Fyrirlestur Mikaels Karlssonar 1. mars: Siðasúpan

Siðasúpan: skilaboð til þeirra sem sitja í súpunni

Fyrirlestur Mikaels M. Karlssonar, prófessors, á vegum Siðfræði­stofnunar og Heimspekistofnunar föstudaginn 1. mars 2013 kl. 15 í Lögbergi 103

Mikael KarlssonSiðfræði er greinandi heimspekileg umfjöllun um siðferði. En hvað er siðferði? Um það er engin ein við­tekin skoðun heldur ýmsar ólíkar skoðanir, margar þeirra vanhugsaðar eða byggðar á misskilningi að því er virðist. Einnig eru nokkrar ólíkar siðfræðikenningar eða tegundir kenninga sem greina og lýsa siðferði—rótum og kröfum þess—með ólíkum hætti. Hér eru oft nefndar til sögunnar kenningar um dygðir í anda Aristótelesar, leikslokakenningar í anda Epikúrosar, Johns Stuarts Mill og fleiri, skyldukenningar í anda Kants, tilvistar­kenningar í anda Kierkegaards, Sartres og annarra, og samræðukenningar í anda Habermas og fleiri. Hvernig passa allar þessar kenningar saman? Eru sumar þeirra vitlausar og aðrar réttar? Eru einhverjar þeirra smættanlegar í aðra? Fjalla þær allar um sama efnið? Eða er „siðferði“ margrætt hugtak þannig að hver kenning um sig fjallar um siðferði í einum skilningi en ekki um siðferði í öðrum skilningi? Hvaða tök hafa kröfur siðferðisins á okkur og hvers vegna eru þær svona mikilvægar? Eða eru þær í raun mikilvægar? Er siðferðileg rök­hugsun samleiðandi (e. convergent) eða margleiðandi (e. non-convergent)? Er yfirleitt hægt að fjalla almennt um siðferði? Eða er siðferði einhverskonar súpa sem siðfræðikokkurinn reiðir fram hverju sinni í ljósi þess sem er til í búrinu? Lesturinn er hugvekja um mikilvægi þess að hugsa um eðli—eða eðlisleysi—siðferðisins og um leið um tilgang siðfræðinnar.

Siðfræði og gagnrýnin hugsun

Laugardagur 10. mars kl. 13-16.30
Stofa 220 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands

Rannsóknastofa um háskóla, Heimspekistofnun og Siðfræðistofnun hafa í tæpt ár staðið saman að rannsókna- og námsþróunarverkefni um að efla kennslu í gagnrýninni hugsun og siðfræði í skólum. Verkefnið hefur meðal annars haldið málþing, komið á fót vefsíðu og veitt ráðgjöf og forystu við ritun kafla um sam­félagsgreinar í nýrri Aðalnámskrá fyrir grunnskóla. Í þessari málstofu sem skipulögð er í anda verkefnisins ræða sex heimspekingar tengsl siðfræði og gagnrýninnar hugsunar frá margvíslegum sjónarhornum til þess að skýra og greina hvort markmið gagnrýninnar hugsunar sé í senn menntunarlegt, þekkingarfræðilegt og siðfræðilegt markmið. Einnig verður leitast við draga fram mismunandi sjónarhorn á gagnrýna hugsun með það fyrir augum að draga fram raunverulegt hlutverk stofnana, fjölmiðla og menntakerfis þegar kemur að þeim gildum sem mestu skipta fyrir einstaklinga, samfélag og umhverfi.

Fyrirlesarar:

  • Henry Alexander Henrysson, verkefnisstjóri hjá Heimspekistofnun: Hvað felst í því að vera maður? Tilraun um húmanísk fög
  • Páll Skúlason, prófessor í heimspeki: Hverjar eru siðferðilegar forsendur háskóla?
  • Björn Þorsteinsson, nýdoktor við Heimspekistofnun: Andi neikvæðn­innar. Gagnrýnin hugsun í ljósi heimspeki Hegels
  • Eyja Margrét Brynjarsdóttir, nýdoktor við Heimspekistofnun
    Að gagnrýna gagnrýna hugsun
  • Róbert H. Haraldsson, prófessor í heimspeki: Gagnrýnin hugsun og fjöl­miðlar
  • Salvör Nordal, forstöðumaður Siðfræðistofnunar: Sérfræðingar og gagn­rýnin umræða

Málstofustjóri: Jón Ásgeir Kalmansson, doktorsnemi í heimspeki

Útdrættir:

Henry Alexander Henrysson, verkefnisstjóri hjá Heimspekistofnun HÍ
Hvað felst í því að vera maður? Tilraun um húmanísk fög

Fyrir nokkrum misserum síðan rataði umræða inn á síður dagblaða um stöðu hugvísinda og hlutverk gagnrýninnar hugsunar í mismunandi fræðigreinum há­skóla. Menntamálaráðherra hafði tengt þessa gerð hugsunar við heimspeki, listir og „húmanísk“ fög og hópur fræðimanna í raungreinum svarað og minnt á mikilvægi „rökhugsunar raunvísinda“ þegar kemur að því að mynda sér sjálf­stæða og gagnrýna afstöðu. Í erindinu verður gerð tilraun til þess að skýra stöðu gagnrýninnar hugsunar innan hugvísinda. Einnig verður leitast við að draga fram nokkur atriði varðandi tengsl gagnrýninnar hugsunar og siðfræði með það fyrir augum að varpa ljósi á eðli þessara greina. Markmiðið er að svara því hvers konar skilningur sé nauðsynlegur til þess að svara spurningum um hvað felst í því að vera maður.

Páll Skúlason, prófessor í heimspeki
Hverjar eru siðferðilegar forsendur háskóla?

Í erindinu verða skýrð samfélagsleg hlutverk háskóla og fjallað um frumreglur þeirra frá miðöldum til nútíma í ljósi Magna Charta yfirlýsingu evrópskra háskóla árið 1988 í Bologna.

Björn Þorsteinsson, nýdoktor við Heimspekistofnun
Andi neikvæðninnar. Gagnrýnin hugsun í ljósi heimspeki Hegels

Ótvírætt má skilja heimspeki Hegels sem tilraun til að kerfisbinda bókstaflega allt í veruleikanum. Einn þátturinn í kerfinu er engu að síður þess eðlis að hann sættir sig aldrei við það sem við blasir eða hið viðtekna. Þannig er kerfið í senn komið til sögunnar og enn í vændum. Í erindinu verður tekist á við þá þversögn sem í þessu býr og dregnar hliðstæður við þá þrotlausu leit að haldbetri skoðunum og sannindum sem íslenskir heimspekingar hafa kennt við gagnrýna hugsun.

Eyja Margrét Brynjarsdóttir, nýdoktor við Heimspekistofnun
Að gagnrýna gagnrýna hugsun

Á undanförnum árum hefur gjarnan verið talað um mikilvægi þess að sem flestir leggi stund á gagnrýna hugsun og ekki síður að gagnrýnin hugsun sé kennd á hinum ýmsu stigum skólakerfisins. En liggur þá fyrir hvað það er sem er átt við með gagnrýnni hugsun? Snýst færni í gagnrýninni hugsun bara um að kunna grundvallaratriði í rökfræði og þekkja helstu rökvillurnar? Er hægt að nota eitthvað sem kallað er gagnrýnin hugsun til að þagga niður sjónarmið sem fela í sér mikilvæga gagnrýni, og ef svo er, getur það réttilega kallast gagnrýnin hugsun? Eru einhverjir þjóðfélagshópar sem upplifa útilokun frá gagnrýnni hugsun? Leitað verður svara við þessum spurningum og öðrum svipuðum í þessu erindi.

Róbert H. Haraldsson, prófessor í heimspeki
Gagnrýnin hugsun og fjölmiðlar

Í fyrirlestrinum verður sett fram tilgáta um hvers konar fréttamennska sé varasömust í ljósi viðmiða um gagnrýna hugsun. Tilgátan verður síðan prófuð með greiningu á fjölda nýlegra dæma úr íslenskum fjölmiðlum. Þessi dæmi, sem flest eru frá árunum 2012 og 2011, vekja óþægilegan grun um að gagn­rýnin á íslenska fjölmiðla í Rannsóknarskýrslu Alþingis (8. bindi) eigi enn við rök að styðjast.

Salvör Nordal, forstöðumaður Siðfræðistofnunar
Sérfræðingar og gagnrýnin umræða

lestrinum mun ég velta fyrir mér hlutverki sérfræðinga og fagþekkingar fyrir gagnrýna þjóðfélagsumræðu. Dæmi verða einkum tekin úr skýrslu rannsóknar­nefndar Alþingis.

Sjá nánar:
http://www.hugvis.hi.is/si%C3%B0fr%C3%A6%C3%B0i_og_gagnr%C3%BDnin_hugsun

Heimspekileg samræða í leik- og grunnskólum Garðabæjar

Heimspeki í leik- og grunnskólum: Fyrstu skrefin

Námskeið á vegum þróunarverkefnis um heimspekikennslu í
Garðabæ

Þróunarhópur um heimspekilega samræðu í Garðabæ og heldur námskeið í Garðaskóla 9.-10. mars. Þar mun sænski heimspekikennarinn Liza Haglund fjalla um hlutverk heimspeki í leik- og grunnskólum og unnin verða verkefni sem henta í kennslu barna og unglinga.

Liza Haglund kennir við Södertörns Högskola í Stokkhólmi og hefur víðtæka reynslu í heimspekikennslu með börnum, unglingum og kennurum. Hún undir­býr nú stofnun skóla í Stokkhólmi þar sem heimspekileg samræða verður í lykilhlutverki í öllu starfi, sjá nánar á www.filosofiska.nu.

Námskeiðið í Garðaskóla hefst á fyrirlestri um heimspeki í skólastarfi og er hann öllum opinn. Á dagskránni er síðan verkefnavinna og samræður þátttak­enda og verður sérstök áhersla lögð á vinnubrögð sem henta vel í kennslu yngri barna.

Tveir leikskólakennarar, Guðbjörg Guðjónsdóttir og Helga María Þórarinsdóttir munu segja frá reynslu sinni af heimspekikennslu í leikskólum. Einnig munu grunnskólakennarar í Garðabæ segja frá reynslu sinni af því að innleiða heim­spekilega samræðu í kennsluna hjá sér.

Tími: Föstudagur 9. mars kl. 1 3-17 og laugardagur 1 0. mars kl. 9-16

Staður: Garðaskóli, Garðabæ

Þátttakendur: Allir sem eru áhugasamir um heimspekikennslu í leik- og grunnskólum eru velkomnir

Skráning: Tekið er á móti skráningum á netfangið: brynhildur@gardaskoli.is.
Skráningargjald er 2000 krónur. Sjá einnig á http://www.klifid.is/index.php?
option=com_zoo&task=item&item_id=98&Itemid=89
.
Leik- og grunnskólakennarar í Garðabæ og félagar í félagi heimspekikennara greiða ekki námskeiðsgjald.

Samstarfsaðilar: Félag heimspekikennara, Sprotasjóður Mennta- og menningar­málaráðuneytis

Tími: föstudagur 9. mars kl. 13-17, laugardagur 10. mars kl. 9-16

Undirbúningsnefnd: Brynhildur Sigurðardóttir, Ingimar Waage, Jóhanna Guðrún Ólafsdóttir og Jóhanna Kristín Guðmundsdóttir

Gestakennari: Liza Haglund, Södertörn Högskola, Stokkhólmi

Dagskrá

Föstudagur 9. mars:

13.00 Gestir á fyrirlestri og námskeiði boðnir velkomnir

13.15 Liza Haglund – opnunarfyrirlestur: Children’s rights to think together – philosophy for children in multiple dimension of education

14.00 Umræður um fyrirlestur Lizu Haglund

14.30 Kaffihlé

15.00 Námskeið Lizu Haglund hefst í stofu 301: The very start- An inquiry that anyone can do

17.00 Samantekt í lok dagsins

Laugardagur 10. mars:

9.00 Námskeið Lizu Haglund heldur áfram: Beyond anecdotes -What to do in order to deepen the discussions

10.30 Kaffihlé

11.00 Málstofa um heimspeki í leik- og grunnskólum (öllum opin):
Liza Haglund
Helga María Þórarinsdóttir (leikskólakennari á Akureyri)
Guðbjörg Guðjónsdóttir (leikskólakennari í Garðabæ og fyrrum leikskólastjóri í Foldaborg)
Kristjana Fjóla Sigursteinsdóttir grunnskólakennari í Garðabæ

12.00 Matarhlé

12.30 Samræða um kynningar Lizu, Helgu Maríu, Guðbjargar og Kristjönu Fjólu

13.30 Námskeið Lizu Haglund heldur áfram: The meaning of meaning- practical work on ambiguous and vague concepts

14.30 Kaffihlé

14.45 Námskeið Lizu Haglund heldur áfram: Inquiry into practicalities – what are our hinders?

16.00 Námskeiðslok

Heimspekileg samræða á öllum skólastigum

Opinn fyrirlestur

Liza Haglund kennari við Södertörns Högskola í Stokkhólmi heldur fyrirlesturinn „Réttur barna og unglinga til að hugsa saman – heimspekileg samræða á öllum sviðum menntunar“ föstudaginn 9. mars kl.13.00. Það er þróunarhópur um heimspekilega samræðu í leik- og grunnskólum Garðabæjar sem stendur fyrir fyrirlestrinum. Hópurinn er styrktur af Sprotasjóði Mennta- og menningarmála­ráðuneytisins og Félagi heimspekikennara.

Liza Haglund hefur víðtæka reynslu í heimspekikennslu með börnum, ungling­um og kennurum. Hún undirbýr nú stofnun skóla í Stokkhólmi þar sem heim­spekileg samræða verður í lykilhlutverki í öllu starfi, sjá nánar á www.filosof­iska.nu. Í kjölfar opna fyrirlestursins mun Liza kenna námskeið sem 30 kennarar í leik-, grunn- og framhaldsskólum taka þátt í helgina 9.-10. mars. Á námskeiðinu fá kennarar þjálfun í heimspekilegri samræðu sem er kennslu­aðferð sem svarar kalli nýrrar menntastefnu í lýðræðislegum vinnubrögðum, læsi í víðum skilningi, sjálfbærni, jafnrétti og sköpun. Heimspekilega samræðu má flétta inn í kennslu allra námsgreina til að dýpka og aga umræðu og hugsun nemenda um þau viðfangsefni sem þeir fást við í skólanum.

Fyrirlesturinn er öllum opinn og fer fram á ensku. Fyrirlestur og umræður í kjölfar hans fara fram í stofu 301 í Garðaskóla Garðabæ kl. 13.00-14.30.

Útdráttur úr fyrirlestri Lizu Haglund:

Eitt af markmiðum heimspekikennslu fyrir börn og unglinga er að efla gagnrýna og skapandi hugsun. Markmiðið byggir á þeirri forsendu að iðkun heim­spekinnar þjálfi hugsunina og læsi í víðum skilningi. Að mati Matthew Lipman frumkvöðuls í heimspeki með börnum er það markmið heimspekinnar að gera reynsluna af skólastarfinu öllu merkingarbærara en ella. Skólinn á að vera merkingarbær en honum hefur ekki tekist það.

Nemendur geta íhugað heimspekilega fjölmarga þætti innan þeirra námsgreina sem þeir stunda í skólum. Í sögukennslu geta nemendur t.d. rökrætt að hvaða marki söguleg greining geti verið hlutlæg. Svipaðra spurninga má spyrja í félags- og náttúruvísindum, t.d. spurninga um að hvaða marki vísindin séu góð fyrir okkur. Heimspeki með börnum og unglingum er þar að auki nýtt sem tæki til að byggja upp skilning og merkingarbæra reynslu nemenda. Ástundun heim­spekilegrar samræðu skapar reynslu þar sem nemandinn skilur sjálfan sig betur og stöðu sína í samfélaginu og þar með hefur heimspekikennsla siðferði­legt hlutverk.

Í fyrirlestrinum verður vísað í dæmi úr rannsóknum á hugtakaþróun og úr nýlegu þróunarverkefni í siðferðismenntun (values education) til að leggja upp umræðu um hvernig ástundun heimspekinnar getur átt sér stað á öllum sviðum menntunar.