Vegur heimspeki í skólum verði meiri

Í kjölfar efnahagshrunsins var skortur á kennslu í gagnrýninni hugsun og sið­fræði gagnrýndur. Heimspekingar við Háskóla Íslands ákváðu að bregðast við og afraksturinn er Efling kennslu í gagnrýninni hugsun og siðfræði sem hefst í dag með opnu málþingi í Háskóla Íslands.

„Páll Skúlason er upphafsmaður átaksins en Rannsóknarstofa um háskóla sem hann stýrir, Heimspekistofnun og Siðfræðistofnun ákváðu að taka höndum saman um að bregðast við þeirri umræðu sem kviknaði í kjölfar efnahags­hrunsins um að kennslu í gagnrýninni hugsun í skólum væri ábótavant,“ segir Henry Alexander Henrysson, heimspekingur og verkefnastjóri verkefnisins Efling kennslu í gagnrýninni hugsun og siðfræði. „Við byrjuðum á því að skoða hvað er kennt í grunnskólum og framhaldsskólum og komumst að því í stuttu máli að það er einhver heimspekikennsla á öllum skólastigum en það er okkar skoðun að auka þurfi kennslu í greininni í skólum.“

Henry segir að fyrir utan að kenna heimspeki sé ekki síður mikilvægt að heim­speki sé fléttuð inn í aðrar námsgreinar. „Það er mikilvægt að kennarar þori að fara í samræður við nemendur um grundvöll og tilgang greinar sinnar, og hvetji þar með nemendur til gagnrýninnar hugsunar. Eins og staðan er í dag eru fæstir nemendur sem hefja nám í háskóla góðir í að beita gagnrýninni hugsun.“

Efni sem nýtist við kennslu í gagnrýninni hugsun og siðfræði verður sett inn á vefinn gagnryninhugsun.hi.is sem verður opnaður formlega í dag. Á næstu tveimur árum er einnig markmið að efna til fyrirlestraraða og málþinga og vinna að gerð kennslu bóka bæði fyrir nemendur og kennara. Verkefnið er fjármagnað af stofnunum þremur auk þess sem leitað verður styrkja við einstök verkefni. „Við vonumst til að undirtektirnar verði góðar,“ segir Henry að lokum.

Greinin birtist í Fréttablaðinu, 1. október 2011.