Kynningarefni um heimspeki

Sumarið 2012 vann Kristian Guttesen átaksverkefni fyrir Vinnumálastofnun sem starfsmaður Heimspekistofnunar Háskóla Íslands. Verkefni fól í sér gerð kennslu- og kynningarefnis um heimspeki fyrir elstu bekki grunnskóla. Efnið byggði meðal annars á verkefnum sem hann vann ásamt Ylfu Jóhannesdóttur í Háskóla unga fólksins þá um sumarið. Markmið verkefnisins var að setja saman sjálfstæða kynningarpakka um þætti úr fræðum heimspekinnar. Þannig ætti hver sem er (með lágmarksgrunn í heimspeki) að geta tekið pakkana, farið með þá í skólaheimsókn og nýtt sér til að kynna heimspeki út frá því sjónarhorni (fræðasviði, undirgrein heimspekinnar) sem efni kynningarpakkans tekur til. Meðan á verkefninu stóð hélt Kristian úti Facebook síðu til að fá viðbrögð á hugmyndir, vinnuferlið og kennsluefni jafnóðum og það varð til. Heimspekikennarar voru hvattir til að skoða efnið og senda Kristian ábendingar, sem þeir margir og gerðu.

Skýrslan birtist nú í heild sinni hér á vefnum Gagnrýnin hugsun og siðfræði.


Kristian Guttesen, „Hlutverk heimspekinnar“, átaksverkefni fyrir Vinnumálastofnun 2012.


Um lifandi og dauða þekkingu: Kenning um heimspekikennslu

Í vorhefti tímaritsins Uppeldi og menntun á þessu ári birtist grein eftir Kristian Guttesen undir heitinu „Um lifandi og dauða þekkingu: Kenning um heimspekikennslu“. Þetta hefti hefur nú verið gert aðgengilegt á Skemmunni og Tímarit.is, og hefur höfundur því brugðið á það ráð að gera greinina aðgengilega á vefsvæðinu Academia.edu.

Nálgast má greinina á heimasíðu Kristians.

Viskuleit með gagnrýnni og skapandi hugsun

Hugtök geta verið óþekk.* Það er vandasamt að fanga þau eða veiða þau í net sitt. Þau eru ekki föst í forminu heldur fljótandi og þegar einhver hefur safnað helstu þáttum þess saman rennur það í burtu, eða drýpur niður milli fingra. Oft eru tilraunir heimspekinga og annarra fræðimanna til að höndla hugtökin að­dáunarverð og þessar tilraunir kenna manni margt. En sum hugtök eru sprikl­andi kát og enginn veit hvernig best er að lýsa þeim. Þau eru sannkölluð fjör­mjólk og fjörefni hugans.

Visku má leita með ýmsum aðferðum vísinda og fræða, sagna og skáldskapar. Það getur verið tölfræði, rökfræði, athugun, könnun. Það getur falist í því að keyra saman margar breytur, það getur falist í djúpri innsýn skáldsögunnar og það getur falist í því að blanda saman aðferðum fræða og skáldskapar.

Erindið snýst um sköpunargáfuna í tengslum við gagnrýna hugsun, aðferð sem hefur það markmið að knýja höfundinn til að brjótast undan hefðbundnum að­ferðum. Markmið aðferðarinnar er að höfundur grafist fyrir um eigin skoðanir eða myndi sér eigin skoðanir. Verkefnið er ekki aðeins að leysa tæknilega vanda­mál sem aðrir hafa búið til. Að vera aðeins skilvirkur og skilyrtur höfundur heldur einnig skapandi höfundur. Ekki aðeins skilvirkir þjónn heldur einnig skapandi frumkvöðull.

I. Skapandi

Allir vita að skáldsaga getur opnað nýja sýn inn í hugarheim og persónuleika fólks og varpað ljósi á fortíð, samtíð og framtíð. Aðferðin er aftur á móti van­metin meðal fræðimanna og kennara sem þrá að skilja brot af jarðlífinu óháð allri túlkun. Skáldskapur er aftur á móti fullgild aðferð til að fjalla um veruleikann og hugtökin hans.

Fræðimenn eru oft logandi hræddir við að stíga skrefið til skáldskapar eða ímyndunaraflsins, telja jafnvel að þeir glati með því virðingu eða að hlegið verði að þeim. Aðferðirnar verði að vera lausar við allan vafa og mælanlegar þótt vafinn sjálfur sé óumflýjanlegur. Af þeim sökum er of oft numið staðar rétt áður en hugurinn fer á flug.

Til er aðferð sem nefnist skapandi fræðiskrif (creative nonfiction) og til er aðferð að sama toga, þar sem höfundur beitir aðferðum skáldskaparins til að öðlast betri innsýni í efnið og til að miðla á mannamáli eins og það er kallað. Grípa til myndrænna líkinga og leitar til nýrra orða í viðleitni sinni til að skilja hugtökin.

Nokkur hugtök fela í sér einhvern leyndardóm og þau neita að láta fanga sig í algildar skilgreiningar. Hversu oft og iðulega sem það er gert, hversu margar bækur sem skrifaðar eru, alltaf sleppa hugtökin undan endanlegum skýringum líkt og fiskar úr nýju neti. Þetta eru hugtök eins og gleði, þakklæti, gjöf, fyrir­gefning, virðing, von og jákvæðni.

Jafnvel þótt lífeðlisfræðingar geti lýst nákvæmlega hvað gerist í taugakerfinu þegar gleðin er á sveimi um mannslíkamann, gefur það ekki rétta mynd af henni heldur aðeins lýsingar á hegðun taugaboða, mælingar án túlkunar. Mælingar og lýsingar veita okkur takmarkaðar upplýsingar, það er ekki fyrr en túlkun á niðurstöðum hefst sem fjör færist í leikinn. Ekki fyrr en sköpunin sprettur upp.

II. Undrun

Heimspekin kennir að það er vel þess virði að rækta undrunina. Þrátt fyrir hin hörðu vísindi og framþróun þá hefur heimspekin aldrei verið numin úr gildi og spurningar hennar óma enn: „Hvað er … ?“ spyr hún eins og barn. Heimspekin byrjar alltaf aftur þótt annað líði undir lok.

Einnig er fullyrt að upphaf heimspekilegrar hugsunar sé sjálf undrunin. Það að undrast skyndilega yfir því eðlilega og sjálfsagða, standa agndofa gagnvart því sem daglega hefur borið fyrir augu okkur, hvort sem það er ský á himni sem hreyfist eða manns eigin fingur. Iðulega felst aðdáun í þessari undrun, aðdáun á hegðun hlutanna og hinum undraverða alheimi. En mannshugurinn vill skilja og leitast við að skilgreina hugtök eða gildi, eins og gleðina.

Gleði og jákvæð hugsun eru fjörefni mannslíkamans sem ekki verður þó lýst með tölum eða tímasetningum. Ég gerði tilraun til að lýsa gleðinni í bókinni Gæfuspor, bls. 98: Spyrjum okkur um leið: Má lýsa gleðinni svona:

„Gleðin er björtust í litrófi mannlegra tilfinninga og getur sprottið fram eins og morgunfugl af hreiðri. Allir þekkja hana en of fáir rækta hana eða leyfa henni að njóta sannmælis. Hún klingir í eyrum og lyftir fólki upp yfir áhyggjur dagsins. Hún er létt á fæti, frísk sem fiskur og kát sem kið.

Gleðin er einstök því hún gerir ekki greinarmun á mönnum eða málefnum, hún geysist fram jafnt í sólskini sem grimmri skúr. Hún er ekki lostafull gyðja eða hetjugoð heldur sem barn sem hlær án þess að nokkur viti ástæðuna. Hún spyr ekki um leyfi til að stíga á svið eða hvað klukkan sé þegar hún sprellar. Listin að gleðjast er afar einföld en þó er sennilega hægt að gleyma henni. Hún felst bæði í því að vera og að gera.“

Þessum setningum er ætlað að varpa ljósi á gleðina. Hér er þó ekki um lífefna­fræði að ræða, ekki heimspeki eða sálfræði né vísað í neinar heimilir. Skapandi fræðiskrif og kennsla felst í því að rífa sig úr spennutreyjum og sauma aðrar flíkur sem falla betur að hópnum.

III. Viðhorf

Viðhorf höfundar gagnvart hugtökum eða gildum er höfuðatriði í skapandi kennslu. Markmiðið þar ekki að gera fullgilda kenningu um hvert hugtak sem hægt er að sanna eða afsanna eins og oftast er fullyrt. Það er gert í öðrum bókum. Hvötin sem drífur höfundinn áfram er þá ekki endanlegur skilningur eða það að fanga fyrirbærin í (stað)föstum skilgreiningum, heldur löngunin að þoka umræðunni áfram og styrkja sjálfan sig gagnvart hvers konar áróðri og vafasömum fullyrðingum um heiminn.

Það er undrunin sem knýr höfundinn áfram veginn. Markmiðið er að stíga inn í hugtakið, öðlast innsýn, veita öðrum innsýn og efast auðvitað. Hugtökin eru þá leyndardómar því reynslan hefur kennt að það sem er, iðulega að breytast í eitthvað annað.

IV. Þjóðgildin

Ég skrifaði bókina Þjóðgildin (Skálholtsútgáfan 2010) um grunngildin sem Ís­lendingar völdu sér á Þjóðfundinum 2009: heiðarleiki, réttlæti, lýðræði, jöfnuður, frelsi, ábyrgð, traust, jafnrétti, sjálfbærni, fjölskyldan, kærleikur og virðing. Kjörið var að beita aðferðum skapandi fræðiskrifa til að glíma við hugtökin og miðla þeim til almennings.

Sérstök aðferð var notuð til að lokka fram þau gildi sem 1300 fundargestir völdu 14. nóvember 2009. Hún var óþvinguð og fólst í því að draga fram það sem bjó í brjósti hvers og eins. Þekktasta útgáfa slíkrar aðferðar er kennd við Sókrates og felst í því að laða fram visku annarra með því að spyrja þá réttu spurninganna. Tilgátan er sú að svarið búi innra með hverjum og einum.

Ef til vill má orða þetta á annan hátt: Spurningin stígur innfyrir manninn, hún fer um hann og umbreytist í svarið. Verkefnið í skapandi kennslu er að knýja les­andann til að takast á við spurninguna, leita ekki aðeins svara hjá öðrum heldur einnig sjálfum sér. Markmiðið er að lesandinn móti svarið í stað þess að meðtaka það hrátt. Efist og endurskapi.

Verkefnið fólst í því að finna gefandi sjónarhorn, tefla saman hugtökum, nefna hindranir og mælikvarða og einnig tengja aðra þætti en venjulega er gert við hugtökin og að fjalla til að mynda um samband frelsis og hroka og lýðræðis og tíma. Möguleikarnir eru óþrjótandi. Galdurinn felst í því að skapa setningar sem varpa óvæntu ljósi á einhverja þætti í lífinu. Ef það heppnast verður verkefnið einhvers virði.

V. Viska

Manneskjan leitar visku. Hún hefur of oft ratað í breiðgötur fáviskunnar og þarf því skarpan hug á þröngum veginum. Skynsemin er skilningsljós en hún hefur oft verið ofmetin. Svarið felst í því að meta áhrif margra mannlegra þátta á sama tíma: tilfinninga, skynsemi og viðhorfa, persónuleika og sögu í tengslum við að­stæður.

Höfundur getur notað ýmsar aðferðir til að varpa ljósi á það sem hann vill fjalla um, það getur verið undir merkjum lífeðlisfræði, það getur verið heimspeki, sál­fræði, sagnfræði, það getur verið aðferð skáldsögunnar og það getur verið undir merkjum skapandi fræðiskrifa. Allt eftir því hvað hvert viðfangsefnið og mark­miðið er.

VI. Gagnrýnin hugsun vs. skapandi hugsun

Hvað gerir gagnrýnin hugsun? Hún efast, hún greinir, hún spyr um margar hliðar. Hún trúir engu. Markmiðið er ekki að sannfæra. Hún er tæki til að leita visku. Hún spyr hvers vegna?

Hver maður þarf að æfa með sér gagnrýna hugsun: sú hugsun felst í því að mynda sér ekki skoðun nema eftir rannsókn á gögnum, efasemdir og prófanir. Sú hugsun mótar sér reglur gagnvart viðfangsefnum. Spurningin hvers vegna?
Knýr svara:

Má greina einhverja rökfærslu? Er einhver greining eða aðeins fullyrðingar? Eru helstu hugtökin skýr og skiljanleg? Er ályktun glannaleg? Er fleiri ein ein hlið málsins rakin? Má greina fordóma gagnvart hópum?

Andstæða gagnrýnnar hugsunar er þrjóska, fordómar, trúgirni, hleypidómar … Gagnrýnin hugsun hlustar, greinir, hún vegur og metur, hún efast, hún rífur niður en hún byggir upp aftur. Hún hugsar málið.

Hvað gerir skapandi hugsun? Hún leitar einnig visku. Hún undrast, hún efast um klisjur og leitar á öðrum slóðum en algengt er, hún tengir saman það sem virðist ekki eiga saman. Hún gerir tilraunir en endurtekur þær aldrei eins og fær því sjaldan sömu niðurstöðu. Hún gerir það sem ekki má.

Tökum dæmi um hugtakið heimska. Hvað er heimska. Við getum svarað þessari spurningu út frá ótal fræðigreinum og gert mælingar á greind með sér­tækum greindarprófum. En við getum einnig notað aðferð skapandi hugsunar til að svara. Hér er heimskan látin tala sjálf og flytja sína málsvörn. Hlustandi eða lesandi getur ekki skilið svarið við spurningunni Hvað er heimska nema með því að leggja á sig smá greiningu og með því að sjá í gegnum málsvörnina.

Hún segir: Ég hef farið um víðan völl og þekki marga merka menn. Ég sé, heyri og skil. Ég hef lesið margar bækur og fylgist vel með fréttum.

Í málsvörn hennar hefur hún að sumu leyti rétt fyrir sér:

Margt hef ég lært á minni löngu ævi, meðal annars að það sem oft er sagt er satt og rétt. Sumir sem kalla sig spekinga gagnrýna þetta sjónarmið, og vara fólk við að trúa því sem oftlega heyrist. En raunin er sú að það eru áhrifin sem valda straumhvörfum í mannkynssögunni. Síbyljan ræður ríkjum, reynum ekki að telja okkur trú um að hulinn sannleikur sem enginn heyrir eða skilur hafi áhrif.

Má ég benda ykkur á eina mótsögn. Oft er sagt að fyrsta hugboð sé rétt, og sýnt hefur verið fram á með góðum rökstuðningi innan sálfræðinnar að mismæli sem hrökkvi eins og óvart út úr munni fólks sé einmitt það sem fólkið vildi innst inni sagt hafa. En svo er hinsvegar sagt að sá sem kasti fyrsta steininum hafi rangt fyrir sér. Ég spyr hvers vegna trúir fólk þessum síðarnefndu orðum þegar öll mannkynssagan vitnar öfugt?

Speki heimskunnar: Það eina sem ég veit er það, að ég veit eiginlega allt.

VII. Skapandi hugsun veldur usla eða blíðu

Hún setur í nýtt samhengi, tekur úr samhengi, endurraðar. Eða hún beitir ljóðrænu til að varpa ljósi á rótgróin hugtök. Á þann hátt er markmiðið ekki að ögra heldur að nota önnur orð en oftast er gert í leitinni að visku.

Tökum dæmi um hugtakið Huggun:

Og huggunin kemur með ástinni eins og lækjarsytra í leysingum og gleðin seytlar á nýjan leik. Hjálpin barst og við náðum fótfestu.

En hvað var það, og hvernig var huggunin getin, eftir að sorgin hafði sveipað okkur svörtu myrkri og lokað inni í holi sínu? Hvað var það sem svipti hina miklu sorg völdum?

Það var vonin sem lá við akkeri í hjartanu,

trúin sem kom frá útréttum höndum

og kærleikurinn sem breiddi út vængina eins og fugl að veita ungum sínum skjól.

VIII.

Forsendan, það sem ég gef mér í þessu erindi er hið gamla kjörorð heimspekinnar: Leitin að visku, leitin að svari. Enginn býst lengur við sann­leikanum eða svari og flestir eru sammála um að verkefnið að orða spurninguna er nægilega gefandi og einnig er orðið viðtekið að tala um að leitin sjálf sé meira virði en áfangastaðurinn. Ef til vill er sú fullyrðing orðin klisja sem við þurfum að brjóta upp.

Skapandi hugsun, skapandi aðferð, skapandi kennsla nálgast hugtökin líkt og þau séu lifandi, fljótandi, breytileg. Nálgunin er frjó.

Þær haldast í hendur gagnrýnin hugsun og skapandi. Gagnrýnin hugsun efast, rífur niður, þurrkar út, greinir, mátar, telur, flokkar það sem er. Skapandi hugsun bætir við, byggir upp, endurraðar. Sá sem tileinkar sér báðar býr yfir gagnrýnni skapandi hugsun.

IX. Vísindi og listir

Einn er vísindamaður, vísindakona, annar, önnur listakona. Tilgátan er að bæði leiti visku með ólíkum aðferðum. Önnur aðferðin er viðurkennd og umhverfis hana eru fjölmargar stofnanir og vald yfir heimsmynd okkar.

Skapandi hugsun hefur einnig sínar stofnanir, háskóla og listasöfn. En hún er meira á jaðrinum, því aðferð hennar er önnur.

Gunnar Hersveinn er heimspekingur og rithöfundur.

Eftirmálsgrein

* Þessi texti er settur saman eftir að hafa fjallað um efnið á tveimur ráðstefnum, annars vegar: Gagnrýnin hugsun í skólastarfi (Ráðstefna á vegum Heimspekistofnunar, Rannsóknarstofu um háskóla, Siðfræðistofnununar Háskóla Íslands og Félags heimspekikennara, 1. október 2011) og hins vegar Hugarflug sem Listaháskóli Íslands hélt 4. maí 2012.

Farðu vel með þig

Erindi á málstofu Rannsóknarstofu um Háskóla, Heimspeki­stofnunar, Siðfræðistofnunar og Félags heimspekikennara um gagnrýna hugsun og siðfræði, laugardaginn 1. október í HÍ

Samhengi landamæraleysis, sjálfsþekkingar, skapandi og gagnrýninnar hugsunar.

Þegar unnusti frönsku listakonunnar Sophie Calle sagði henni upp í email, kom uppsögnin henni mjög í opna skjöldu. Til þess að vinna sig út úr sambands­slitunum, rýna til gagns í það sem hafði gerst og staðsetja sig á nýjan leik í veröldinni, bað hún 107 konur að greina á yfirvegaðan hátt uppsagnarbréfið sem endaði á orðunum Take Care of Yourself. Verkið var svo frumsýnt á Feneyjar­tvíæringnum árið 2007. Nokkurn veginn svona lýsir Sophie verkinu:

Ég fékk email um að því væri lokið.
Ég vissi ekki hvernig ég ætti að svara.
Það var næstum því eins og bréfið væri ekki ætlað mér.
Það endaði á orðunum „farðu vel með þig.“
Og það gerði ég.
Ég bað 107 konur (þ.m.t. tvær úr við og eina úr fjöðrum), valdar
útfrá sérgrein þeirra eða getu, til þess að túlka bréfið fyrir mig.
Til þess að greina það, koma með athugasemdir um það, dansa það,
syngja það.
Kryfja það. Þurrausa það. Skilja það fyrir mig.
Svara fyrir mig.
Þetta var aðferð til að slíta sambandinu í því tímarúmi sem ég
þurfti.
Leið til þess að fara vel með mig.

Efnistökin í verkinu eru stórskemmtileg, þar greina verkið sálfræðingur, fjöl­skylduráðgjafi, textagreinir, teiknimyndahönnuður, blaðamaður, dómari, kynlífs­fræðingur, lögfræðingur, unglingur, páfagaukur, ballettdansari, leikari, alþjóð­legur sáttamiðlari, leynilögreglukona, miðill, mannfræðingur, kvenréttinda­lögfræðingur, óperusöngkona, þýðandi, móðir, hönnuður, tónskáld, rappari, töfrakona og skífuþeytari. Útkoman er bréfið greint í ýmsum formum og ritað í nýju letri, vídeóverk, viðtöl, sviðslistaverk og svo framvegis.

Fremst í bókverkinu er að finna bréfið sjálft. Hægt og rólega hverfur það hins vegar í verkinu í túlkunum og afbyggingu 107 kvennanna. Það má segja að bréfið sé túlkað til dauða. Greint í minnstu smáatriði frá 107 sjónarhornum og þannig má segja að sjónarhornin taki yfir og bréfið hverfi. Slík gæti verið niður­staðan útfrá póst-módernísku sjónarhorni eða gagnrýni á þá nálgun í verkinu.

En svo er þó ekki, því á sama tíma og inntak bréfsins leysist upp og Sophie kemst yfir missinn, þá hverfur reynslan ekki. Bréfið er ennþá til. Þetta gerðist allt saman. Staðreyndin er og verður alltaf til staðar, henni bárust þessi tíðindi og hún þurfti að gera upp við sig hvernig hún tæki þeim, ynni úr þeim og héldi áfram að vera til. Hún fór í gegnum mikilvægar umbreytingar og þroska í úr­vinnslunni og mótaði sér afstöðu til bréfsins. Umbreytingaráhrifin höfðu einhver áhrif á allar sem túlkuðu bréfið og væntanlega unnendur verksins líka. Í því er falið örlæti listarinnar og áhrifamáttur þess að vinna heildrænt með hjartað utan á sér, ef svo má að orði komast.

Ein túlkun?

Hún hefði getað hlustað á eitt sjónarhorn, eina greiningu. Til dæmis réttarsál­fræðinginn Michele Agrapart sem rýnir þannig í bréfið að hér sé um kænsku­fullan flagara að ræða sem er stjórnsamur í samskiptum sínum við aðra. Hann er yfirtaks laginn með orð, hefur einstakt lag á því að koma sér undan ábyrgð og setja sig í hlutverk fórnarlambsins. Þannig varpar hann frá sér öllum ásökunum og manneskjan sem hann er að tala við fyllist sektarkennd.

Hvaða gagn er í þessari greiningu einni og sér?

Calle hefði alveg eins getað heyrt einungis sjónarhorn textagreinandans sem sagði, þetta er magnað, í bréfinu kemur orðið „ég“ fyrir 32 sinnum en „þú“ aðeins 8 sinnum. Nú veit hún svart á hvítu að hann er mjög sjálfhverfur en hversu vel sett er hún með þær upplýsingar? Þær geta nært andúð hennar gagnvart honum, skipti út reiði fyrir ást? En þarna er enginn vöxtur, þroski, yfirveguð rýni til gagns.

Þegar ballettdansarinn túlkar bréfið hefur líkaminn tekið við og að sama skapi finnum við díalóg í eigin líkama sem miðlar til okkar upplýsingum í formi til­finninga og skynjunar en ekki orða.

Hver og ein tjáning er mjög mikilvæg, en gefur einsleita túlkun. En saman komast þær alla vega í átt að 360 gráða sjónarhorni. Raunsæismaðurinn myndi líklega segja, hvað er málið með þessar greiningar og vífillengjur? Gaurinn er bara að segja (i) ég er að hitta aðrar konur. (ii) sambandið er búið á milli okkar! En lífið er bara ekki svo einfalt, af því við erum ekki maskínur, við erum einstak­lingar, persónur, sálir, tilfinningaverur og hluti af stærra samhengi.

Sjónarhornið ljósbrot

Sophie Calle bjó sér til vettvang þar sem hún varpaði reynslunni í gegnum ljósbrot sem braut atburðinn upp í 107 sjónarhorn. 107 liti. Hvert og eitt þeirra melti hún, setti fram, lagði mat á og mátaði við sjálfa sig. Á endanum gat hún staðsett sig, sitjandi vel í sjálfri sér, í því sem gerst hafði. Hún gat unnið úr reynslunni. Vaxið í gegnum hana. Náð ákveðinni fjarlægð á upplýsingarnar til þess að forðast að flækjast í eigin hugarvíl við úrvinnsluna.

Hún forðaði sér frá því að sjá viðburðinn einungis með eigin eða einsleitum gleraugum. Prisma, þverfaglegt diplómanám Listaháskóla Íslands og Háskólans á Bifröst í samvinnu við ReykjavíkurAkademíuna, byggðist að stórum hluta á viðlíka nálgun er kemur að áherslu á gagnrýna hugsun í aðferðarfræði námsins. Þar eru viðfangsefni tekin fyrir og þeim beint í gegnum ljósbrot ólíkra sérgreina og verkfæra innan þeirra. Þannig verða til mörg ólík sjónarhorn á greiningu sama viðfangsefnis og vísbendingar fyrir næstu skref. Á sama tíma spennist út ákveðið samhengi á milli þessara ólíku sjónarhorna, sem og annarra viðfangs­efna sem spretta upp við slíka könnun. Hlutir sem við fyrstu sýn virtust ekki eiga neitt sameiginlegt.

Í Prisma áttuðu nemendur sig á því hvernig sérfræðingar úr ólíkum geirum beita ólíkum verkfærum á sama viðfangsefnið. Hvernig sérfræðingarnir eða fyrirlesarar nálgast efnistök og beita aðferðum og innsæi á sinn persónulega hátt. Þau áttuðu sig á hvernig ólíka sérgreinar eiga sér ólík sjónarhorn. Úr verða fjöl­breyttar tegundir gleraugna. Sum eru ferköntuð, önnur rauð og hringlaga og ein­staka fyrirlesari gengur með litla sem enga umgjörð.

Ef vel gengur, tekst í þessu ferli að skapa ákveðið landarmæraleysi hugans. Að brjóta niður andlega og líkamlega múra á milli sjónarhorna og afhjúpa þá stað­reynd að verkfæri sérgreina eru tæki til athafna, ekki markmið í sjálfum sér. Þau hafa það hlutverk að bera viðfangsefnið heiminum í gegnum ákveðin skapa­lón. Ekkert eitt skapalón er réttara en annað. Til þess að afhjúpa viðfangsefnið á sem hreinastan og dýnamískan hátt, á sem umburðalyndastan hátt, þarf nemandinn að gera slíkt hið sama gagnvart sjálfum sér. Í hringiðunni miðri er nemandinn því stöðugt að skerpa eigin innri áttavita með markvissri aðferðar­fræði, læra að skynja og lesa eigið innsæi og reyna á mátt þess og nákvæmni með verkfærum fræðanna, aðferðarfræði listarinnar, samræðna og eigin hug­renninga.

Að skoða fyrirbæri eins og rasisma útfrá andstæðum gleraugum þjóðhverfu annars vegar og menningarlegrar afstæðishyggju hins vegar er gagnlegt. Að bæta við greiningu Richards Kearneys á heimspeki og sálgreiningarkenningum um það hvernig við höfum í gegnum söguna haft tilhneigingu til að nálgast „hina“, eða „hina ókunnugu“ án þess að horfast í augu við okkar dekkstu hliðar og þekkja sjálf okkur „allan hringinn“. Slík vangeta og vanþekking hefur haft mjög vondar afleiðingar í sögu mannsins.

Umburðarlyndi og sjálfsþekking

Að takast á við okkar dekkstu hliðar, að kynnast sjálfum okkur betur í gegnum nám og fá svigrúm til þess að vinna úr þessari viðkynningu á sjálfum okkur í hverskyns námi, skapar ákveðinn jarðveg fyrir gagnrýna, skapandi og siðferði­lega hugsun. Námið gengst því þannig ekki aðeins markvisst við ytri þekkingar­heim, heldur líka okkar innri veröld. Þeim verðmætum sem fólgin eru í innsæi, meðvitund, reynslu og skynjun hvers og eins.

Þá er undirliggjandi markmið umburðalyndi, yfirveguð rýni sem hefur burði til þess að stuðla að mannúðlegri nálgun. Siðferðilegri nálgun. Í þeim fjöl­menningarlega og hnattræna heimi sem við búum í í dag, í ljósi örra breytinga og tækniþróunar, er lykilatriði að menntun stuðli að auknum skilningi (ástríða + þekking), samlíðan og umburðalyndi. Á þessum gildum ætti siðferðið að byggjast.

Það landamæraleysi sem felst í því að tengja saman „glóbal og lókal“ í menntun, að tengja umheiminn við eigið samfélag og við eigið innra sjálf þvert á sérgreinar hefur líka burði til þess að hrista upp í því hvernig við skilgreinum hvað er rétt og hvað er rangt.

Í stóra samhenginu má hugsa til okkar helstu hugsuða í hugmyndasögu Vesturlanda sem langflestir voru karlmenn sem margir töldu lítið til kvenna koma af slepptu fjölgun mannkyns og heimilishaldi. Sumir þessara karlmanna fjölluðu um siðferði og byggðu kenningar sínar beint eða óbeint á áhrifaríkan hátt upp á slíkri grundvallartrú að karlar væru æðri konum, sem enn hefur mikil áhrif á hugsun og hegðun í heiminum. Svo ég segi það skýrar: sem enn er algengt sjónarmið um allan heim.

Að því leytinu til er verk Sophie Calle hápólitískt. Hún fær í lið með sér breið­fylkingu kvenna til þess að afbyggja uppsagnarbréf skrifað af karlmanni sem miðlar uppsögn sinni á þann hátt að hún á að engjast um af sektarkennd, helst brotna niður vegna þeirra hafta sem hún hafði sett honum í sambandinu. Sophie Calle vex í gegnum verkið á meðan hann verður undir, gufar upp eða treðst undir 107 háum hælum. Það eru sjónarmið kvenna sem byggja upp verkið. Það er vissulega einrænt sjónarhorn og sexískt, en þannig er hugmyndararfur okkar líka.

Hugtökin rétt og rangt eru að sumu leyti afstæð og geta nært dómhörku eins hóps gagnvart öðrum, sérstaklega þegar einsleitur hópur stendur fyrir siðferðis­boðskap. Ef sjónarhornin byggjast ekki annars vegar á fjölbreytni og hins vegar á sjálfsþekkingu er hætta á að athugunin einkennist á dómhörku, þjóð- eða sjálfhverfu og liggi utan á þeim sem skoðar. Hún verður tæknileg og hefur ekki burði til þess að ná utan um breidd mannlegra viðfangsefna.

Sjálfsþekking og landamæraleysi styrkja hvort annað í viðleitni til að beita skapandi, gagnrýninni og siðferðilegri hugsun á veröldina. Hnattrænn raunveru­leiki fjallar að sumu leyti um hverfulleika þess öryggisnets sem við teljum okkur búa við. Hverfulleikinn kallar á ótta og öryggisleysi þegar miklar breytingar verða og ótti og öryggisleysi hafa burði til þess að kalla fram það versta í mann­fólkinu.

Það að rýna til gagns er uppbyggileg nálgun að veröldinni. Hún er uppbyggileg þegar hún tekur mið af mennskunni. Hún er það ekki þegar hún er einvörðungu tæknileg. Hún er uppbyggileg þegar rýnin gengst við breyskleika mannsins, daglegs lífs og óútreiknanlegum viðbrögðum fólks. Rýnin þarf ennfremur að dvelja í innri áttavita hvers og eins sem skoðar.

Óbeint hef ég allan tímann þrætt skapandi hugsun inn í það sem á undan er sagt. Ef hugsun á að vera skapandi, þ.e.a.s. dýnamísk, búa til nýjar tengingar, draga fram það sem ekki hefur verið dregið fram áður þarf að ríkja ákveðið landamæraleysi í huganum. Yfirtaks flokkun, greining, krafan um áþreifanleika kæfir listræna ástríðu. Möguleikann á því að eitthvað óvænt geti átt sér stað og lokar á grunnþátt skapandi hugsunar, sem er hið óþekkta.

Að halda út í hið óþekkta er fyrsta skrefið í átt að skapandi hugsun, uppgötvun. Þar sem skapandi hugsunin, kreatívóið, reiðir sig á það sem greinir einstakling frá öðrum, það hvernig við sjáum hlutina ekki eins, getur það farið hönd í hönd við að þekkja sjálfan sig. Skapandi einstaklingur þarf að geta staðið með sjálfum sér til þess að halda út í hið óþekkta með tilfinningar sínar fyrir óorðnum hlutum og óreyndum sannfæringum.

Andleg og líkamleg landamæri, múrar á milli sérgreina og ofuráhersla á greiningu hindrar flæði, skerðir ímyndunaraflið og möguleika til athafna. Gagn­rýnin hugsun verður líka sterkust og hefur möguleika á að fara gegn hjarð­hegðun þegar innri áttaviti er sterkur og jafnframt opinn.

Lokaorð:

Þá er mikilvægt að hver og einn þekki sjálfan sig, sé vakandi og meðvitaður um eigin fordóma, hættu á því að hann eða hún hafi sett upp varnir, múra eða fyrir­fram gefna dóma um þetta eða hitt. Í námi og lífi er mikilvægt að setja viðfangs­efni í gegnum ljósbrot ólíkra sjónarhorna. Ólíkra sérgreina svo við komumst að kjarna málsins. Litróf tilfinninga, reynslu, innsæis, dagsformsins svo við komumst að kjarna málsins. Umbúðarlausum kjarnanum eftir fremsta megni. Þetta þurfum við að efla getu okkar til að gera í námi, starfi og lífi.

Það að rýna til gagns á þennan hátt felur ekki í sér niðurrif heldur afbyggingu til þess að sjá skýrar og skilja betur. Hér erum við að skræla viðfangsefnið á sama tíma og við skoðum gagnrýnið inn á við, inn í okkur sjálf og reynum að hlusta á hvað sálin hefur að segja. Þannig blasir viðfangsefnið sem tærast við þeim sem skoðar.

Heimspeki í skólastarfi

Að kenna gagnrýna og skapandi hugsun í samræðu

Besta leiðin til að þjálfa kennara í að beita heimspekilegri samræðu til að kenna gagnrýna og skapandi hugsun er að veita þeim þjálfun í slíkri samræðu og reynslu af námsefni sem nýtist til slíkrar kennslu.

Á námskeiðinu munu kennarar vinna sig í gegnum valda kafla úr námsefni eftir Matthew Lipman sem var þýtt og gefið út af Heimspekiskólanum. Einnig verður unnið með námsefni sem Námsgagnastofnun hefur gefið út fyrir lífsleikni­kennslu. Þátttakendur taka þátt í umræðum um markmið námsefnisins og kennslu þess.

Á námskeiðinu byggja kennarar upp færni í að kenna grunnskólanemendum að vinna í heimspekilegu samræðufélagi, beina þeim inn í rannsókn á heimspeki­legum spurningum og bjóða þeim upp á markvissar æfingar í gagnrýninni og skapandi hugsun. Lögð verður áhersla á að þátttakendur í námskeiðinu tileinki sér einfalda grunnaðferð (lesa-spyrja-ræða-meta) sem hægt er að beita til að skapa heimspekilega samræðu út frá ýmiss konar námsefni.

Kennararnir fá tækifæri til að æfa sig bæði sem nemendur og kennarar með því að taka þátt í fjölmörgum samræðum og stjórna að minnsta kosti einni sam­ræðu sjálfir. Eftir hverja samræðu verður tekinn tími í að gagnrýna framkvæmd samræðunnar á uppbyggilegan hátt. Ætlast verður til að kennarar endurtaki þau verkefni sem lögð eru fyrir á umræðufundum í eigin kennslu. Þátttakendum á námskeiðinu gefst kostur á eftirfylgd og ráðgjöf kennara ef þeir óska eftir þegar þeir taka aðferðina inn í kennslu hjá sér.

Hvenær:
Námskeið: laugardaginn 22. september 2012 frá 9:00 – 17:00
Umræðufundir: á miðvikudögum kl. 16:00 – 17:30 – einu sinni í mánuði allt skólaárið.
Dagsetningar: 22. sept., 26. sept., 17. okt., 14. nóv., 16. jan., 6. feb., 6. mars, 10. apríl.

Markmið námskeiðsins:
Að þátttakendur byggi upp færni í að stjórna heimspekilegri samræðu sem þjálfar gagnrýna og skapandi hugsun nemenda og lýðræðislega færni þeirra.

Tengsl við þarfir grunnskólans og aðalnámskrá grunnskóla:
Aðalnámskrá grunnskóla 2011 kveður á um að í skólum sé börnum og unglingum kennt að taka þátt í lýðræðislegum vinnubrögðum, að þeir efli sjálfs­mynd sína og félagsþroska og að þeir beiti gagnrýninni og skapandi hugsun í námi sínu. Heimspekileg samræða er kennsluaðferð sem skapar aðstæður þar sem hægt er að þjálfa nemendur markvisst í þessum námsþáttum.

Kennarar

Brynhildur Sigurðardóttir Brynhildur Sigurðardóttir

Brynhildur Sigurðardóttir er heimspekikennari og aðstoðarskólastjóri við Garðaskóla í Garðabæ. Brynhildur lauk M.Ed. gráðu frá Montclair State University 1999 og sérhæfði sig þar í heimspeki með börnum. Hún hefur kennt heimspeki sem valgrein í Garðaskóla síðan 2002 og kennt fjölda heimspekinámskeiða fyrir börn og kennara. Brynhildur hefur haft umsjón með námskeiðinu Heimspeki með börnum sem kennt er í framhaldsdeildum á Menntavísindasviði Háskóla Íslands.

Hreinn Pálsson Hreinn Pálsson

Hreinn Pálsson er prófstjóri Háskóla Íslands, stofnandi og skólastjóri Heimspekiskólans í Reykjavík. Hreinn lauk doktorsgráðu frá Michigan State University 1987, rannsókn hans ber heitið „Educational Saga: Doing Philosophy with Children in Iceland“ og gerir grein fyrir tilraun tveggja íslenskra kennara til að innleiða heimspekilegt samræðufélag í bekknum sínum. Hreinn hefur kennt fjölda kennaranámskeiða um heimspeki fyrir börn auk ýmissa heimspekinámskeiða fyrir fólk á öllum aldri.

Sjá:
http://klifid.is/index.php?option=com_zoo&task=item&item_id=113&category_id=3&Itemid=159