Siðadómur um nemendur?


Í lögum um grunnskóla segir að námið eigi að efla borgaravitund, sjálfsvitund og siðgæðisvitund nemenda. Ég hef ekki rekist á neina umræðu um að þessi lagabókstafur sé óraunhæfur. Á tyllidögum halda skólastjórar og skólameistarar ræður þar sem þeir minna á kjarna menntunar sem felst í þroska nemenda og þátttöku þeirra í samfélaginu. Áheyrendur kinka iðulega kolli.

Undanfarið hef ég í fyrirlestrum spurt kennara hvort við eigum ekki að stefna á að útskrifa nemendur í 10. bekk sem þekkja kosti samvinnu, bera traust til eigin skynsemi, eru víðsýnir, skýrir í hugsun og reiðubúnir að breyta eigin skoðunum? „Jú, svo sannarlega!“ er svarið. En nú ber svo við að eftir nokkurra ára starf þar sem reynt hefur verið að skrifa aðalnámskrá grunnskóla sem er ætlað að framfylgja lagabókstafnum og vera svar við menntahugsjónum sem njóta almennrar viðurkenningar þá spretta fram úrtöluraddir.

Ný aðalnámskrá felur hvorki í sér að felldur verði dómur um það hvort nemandi sé hæfur til að vera borgari í lýðræðissamfélagi eða að felldir séu siðadómar um mannkosti viðkomandi. Slík gagnrýni bendir til að skilningur á lykilhugtökum sé takmarkaður. Það hefur engum dottið í hug að draga línu í sandinn um hvaða nemendur teljast óhæfir til að vera þátttakendur í samfélaginu. Og siðadómar eru ekki það sama og mat á því hvort ungt fólk hafi sýnt fram á með úrlausn margvíslegra verkefna að það geri sér grein fyrir afleiðingum gerða sinna.

Þekkingaratriði og leikni

Markmiðið með því að setja inn hæfniviðmið í námskrá, sem svo matsviðmið byggja á, er að reyna að svara spurningunni hvers vegna viðkomandi greinar eru kenndar. Á bak við hvert hæfniviðmið felast þekkingaratriði og leikni sem nemendur verða að tileinka sér. Það er mikill misskilningur að hæfni feli hvorki í sér ákveðið námsefni né tiltekið námsmat. Mat á hæfni einstaklings er ekki bara „huglægt mat“ sem á sér engan grundvöll.

Hugsum okkur til dæmis nemanda sem flytur erindi um virkjanamál í 10. bekk. Í erindinu kemur fram skýr skilningur á því hvernig mismunandi hagsmunir og gildi takast á í málflutningi virkjanasinna og náttúruverndarfólks. Sami nemandi skilar svo ritgerð um málefni Reykjavíkurflugvallar sem fjallar um réttindi og skyldur höfuðborgarbúa. Hann tekur að lokum próf sem sýnir fram á ágætan skilning á hlutverkum helstu stofnana samfélagsins. Hvers vegna er það svo erfitt að gefa honum þá umsögn að hann hafi sýnt fram á hæfni sem nýtist honum sem þátttakanda í lýðræðislegu samfélagi? Liggur það ekki fyrir miðað við framlag hans?

Umræðan undanfarna daga sýnir kannski betur en nokkuð annað þörfina á að við ráðumst í þessar breytingar. Þær gagnrýnisraddir sem hafa verið háværastar undanfarið sýna svo ekki verður um villst hvert vandamálið er. Markmiðið hlýtur að vera að ungt fólk sem lýkur skólagöngu hafi hæfni til að kynna sér mál til hlítar og myndi sér skoðun á réttum forsendum. Engin gögn benda til þess að þær leiðir sem hingað til hefur verið farið eftir skili miklum árangri til að þetta markmið náist.

Greining birtist í Fréttablaðinu og á Vísi.is 31. janúar 2014

Hvað er siðferðilega rétt ákvörðun? – Myndband

Þessi spurning hefur vafist fyrir mannkyninu um aldir. Þótt margir helstu hugsuðir sögunnar hafi glímt við þessa spurningu er erfitt að setja fram skýrt svar við henni. Líklega er hún oftast borin upp þegar fólk vill gagnrýna ákvarðanir annars fólks. En spurningin er engu síður mikilvæg við mat á eigin ákvörðunum. Vandamálið er að við eigum oft erfitt með að horfast í augu við að ábyrgð ákvarðana okkar liggur fyrst og fremst hjá okkur sjálfum.

[jwplayer mediaid=“2216″]

Hægt er að lesa meira um siðferði og siðfræði í svari Henrys Alexanders Henryssonar á Vísindavefnum við spurningunni „Hvað er siðferðilega rétt ákvörðun?

Myndband

Skoðanir, siðferði, samfélag – Enn um gagnrýna hugsun

Henry Alexander HenryssonNýlega birtist í Netlu – veftímariti um uppeldi og menntun grein eftir Henry Alexander Henrysson sem fjallar um skilning okkar á gagnrýninni hugsun. Skortur á gagnrýninni hugsun hefur verið mikið í umræðunni í íslensku samfélagi undanfarin ár. Sú umræða hefur meðal annars náð inn í nýja aðalnámskrá. Skilningur á þessu hugtaki virðist þó ekki hafa aukist í jöfnu hlutfalli við aukna umræðu. Jákvæðri og skapandi hugsun er jafnvel teflt fram sem nauðsynlegu mótvægi við gagnrýna hugsun. Í þessari grein er leitast við að lýsa mismunandi túlkunum á hugtakinu með því að svara þeirri spurningu hvort gagnrýnin hugsun sé ekki einmitt jákvæð, skapandi og uppbyggileg. Í greininni eru rök færð fyrir því að rétt breytni fremur en rökleikni sé raunverulegt markmið með beitingu gagnrýninnar hugsunar. Ennfremur er bent á leiðir til þess að þjálfa nemendur í þessari gerð hugsunar. Þá er útskýrt hvers vegna slík þjálfun hjálpi nemendum að byggja upp eigin skoðanir fremur en að láta þá beita gagnrýninni hugsun til þess að rífa niður skoðanir annarra. Loks er reynt að draga upp mynd af því hvernig gagnrýni á að hvetja okkur til að njóta ábyrgðar okkar sem hugsandi verur.

Greinina má nálgast á eftirfarandi slóð: http://netla.hi.is/skodanir-sidferdi-samfelag-enn-um-gagnryna-hugsun

Hvenær tökum við siðfræði alvarlega?

Umræða um siðfræði hefur ekki verið greininni of hagstæð undanfarin misseri. Annars vegar hefur fréttaflutningur af sérkennilegum bréfaskiptum milli forsætis­ráðherra og forsetaembættisins um hvort embættinu beri að setja sér siðareglur fremur ruglað landsmenn í ríminu en upplýst þá um gildi og möguleika slíkra reglna. Hins vegar hefur erfið og upphrópanakennd umræða um störf siða­nefndar Háskóla Íslands í tilteknu máli gert það að verkum að traust til slíkra nefnda hefur sjaldan verið minna.
   Ég minnist þess ekki að í fyrra málinu hafi verið dregið fram hvað gæti falist í siðareglum fyrir forsetaembættið; í hugum fólks gætu þær falist hvort sem er í reglum um borðhald á Bessastöðum eða nákvæmum lista yfir leyfilega gesti á forsetaskrifstofuna. Og í seinna málinu gleymdist alveg að ræða hvernig siða­nefndir ættu að bera sig að. Í ályktun fjölda háskólakennara mátti til dæmis helst skilja að í nafni frelsis ættu siðanefndir ekkert erindi innan háskóla. Það var óvænt siðferðileg krafa.
   Þetta er einkennilegt þegar höfð er í huga umræðan um aukna áherslu á siðfræði fyrir meginstoðir íslensks samfélags sem hefur verið flaggað á undan­förnum árum. Líklega hefðu slík fréttamál átt að vera kærkomið tækifæri til þess að koma málefnalegri umræðu um siðfræði og kynningu á hlutverki hennar að í fjölmiðlum. Til dæmis hefði mátt greina frá því hvers vegna reglur og almennt siðferði ná ekki alltaf yfir sama svið og siðareglur.
   Heimspekingar hefðu getað svarað því hvers vegna siðfræði er sjálfstæð fræðigrein sem getur komist að gildum niðurstöðum sem þó þurfa ekki alltaf að falla að viðurkenndum trúarsetningum, kunnum hagfræðikenningum eða ný­legum lögfræðiálitum. Helst hefði þó mátt nota tækifærið til þess að kveða niður þá goðsögn að siðfræðilegir dómar séu hreinir smekksdómar sem byggist á einhverju sem kallað er „hreint huglægt mat“.
   Nú er kominn tími til að háskólasamfélagið taki nauðsynlega forystu þegar kemur að því að efla bæði vitund þjóðarinnar og hæfni hennar til að rökræða um þau siðferðismál sem virðast vera brýnni en oft áður. Siðferðileg álitamál eru staðreynd í öllum samfélögum. Þau koma upp á vinnustöðum, í skólum og á öllum sviðum opinbers lífs. Þau vakna einnig innan veggja heimila og þegar við erum ein með sjálfum okkur.
   Siðfræði býður ekki upp á lista af lausnum slíkra álitamála. Siðanefndir færa okkur ekki óvefengjanlegar niðurstöður. Enn síður kenna siðareglur okkur í eitt skipti fyrir öll hvað ber að varast. Hins vegar gerir þekking á frumforsendum og útlistunum siðfræðinnar, sem og leikni í beitingu þeirra, okkur kleift að standa ekki máttvana andspænis siðferðilegum spurningum.
   Það hafa reyndar ekki allir tekið undir kröfuna um að gagnrýninni hugsun og siðfræði verði gert hærra undir höfði í íslensku samfélagi á næstunni. Enn heyrast raddir sem láta eins og aukinn siðferðilegur skilningur sé einhvers konar munaður sem hægt er að snúa sér að þegar leyst hefur verið úr brýnum efnahagsmálum. En þar er hlutum snúið á haus. Vandamálin geta átt sér aðrar orsakir en efnahagslegar þótt tímabundin lausn sé þess eðlis. Enn mikilvægara er þó einmitt að hafa í huga að siðferðilegur veruleiki er jafn mikill veruleiki og hver annar. Hann hverfur ekki þegar við snúum okkur að öðrum málum. Röng og illa ígrunduð breytni skánar ekkert við að aðeins fáir gefi því gaum hvers vegna hún er óásættanleg. Réttindi svífa ekki um í lausu lofti þangað til huglægt mat einhvers dregur þau til jarðar. Og eftirsóknarverðir eiginleikar einstaklinga krefjast ekki smekks annarra til þess að færa þeim farsæld.
   Siðfræði er heillandi fag sem tengist lífi okkar og væntingum engu síður en aðrar greinar sem við teljum þó oft hafa forgang þegar við leitum svara við því hvað fór úrskeiðis og hvert skuli stefna. Líkt og hagfræðin getur útskýrt hvers vegna vasar okkar eru tómir á ákveðnum tímapunkti getur siðfræðin útskýrt eymd tilveru sem einkennist af ósamkvæmni og óheilindum.
   Á vef mennta- og menningarmálaráðuneytisins má lesa í almennum hluta aðalnámskrár grunnskóla að „siðfræði ásamt heimspeki“ verði brátt hluti af skólagöngu íslenskra barna. Það er mikið fagnaðarefni. En maður getur ekki annað en velt því fyrir sér hvort virkilega þurfi að bíða eftir þeim kynslóðum sem nú eru að vaxa úr grasi til þess að vitund um hvers siðfræði er megnug verði almenn og byggist fremur á rökum en útúrsnúningum.

Greinin birtist í Fréttablaðinu, 31. mars 2012.

Siðfræði og gagnrýnin hugsun

Laugardagur 10. mars kl. 13-16.30
Stofa 220 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands

Rannsóknastofa um háskóla, Heimspekistofnun og Siðfræðistofnun hafa í tæpt ár staðið saman að rannsókna- og námsþróunarverkefni um að efla kennslu í gagnrýninni hugsun og siðfræði í skólum. Verkefnið hefur meðal annars haldið málþing, komið á fót vefsíðu og veitt ráðgjöf og forystu við ritun kafla um sam­félagsgreinar í nýrri Aðalnámskrá fyrir grunnskóla. Í þessari málstofu sem skipulögð er í anda verkefnisins ræða sex heimspekingar tengsl siðfræði og gagnrýninnar hugsunar frá margvíslegum sjónarhornum til þess að skýra og greina hvort markmið gagnrýninnar hugsunar sé í senn menntunarlegt, þekkingarfræðilegt og siðfræðilegt markmið. Einnig verður leitast við draga fram mismunandi sjónarhorn á gagnrýna hugsun með það fyrir augum að draga fram raunverulegt hlutverk stofnana, fjölmiðla og menntakerfis þegar kemur að þeim gildum sem mestu skipta fyrir einstaklinga, samfélag og umhverfi.

Fyrirlesarar:

  • Henry Alexander Henrysson, verkefnisstjóri hjá Heimspekistofnun: Hvað felst í því að vera maður? Tilraun um húmanísk fög
  • Páll Skúlason, prófessor í heimspeki: Hverjar eru siðferðilegar forsendur háskóla?
  • Björn Þorsteinsson, nýdoktor við Heimspekistofnun: Andi neikvæðn­innar. Gagnrýnin hugsun í ljósi heimspeki Hegels
  • Eyja Margrét Brynjarsdóttir, nýdoktor við Heimspekistofnun
    Að gagnrýna gagnrýna hugsun
  • Róbert H. Haraldsson, prófessor í heimspeki: Gagnrýnin hugsun og fjöl­miðlar
  • Salvör Nordal, forstöðumaður Siðfræðistofnunar: Sérfræðingar og gagn­rýnin umræða

Málstofustjóri: Jón Ásgeir Kalmansson, doktorsnemi í heimspeki

Útdrættir:

Henry Alexander Henrysson, verkefnisstjóri hjá Heimspekistofnun HÍ
Hvað felst í því að vera maður? Tilraun um húmanísk fög

Fyrir nokkrum misserum síðan rataði umræða inn á síður dagblaða um stöðu hugvísinda og hlutverk gagnrýninnar hugsunar í mismunandi fræðigreinum há­skóla. Menntamálaráðherra hafði tengt þessa gerð hugsunar við heimspeki, listir og „húmanísk“ fög og hópur fræðimanna í raungreinum svarað og minnt á mikilvægi „rökhugsunar raunvísinda“ þegar kemur að því að mynda sér sjálf­stæða og gagnrýna afstöðu. Í erindinu verður gerð tilraun til þess að skýra stöðu gagnrýninnar hugsunar innan hugvísinda. Einnig verður leitast við að draga fram nokkur atriði varðandi tengsl gagnrýninnar hugsunar og siðfræði með það fyrir augum að varpa ljósi á eðli þessara greina. Markmiðið er að svara því hvers konar skilningur sé nauðsynlegur til þess að svara spurningum um hvað felst í því að vera maður.

Páll Skúlason, prófessor í heimspeki
Hverjar eru siðferðilegar forsendur háskóla?

Í erindinu verða skýrð samfélagsleg hlutverk háskóla og fjallað um frumreglur þeirra frá miðöldum til nútíma í ljósi Magna Charta yfirlýsingu evrópskra háskóla árið 1988 í Bologna.

Björn Þorsteinsson, nýdoktor við Heimspekistofnun
Andi neikvæðninnar. Gagnrýnin hugsun í ljósi heimspeki Hegels

Ótvírætt má skilja heimspeki Hegels sem tilraun til að kerfisbinda bókstaflega allt í veruleikanum. Einn þátturinn í kerfinu er engu að síður þess eðlis að hann sættir sig aldrei við það sem við blasir eða hið viðtekna. Þannig er kerfið í senn komið til sögunnar og enn í vændum. Í erindinu verður tekist á við þá þversögn sem í þessu býr og dregnar hliðstæður við þá þrotlausu leit að haldbetri skoðunum og sannindum sem íslenskir heimspekingar hafa kennt við gagnrýna hugsun.

Eyja Margrét Brynjarsdóttir, nýdoktor við Heimspekistofnun
Að gagnrýna gagnrýna hugsun

Á undanförnum árum hefur gjarnan verið talað um mikilvægi þess að sem flestir leggi stund á gagnrýna hugsun og ekki síður að gagnrýnin hugsun sé kennd á hinum ýmsu stigum skólakerfisins. En liggur þá fyrir hvað það er sem er átt við með gagnrýnni hugsun? Snýst færni í gagnrýninni hugsun bara um að kunna grundvallaratriði í rökfræði og þekkja helstu rökvillurnar? Er hægt að nota eitthvað sem kallað er gagnrýnin hugsun til að þagga niður sjónarmið sem fela í sér mikilvæga gagnrýni, og ef svo er, getur það réttilega kallast gagnrýnin hugsun? Eru einhverjir þjóðfélagshópar sem upplifa útilokun frá gagnrýnni hugsun? Leitað verður svara við þessum spurningum og öðrum svipuðum í þessu erindi.

Róbert H. Haraldsson, prófessor í heimspeki
Gagnrýnin hugsun og fjölmiðlar

Í fyrirlestrinum verður sett fram tilgáta um hvers konar fréttamennska sé varasömust í ljósi viðmiða um gagnrýna hugsun. Tilgátan verður síðan prófuð með greiningu á fjölda nýlegra dæma úr íslenskum fjölmiðlum. Þessi dæmi, sem flest eru frá árunum 2012 og 2011, vekja óþægilegan grun um að gagn­rýnin á íslenska fjölmiðla í Rannsóknarskýrslu Alþingis (8. bindi) eigi enn við rök að styðjast.

Salvör Nordal, forstöðumaður Siðfræðistofnunar
Sérfræðingar og gagnrýnin umræða

lestrinum mun ég velta fyrir mér hlutverki sérfræðinga og fagþekkingar fyrir gagnrýna þjóðfélagsumræðu. Dæmi verða einkum tekin úr skýrslu rannsóknar­nefndar Alþingis.

Sjá nánar:
http://www.hugvis.hi.is/si%C3%B0fr%C3%A6%C3%B0i_og_gagnr%C3%BDnin_hugsun

Að vera athugull á allar hliðar máls: Gagnrýnin hugsun og siðfræði

Verðmæti hugsana líður örlítið fyrir það að framboðið virðist fullnægja eftirspurn­inni. Það eina sem er ódýrara er tal sem bendir einmitt til þess að framboðið á því fari fram úr þeirri hugsun sem á sér stað í heiminum. Raunar eigum við örlítið bágt með að tala um hugsun. Sem er undarlegt þar sem hún kemur fyrir flest okkar. Stundum oft á dag. Fólk grípur gjarnan til þess ráðs að leika Hugsuð Rodins til þess að útskýra hugsun, eins og það að styðja hönd undir kinn sé nauðsynlegur hluti hugarstarfs. Ein ástæða þess að fáir vilja ræða um hugsun sem slíka er að okkur grunar að hún sé flókið fyrirbæri. Skýringarinnar er líklega að leita í því að hugsunin er stigskipt. Öll þekkjum við dæmi um einhvers konar lágmarkshugsun. Það er óþarfi að móðga einhvern með því að nefna þessi dæmi hér. En svo virðist einnig vera til hugarstarf sem er næstum því annars eðlis. Vönduð hugsun getur gerbreytt sýn okkar á heiminn. Stundum rekst maður á fólk sem telur sig hafa allt sitt á hreinu þar sem það fylgist svo vel með. Það hlustar eftir öllum þeim tilboðum sem lífið hefur uppá að bjóða. Og er fyrst af stað. Þetta fólk telur að þær leiðbeiningar sem það hefur heyrt út undan sér dugi til að mynda sér farsæla afstöðu; vangaveltur leiði til glataðra tækifæra. En veruleikinn hefur því miður tilhneigingu til þess að hlífa okkur ekki við því að hugsa mál til enda. Um það vitna fjölmörg myndbönd á YouTube.

Það kallast gagnrýnin hugsun að fallast ekki á neina skoðun, hvaðan sem hún kemur, nema maður rannsaki hvað í henni fellst og geti fundið fullnægjandi rök fyrir henni. Gagnrýnin hugsun er að beita skilningsgáfunni á sjálfa sig. Hún hjálpar okkur að setja kerfisbundið fram vandamál sem við gerum okkur einungis lauslega grein fyrir. Með því að beita gagnrýninni hugsun áttum við okkur á hvaða upplýsingar skipta máli fyrir lausn vandamálsins. Hugsun okkar verður virk þegar við túlkum upplýsingarnar með opnum huga og metum afleiðingar mismunandi túlkunarleiða. Gagnrýnin hugsun er bæði athöfn og leiðarvísir fyrir skoðanir okkar og gerðir.

Gagnrýnin hugsun er þannig takmark allrar menntunar. Aðgangur að upplýsing­um er fyrir löngu orðinn ótakmarkaður í öllu skólastarfi. Nú er mikilvægara en nokkru sinni að kenna hvernig á að fara með upplýsingarnar. Hver sá sem leggur stund á fræði- eða iðngrein hlýtur að hafa það takmark að ná því valdi á greininni og beitingu hennar að hann geti sjálfur lagt eigið mat á fullyrðingar og skoðanir sem henni tengjast. Ennfremur hlýtur markmiðið að vera að temja sér gagnrýna hugsun sem lífsviðhorf og stefna að þátttöku í samfélagsumræðunni. Réttnefnd gagnrýnin hugsun er ekki einungis getan til að taka við upplýsingum og greina þær. Hún er vani sem maður þarf að temja sér.

Enn eru þó margar spurningar opnar um gildi og gerð gagnrýninnar hugsunar. Orðabókaskilgreiningar á sögninni að gagnrýna draga aðeins fram neikvæða athöfn, þ.e. að finna að eða að setja út á. Sem betur fer er lýsingarorðið „gagnrýninn“ jákvæðara að mati orðabókarhöfunda og er talið lýsa einhverjum sem er athugull á allar hliðar máls. Hvað nákvæmlega felst í því að „skoða allar hliðar máls“ er engu að síður nokkuð á reiki. Tengsl skapandi hugsunar við gagnrýna hugsun eru til dæmis eilíft rannsóknarefni. Margir fræðimenn vilja ekki gefa eftir það eðli gagnrýni að brjóta niður hið viðtekna. Þeir kalla eftir róttækum viðhorfsbreytingum þegar gagnrýnin hugsun er annars vegar. Og enn aðrir eru þeirrar skoðunar að það að skoða allar hliðar máls beri að taka bókstaflega; hugsun sé ekki gagnrýnin fyrr en öll starfsemi vitundarinnar sé lögð undir. Innsæi og ímyndunarafl skipti því jafn miklu máli og beiting rökhugsunar.

Ákallið um að vegur gagnrýninnar hugsunar verði að aukast í skólakerfinu varð nokkuð hávært eftir þær hremmingar sem áttu sér stað í íslensku samfélagi árið 2008. Skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis varpaði skýru ljósi á hvernig veruleikinn á það til að koma í bakið á þeim sem ekki hafa tamið sér að hugsa um mál á gagnrýninn hátt. Það er þó erfitt að koma auga á hvernig eigi að svara kröfu um að Íslendingar verði gagnrýnni í hugsun þegar menntakerfið byggist ekki, og hefur aldrei gert, á því að efla hæfni nemenda í að hugsa um veruleika sinn. Gagnrýnin hugsun á sér rætur í heimspeki. Þó að gagnrýnin hugsun sé í raun sú hugsun sem allar fræðigreinar og menntir vinna eftir er það heimspekin sem best getur svarað því kalli að leiða starf til þess að efla kennslu gagnrýninnar hugsunar.

Krafan um að staðhæfa ekkert nema hafa einhvers konar haldbær rök fyrir því er ekki einungis vísindaleg krafa. Krafan er einnig siðferðileg. Ákveðnar hugsanareglur og æfingar geta auðvitað hjálpað okkur við að láta ekki blekkjast. Þjálfun í gagnrýninni hugsun gerir okkur hæfari í að takast á við verkefni sem reyna á rökhugsun og beitingu tungumáls. En mikilli hæfni fylgja einnig freist­ingar. Það er stutt skrefið frá rökræðu yfir í kappræðu; frá því að láta ekki blekkjast og til að freistast til þess að leika sér með trúgirni annarra. Siðfræðin hjálpar okkur til að þjálfa dómgreind okkar og hún hvetur okkur til þess að axla ábyrgð. Þekkingu og rökhæfni á ekki að beita af skeytingarleysi – það skiptir máli í hvað hugsun okkar er notuð.

Verkefni næstu missera er nákvæmari greining á tengslum gagnrýninnar hugsunar og siðfræði. Vissulega er, eins og áður sagði, siðferðileg afstaða að staðhæfa ekkert um menn eða málefni nema hafa fyrir því einhver rök. Og gagnrýnin hugsun liggur að baki raunverulegri hæfni okkar til að beita þekkingu á meðan siðfræðin hjálpar okkur að svara því hvar hæfnin á við. Og enn frekar blasir við að svör fást ekki við siðferðilegum álitamálum nema með yfirvegaðri rökræðu. Ekki er þó ljóst að þetta séu endanleg svör. Hver veit nema tengsl gagnrýninnar hugsunar og siðfræði byggist síður á mati á réttmæti skoðana og skýrleika hugsunar og því meira á því hvort við temjum okkur að hugsa á þolinmóðan hátt, þar sem nákvæmni í meðferð hugtaka, heiðarleiki og sam­kvæmni eru höfð í hávegum. Raunveruleg gagnrýnin hugsun gæti því mögulega byggt á því að við viðurkennum hvar sönnunarbyrði liggur, gerum ekki öðrum upp skoðanir, spilum ekki með tilfinningar viðmælenda og sýnum hugrekki þegar við myndum okkur skoðun fremur en að hugsunin nái stöðlum hagnýtrar rökfræði.

Rannsóknarstofa um háskóla, Heimspekistofnun og Siðfræðistofnun, ásamt Félagi heimspekikennara, héldu málþing í Háskóla Íslands þann 1. október síðastliðinn þar sem reynt var að svara því hvernig beri að kenna gagnrýna hugsun og siðfræði á öllum skólastigum. Um leið var opnaður vefur helgaður gagnrýninni hugsun ætlaður öllu áhugafólki um menntun. Heimspekivefurinn birti einnig sígilda grein Páls Skúlasonar „Er hægt að kenna gagnrýna hugsun?“ Á næstu misserum er svo fyrirhugað að bjóða upp á fyrirlestra um gagnrýna hugsun og tengsl hennar við fjölmörg svið mennta og menningar. Einnig er ætlunin að gefa út fjölda aðgengilegra rita um gagnrýna hugsun og siðfræði. Í hugsun okkar er þegar öllu er á botninn hvolft líklega falin þau mestu verðmæti sem við eigum í okkar fórum. Kröfunni um að auka veg gagnrýninnar hugsunar í íslensku þjóðlífi verður vart svarað öðruvísi en með því að sem flestir þeirra sem að menntamálum þjóðarinnar koma taki höndum saman og gefi sér tíma til þess að svara því hvort ungt fólk sem gengur út í lífið eigi að geta hugsað á yfirvegaðan hátt um veruleika sinn og samfélag.

Styttri útgáfa þessarar greinar birtist í Fréttablaðinu, 8. október 2011.