­miðs og af góðum vilja.

Jafnframt er hægt að varpa ljósi á „siðferðilega hugprýði“ með því að ræða and­stæðu hennar. Siðferðilegt hugleysi er „áberandi brestur í skapgerð margra manna“ en getur lýst sér á ólíkan hátt. Í fyrsta lagi nefnir Ágúst „hræðslu manna við hina þybbnu mótstöðu fjöldans […] gegn öllum nýungum“ og auk þess „ofurvaldi vanans og tízkunnar“ og hræðsluna við að „brjóta í bága við almenningsálitið“ sem birtist oft í „fleðulæti fyrir þeim sem ofar eru settir“ og meinfýsni gagnvart náunganum. En verstu dæmin um siðferðilegt hugleysi birtast í þeim tilfellum þegar einhver er borinn röngum sökum og enginn rís honum til varnar.15 Niðurstaða Ágústs er sú að siðferðileg hugprýði sé í því fólgin „að maðurinn leggur sjálfan sig og sína eigin velfarnan [sic] að veði fyrir það, sem hann berst fyrir af heilum hug.“16 En siðferðileg hugprýði er ekki einungis fólgin í ytri átökum einstaklings gegn óréttlátum öflum samfélagsins. Það verður einnig að gera grein fyrir „tilvistarlegri“ hlið málsins því siðferðileg hugprýði er líka fólgin í innri átökum sálarinnar þar sem maðurinn þarf að ganga á hólm við sjálfan sig, hræðslugirni sína og fordóma.

vi

Ég tel að beiting gagnrýninnar hugsunar krefjist m.a. „siðferðilegrar hugprýði“ í áþekkum skilningi og Ágúst H. Bjarnason lagði í það hugtak. Bæði krefst það ákveðinnar hugprýði að ganga á hólm við fordóma og fyrirfram skoðanir manns sjálfs og leyfa sér að efast og nálgast veruleikann og hið óþekkta með opnum hug. Það er ekki nóg að hljóta þjálfun í rökfræðilegri greiningu, það er líka nauðsynlegt að læra að efast og rannsaka veruleikann á skapandi hátt. (Sjá greinina „Eigum við alltaf að efast ef við getum?“ eftir Eyju Margréti Brynjars­dóttur.) Einnig krefst það siðferðilegrar hugprýði að beita gagnrýninni hugsun og ganga gegn ráðandi hugmyndum ef svo ber undir. En ekki í þeim „stórkallalega“ skilningi að hafa „hugrekki“ til að láta slag standa eða „kýla á það“ og taka örlögum sínum eins og hverju öðru hundsbiti. Hver og einn þarf að hafa til að bera siðferðilega hugprýði til að efast og rannsaka viðfangsefni sitt með opnum hug og breyta ekki bara í samræmi við skilgreind markmið heldur fyrst og fremst í ljósi siðferðilegs gildis markmiðanna.

Siðferðileg hugprýði var að mati Ágústs „dyggð dyggðanna, stoð siðgæðisins og styrkur“ vegna þess að það er aldrei nóg að vita hvað manni beri að gera ef manni „brestur hug og áræði til þess að fylgja því fram.“ Án siðferðilegrar hug­prýði „sæti allt hjal um siðgæði við orðin tóm […].“17 Sú krafa sem við gerum til sjálfra okkar og samfélagsins um beitingu gagnrýninnar hugsunar er siðferðileg krafa.

Hér í upphafi var minnst á „boðorð“ gagnrýninnar hugsunar sem mætti orða með biblíulegu orðfæri sem: „Þú skalt ekki trúa því sem þú hefur ekki góðar forsendur til að trúa!“ Ég tel að við ættum að taka innihald þessa boðorðs mjög alvarlega, þó svo að líkt og með önnur boðorð ættum við efast um réttlætingu, forsendur og afleiðingar þess. En ef við erum á annað borð að leita að slag­orðum fyrir einhverskonar „herferð“ í þágu gagnrýninnar hugsunar“ þá myndi ég frekar vilja taka undir með Kant og anda upplýsingarinnar og leita aftur til skáldsins Hóras, sem hitt naglann svo eftirminnilega á höfuðið með orðunum: sapere aude. Þekking krefst hugprýði.

Neðanmálsgreinar

1. Descartes, Réne: Orðræða um aðferð. Hið íslenska bókmenntafélag. Reykjavík, 1991; hér bls. 79-80 og Hugleiðingar um frumspeki. Hið íslenska bókmenntafélag. Reykjavík, 2001; bls. 134.

2. Í Nítjándu öldinni (1906) fjallar Ágúst H. Bjarnason um heimspeki Kants og notar þar orðið „Rannsókn“ sem þýðingu á „Kritik.“ Í Heimspekisögu þeirra Skirbekk og Gilje, sem m.a. hefur verið notuð við kennslu í Háskóla Íslands, er „Kritik“ í titlum verka Kants hins vegar þýdd með orðinu „gagnrýni.“

3. Kristján Kristjánsson: „Að kenna dygð“, birt í: Erindi siðfræðinnar. Safn greina á fimm ára afmæli Siðfræðistofnunnar. Ritstj. Róbert H. Haraldsson. Rannsóknarstofnun í siðfræði. Reykja­vík, 1993; bls. 25-42.

4. Ágúst H Bjarnason: „Menning og Siðgæði“. Hátíðarræða háskólans 1. vetrardag 1939. Birt í: Samtíð og saga. Safnrit Háskólafyrirlestra. 1. bindi. Útgefandi: Ísafoldarprentsmiðjan. Reykja­vík, 1941, bls. 9-28; hér bls. 25-26.

5. Sjá: Unnur Birna Karlsdóttir: Mannkynbætur. Hugmyndir um bætta kynstofna hérlendis og erlendis á 19. og 20 öld. Sagnfræðistofnun-Háskólaútgáfan, 1998. Ég leyfi mér þó að setja ákveðinn fyrirvara við niðurstöður Unnar Birnu hvað varðar mannkynbótahugmyndir Ágústs. Mikilvægt er að hafa í huga að hugmyndir og skilningur Ágústs á erfðum og þróun einkenndust fyrst og fremst af áhrifum frá Lamarck og Herbert Spencer.

6. Ágúst H. Bjarnason: Vandamál mannlegs lífs. I. bindi. Erfðir og Uppeldi. Fylgirit við Árbók Háskóla Íslands 1937-38. Reykjavík 1943; hér bls. 18.

7. Ágúst H. Bjarnason: Vandamál mannlegs lífs. II. bindi. Siðmenning og siðgæði. Fylgirit við Árbók Háskóla Íslands 1938-39. Reykjavík, 1945; hér bls. 45.

8. Ágúst H Bjarnason: „Um verðmæti mannlegs lífs“. Flutt 3. nóv. 1940. Birt í: Samtíð og saga. Safnrit Háskólafyrirlestra. 1. bindi. Útgefandi: Ísafoldarprentsmiðjan. Reykjavík, 1941, bls. 50-77; hér bls. 72.

9. Ágúst H. Bjarnason: Siðfræði I. Forspjöll siðfræðinnar. [Útgefanda vantar.] Reykjavík, 1924; hér bls. 134. Hugmyndin um að tilgangur lífsins sé að vinna að framgangi þess má finna víða í höfundarverki Ágústs og er mikilvægur þáttur þess sem hefur verið kallað „líffræðileg framfarahyggja hans.“ Sjá: Steindór J. Erlingsson: „Inngangur,“ birt í: Um uppruna dýrategunda og jurta. Útgefandi: Hið Íslenzka Bókmenntafélag. Reykjavík, 1998; hér bls. 39.

10. Ágúst H. Bjarnason: Siðfræði II. Höfuðatriði siðfræðinnar. [Útgefanda vantar.] Reykjavík, 1926; hér bls. 324.

11. Ágúst H. Bjarnason: Vandamál mannlegs lífs. II. bindi, bls. 23.

12. Ágúst H. Bjarnason, Vandamál mannlegs lífs. I. bindi, bls. 20.

13. Ágúst H. Bjarnason, Vandamál mannlegs lífs. I. bindi, bls. 20. Skáletrun mín.

14. Ágúst H. Bjarnason, Vandamál mannlegs lífs. I. bindi, bls. 21-22. Skáletrun mín.

15. Ágúst H. Bjarnason: Vandamál mannlegs lífs. II. bindi, bls. 65-66. Ekki er laust við að áhrifa John Stuart Mill gæti í hugsun Ágústs að þessu leyti en Ágúst kallaði Mill „fyrirmynd allra hugsandi manna“ í Nítjándu öldinni. Sjá frekar um samband Mill og Ágústs hjá: Gunnar Harðarson: „Mill á Íslandi: brot úr viðtökusögu,“birt í: Hugsað með Mill. Ritstj. Róbert H. Haraldsson, Salvör Nordal og Vilhjálmur Árnason. Háskólaútgáfan. Reykjavík, 2007, bls. 147-162.

16. Ágúst H. Bjarnason: Vandamál mannlegs lífs. II. bindi, bls. 69-70. Meðal þekktra dæma sem Ágúst tekur af siðferðilegri hugprýði má nefna framgöngu Jóns Sigurðssonar á þjóðfundinum 1851 og svo bendir hann m.a. einnig á skáldsagnapersónuna dr. Stockmann í Þjóðníðingnum [En Folkefiende] eftir Ibsen.

17. Ágúst H. Bjarnason: Vandamál mannlegs lífs. II. bindi, bls. 75.

Hvað er kennt þegar siðfræði er kennd?

Síðasta vetur var rædd á Alþingi tillaga um að gera heimspeki að skyldufagi í grunn- og framhaldsskólum. Mest var rætt um siðfræði. Að umræðum loknum var hún send til menntamálanefndar. Tillagan spratt af skýrslu rannsóknarnefnd­ar og almennri umræðu um orsakir og aðdraganda hrunsins. Mér sýnist á um­ræðunni að ekki sé ljóst hvað sé kennt þegar siðfræði er kennd. Þó að við­fangsefnið sé ljóslega mannlegt siðferði, verður varla sagt að þeir sem kenni siðfræði kenni siðferði. Við kennum hvert öðru siðferði og lærum frá blautu barnsbeini. Við fæðumst inn í siðferði og mótumst sem siðferðisverur af sam­skiptum og lífsreynslu.

Enda er fátt jafnmikilvægt og siðferði, gildismat, hneigðir og skoðanir sem gera manneskju að því sem hún er. Siðferði okkar ræður (mörgum, kannski flestum) ástæðum þess hvernig við breytum, hvað við teljum ákjósanlegt, hvers við vænt­um af náunganum, að við álösum honum eða hrósum. Það geymir forsendur fyrir mati okkar á því hvað sé gott ástand og hvað sé rétt breytni, hver séu réttlætanleg boð og bönn, hvaða ástæður og markmið séu mikilvæg, jafnvel því hvernig eigi að vera heil manneskja. Siðferðið grundvallar sjálfsmynd okkar, skilgreinir bæði okkur og stofnanir okkar.

Það getur tilheyrt siðfræði að lýsa siðferði, útlista gildismat, greina frá staðreyndum málsins, því iðulega er mat okkar óljóst og innbyrðis mótsagna­kennt. En alla jafna er fólki ekki kennt í siðfræði að ástæðulaust ofbeldi sé rangt, lygar séu varasamar, ójafnrétti sé skaðlegt, græðgi sé löstur. Því er ekki heldur kennt að náttúrulegt réttlæti birtist í yfirráðum þeirra sem eru sterkari. En í samræðunni sem kennslan er væri hægt að færa rök fyrir (eða gegn) réttmæti þessara skoðana, sem og annarra óræðari álitamála, hvort heldur um nýtingu stofnfruma, staðgöngumæðrun eða framleiðslu erfðabreyttra matvæla, svo nýleg dæmi séu nefnd, eða innviði viðskiptaheimsins. Það væri hægt að skýra forsendur og rökræða hvers konar breytni mætti telja rétta eða góða og hvers vegna, leggja til og færa rök fyrir hvers konar manneskja væri ákjósanlegt að vera. Það mætti benda á eymdina sem fylgdi tiltekinni breytni, afhjúpa ósam­kvæmni þess að ætlast til annars af náunganum en sjálfum sér, tjá mikilvægi sanngirni, útskýra hvers vegna tilteknar hneigðir teljast lestir og hver sé skað­semi lasta. Á þennan hátt gæti samræðan sagt okkur hvað sé gott og rétt og þannig breytt okkur eða styrkt, en ljóslega gæti hún einnig komið okkur í veru­legt uppnám.

Siðfræði er ekki kennsla í heldur rökræða um siðferði. Hún er margbreytileg til­raun (með ólíkum niðurstöðum) til að gera grein fyrir mannlegu siðferði. Hún er ekki ein um viðfangsefnið. Skáldverk og skopteikningar, til dæmis, fjalla um mannlegt siðferði. Á þessum forsendum, held ég, ættum við að spyrja hvort nauðsynlegt sé að rökræða þessi mál, eins og siðfræðin gerir, við börn og ung­linga í kennslustofum landsins. Og reyndar hefur nú verið hrundið af stað verk­efni innan Háskóla Íslands þar sem m.a. er spurt hvaða vit sé í því að fjalla um heimspeki, ekki síst siðfræði og gagnrýna hugsun, í kennslustofu með börnum og unglingum.

Greinin birtist í Fréttablaðinu, 10. október 2011.