Siðferði og siðaboðskapur

Gagnrýnin hugsun og siðfræði: hugtök sem oft eru spyrt saman í umræðum um mikilvægi kennslu í hvoru tveggja. Sumir efast um þessa samþættingu og vilja gera skýran greinarmun þarna á milli. Þeir sem líta svo á að gagnrýnin hugsun sé í raun og veru það sama og vísindaleg hugsun eru þeirrar skoðunar að gildin sem siðfræðin er órofa tengd eyðileggi hlutleysi slíkrar hugsunar. Og þeir sem sjá gagnrýna hugsun fyrir sér sem nokkurs konar svar við vísindalegri og tæknilegri heimsmynd telja að siðfræðin sé full máttvana félagi í þeirri baráttu. Siðfræðin sé í raun of boðandi grein sem standi í vegi fyrir gagnrýnum hugsunarhætti. Gildi hennar byggist á hugmyndafræði sem einnig þurfi að gagnrýna og að lokum breyta. Bæði þessi viðhorf styðjast við of takmarkað sjónarhorn á gagnrýna hugsun og siðfræði og samband þessara greina. Þegar betur er að gáð kemur í ljós að hvorug greinin getur án hinnar verið – né má það.

Sem siðferðisverur lifum við og hrærumst í siðferðilegum veruleika sem felur í sér margvísleg gildi og viðmið sem geta verið ólík á milli samfélaga. Þessi veruleiki kemur skýrt fram í tengslum við ákveðnar athafnir sem tengjast tímamótum í lífi einstaklinga. Má þar nefna athafnir í kringum nafngjöf, þegar barnæskan er kvödd, við hjónavígslu og andlát. Lengi var það viðtekin skoðun að athafnirnar sýndu fram á hversu afstætt siðferðið væri og að það byggðist aðeins á hefðum og venjum. Við nánari skoðun hafa þó æ fleiri sammælst um að ákveðinn sameiginlegur grundvöllur endurspeglist í hinum mismunandi birtingarmyndum siðferðisins sem slíkar athafnir eru. Virðing fyrir hinum látnu geti til að mynda bæði birst í því að koma viðkomandi úr augsýn sem fyrst, eins og við þekkjum hérna á Vesturlöndum, og því að hafa líkið lengi til sýnis eins og þekkist í ákveðnum samfélögum.

Gagnrýnin hugsun virðist því í fyrstu vanmáttug þegar kemur að siðaboðskapnum sem óhjákvæmilega fylgir þeim siðum, venjum og hefðum sem myndast í samfélögum í kringum athafnir sem hér hafa verið nefndar. Þegar betur er að gáð kemur mikilvægi hennar hins vegar berlega í ljós. Ef fylgst er með slíkum athöfnum með ógagnrýnum huga er óhjákvæmilega margt sem stingur í augun. Okkar eigin menning og lífsskoðanir byrgja okkur sýn svo við einblínum á það sem er augljósast en horfum framhjá þeim djúpstæðu viðhorfum sem athafnir byggjast á. Vitanlega kann að vera að á bak við athafnir búi einkennileg viðhorf. Umskurður á stúlkubörnum víða um heim er dæmi um „athöfn“ sem með réttu sætir harðri gagnrýni. En slík gagnrýni er einmitt yfirleitt sett fram að vel athuguðu máli og er ekki aðeins sprottin af vanþóknun á ferlinu sem slíku. Það er með beitingu gagnrýninnar hugsunar sem ljósi hefur verið varpað á hversu fátækleg rök eru fyrir umskurðinum og hversu takmörkuð sú lífsskoðun er sem liggur þar að baki. En jafnframt hefur með beitingu gagnrýninnar hugsunar verið sýnt fram á að falleg hugsun, um það hversu dýrmætt hvert líf er, býr að baki mörgu því sem virðist ógeðfellt í fyrstu.

Siðfræði

Siðfræðin fjallar um siðferði; um rétt og rangt, gott og illt, réttmæti athafna og ákvarðana. Siðfræði er þó ekki eingöngu lýsandi, það er að segja hún lýsir ekki bara siðferðilegri hegðun manna. Hún getur þó gert það og stundum tekst henni hvað best upp þegar dæmi hennar eru í skýrum tengslum við þann veruleika sem henni er ætlað að tala til, ef svo má að orði komast. Siðfræði er þverfagleg grein í þeim skilningi að hún þarf alltaf að taka tillit til þess veruleika sem henni er beitt á og þekkingar okkar á honum. Mikilvægi hennar hefur til dæmis komið berlega í ljós í heilbrigðisvísindum og umönnunargreinum. Á síðari árum hefur svo hlutverk hennar og möguleikar komið betur í ljós í öðrum greinum, eins og til dæmis viðskiptafræði. Má segja að hún hafi blómstrað á þeim sviðum þar sem nálægð fólks með mismunandi hagsmuni og bakgrunn er mikil og þar sem skaði og vanlíðan getur hlotist af óvarkárri breytni. Að því leyti er siðfræði ekki einkamál sérstakra siðfræðinga því siðferðileg álitamál geta krafist mikillar fagþekkingar í ólíkum greinum. Slík fagþekking getur jafnvel verið mikilvægari en þekking á siðfræði þegar leysa þarf ágreining sem kemur upp á yfirborðið – þó svo að hann sé augljóslega af siðferðilegum toga.

Að einu leyti er þó siðfræði ávallt laus við að vera háð fagþekkingu mismunandi greina. Siðfræði er rökræða um það siðferði sem hefur fengið að þróast og tekið sér bólfestu, hvort heldur er á vinnustöðum, innan fagstéttar eða í samfélaginu í heild. Fagþekking er ávallt byggð á því verklagi sem er viðurkennt á hverjum tíma. Það er hin siðferðilega hlið fagmennskunnar sem kallar á að þetta verklag sé í stöðugri endurskoðun, enda hefur slík krafa oft fastan í sess í siðareglum starfsstétta. Á hverjum tíma þarf að fara fram öflug og lífleg umræða um þau gildi sem starfið skal hafa í heiðri og þær væntingar sem skjólstæðingar eða viðskiptavinir geta haft til fagfólksins. Siðfræðin gerir slíka umræðu mögulega þar sem hún verður fremur bitlaus ef ekki hefur farið fram rökræða milli fulltrúa mismunandi sjónarmiða um hvert skuli stefna. Hlutverk siðfræðinnar er því ávallt býsna snúið. Annars vegar er henni ætlað byggja á því siðferði sem þegar hefur fest sig í sessi og hins vegar að vinna gegn óæskilegu siðferði. Það er ekki síst í þessari togstreitu sem mikilvægi gagnrýninnar hugsunar fyrir siðfræðina verður hvað augljósast.

Þá vaknar raunar sú spurning hvað rökræða sé, ef siðfræði er rökræða um siðferði. Er hún til dæmis í eðli sínu frábrugðin kappræðu? Formlega séð er greinarmunur rökræðu og kappræðu skýr: Í rökræðu leitast menn við að skilja málefnið og komast að því sem er satt og rétt – í kappræðu leitast menn við að sannfæra aðra um að sín rök og málstaður sé í alla staði betri. Staðreyndin er hins vegar sú að það getur reynst harla erfitt að skera efnislega úr um það í einstökum tilfellum hvort menn eru að rökræða eða kappræða. Einn helsti vandinn er sá að saga vestrænnar hugsunar, ekki síst þróun siðfræðinnar, færir okkur margs konar dæmi um mikilvæga hugsun sem getur strangt tekið ekki flokkast sem rökræða eða hluti rökræðu. Jafnvel Sókrates, sem við horfum gjarnan til sem föður vestrænnar heimspeki, átti það til að styðjast við skapandi líkingamál fremur en rökfærslur til að sannfæra viðmælendur sína. Mælskulist var því eitthvað sem hann brá fyrir ekki síður en rökræðu. Margir fleiri höfundar koma upp í hugann þegar leitað er að dæmum þar sem grundvallaratriði í heimspeki eru sett fram án stuðnings nokkurs sem getur kallast heimspekileg röksemdafærsla.

Í þessu sambandi er gott að hafa tvennt í huga. Annars vegar hefur heimspekinni ávallt fylgt margs konar skapandi tungutak og ýmsar leiðir til að koma hugmyndum í orð. Þau tengsl sem margir sjá milli heimspekilegrar hugsunar og rökfræði eru stundum orðum aukin. Allar heimspekilegar hugmyndir verða hins vegar að standast þau próf sem rökleg og gagnrýnin hugsun setur þeim því að endingu verða þær brotnar til mergjar. Þótt rökræður séu ekki uppspretta allra hugmynda eiga hugmyndirnar vonandi eftir að koma fyrir í slíkum samskiptum. Heimspekilegar hugmyndir hafa tilhneigingu til að stangast á við aðrar hugmyndir sem áður hafa komið fram. Seinna atriðið sem við ættum að hafa í huga er að það er ekki rökræðan – siðfræðin – sem slík sem ræður því hvort eitthvað er rétt eða rangt, gott eða illt, eða hvort athafnir og ákvarðanir eru réttmætar. Hinn siðferðilegi veruleiki ræðst ekki af hugsunum okkar eða orðræðu. Líkt og hagfræði stjórnar ekki grundvallarlögmálum efnahagslífsins og málfræði sem slík ákvarðar ekki hvaða tungutak sé skiljanlegt, þá er það ekki hlutverk siðfræðinnar að stjórna hinum siðferðilega veruleika. Óheilindi eru röng; ekki vegna þess að rökræða hafi leitt í ljós þá staðreynd heldur vegna þess að veruleikinn sem rökin vísa í er þess eðlis.

Siðferðileg afstaða

Flest fólk er sammála um að sú iðja að ljúga upp á fólk sé siðferðilega ámælisverð. Afsakanir um að tilgangurinn hafi helgað meðalið eru ekki teknar gildar, hversu sannfærandi sem þær kunna að vera í fyrstu. Annaðhvort hefur fólk gert eða sagt eitthvað eða ekki. Lauslegur grunur um að viss skoðun sé uppi dugir ekki til þess að við getum fullyrt að einhver hafi hana. Sú rökvilla sem kennd er við fuglahræðu, það er að segja að gera einhverjum upp skoðanir eða rangtúlka orð hans viljandi, er því talin hafa siðferðilega vídd. Það sama má raunar segja um fleiri rökvillur. Persónurök, eða persónuníð, kemur þar strax upp í hugann. Fáar rökvillur koma eins oft fram í opinberri umræðu. Sú villa er vissulega ekki þess eðlis að verið sé að ljúga einhverju upp á fólk, en það ber ekki merki um heilindi að draga inn í umræðu atriði sem eingöngu tengjast persónu einhvers en koma málefninu annars ekki við. Sérstaklega er það ámælisvert ef ætlunin er bókstaflega að draga athyglina frá umræðuefninu sjálfu. Aðrar rökvillur byggjast á kæruleysi í hugsun fremur en vilja til að valda einhverjum skaða. Sem slíkar tengjast þær engu síður hinum siðferðilegu atriðum. Sá skaði sem þær valda er jafnraunverulegur.

Gagnrýnin hugsun er í senn ákveðin afstaða og færni sem maður temur sér – hún er hæfni. Í henni felst ákveðin skuldbinding um að maður ætli sér að vera í samfélagi við sannleikann, svo gripið sé til hátíðlegs orðalags. Því er siðferðileg afstaða fólgin í þeirri skilgreiningu að gagnrýnin hugsun sé tegund hugsunar sem fellst ekki á neina skoðun, eða fullyrðingu, nema hafa rannsakað fyrst hvað í henni felst og fundið fullnægjandi rök fyrir henni. Sjálfsagt er auðveldara að taka ekki svo einarða afstöðu. Enda er það sú leið sem margir velja. Siðferðileg afstaða birtist hins vegar ekki síst í því að við veljum ekki að feta þá slóð sem liggur beinast við. Það er rangt að siðfræði snúist aðeins um illvirki og spillingu. Eins og þegar hefur verið drepið á getur kæruleysi og hugsanaleti leitt til þess að stríkki á böndum samfélagsins. Siðferðileg afstaða felst því í að efla persónulega hæfni sína, en það gerum við meðal annars með því að axla ábyrgð á eigin skoðanamyndun, yfirvega eigið gildismat og annarra og gera okkur grein fyrir þeim þáttum sem móta hugsun manns og dóma.

Álitamál

Við eigum sjaldnast í erfiðleikum með að greina ámælisverða breytni. Flest viljum við að fólk komi fram við aðra af virðingu og tillitssemi. Ill meðferð á börnum er dæmi um breytni sem fólk sameinast um að fordæma. Raunar má segja að flestir fréttatímar fjalli um eitthvert efni sem við sameinumst um að fordæma á einn eða annan hátt. Ofbeldisverk og ójöfnuður vekja með okkur sterka andúð sem brýst út í fordæmingu. Þar sem svo oft er um að ræða alvarlega atburði veltum við sjaldan fyrir okkur mismunandi hliðum á hverju máli en leyfum geðshræringunni að ráða við skoðanamyndun.

Fordæmingar eru hins vegar fjarri því að vera hluti siðfræðinnar. Ef þær tengjast henni yfirleitt þá er sú tenging mjög lausleg. Verkefni siðfræðinnar er að bera kennsl á margs konar álitamál sem koma fram í samfélagi fólks, hvort sem það er í einkalífinu, á vinnustað eða opinberum vettvangi. Gagnrýnin hugsun leikur lykilhlutverk í því að greina þessi álitamál. Þau spretta sjaldnast fullsköpuð fram í orðræðunni. Öðru nær; stundum þarf að hafa mikið fyrir því að afhjúpa siðferðileg álitamál þó að þau séu ekki ný af nálinni. Gagnrýnin hugsun leikur svo einnig lykilhlutverk í því hvernig við leysum slík ágreiningsmál. Í flestum slíkum málum þar sem fólk er á öndverðum meiði telur það sig vera að breyta rétt, eða að minnsta kosti án nokkurs ills ásetnings.

Vandamálið er að í hvert sinn sem við gerum skyldu okkar eða fylgjum fram réttindum okkar er eins víst að hvort tveggja rekist á aðrar skyldur og réttindi. Það sama á við um þau gildi sem við setjum í öndvegi í lífi okkar. Þau geta stangast á og orðið til þess að erfið álitamál koma upp. Innviðir siðferðisins, ef svo má að orði komast, eru ákaflega aðstæðubundnir og oft er ekki möguleiki á að taka tillit til þeirra allra í einu. Bókmenntir varpa stundum betra ljósi á þessa togstreitu en siðfræðin gerir ein og sér. Fjölskylduharmleikir þar sem skyldur við foreldra og börn togast á eða samfélagsórói þar sem réttur til einkalífs togast á við kröfur um öryggi og eftirlit – allt er þetta efniviður í merkustu bókmenntaverk sögunnar. En frásagnirnar einar og sér missa að lokum marks ef skilning á siðferðilegum lykilhugtökum skortir og engar gagnrýnar spurningar eru settar fram.

Hér er þó ekki verið að gefa í skyn að siðferðileg álitamál þurfi öll að vera sérstaklega dramatísk. Mörg þau lágstemmdari eru einmitt áhugaverðust og kalla ekki síður á gagnrýna hugsun, enda tengjast þau einnig siðferðilegum gæðum. Þar má til dæmis nefna vináttuna. Þessi gæði þarf að rækta en stundum vill brenna við að margs konar áhrif komi í veg fyrir að við sinnum vináttunni sem skyldi. Við slíkar aðstæður, þar sem til dæmis koma við sögu tveir möguleikar sem velja þarf á milli, skiptir máli að geta greint þessi áhrif og forðast að taka afstöðu án tillits til þeirra verðmæta sem mikilvægust eru, eins og vináttan hlýtur að vera dæmi um. Gagnrýnin hugsun getur nýst til að forgangsraða í lífinu og velja þá hagsmuni sem skipta í raun mestu máli. Það er því algengur misskilningur að fólk beri aðeins skaða af samskiptum sínum við annað fólk vegna illvilja, ofbeldis eða spillingar. Hirðuleysi og kæruleysi í mannlegum samskiptum, þar sem fordómar og hjarðlyndi fá að leika lausum hala, er ekki síður mikill orsakavaldur.

Innsæi, samviska og réttlætiskennd

Líklega er það tálsýn að við getum losnað fullkomlega undan löngunum, hvötum, tilfinningum, skaplyndi og geðþótta. Sem siðferðisverur stjórnumst við kannski ekki fyrst og fremst af skynseminni. Margs konar innri öfl og hvatir reka okkur áfram í siðferðisefnum. Þrjú slík öfl eru líklega þeirra kunnust en þau eru samviskan, siðferðilegt innsæi og réttlætiskenndin. Hver kannast ekki við að nagandi samviskubit fái mann til að hugsa sig tvisvar um? Eða að munurinn á réttu og röngu renni upp fyrir manni án röklegrar íhugunar? Eða þá að maður logi innra með sér vegna augljóss óréttlætis?

Öll þessi öfl hafa heimspekingar og aðrir fjallað um undanfarin árþúsund af mikilli dýpt og væri fjarstæða að láta sem mikilvægi þeirra fyrir heimsmynd okkar fari þverrandi. Vissulega má segja að samviskan eigi sér trúarlegar rætur og hafi ekki sömu þýðingu í samtímanum og áður. Stundum er meira að segja látið í veðri vaka að samviskubit sé ekkert annað en leifar frá þeim tíma er andleg yfirvöld reyndu að stjórna lífi fólks með því að halda fram dygðum sem þeim voru þóknanlegar. Vinnusemi gæti verið dæmi um slíka dygð. Einhver kynni að vilja bæta því við að innsæi og réttlætiskennd séu fyrirbæri sem við eigum vissulega hugtök yfir en að vísindin hafi komið fram með önnur heiti yfir þau ferli sem þau lýsa og eiga sér stað innra með okkur. Mikilvægið er þó engu minna þrátt fyrir örlítið breytt hlutverk. Það er eðlilegt að lýsa fyrirbærunum með þessum hugtökum vegna þess að flest höfum við svipaða reynslu af þeim. Einnig bendir fátt til þess að við viljum losna við þau úr orðaforða okkar. Mikilvægið felur þó ekki í sér loforð um óskeikulleika. Þessi siðferðilega „innri rödd“ okkar, eins og freistandi er að kalla þessar geðshræringar, getur vel leitt okkur á villigötur. Og hún gerir það oft.

Við getum, með öðrum orðum, ekki greint svo glatt á milli hvenær okkar innri rödd er að afvegaleiða okkur og hvenær hún er í raun okkar besti áttaviti. Í þessu, eins og svo mörgu öðru, er það helst gagnrýnin hugsun sem kemur til aðstoðar. Við eigum að spyrja okkur hvort við gerum okkur grein fyrir um hvað málið snýst nákvæmlega, hvort það sem innri röddin segir stangast á við aðrar skoðanir og hvaða forsendur við höfum fyrir því sem okkur finnst rétt. Lykilatriðið er að gagnrýnin kemur alltaf eftir á. Gagnrýninni hugsun er beitt á skoðanir sem eru þegar komnar fram. Hún er því hvorki andstæða þessarar innri raddar né hefur hún það hlutverk að losa okkur við sterkar tilfinningar eins og réttlætiskenndina. Beiting skynsemi er ekki valkostur í stað tilfinninga þegar kemur að því hvernig hugsun okkar tengist hinum siðferðilega veruleika. Við þurfum á þeim að halda en okkur ber einnig að gæta þess að láta þær ekki hlaupa með okkur í gönur.

Að beita þekkingu

Til þess að líf sé þess virði að lifa því þurfa margs konar gæði að koma til. Heilsa, efnahagur og viðurkenning eru dæmi um gæði sem fólk bendir á sem grundvallarforsendur þess að geta átt gott líf. Sum gæði eru þess eðlis að þau leggja grunn að þeim leiðbeiningum sem við kennum við siðferði enda tengjast þau samskiptum fólks. Réttlæti og virðing fyrir lifandi og látnum einstaklingum eru grundvallaratriði í öllum samskiptum. Vináttan einkennir hins vegar náin persónuleg samskipti og svona mætti lengi telja. Við þurfum svo hvert og eitt okkar að vega og meta þessi gæði og þá stöðu sem þau hafa í tilveru okkar. Einnig þurfum við að greina þau frá öðrum gæðum sem þrátt fyrir að vera mikilvæg fyrir farsæld okkar þjóna engu lykilhlutverki í samskiptum fólks. Gæði menningar og lista eru til að mynda mikilvæg fyrir lifandi og áhugavert samfélag, og efnahagsleg gæði gera okkur kleift að veita sjálfum okkur og þeim sem næst okkur standa lífsviðurværi.

Þekking á heima með siðferðisgæðum enda er hún forsenda þess að hver einstaklingur geti í raun og veru notið þess sjálfræðis sem áður hefur verið rætt um og staðið á eigin fótum. Hún er því ekki dæmi um efnahagsleg gæði, eins og gjarnan er reynt að halda fram í samtímanum. Þekking er til að mynda ekki takmörkuð í tíma og rúmi, enda á hún sér strangt tekið ekki efnislegar forsendur. Sumt fólk býr vissulega yfir meiri þekkingu en annað fólk og getur notað slíka þekkingu sér til efnahagslegs framdráttar. Ekkert er athugavert við slíka hagnýtingu svo fremi að hún valdi ekki öðrum skaða. En þessi staðreynd varpar hvorki ljósi á eðli þekkingar né hlutverk. Öll gæði (jafnvel ást) má setja í efnahagslegt samhengi, en ekki er þar með sagt að kjarni þeirra fylgi með í umbreytingunni. Nær er að tala um að upplýsingar gangi kaupum og sölum. Þekkingar er þörf í öllum mannlegum samskiptum. Hún er flókið fyrirbæri og aðstæðubundið, og okkur kann að greina á um ýmislegt í sambandi við hana, en án hennar væru mannleg samskipti harla fábrotin.

Það þarf að gera skýran greinarmun á öflun þekkingar og beitingu hennar. Hlutverk gagnrýninnar hugsunar er sérstakt að því leyti að hún leikur lykilhlutverk báðum megin, ef svo má að orði komast. Við öflum þekkingar með rannsóknum, athugunum og tilgátum. Við öflum þekkingar með því að vera forvitin og full undrunar yfir þeim veruleika sem við stöndum andspænis og erum um leið sjálf hluti af. Þekkingin verður til er við yfirvegum niðurstöður okkar, hvort sem þær eru afrakstur eigin athugana eða rannsókna annars fólks, og spyrjum okkur hvort fullnægjandi forsendur séu fyrir þeim. Margs konar hugsanavillur, rökvillur og dæmi um mannlegan breyskleika geta gert það að verkum að við sættum okkur við niðurstöður sem eru ekki grundvallaðar á fullnægjandi máta. Einungis með beitingu gagnrýninnar hugsunar getum við stigið þetta viðbótarskref sem er nauðsynlegt til þess að um raunverulega þekkingu sé að ræða. En þar með lýkur ekki hlutverki gagnrýninnar hugsunar. Það er ekki síður hluti hennar að fólk spyrji sig um afleiðingar þess ef það breytir í samræmi við nýfengna þekkingu sína. Ótal dæmi í mannkynssögunni sýna okkur hvað gerist þegar ekki er gætt að því hvernig þekkingu er beitt. Þekking sem er rifin úr samhengi við stöðu sína sem mikilvæg siðferðisgæði er, þegar öllu er á botninn hvolft, varla réttnefnd þekking. Hún er ekki dæmi um að hugað hafi verið að öllum hliðum tiltekins máls.

Umfjöllunina um tengsl þekkingar og breytni má raunar taka saman á einfaldan hátt. Þjálfun í gagnrýninni hugsun gerir hvert og eitt okkar fært um að sjá í gegnum moðreykinn. Markmiðið er að láta ekki blekkjast, hvort sem það er af eigin skoðunum eða fullyrðingum annars fólks. Til þess að öðlast þessa færni þarf að læra að spyrja réttra spurninga, hafa innsýn í og geta nýtt sér fjölmarga þætti hagnýtrar rökfræði. Í vissum skilningi er verið að fá fólk til að æfa sig í að taka þátt í ákveðinni gerð rökræðu þar sem markmiðið er að sannfæra annan aðilann um að skoðun hins sé betri. Þjálfun í gagnrýninni hugsun, að láta ekki blekkjast, fylgir því óhjákvæmilega sú freisting að beita leikni sinni til að blekkja aðra. Djúpur skilningur á helstu rökvillum gerir til að mynda fólki kleift að nýta sér þær sem mælskubrögð. Og dæmin um slíkt koma reglulega upp í opinberri umræðu í vestrænum samfélögum. Gagnrýna hugsun verður því ávallt að þjálfa í nánum tengslum við ígrundun um samfélagið og réttlát samskipti við annað fólk. Helstu rökin fyrir því að samþætta kennslu í gagnrýninni hugsun og siðfræði eru þau að fólk verði að temja sér að íhuga hvernig það beitir þekkingu sinni á réttlátan máta og með virðingu fyrir viðmælendum.

Dygðir

Gagnrýnin hugsun getur aldrei eingöngu verið verkfæri eða tækni – eða leikni – til að spyrja sjálfan sig eða aðra óþægilegra spurninga. Þeir fræðimenn sem hafa þróað gagnrýna hugsun sem leikni fyrst og fremst hafa flestir áttað sig á að nemendur sem kynnast henni eingöngu sem slíkri leikni eru síður líklegir til að beita henni. Sífellt hefur farið að bera meira á hugmyndum um að þjálfun í gagnrýninni hugsun ætti að fela í sér að nemendur tileinki sér ýmsa eftirsóknarverða eiginleika í hugsun. Meðal slíkra eiginleika er að temja sér að nálgast mál með opnum huga, leyfa sér að vera spurull, vera ekki of íhaldssamur í skoðunum og sækjast eftir réttum upplýsingum. Miklu fleiri dæmi mætti nefna. Til að mynda hefur oft verið bent á að sú iðja margra fræðimanna að sveipa hugsun sína torræðum blæ sé ekki í anda gagnrýninnar hugsunar og að sá eiginleiki að vera skýr í framsetningu eigin hugsunar sé jafnvel sá sem mikilvægastur er gagnrýninni hugsun.

Innan siðfræðinnar er til hefð eða stefna sem lýsir vel mikilvægi þess að temja sér vissa eiginleika en forðast aðra. Og það er sú stefna sem hefur verið fræðimönnum um gagnrýna hugsun bæði fyrirmynd og innblástur – og er þannig enn eitt dæmið um náin tengsl hennar við siðfræði. Þessi stefna innan siðfræðinnar er svokölluð dygðasiðfræði. Samkvæmt henni eru það ekki meginreglur um hegðun eða afleiðingar breytni einar sér sem ákvarða hvað er mikilvægast að hafa í huga við siðfræðilega útlistun, heldur vega þar þyngst eiginleikar sem fólk hefur tamið sér og hvernig þeir ákvarða hegðun þess og breytni. Þessir eiginleikar eru það sem við köllum dygðir.

Flest höfum við heyrt af ákveðnum dygðum, eins og kristilegu dygðunum trú, von og kærleik og sígildu (heiðnu) dygðunum hófsemi, hugrekki, heiðarleika og visku. Slíkir listar eru ekki tæmandi og í sjálfu sér ekkert því til fyrirstöðu að tala um hina eftirsóknarverðu eiginleika hugsunarinnar sem dygðir þótt þeir komi ekki fyrir á neinum listum. Hin aristótelíska skilgreining á dygð – sem meðalhófi tveggja lasta – á ágætlega við í þessu sambandi. Þær dygðir sem hér hafa verið nefndar sem dæmi um mikilvæga þætti í gagnrýninni hugsun speglast einmitt í löstum sem við flest berum kennsl á. Líklega eru slík lastapör best til þess fallin að draga fram dygðir hugsunarinnar. Því væri ekki úr vegi að lýsa þeim í viðvörunarskyni þegar verið er að kenna gagnrýna hugsun. Þar má til dæmis vara við því hvernig þröngsýni hindrar alla rannsókn um leið og of opinn hugur hindrar okkur í að komast að niðurstöðu. Það sama má segja um þá sem spyrja aldrei að neinu og þá sem spyrja án afláts. Þar er meðalhófið best. Þá hefur hvorki oftrú né vantrú á mátt skynseminnar reynst vel við skoðanamyndun.

Hið mögulega

Gagnrýnin hugsun er tengd siðfræði órofa böndum að því leyti að markmið hennar er að kenna fólki sem skynsemisverum að breyta á réttlátan og ábyrgan hátt, til dæmis með því að forða fólki frá því að særa annað fólk í hugsunarleysi. Einn augljós eiginleiki skoðana og fullyrðinga er sá að þær hafa áhrif og eru ekki það hlutlausa verkfæri sem margir vilja vera láta. Hatur dafnar hvergi betur en í hugmyndaheimi fólks sem skeytir ekki um gagnrýna hugsun. Áhrifamiklar skoðanir í sögu mannkyns á kynþáttum og kynhneigð, svo dæmi séu tekin, hafa iðulega borið þess lítil merki að rannsakað hafi verið hvað í þeim felst, hvað þá að fullnægjandi rök hafi verið fundin fyrir þeim.

Ein mikilvæg spurning sem gagnrýnið fólk ætti að temja sér að spyrja tengist siðferðilegri hlið gagnrýninnar hugsunar. Þetta er spurningin um hvað það hefði í för með sér ef við breyttum í samræmi við skoðanir okkar. Það mætti því í raun alveg eins kalla hana „siðfræðispurningu“ gagnrýninnar hugsunar, enda snertir hún ekki bara staðreyndir heldur ekki síður hið mögulega. Henni er ætlað að fá okkur til að velta því fyrir okkur hvernig heimurinn ætti að vera. Og með því að spyrja hennar föllum við vonandi síður í þá freistni að mynda okkur einkaskoðanir, skoðanir sem við viljum síður að annað fólk api eftir okkur. Sú hugsun sem hér er reynt að draga fram er mjög í anda þýska heimspekingsins Immanuels Kant. Hann leitaðist í siðfræði sinni við að sýna fram á mikilvægi þess að við breytum ekki öðruvísi en þannig að við gætum hugsað okkur að sú breytni yrði að meginreglu í öllum mannlegum samskiptum.

Þegar rætt er um mikilvægi gagnrýninnar hugsunar er gjarnan gripið til þess að tengja hana við lýðræði. Grundvallarhugmyndin er sú að fólk sem ætlar sér að vera virkir þátttakendur í lýðræðislegu samfélagi þurfi að vera gagnrýnið í hugsun. Hugmyndin sem slík er hárrétt og mikilvægt að henni sé komið á framfæri, en hún getur þó orðið til þess að fólki yfirsést raunverulegt mikilvægi gagnrýninnar hugsunar fyrir gott samfélag. Mikilvægið er bæði einfaldara og flóknara en áherslan á lýðræðið gefur í skyn. Í vissum skilningi er mikilvægi gagnrýninnar hugsunar fyrir samfélagið svo augljóst að varla tekur að nefna það. Hegðun okkar í umferðinni getur verið dæmi um slíkt. Ökutækjum er lagt þar sem þau hindra umferð gangandi fólks og ekið inn á gatnamót þótt ljóst sé að þau komist aldrei yfir. Slíkt gagnrýnis- og hugsunarleysi, að skoða mál ekki frá öllum hliðum, hindrar bókstaflega flæði í samfélaginu og torveldar samskipti fólks. En framangreind umfjöllun um samband gagnrýninnar hugsunar og siðfræði sýnir einnig fram á hversu flókið hlutverk gagnrýnin hugsun hefur þegar kemur að því að skapa bærilegt samfélag. Án hennar leysum við hvorki siðferðileg álitamál né umgöngumst þekkinguna sem þau siðferðisgæði sem hún er. Og án gagnrýninnar hugsunar vitum við ekki hvernig á að bregðast við okkar siðferðilegu innri rödd. Gagnrýnin hugsun felur þannig bæði í sér dygðir og siðferðilega afstöðu.

Gagnrýna hugsun á ekki að þjálfa án kennslu í siðfræði. Ennþá er væntanlega margt óljóst um tengslin þarna á milli og atriði sem má árétta enn frekar. Eitt slíkt er að efling gagnrýninnar hugsunar og siðfræði bætir ekki sjálfkrafa samskipti okkar og samfélag. Hugmyndin um að þessi efling fari fram byggist ekki á svo einfeldningslegri forsendu að allir verði sjálfkrafa góðir við það eitt að beita gagnrýninni hugsun. Til að mynda er ljóst að margs konar siðferðileg álitamál munu halda áfram að koma fram hversu vel sem gengur að efla kennslu í þessari gerð hugsunar. Raunar má allt eins gera ráð fyrir að álitamálin verði fleiri við það, enda erfiðara fyrir fólk að gefa þeim engan gaum og láta sem þau séu ekki til. Hér hefur þó vonandi verið sýnt fram á hvernig greinarnar styrkja hvor aðra og eru raunar svo samtvinnaðar að þær verða ekki aðskildar. Siðfræði er ekki möguleg án gagnrýninnar hugsunar og gagnrýna hugsun verður meðal annars að þroska í átökum við hinn siðferðilega veruleika. Gagnrýninni hugsun fylgir frelsi í hugsun og þessu frelsi verður að fylgja ábyrgð, til að mynda sú ábyrgð að nota ekki leikni sína til að blekkja aðra.

„Við þurfum að læra að axla ábyrgð“

Páll Skúlason heimspekingur ræðir um eðli stjórnmála, stöðuna á Íslandi fimm árum eftir hrun og hvað sé til ráða.

Páll Skúlason

Páll skúlason - Rétt fyrir síðustu jól gaf Páll út sína tólftu heimspekibók, Ríkið og rökvísi stjórnmálanna. Bókin er safn níu ritgerða sem eru skrifaðar á tímabilinu 1993 til 2013, en allar eiga þær það sameiginlegt að fjalla um eðli stjórnmála.

Mynd: Kristinn Ingvarsson

Ef einhver íslensk rödd á tilkall til þess að kallast rödd skynseminnar gæti það verið sú sem tilheyrir Páli Skúlasyni, prófessor í heimspeki og fyrrverandi rektor Háskóla Íslands. Raddblærinn sem hefur í rúm 40 ár leikið um ganga Háskólans og á stundum hljómað úr útvarpstækjum landsmanna kveikir hugrenningatengsl við visku forfeðranna, í henni er endurómur aldanna, sambland íslenskrar menningar og vesturevrópskrar heimspekihefðar.

Páll Skúlason fæddist árið 1945 á Akureyri og ólst þar upp fram til tvítugs. Snemma kynntist hann heimspeki og eftir stúdentspróf við Menntaskólann á Akureyri hélt Páll til náms við Kaþólska háskólann í Louvain (Leuven) í Belgíu. Frá árinu 1971 hefur Páll starfað innan veggja Háskóla Íslands, þar sem hann var rektor á árunum 1997 til 2005. Fyrir utan að leiðbeina heimspekinemum, flytja fyrirlestra í útvarpi og sitja í siðanefndum, stjórnum stofnana og ráða, hefur hann kennt ótal nemendum úr öllum deildum háskólans heimspekileg forspjallsvísindi.

Rétt fyrir síðustu jól gaf Páll út sína tólftu heimspekibók, Ríkið og rökvísi stjórnmálanna. Bókin er safn níu ritgerða sem eru skrifaðar á tímabilinu 1993 til 2013, en allar eiga þær það sameiginlegt að fjalla um eðli stjórnmála. Ég mælti mér mót við Pál til að ræða um efni bókarinnar, stöðu samfélagsins fimm árum eftir hrun og hvað sé til ráða.

Uppeldisfræði og frönsk heimspeki

Áhugi Páls á heimspeki kviknaði í æsku. „Það fyrsta sem ég man eftir að hafa verið að pæla tengdist uppeldi og kennslu. Þegar ég var lítill þá rakst ég á Uppeldið eftir Bertrand Russell og var að reyna að skilja þetta,“ segir hann og hlær. „Á menntaskólaárunum kynnist ég frönskum höfundum – ég sökkti mér ofan í verk Alberts Camus og einnig Jean-Pauls Sartre – og svo verkum Sigurðar Nordals sem höfðu mikil áhrif á mig. Hann opnaði augu mín fyrir því að okkur skortir raunverulega heimspeki hér á Íslandi. Ef við ætluðum að móta nútímasamfélag þá yrðum við að tileinka okkur heimspekilega hugsun.“

Páll telur þörfina á því hugsa heimspekilega ekki síst mikilvæga í stjórnmálum. „Menn þurfa heimspeki til að móta góða stjórnmálastefnu. Einn helsti vandinn við íslensk stjórnmál er að þau hvíla ekki á nægilega almennum og skýrum skilningi á samfélaginu og þeim samfélagsvanda sem við stöndum frammi fyrir.“ Hann viðurkennir að heimspekingar hafi sjaldan verið áberandi í íslenskri umræðu; „það tengist því að heimspekingar eru taldir eiga að fjalla um grundvallaratriði og í hinu daglega lífi eru menn ekkert að hugsa um þau. Menn eru bara á bólakafi í tilteknum málum sem eru efst á baugi á hverjum tíma. Það er þá helst þegar mikil áföll dynja yfir sem fólk fer að spyrja slíkra grundvallarspurninga eins og var áberandi í kjölfar bankahrunsins.“

Einstaklingar hugsa um hag samfélagsins

Heimspekileg hugsun Páls hefur snúist mikið um siðfræði og stjórnmál og hann hefur með ýmsum hætti lagt sig fram við að efla heimspekilegar samræður meðal Íslendinga. Hann hefur fengist við að greina eðli ríkis og stjórnmála svo við getum áttað okkur betur á þessum viðfangsefnum. Ein þeirra hugmynda sem hefur verið leiðarstef í skrifum Páls í gegnum tíðina er að mikilvægt sé að líta á ríkið sem skynsamlega leið samfélagsins til að taka ákvarðanir um sameiginleg málefni – þetta kallar hann skynsemisviðhorf til ríkisins – en ekki einungis sem tæki sem valdamiklir einstaklingar eða stéttir berjast um til að beita í þágu ýmissa sérhagsmuna – það sem hann kallar tæknilegt viðhorf til ríkisins.

„Ríkið sem stofnun hefur tvær hliðar, það er ákveðið form eða skipulag sem heldur utan um samskipti okkar, og það er einnig vald eða afl til að koma hlutum í framkvæmd. Formið felst í lögum og reglum sem eiga að halda utan um samfélagið og gera okkur kleift að taka ákvarðanir í okkar sameiginlegu málum. Aflið er fyrst og fremst fólgið í opinberum stofnunum sem hafa burði til að framfylgja ákvörðununum. Svona kerfi hefur þróast í öllum samfélögum í einni eða annarri mynd. Þetta sýnir okkur náttúrlega eitt um manneskjuna, eða okkur sjálf, en það er að við hugsum ekki bara fyrir sjálf okkur sem einstaklinga heldur sem eina heild.“ segir Páll. „Síðan þróast allt samfélag í átökum – það er barátta milli hópa og stétta um margvísleg gæði og við sem borgarar í tilteknu ríki þurfum að sjá til þess að þessi barátta fari ekki úr böndunum. Þannig er hlutverk ríkisins og þar með okkar sjálfra sem ríkisborgara að vinna markvisst að því að réttlæti ríki í samfélaginu.“

Rökvísi markaðarins

Í nýju bókinni sinni setur Páll fram þekkta greiningu sína á mannlífinu í þrjú mismunandi svið: hið andlega, hið stjórnmálalega og hið efnahagslega. Hvert þessara sviða hefur sín eigin lögmál og innri rökvísi en kenning Páls er að ójafnvægi eigi til að myndast milli þessara sviða, en þá er rökvísi eins sviðs þröngvað yfir á hin sviðin. Í slíkum tilvikum verður samfélagið óskynsamlegt. Þetta hefur oft átt sér stað í gegnum söguna, til dæmis breiddu trúarlegar hugmyndir kirkjunnar úr sér á miðöldum, stjórnmálaleg hugmynd um þjóðina varð allsráðandi á fyrri hluta 20. aldarinnar, en í dag er það efnahagsleg rökvísi markaðarins og hagfræðinnar sem er talin geta útskýrt virkni hluta á öllum sviðum mannlífsins. Þetta telur Páll vera varhugaverða þróun. „Í efnahagslífinu erum við sífellt að reyna að efla ákveðnar leiðir í framleiðslu og sölu, og svo keppa auðvitað sumir að því að verða ríkari og ríkari. Við hrærumst að sjálfsögðu öll á einn eða annan hátt í efnahagslífinu. En ef við hugsum bara eftir brautum þeirrar rökvísi sem þar er um að ræða þá skiljum við ekki samfélagið, hvorki stjórnmálin né hið andlega líf sem að endingu skiptir okkur mestu sem hugsandi verur. Það er því mjög hættulegt ef sá hugsunarháttur verður ríkjandi að efnahagsleg gæði séu það eina sem máli skipti, eins og þegar fólk hugsar „Ég læri bara til þess að fá gráðu sem að gefur mér góða vinnu og há laun.“ Líka sú vafasama hugsun að öll menntun eigi að vera í þágu efnahagslífsins eða atvinnulífsins. Þetta er afskaplega þröngur hugsunarháttur og veldur því að menn misskilja, mér liggur við að segja, bæði sjálfa sig og samfélagið.“

Verkefni stjórnmálanna

„Verkefni stjórnmálanna er að setja lög og reglur til að halda utan um samfélagið og sjá til þess að það fari ekki úr böndunum. Oft myndast spenna milli viðskiptalífsins og stjórnmálanna, löggjafans. Í viðskiptalífinu vilja menn hafa sem minnst af reglum og höftum, en löggjafinn vill tryggja með viðeigandi lögum og reglum að ekki sé haft rangt við. Í efnahagslífinu verða oft til ákveðin öfl sem reyna að hafa áhrif á stjórnmálin og stjórnmál hafa að miklu leyti verið sérhagsmunabarátta. Flestir stjórnmálaflokkar voru upphaflega stofnaðir til að verja hagsmuni ákveðinna stétta, eins og bændastéttar, verkafólks eða verslunarmanna. Við vissar aðstæður getur sérhagsmunabarátta haft verulega spillandi áhrif á stjórnmálin, vegna þess að þá er ekki verið að hugsa um heildarhag. Stjórnmálin eiga að snúast um ákvarðanir sem varða hagsmuni allra – þau eiga að vera skynsamleg umræða um hvað samfélaginu sem heild er fyrir bestu. En um leið þarf að sjálfsögðu að taka tillit til sérhagsmuna af ýmsu tagi, en gæta þess þó umfram allt að sérhagsmunir skaði ekki almannaheill,“ segir Páll.

„Sem dæmi um sameiginleg grunngæði, þá eru stofnanir samfélagsins eitthvað sem við eigum öll aðild að, það eru dómstólarnir, lögregla, heilbrigðiskerfið, skólarnir og svo framvegis. Góðar grunnstofnanir, sem vel er hugsað um, eru forsenda fyrir góðu samfélagi. Sú hætta er sífellt fyrir hendi, eins og við höfum fengið að reyna, að tiltekin sérhagsmunaöfl komi máli sínu þannig fyrir borð að stjórnvöld skeyti ekki sem skyldi um opinberar stofnanir og almannaheill.“

Nýja-Ísland

Páll hefur talað um að í kjölfar áfalls gerist það oft að heimspekin blómstri, en hefur sú orðið raunin á Íslandi í kjölfar umróts síðustu fimm ára? „Já og nei. Mér fannst eins og mörgum strax eftir hrun að þjóðin hefði orðið fyrir andlegu áfalli, reynslu sem myndi taka mörg mörg ár að vinna úr. Nánast allir þjóðfélagsþegnar urðu fyrir umtalsverðu efnahagslegu tjóni og gerðu sér jafnframt grein fyrir því að þjóðarbúið hafði orðið fyrir skaða sem tæki langan tíma að bæta. Um leið blasti við þjóðinni að stjórnvöld höfðu ekki hugsað sem skyldi um þjóðarhag og í raun brugðist grundvallarhlutverki sínu – að gæta almannaheillar. En við vorum engan veginn í stakk búin til að horfast í augu við þennan pólitíska vanda. Stærsta verkefni okkar í dag er að endurnýja svið stjórnmálanna og í þeim efnum eigum við langt í land. Hér þurfum við nýja hugsun um samfélagið og nýjar leiðir til að virkja okkur sjálf sem borgara til að taka þátt í stjórnmálunum. Það var alls ekki við því að búast að okkur tækist að gera þetta strax eftir hrunið. Þá voru alls konar hlutir sem varð að bregðast við samstundis til þess að þjóðfélagsvélin næði að virka, fólk fengi launin sín, fyrirtækin héldu rekstrinum áfram, opinberar stofnanir sinntu þjónustu sinni o.s.frv. Viðleitni stjórnvalda strax eftir hrun og fyrstu árin beindist nánast öll að því að halda efnahagsmaskínunni gangandi. Við þessar aðstæður er mjög erfitt að hugsa til langs tíma. Stjórnvöld og einstaklingar eru uppteknir af tilteknum áhyggjuefnum sem kalla á úrlausn hér og nú. Okkur dreymir oft um skyndilausnir á lífsvandamálum okkar, en í þessu tilviki þá er engri slíkri lausn til að dreifa. Við eigum engan kost annan en mennta sjálf okkur, horfast í augu við blekkingar fortíðar og leita skilnings og þekkingar á raunverulegum aðstæðum okkar og möguleikum,“ segir Páll.

Aðspurður út í hinar ýmsu tilraunir sem hafa verið gerðar á sviði stjórnmálanna á undanförnum árum, segir Páll: „Skemmtilegasta tilraunin var vafalaust Besti flokkurinn. Hann kom með jákvæða hugsun sem lýsir sér kannski best í orðum Jóns Gnarr, þegar hann sagði „við tölum ekki illa um annað fólk.“ En margar þessara tilrauna hafa einkennst af óþolinmæði og óraunsæi.“ Páll hefur lengi talað fyrir því að stjórnarskráin yrði endurskoðuð, en hann telur að það hefði þurft að undirbúa það miklu betur en gert var. „Þetta var gert í fljótheitum og menn ætluðu sér um of. Hins vegar hefur heilmikil vinna verið unnin sem vafalaust mun koma sér vel þegar málið kemst aftur á dagskrá.“

Raunveruleg reiði

Ég spyr hvernig hann upplifir þjóðarsálina nú í dag, sjálfur segist ég greina þar aukna reiði og hörku í hugmyndafræðilegum deilum manna. „Ég held að þetta sé rétt hjá þér, að fjöldi fólks sé undir niðri mjög reiður og ósáttur við hlutskipti sitt: „Af hverju þurfa mín laun að vera skorin niður á sama tíma og lánin mín hækka?“ Svo sjáum við aðra sem eru farnir að maka krókinn með óeðlilega háum launum miðað við aðra launþega,“ segir Páll. Við erum sammála um að þjóðfélagsumræðan eigi oft meira skylt við skotgrafahernað en skynsamlega rökræðu. „Það eru tvenns konar forsendur fyrir skynsamlegri umræðu,“ segir Páll: „Í fyrra lagi þarf fólk að hafa skilning á almennum hugmyndum og hugtökum um úrlausnarefnin og geta gert þau öðrum skiljanleg. Í öðru lagi þurfa að vera til fjölmiðlar sem halda uppi vönduðum umræðuþáttum og vönduðum skrifum um þjóðfélagsmál. Því miður skortir mikið á skilning okkar á ýmsum lykilhugtökum sem eru forsenda skynsamlegra umræðna. Menn tala til dæmis stundum um réttlæti eins og það sé bara það að fá vilja sínum framgengt. Slíkt gengur ekki.“

Jöfnuður, jafnrétti og jafnræði

Í nýjustu ritgerð bókarinnar Réttlæti og samfélagsmyndun setur Páll fram kenningu um þrjár mismunandi gerðir réttlætis á hinum þremur ólíku sviðum mannlífsins: jöfnuður er efnahagslegt réttlæti, jafnræði er stjórnmálalegt hugtak um jafna möguleika ólíkra hópa til að hafa áhrif á landsmálin, og jafnrétti varðar hið andlega svið, það er jöfn tækifæri fólks til að uppgötva og tjá hvað þau telja rétt og satt og færa rök fyrir máli sínu. Allt er þetta nauðsynlegt ef við ætlum að mynda réttlátt samfélag. „Nú á dögum beinist athyglin langmest að jöfnuðinum, sem er að mörgu leyti mjög skiljanlegt, en þar með er ekki tekið nægilegt tillit til jafnréttisins og jafnræðisins. Það er ekki mikið jafnræði í stjórnmálum á Íslandi. Það er rétt eins og stjórnmálunum hafi verið stolið frá almenningi og gerð að leikvelli örfárra einstaklinga. Almenningi er haldið frá stjórnmálum með kerfi sem býður upp á það að örfáir aðilar fara með öll völd í landinu. Svo dæmi sé tekið þá er sjálfstætt ákvörðunarvald ráðherra hér alltof mikið og miklu meira en í nágrannalöndum okkar. Það er mjög erfitt í þessu stjórnkerfi sem við búum við að koma á nokkurri vitiborinni umræðu um sameiginlega hagsmuni. Kerfið eins og það er kallar á fólk sem hefur unun af valdi og þráir að beita völdum, en hefur ekki að sama skapi áhuga á skynsamlegri umræðu.“

Borgaranefndir og lýðræði

Í bókinni setur Páll ekki fram fastmótaðar hugmyndir um hvernig samfélaginu sé best stjórnað, en hann telur mikilvægt að þorri almennings taki beinan eða óbeinan þátt í umræðum um sameiginleg hagsmunamál. „Til þess að vera virkur þátttakandi í stjórnmálum þarf almenningur að hafa aðgang að réttum upplýsingum um það sem hefur gerst og er að gerast í þjóðfélaginu. Hann þarf að geta treyst því að forystumenn þjóðarinnar fari með satt og rétt mál og þeir sæti vandaðri gagnrýni fjölmiðla ef og þegar þeir hugsa fyrst og fremst um að fegra eigin ímynd og afstöðu. Og hann þarf að hafa leiðir til að mótmæla þegar hann er ósáttur við ákvarðanir stjórnvalda og telur þær ekki samræmast almannahag.“ Ég spyr Pál um skoðun hans á beinu lýðræði sem fælist í því að almenningur geti kosið um margvísleg hagsmunamál sín. Páll hefur vissar efasemdir um slíkt fyrirkomulag. „Lýðræði er fyrst og fremst fólgið í því að lýðurinn, almenningur, ræði sín mál og leiði til lykta með aðferðum sem þorri fólks er sáttur við. Kosningar eru ein af slíkum leiðum sem geta hentað við vissar aðstæður. En kosningar einar og sér tryggja ekkert lýðræði, heldur geta þvert á móti gefið lýðskrumurum, sem kæfa alla skynsamlega umræðu, gullið tækifæri til að blekkja almenning. Við slíkar aðstæður er tómt mál að tala um lýðræði.“

Páll telur að borgaranefndir sem fólk veljist í með hlutkesti sé líklega hentugasta leiðin til að framkvæma raunverulegt lýðræði. „Ég sé fyrir mér að við setjum á laggirnar kerfi borgaranefnda þar sem hver nefnd hefði tiltekinn mikilvægan málaflokk til umfjöllunar, svo sem skattamál, heilbrigðismál eða skólamál. Valið yrði í nefndirnar úr þjóðskrá samkvæmt ákveðnum reglum sem myndu tryggja sem mest jafnræði meðal ólíkra þjóðfélagshópa. Nefndirnar hefðu raunveruleg völd til að fjalla um mál og móta stefnu sem Alþingi og sveitarstjórnir yrðu að taka mið af. Þær hefðu trygga stöðu í stjórnkerfinu og yrðu endurnýjaðar reglubundið. Með hverri nefnd störfuðu embættismenn og fólk gæti fylgst með störfum nefndanna. Fámenn þjóð eins og við Íslendingar er í einstaklega góðri aðstöðu til að virkja borgarar landsins með þessum hætti til þátttöku í stjórnmálum. Það yrði mikið verkefni að skipuleggja kerfi slíkra borgaranefnda, ákveða viðfangsefni þeirra, vinnulag og valdsvið. En ég tel að með þessum hætti myndum við smám saman læra að axla pólitíska ábyrgð okkar sem borgarar í hinu íslenska ríki.“

Viðtalið birtist fyrst í DV 7. febrúar 2014 og birtist nú á vefnum Gagnrýnin hugsun og siðfræði með góðfúslegu leyfi DV.

Kynningarefni um heimspeki

Sumarið 2012 vann Kristian Guttesen átaksverkefni fyrir Vinnumálastofnun sem starfsmaður Heimspekistofnunar Háskóla Íslands. Verkefni fól í sér gerð kennslu- og kynningarefnis um heimspeki fyrir elstu bekki grunnskóla. Efnið byggði meðal annars á verkefnum sem hann vann ásamt Ylfu Jóhannesdóttur í Háskóla unga fólksins þá um sumarið. Markmið verkefnisins var að setja saman sjálfstæða kynningarpakka um þætti úr fræðum heimspekinnar. Þannig ætti hver sem er (með lágmarksgrunn í heimspeki) að geta tekið pakkana, farið með þá í skólaheimsókn og nýtt sér til að kynna heimspeki út frá því sjónarhorni (fræðasviði, undirgrein heimspekinnar) sem efni kynningarpakkans tekur til. Meðan á verkefninu stóð hélt Kristian úti Facebook síðu til að fá viðbrögð á hugmyndir, vinnuferlið og kennsluefni jafnóðum og það varð til. Heimspekikennarar voru hvattir til að skoða efnið og senda Kristian ábendingar, sem þeir margir og gerðu.

Skýrslan birtist nú í heild sinni hér á vefnum Gagnrýnin hugsun og siðfræði.


Kristian Guttesen, „Hlutverk heimspekinnar“, átaksverkefni fyrir Vinnumálastofnun 2012.